Djúpivogur
A A

Leikskóli

Ný heimasíða

Leikskólinn Bjarkatún hefur tekið í notkun nýja heimasíðu 

 

www.bjarkatun.leikskolinn.is

12.12.2017

Leikskólinn Bjarkatún: Kennari / leiðbeinandi óskast

Kennari / leiðbeinandi óskast í leikskólann Bjarkatún í 100% starf annars vegar og í 50% starf eftir hádegi hins vegar.

Umsóknarfrestur er til 18. desember 2017 en æskilegt er að starfsmaðurinn geti hafið störf 2. janúar 2018.

Laun eru skv. kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags við launanefnd sveitarfélaga.

Allar nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri í síma 470-8720. Umsóknir sendist á netfangið bjarkatun@djupivogur.is eða sendist á skrifstofu leikskólastjóra að Hammersminni 15B, 765 Djúpivogur.

Guðrún S Sigurðardóttir
leikskólastjóri

Laus vistunarpláss í janúar 2018

Laus eru 2 vistunarpláss í leikskólanum Bjarkatúni í janúar 2018. Vinsamlegast sækið um fyrir 1. desember 2017. Umsóknir sem þegar eru komnar eru í gildi.

Inntökureglur eru á heimasíðu leikskólans undir Um Bjarkatún, skráningar og innritunarreglur.

Nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri í s: 470-8720 eða á bjarkatun@djupivogur.is Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu leikskólans einnig er hægt að sækja um hjá leikskólastjóra að Hammersminni 15 en öllum umsóknum skal skila þangað.

Guðrún S. Sigurðardóttir
Leikskólastjóri

Úr heimabyggð

Eitt af því sem Cittaslow hugmyndafræðin leggur upp með er að nýta sem best fæði úr heimabyggð.  Gera því hátt undir höfði og vera stolt af því sem við framleiðum og búum til sjálf.  Djúpavogsskóli er að innleiða Cittaslow hugmyndafræði í skólanna og höfum við í leikskólanum reynt eftir fremsta megni að bjóða börnunum upp á mat úr heimabyggð.  Það tóskst svona líka heldur betur vel einn hádegismatartíma þegar allt sem börnin fengu kom úr sveitarfélaginu nema kannski smjörið á rúgbrauðið þó við getum ekki sagt það fullri vissu því jú við framleiðum mjólk í Djúpavogshreppi þó fullvinnsla hennar fari framm annarsstaðar. 

Glænýjar kartöflur og gulrætur

Það gerist varla betra en þetta

En hér má sem sagt sjá glænýja ýsu veidda af bátum frá Djúpavogi, unna í Búlandstindi, þá eru það kartöflur og gulrætur sem koma frá Karlsstöðum og síðan nýbakað rúgbrauð sem Bergþóra bakaði fyrir okkur. 

 

ÞS

Breytt hópastarf

Við urðum aðeins að laga til hópastarfið inn á Kríudeild en svona er nýja fyrirkomulagið

 

Hópastarf Kríudeildar

 

06.10.2017

Hópastarfið byrjar á mánudaginn

Við byrjum hópastarfið á mánudaginn en hægt er að sjá skipulag deildanna hér

 

Starfið á Krummadeild (Yngri börnin)

Starfið á Kríudeild (Eldri börnin)

Skipting hópa

15.09.2017

Staðan á Cittaslow verkefninu í Djúpavogsskóla

Nú er ár liðið frá því að nemendur og starfsfólk í Djúpavogsskóla tóku það gæfuspor að ákveða að innleiða hugmyndafræði Cittaslow í skólana. Töluverð undirbúningsvinna hafði farið fram áður en þetta var ákveðið og höfðu viðræðu- og spjallfundir verið haldnir haustið 2015. Það var hins vegar í byrjun árs 2016 sem allt var sett á fullt og sótt var um tvo styrki til að aðstoða okkur við innleiðinguna. Annars vegar hjá Sprotasjóði, Kennarasambands Íslands og hins vegar frá Erasmus+ sem er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins, en Rannís á Íslandi sér um utanumhaldið hér á landi.

