Fréttir
Kennari / leiðbeinandi óskast
Kennari / leiðbeinandi óskast í leikskólann til starfa strax eða sem fyrst.
Í boði er skemmtileg vinna með skemmtilegu og góðu fólki í fallegu umhverfi.
Umsóknarfrestur er til 29. apríl. Laun eru skv. kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags við launanefnd sveitarfélaga.
Allar nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri – umsóknir sendist á netfangið bjarkatun@djupivogur.is eða sendist á skrifstofu leikskólastjóra að Hammersminni 15, 765 – Djúpivogur.
Guðrún S. Sigurðardóttir
leikskólastjóri
Leikrit miðvikudaginn 13.apríl
Brúðuleikrit
Brúðuheimar ætla að koma á Djúpavog miðvikudaginn 13. apríl og halda fyrir okkur brúðuleikritið Pétur og Úlfurinn. Leikritið verður klukkan 14:00-15:00 og er fyrir aldurinn 0-8 ára. Leikritið verður haldið út á Helgafelli og munu krakkar sem eru enn í leikskólanum og viðverunni fara með kennurum en börn sem eru hætt fyrr eða eru ekki í leikskólanum mæta með foreldrum sínum.
Þetta leikrit er sumargjöf til leikskóla barnanna í ár frá foreldrafélaginu og verða teknar ljósmyndir til minningar, sem þau munu fá á sumardaginn fyrsta.
Kær kveðja Foreldrafélag Djúpavogsskóla
Djúpavogsskóli fær styrk fyrir innleiðingu Cittaslow
Þær gleðifréttir bárust okkur í Djúpavogsskóla þann 5. apríl s.l. að Sprotasjóður Mennta- og menningarráðuneytisins muni styrkja okkur um 2,1 milljónir króna við innleiðingu hugmyndafræði Cittaslow í skólana. Þessa önn hafa starfsmenn verið að undirbúa þetta spennandi þróunarstarf og verður styrkurinn til þess að auðvelda okkur að ýta verkefninu af stað með nemendum og að halda vel utan um verkefnið næsta vetur. Í rökstuðningi við gerð umsóknar segir m.a. ,,Hugmyndafræði Cittaslow fjallar um eina mikilvægustu þætti mannlífsins í dag, umhverfismál, náttúruvernd, samskipti, heilbrigt líferni og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Verkefnið leggur einnig áherslu á að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt þar sem nemendum er hjálpað við að koma eigin hugviti í framkvæmd með það að markmiði að efla sjálfbært skapandi samfélag."
Sprotasjóði er ætlað að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum landsins . Gaman er að geta þess að sótt var um styrki í sjóðinn að þessu sinni að upphæð rúmlega 300 mkr. en sjóðurinn hafði aðeins um 60 mkr. til ráðstöfunar. Af þeim fengum við 2.1 milljón sem segir okkur að fleiri hafa trú á þessu verkefni en skólafólkið í Djúpavogsskóla, sem gefur okkur byr undir báða vængi. Frétt og lýsing á þróunarverkefninu er í Bóndavörðunni sem kom út í vikunni.
Þar sem verkefnið mun teygja anga sína víða inn í samfélagið og hafa þannig jákvæð áhrif á einstaklinga, hópa og fyrirtæki á staðnum segi ég ,,til hamingju öll".
Bryndís Skúladóttir verkefnastjóri