Okkur til mikillar ánægju fengum við báða styrkina sl. vor, 2,1 milljón frá Sprotasjóði og um 4,5 milljón frá Erasmus+. Frá hausti 2016 höfum við verið að máta okkur inn í verkefnið, þróa leiðir til að halda utan um innleiðinguna og vinna markvisst að því að máta okkur inn í hæglætishreyfinguna Cittaslow – sem stendur þó alls ekki fyrir að gera allt hægt. Það er eitt af því sem við erum búin að komast að í vetur.

Segja má að þrjú hugtök nái að langstærstum hluta utanum þessa hugmynd. Orðin þrjú eru: Sérstaða, fjölbreytni og virðing. Og þessi þrjú hugtök eiga að vera rauði þráðurinn í öllu skólastarfinu, það er stóra markmiðið og ljóst er að það mun taka okkur nokkur ár að festa innleiðinguna í sessi.

Í vetur höfum við áfram unnið að því að flokka, huga að matarsóun og annað slíkt. Við höfum breytt dagskipulagi í grunnskólanum, t.d settum við á sérstakan nestistíma að morgni til þess að nemendur gætu notið þess að borða nestið sitt í rólegheitunum. Einnig færðum við hádegisverðinn fram um hálftíma til að koma til móts við svanga nemendur. Að sama skapi var ákveðið að hafa útiveru í hádeginu sem varð til þess að unglingarnar okkar sátu saman allt hádegið og spjölluðu saman um heima og geima yfir matnum og yngri nemendur nutu þess að vera úti í leikjum.

Styrkirnir tveir sem við fengum voru hugsaðir til tveggja mismunandi verkefna, Sprotasjóðsstyrkurinn var hugsaður til að vinna að verkefninu inná við, fá sérfræðinga í heimsókn og til að greiða hluta kostnaðar við gerð heimildamyndar. Erasmus+ styrkurinn var hugsaður til að koma á samskiptum við skóla á Ítalíu. Nú ári síðar þá er ljóst að þessi markmið náðust bæði mjög vel.

Sex starfsmenn úr grunn- og leikskólanum fóru til Orvieto á Ítalíu í janúar 2017. Þar var lagður grunnur að áframhaldandi samstarfi og verkefnið kortlagt. Í maí 2017 fóru síðan 12 unglingar úr 8.-10. bekk í skólaheimsókn, ásamt þremur fylgdarmönnum. Nemendur dvöldust í fimm daga í Orvieto við leik og störf og kynntust þar fullt af nýju fólki og ekki síst nýrri menningu. Ferðalangarnir fengu heimboð til ítalskra fjölskyldna þar sem þeir snæddu ítalskan heimilismat og kynntust heimilishaldi þar. Komu þeir heim með frábærar minningar og eru spenntir að launa þeim greiðann þegar nemendur frá Ítalíu koma að heimsækja okkur vorið 2018.

Hvað framhaldið varðar þá er gleðilegt að segja frá því að við sóttum aftur um í Sprotasjóðinn og fengum 1.6 milljónir í styrk fyrir næsta skólaár. Erasmus+ styrkurinn var til tveggja ára þannig að verkefnið hefur samtals fengið um 8 milljónir. Í september munu sex kennarar frá Orvieto heimsækja Djúpavog og verður gaman að geta sýnt þeim þorpið okkar, skólana og næsta nágrenni, auk þess sem við munum að sjálfsögðu halda áfram að þróa verkefnið áfram.

Við erum búin að komast að því að innleiðing á hugmyndafræði Cittaslow er langhlaup. Við héldum fyrst að við gætum tikkað í box og sagt svo eftir tvö ár að við værum búin og gætum þá farið að snúa okkur að einhverju öðru. Það er alls ekki þannig því við ætlum að verða Cittaslow, við ætlum að hlúa að sérstöðu okkar sem skóla og samfélags, við ætlum að fagna fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum og við ætlum að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og eins og okkur er frekast unnt. Þannig aukum við lífsgæði okkar og annarra og þannig náum við hæglætinu sem felst í því að lifa og njóta.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,
skólastjóri Djúpavogsskóla

Með þessari frétt er mynd af hugarkorti sem nemendur á Kríudeild í leikskólanum unnu með deildarstjóranum sínum í vetur. Eins og þið sjáið eru þrír litir á kortinu. Fyrsta skipti sem nemendur skrifuðu inná það er með rauðum lit. Það sem er svart kemur næst og það skráðu nemendur eftir að hafa hitt Pál Líndal. Þriðja skráningin er síðan með bláum lit

Fréttir af leikskólastarfinu

Við héldum upp á öskudaginn í byrjun mars með því að halda öskudagssprell og slógum köttinn úr tunnunni. 

Myndir af því eru hér

 

Vissu þið að Einar Mikael töframaður kom í leikskólann og sýndi börnunum í leikskólanum og 1. bekk grunnskólans nokkur töfrabrögð.  Hann vakti mikla lukku og voru krakkarnir dugleg að aðstoða hann við töfrabrögðin.

 

Myndir af því eru hér

Krakkarnir á Kríudeild fóru á fund í Geysi til að fræðast um Cittaslow og má sjá myndir af þeim fundi hér

Síðan fóru elstu nemendur leikskólans reglulega upp í grunnskóla enda byrja þau í 1. bekk næsta haust.  Þau fóru í byrjendalæsistíma, íþróttir, danskennslu og sund auk þess sem þau kíktu í smíðastofuna og tóku þátt í frímínútum.  Þau enduðu svo skólaárið á því að vera síðustu tvær vikurnar í grunnskólanum milli kl. 8:00-12:00.  Þau eru því orðin nokkuð heimavön grunnskólanum þegar þau mæta næsta haust. 

Myndir úr danskennslu eru hér

Myndir úr grunnskólaheimsóknum eru hér

 

ÞS

16.06.2017

Skóladagatalið

Skóladagatal leikskólans fyrir skólaárið 2017-2018 má finna hér til hliðar.  Endilega kynnið ykkur dagatalið vel fyrir næsta skólaár. 

 

Leikskóladagatal 2017-2018

 

ÞS

16.06.2017

Skipulag leikskólastarfs í Bjarkatúni

Skipulag leikskólastarfs í leikskólanum Bjarkatúni, Djúpavogsskóla fyrir skólaárið 2017-2018 fer fram í maí.

Mikilvægt er að umsóknir um leikskólapláss hafi borist í síðasta lagi 1. maí næstkomandi fyrir næsta skólaár.

Inntökureglur eru á heimasíðu leikskólans undir Um Bjarkatún, skráningar og innritunarreglur

Nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri í s: 470-8720 eða á bjarkatun@djupivogur.is Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu leikskólans einnig er hægt að sækja um hjá leikskólastjóra að Hammersminni 15.

Guðrún S. Sigurðardóttir
Leikskólastjóri

Kynningarfundur um innleiðingu Cittaslow í Djúpavogsskóla

Kæru íbúar Djúpavogshrepps
Miðvikudaginn 1. mars verður kynning á innleiðingu Cittaslow í Djúpavogsskóla. Hún verður í grunnskólanum frá 17:00 - 18:00. Alilr eru hjartanlega velkomnir. 
Klukkan 18:00 verður fundur með foreldrum barna í 8.-10. bekk til að ræða fyrirhugað skólaferðalag til Ítalíu í maí.
 
Dear inhabitants in Djúpivogur
On Wednesday the 1st of March there will be introduction on the implementation of the Cittaslow ideology in Djúpavogsskóli. It will take place in grunnskóli from 17:00 - 18:00. Everyone is welcome.
From 18:00 - 19:00 there will be a meeting with the parents of the children in the 8th - 10th class to discuss there visit to Italy in May.
 
Bestu kveðjur,
Halldóra Dröfn, skólastjóri

Danssýning í dag

Í dag klukkan 15:00 verður danssýning 0.-10. bekkjar í íþróttamiðstöðinni.  Nemendur hafa verið að æfa sig alla vikuna undir stjórn Guðrúnar Smáradóttur frá Neskaupstað og í dag fáum við að njóta þess að sjá hvað þau eru orðin flink.

Aðgangur er ókeypis og hvet ég alla sem komast til að kíkja á okkur í dag.  Lofa frábærri skemmtun :)

Skólastjóri Djúpavogsskóla

Bóndadagur 2017

Bóndadagurinn í dag og voru pabbar, afar, bræður,  og frændur boðnir í morgunkaffi í leikskólanum.  Eldri börnin gerðu boðskort og fóru með heim.  Í morgun var notaleg stund þegar pabbar, afar, frændur og vinir kíktu við og fengu sér kaffi og nokkrir fengu sér hafragraut með barninu sínu. 

Eftir að gestirnir héldu til sinna starfa var aðeins farið að leika áður en ballið byrjaði.  Á þorrablótum er alltaf dansað og varð hókí pókí og fleiri dansar fyrir valinu. 

Eftir ballið var aftur farið að leika sér í smá stund fyrir hádegismatinn.  En auðvitað var boðið upp á hefðbundin íslenskan þorramat og voru börnin dugleg að smakka framandi matinn þó flestir hafi borðað best af hangikjötinu og harðfisknum.  Þess má geta að við fengum rófur í rófustöppuna frá Lindarbrekku, síldin var frá Ósnes og rúgbrauðið var bakað í leikskólanum enda var þetta alveg einstaklega bragðgott. 

Morgunkaffi í leikskólanum

Strákahópurinn að dansa

Girnilegur þorramatur

Fleiri myndir af bóndadegi hér

Fleiri myndir af þorrablóti hér

ÞS

 

Desemberdagar í Bjarkatúni

Hefðbundið vetrarstarf fór í jólafrí í byrjun desember.  Það var samt ekki setið auðum höndum í desember heldur hafa krakkarnir brallað ýmsilegt.  Við fórum til dæmis alla miðvikudaga í vöfflukaffi í Tryggvabúð með hóp af báðum deildum.  Þetta tókst vel og vakti lukku meðal barnanna.  Sjá myndir frá vöfflukaffinu hér.   

Í vöfflukaffi

Þá voru bakaðar piparkökur og boðið í piparkökukaffi.  Börnin bökuðu og skreyttu sínar eigin piparkökur sem þau síðan buðu gestum sínum.  Myndir af piparkökubakstri eru hér og úr piparkökukaffinu hér

Úr piparkökubakstrinum

Þá bjuggu börnin til jólaskraut sem þau fóru með heim til að setja upp um jólin.  Það var leikið sér og farið í val á hverjum degi en þá ákveður þjónn dagsins hvað eigi að leika með þann daginn og börnin velja sér síðan hvert þau vilja fara eftir því hvað er í boði.  Þau mega síðan skipta um svæði og fara að leika með eitthvað annað.  Sjá má myndir frá því hér.

Jólastjarnan máluð

Jólatréð málað

Við héldum líka lítið jólaball og sáu elstu nemendur leikskólans um að skreyta tréð.  Sjá myndir af skreytingunni hér.  Dansað var í kringum jólatréð og eins og venja er á jólaböllum þá kom jólasveinn í heimsókn.  Nokkur börn voru mjög hrædd við þennan skrítna mann í rauðum fötum og með mikið skegg.  Þau héldu sig því til hlés á meðan kallinn dansaði í kringum jólatréð.  En hann var ótrúlega fyndinn og skemmtilegur þannig að þegar kom að því að gefa krökkunum pakka þá voru öll börnin búin að ná hræðslunni úr sér og tóku glöð við pakka frá jólasveininum.  Myndir af jólaballinu eru hér

Dansað í kringum jólatréð

Þegar nær dró jólum fengum snjó sem var heldur betur ánægjulegt og fengu börnin að kíkja aðeins út á pall til að athuga hvort snjórinn hafi eitthvað breyst eftir sumarfríið.  Það var ekki en þeim fannst rosalega gaman að hlaupa um á pallinum.  Loksins kom snjór-myndir hér.

Hlaupið í snjónum

Síðasti opnunardagur leikskólans þetta árið er þorláksmessa og voru nokkur börn sem nýttu sér það að koma í leikskólann. 

Róleg stund á þorláksmessu. 

 

Við óskum ykkur gleðilegra jóla

ÞS

 

 

 

Leikskólakennari

Leikskólinn Bjarkatún auglýsir eftir leikskólakennara til starfa. Starfið er laust frá 1. janúar 2017. Nánari upplýsingar gefur leikskólastjóri í síma 470-8720 og gudrun@djupivogur.is.

Generalprufa árshátíðar 2016

Djúpavogsskóli setti upp leikritið Dýrin í Hálsaskógi.  Tjaldahópi (elstu börn leikskólans) var boðið á generalprufuna og höfðu börnin þetta að segja um sýninguna:

  • Rosalega skemmtilegt leikrit
  • Fyndnast var þegar Bangsapabbi öskraði á Mikka ref af því hann hafði borðað svínslæri
  • Lilli klifurmús var svo sniðugur að klifra upp í tréð
  • Húsamýsnar voru lang skemmtilegastar
  • Það var fyndið þegar bangsastrákarnir fóru í baðið
  • Síðan voru auðvitað systkinin langflottust en líka allar frænkurnar og frændurnir í leikritinu

 

Myndirnar sem hér birtast eru teknar af nemendum Tjaldahóps

 

Árshátíð grunnskólans 2016

Minni á árshátíð grunnskólans á morgun, föstudaginn 4. nóvember.  Auglýsingin er hér.

Við litum eldsnöggt við á æfingu í dag og eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þá verður þetta ekkert smá flott!

Skólastjóri

 

 

 

 

 

 

 

Vetri fagnað 2016

Í leikskólanum fögnum við alltaf því að veturinn sé að koma.  Það gerðum við á föstudeginum fyrir fyrsta vetrardag sem var á laugardegi.  Við héldum diskótek og buðum 4. og 5. bekk grunnskólans til að fagna þessu með okkur.  Allir fengu svo köku eftir diskóið.  Allir skemmtu sér vel og voru óskalögin mörg og dansstílarnir fjölbreyttir. 


Fleiri myndir hér

ÞS

Bleikur dagur í leikskólanum

Við héldum bleikan dag þann 14. október sl. í leikskólanum þar sem allir nemendurnir og starfsfólk mætti í einhverju bleiku, mismiklu þó.  Við hittumst svo í salnum og lékum okkur og dönsuðum með bleikar blöðrur. 

Fleiri myndir hér

ÞS

28.10.2016

Kvennafrí í dag kl. 14:38 - tilkynning frá Djúpavogsskóla

Vegna kjarabaráttu kvenna munu konur í Djúpavogsskóla leggja niður störf kl. 14:38 í dag, mánudaginn 24. október.

Af því tilefni biðjum við forráðamenn að gera ráðstafanir og sjá til þess að búið verði að sækja börnin í grunn- og leikskóla fyrir þann tíma.

Sjá nánar um kvennafrídaginn hér.

Skólastjórar Djúpavogsskóla.

 

 

Skólastarf Bjarkatúns

Hægt er að sjá skólastarf Kríudeildar með því að smella á myndina og síðan er hægt að prenta hana út og hengja í ísskápinn.  Hóparnir eru aldurshreinir og er einum hópi (2013) skipt í tvennt í ákveðnu starfi.  

ÞS

20.10.2016

Laust starf í Tryggvabúð

Djúpavogshreppur auglýsir 50 % starf í Tryggvabúð frá 1. október. Um er að ræða framtíðarstarf í félagsmiðstöð eldri borgara. 
Félagsmiðstöð eldri borgara í Tryggvabúð er staðsett að Markarlandi 2, Djúpavogi og er opin öllum þeim sem þangað vilja koma. 
Þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf auk dagþjónustu fyrir eldri borgara

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið starfsmanns 
• Umsjón með félagsstarfi í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara í Djúpavogshreppi, félags- og tómstundanefnd og sveitarstjóra
• Matseld í hádegi, morgun- og síðdegiskaffi, þrif
• Viðkomandi veitir einstaklingum persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu

Við leitum að einstaklingi með
• þekkingu og reynslu af því að starfa með fólki
• skipulagshæfileika
• lipurð í mannlegum samskiptum
• hæfni til að sýna frumkvæði í starfi
• íslenskukunnáttu

Launakjör eru skv. kjarasamningi sveitarfélaga við viðkomandi félög.

Umsóknir skulu berast á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1, 765 Djúpavogi, fyrir 29. september n.k. 

Umsóknareyðublöð má nálgast með því að smella hér.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður í s. 843-9889 og á netfanginu sveitarstjori@djupivogur.is

Sveitarstjóri

Þroskaþjálfi í Djúpavogsskóla

Djúpavogsskóli auglýsir eftir þroskaþjálfa í 100% starf, sem kemur til með að vinna með fötluðum nemendum skólans í nánu samstarfi við umsjónarkennara. 

Djúpavogsskóli er lítill en vaxandi skóli.  Kennsla fer fram á þremur starfsstöðvum, grunnskóla með um 70 nemendur, leikskóla með tæplega 40 nemendur og tónskóla.  Mikið og gott samstarf er á milli allra skólastiga. Einnig er mjög gott samstarf við Umf. Neista en yfir 90% nemenda grunnskólans stunda æfingar hjá ungmennafélaginu og taka þær við strax að loknu skólastarfinu. 

Í Djúpavogsskóla er lögð mikil áhersla á umhverfismennt og átthagafræði og stendur nú yfir innleiðing á því að gera Djúpavogsskóla að Cittaslow skóla en Djúpavogshreppur varð aðili að Cittaslow hreyfingunni árið 2013. Djúpavogsskóli er Grænfánaskóli. 

Skólastjóri, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir veitir nánari upplýsingar áskolastjori@djupivogur.is eða í síma 470-8713.

Listsýning í Hálsaskógi

Skógarverkefnin eru nú komin upp en börnin á leikskólanum Bjarkatúni eru með listasýninguna “Skreytum skóginn” í Hálsaskógi, Skógrækt Djúpavogs. Þetta er 15 árið sem sett er upp sýning á vegum leikskólans í skóginum.

Listaverkin eru unnin úr fjölbreyttum efnivið, bæði endurvinnanlegum sem og náttúrulegu efni úr skóginum í anda Cittaslow.  Sniglar, fiðrildi og fuglar skíða og hanga um skóginn og hvetjum við alla að fara og skoða sýninguna sem stendur til 30. september.

Hér má skoða lítinn hluta af listaverkunum.

Guðrún leikskólastjóri

Kvenfélagið Vaka gefur gjöf

Á vordögum gaf Kvenfélagið Vaka okkur í leikskólanum Bjarkatúni höfðinglega gjöf, hluti að verðmætti 300.000,- . Við keyptum 55 tommu flatskjá með festingu svo hægt væri að festa hann upp inn í sal, 2 stór hjól, 3 sparkbíla og einn göngubíl.

Starfsfólk og börnin í Bjarkatúni þakka Kvenfélaginu Vöku alveg æðislega vel fyrir þessa flottu gjöf :)

GSS

 

 

 

 

 

Læsisstefna Bjarkatúns

Hér er læsisstefna Bjarkatúns, líka er hægt að lesa hana inn á skýrslur og áætlanir

Guðrún

08.06.2016

Málbeinaleit með Lubba

Rauði þráðurinn í öllum skipulögðum málörvunartímum í leikskólanum Bjarkatúni er hann Lubbi okkar. Þess vegna köllum við þetta starf Lubbastarf.  Lubbi er bangsi sem börnin kynnast strax í hópastarfi þegar þau eru 2ja ára gömul og hann fylgir þeim alveg út leikskólagönguna. Við vinnum með bókina Lubbi finnur málbein en sú bók er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Höfundar bókarinnar, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar og hafa þær áralanga reynslu af talþjálfun barna. Efnið í bókinni stuðlar að auðugri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð barna. Í bókinni er lögð rík áhersla á það að hverjum bókstaf fylgi málhljóð. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðin vísa og einnig stutt saga eftir Þórarin Eldjárn þar sem lögð er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn en með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfingu er auðveldara fyrir börnin að læra það og muna. Börnin í leikskólanum eru mjög hrifin af Lubba og það er einstaklega gaman og mikil forréttindi að fá að kenna þeim allt um heillandi heim íslenskunnar í gegnum þetta námsefni.

Við höfum alltaf gert eitthvað sérstakt með Lubba okkar í lok hvers skólaárs þegar hópastarfinu líkur. Núna í maí héldum við kveðjuviku fyrir Lubba þar sem allir Lubbahóparnir fóru með Lubba í gönguferð að leita af földum málbeinum uppá Bóndavörðu. Þessi leikur var unnin í samstarfi Lubbasmiðjuna sem bauð öllum leikskólanum á landinu að taka þátt. Við fórum uppá Bóndavörðu þar sem við sjáum yfir allan Djúpavog. Lubbi kom með okkur og við fórum í málhljóða sönggöngu á leiðinni að felustaðnum. Uppá Bóndavörðu voru falin beinin B fyrir Búlandstind og Bjarkatún og D fyrir Djúpavog sem börnin leituðu af og þar var mikil spenna. Einn hópurinn fékk ægilega þoku en það var einstaklega spennandi ganga þar sem hreindýrin vorum mjög nálægt okkur að fela sig í þokunni...og kannski að leita af málbeinum til að gæða sér? Þegar málbeinin voru síðan fundin sungum við lögin um stafina B og D og blésum sápukúlur yfir Djúpavoginn okkar. Málhljóða söngganga var síðan farin aftur niður í leikskóla og þar var leitað af fleiri málbeinum um alla leikskólalóðina og þá fékk hugmyndaflug barnanna að ráða ferðinni og þar var virkilega  gaman að sjá hvernig leikirnir þróuðust út frá aldri barnanna.

 
Hópur 2011 í málbeinaleit


Hópur 2012 á leið í málbeinaleit með Lubba


Hópur 2013 búinn að finna bein handa Lubba

 

Fleiri myndir eru hér

Bestu kveðjur úr leikskólanum

Hugrún og Lubbi

 

Síðasti dagur útikennsluviku

Í síðustu viku voru útikennsludagar í grunnskólanum.  Elstu nemendur leikskólans eru í heimsókn hjá okkur nú í tvær vikur og tóku þátt að miklu leyti.  Síðasta daginn fórum við öll saman í gönguferð út á sanda.  Alls um 65 nemendur grunnskólans, 9 nemendur leikskólans ásamt starfsfólki.

Við gengum sem leið lá eftir gamla veginum og þaðan út á sanda.  Þar fórum við í "Að hlaupa í skarðið" og í boðhlaup.  Eftir það gekk hópurinn út í Sandey og á leiðinni fundum við skeljar og margan fjársjóðinn, spiluðum fótbolta, létum öldurnar elta okkur o.m.fl.  Þegar við komum út í Sandey voru allir orðnir banhungraðir þannig að við fengum okkur nesti.  Síðan fórum við í feluleik, bjuggum til sandkastala, skoðuðum hellinn í Sandey og lékum okkur í frjálsum leik.  Þegar fór að líða að hádegi röltum við til baka og komum beint í hádegismat.

Veðrið hefði getað verið betra, það var pínu kalt en það kom ekki að sök.  Allir voru glaðir og sáttir og nutu þess að vera úti í náttúrunni í sátt og samlyndi við menn og dýr.

Myndir úr ferðalaginu má finna hér.

Skólastjóri

Gæsluvöllur sumarið 2016

Gæsluvöllur verður starfræktur í Bjarkatúni fyrir börn fædd 2009-2014 frá 18. júlí -12 . ágúst í sumar, ef næg þátttaka fæst og starfsfólk finnst. Miðað er við að ekki færri en 8 börn verði skráð í hverri viku. 

Opið verður frá kl. 10:00-14:00. Börnin þurfa að koma nestuð fyrir daginn en aðstaða verður í leikskólanum til að borða inni ef veður er vont.  Skrá verður börnin 1-4 ákveðnar vikur og er skráningin bindandi.  

Vikan kostar kr. 10.500, systkinaafsláttur er 50%.

Foreldrar eru vinsamlegast beðnir að ganga frá skráningu á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 1. júní þar sem fram kemur nafn barns/barna og hvaða vikur viðkomandi hyggst nýta sér.

Sveitarstjóri

Kennari / leiðbeinandi óskast

Kennari / leiðbeinandi óskast í leikskólann til starfa strax eða sem fyrst.

Í boði er skemmtileg vinna með skemmtilegu og góðu fólki í fallegu umhverfi.

Umsóknarfrestur er til 29. apríl. Laun eru skv. kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags við launanefnd sveitarfélaga.

Allar nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri – umsóknir sendist á netfangið bjarkatun@djupivogur.is eða sendist á skrifstofu leikskólastjóra að Hammersminni 15, 765 – Djúpivogur.

 

Guðrún S. Sigurðardóttir
leikskólastjóri