Djúpivogur
A A

Fréttir

Jólakveðja frá Djúpavogsskóla

Jólakveðju frá Djúpavogsskóla má finna hér.

Skólastjóri

Jólasnjór

Í þessum töluðu orðum kyngir hreinlega niður snjónum á Djúpavogi þannig að allt er orðið fannhvítt og risastór snjókorn svífa niðurúr himninum.  Greinar trjánna svigna undan snjónum svo það getur bara ekki orðið jólalegra.  Börnin í leikskólanum elska snjóinn enda er hann orðinn frekar sjaldséður síðastlilðin ár og oft heyrir maður börnin segja "það er kominn snjór, drífum okkur út því hann verður farinn á morgun" og það hefur oft á tíðum verið raunin.  En við ætlum að vona að svo verði ekki núna heldur fáum að hafa þennan snjó fram yfir jól og jafnvel áramót.  Hver veit.  Krakkarnir voru alla vega ánægð að komast út í snjóinn til að búa til snjóengla og snjókarla. 

Það er sko hægt að búa til snjókarl núna

Snæfinnur snjjókarl og börnin á Kríudeild og Krummadeild

Fleiri myndir hér

ÞS

Jólaball leikskólans 2014

Jólaball leikskólans var í morgun og mættu börnin prúðbúin í leikskólann til þess að dansa í kringum jólatréð.  Þegar liðið var á ballið mætti Gluggagæir á svæðið og dansaði með börnunum kringum tréð.  Sum börnin urðu smeyk á meðan önnur vildu ólm leiða jólasveininn.  Þegar búið var að dansa var sest niður og fór jólasveinninn að útdeila jólapökkum til allra barnanna.  Allir fóru og sóttu sinn pakka, líka þau sem voru smá hrædd við kallinn en þau fengu hendi til að leiða og þá var þetta allt í lagi.  Síðan kvaddi jólasveinninn og hélt heim á leið. 

Á jólaballi

Jólasveinninn spjallar við krakkanna

Fá pakka frá jólasveininum

Fleiri myndir hér

ÞS

17.12.2014

Jólaball á Hótel Framtíð

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Grunnskólinn, tónskólinn og Hótel Framtíð halda sameiginlegt jólaball á Hótel Framtíð föstudaginn 19. desember.  Ballið stendur yfir frá klukkan 15:00 - 16:00 og eru allir íbúar boðnir hjartanlega velkomnir.

Hvetjum eldri borgara sérstaklega til að mæta og dansa með okkur í kringum jólatréð.

Skólastjóri

Piparkökukaffi 2014

Í gær var árlega piparkökukaffi leikskólabarna.  Þar buðu leikskólabörnin foreldrum sínum og öðrum gestum upp á piparkökur sem þau höfðu sjálf bakað og skreytt.  Vel var mætt í kaffið og fannst börnunum ekki leiðinlegt að setjast niður og borða piparkökur með gestunum sínum eins og sjá má á þessum myndum.

Með afa í piparkökukaffinu

Með pabba og stóra bróður í piparkökukaffinu

Með pabba í piparkökukaffi

Fleiri myndir hér

ÞS

10.12.2014

Bókasafnsferð Kríudeildar í desember

Börnin á Kríudeild fóru á bókasafnið nú í byrjun desember.  Þar voru bækur skoðaðar en líka kubbað og leikið sér. 

Gluggað í bók

Kubbað smávegis

Lesið saman

Fleiri myndir hér

ÞS

09.12.2014

Jólaföndur Djúpavogsskóla

Foreldrafélag Djúpavogsskóla býður alla íbúa Djúpavogs velkomna á jólaföndur sunnudaginn 7.desember frá kl 11:00-14:00 í grunnskólanum. Föndrið verður með breyttu sniði í ár þar sem fylgt verður eftir Grænfána-stefnu skólans og því opinn efniviður í boði ásamt efnivið í jólakortagerð - látum hugmyndaflugið ráða för þetta árið :)

Allur efniviður er ókeypis en við hvetjum ykkur til að hafa með að heiman skæri, lím og annað sem þessu viðkemur. Leikhorn fyrir litlu krílin, jólatónlist, jólaskapið og föndur við allra hæfi!

Að venju munu nemendur í 6.-7.bekk vera með veitingasölu til styrktar skólaferðalags og vonum við að bæði föndrarar og þumalputtar mæti og styrki krakkana með kaupum á veitingum.  Veitingasalan verður frá 12:00 - 14:00.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Stjórn foreldrafélagsins.

Snjór í desember

Alltaf finnst krökkunum í leikskólanum gaman þegar snjórinn kemur en það gefur tilbreytingu í leiknum í útiveru. 

 

Fleiri myndir hér

ÞS

03.12.2014

Afmæli Carol

Hún Carol okkar á afmæli í dag og er þriggja ára gömul.  Af því tilefni komum við saman í salnum og sungum afmælissönginn fyrir hana og fengum ávexti í glösum.  Nemendurnir á Tjaldadeild voru búnir að útbúa plakat sem á stóð "Happy birthday" og nemendurnir á Kríudeild skrifuðu "Carol Til hamingju með afmælið" og síðan voru þessi plaköt skreytt með Glimmeri.  Söfnunarbaukur er búinn að vera í leikskólanum í viku og ætlum við að fara með hann í bankann á morgun og leggja inn á reikning sem Carol á og er framtíðarsjóðurinn hennar. 

Fleiri myndir eru hér

ÞS

Elstu nemendurnir taka lagið

 

 Elstu nemendum leikskólans er alltaf boðið á general prufu árshátíðarinar og héldu nokkrir glaðbeittir og hressir krakkar fullir af tilhlökkun af stað út á Hótel til að fara á leiksýninguna "Með allt á hreinu"  Á leið sinni var stoppað og tekið lagið eins og sjá má á þessu myndskeiði.  Þau syngja hér lagið um leikskólann sinn, leikskólinn Bjarkatún.  

ÞS

 

 

 

19.11.2014

Engilráð fer í heimsókn

 

Engilráð andarungi

Fimmtudaginn 30 október kom Engilráð í heimsókn til okkar. Hún sagði frá sér og bað um að fá að vera vinur okkar á Tjaldadeild. Hún var forvitin um að fá að vita hvernig við búum og hvað við erum að gera heima hjá okkur svo hún fékk að fara heim með öllum í 1 sólarhring þar sem teknar voru myndir af daglegum athöfnum með Engilráð. Engilráð fékk að gera margt skemmtilegt með krökkunum borða, sofa, fara í gönguferð, gefa hænunum, fara á leikrit, vaska upp og gera íþróttaæfingar og margt margt fleira. Vinavikan var 3-7 nóvember og Dagur eineltis 8 nóvember. Í vinavikunni ræddum við um hvað er að vera góður vinur og hvernig vinur við viljum vera og eiga.

Fleiri myndir hér

GSS/ÞS

18.11.2014

Dagar myrkurs

Nú eru dagar myrkurs að ljúka hér í leikskólanum en við höfum brallað ýmislegt í tilefni daga myrkurs.  Í ár var ákveðið að þemað yrði Greppikló og Greppibarnið.

Greppikló og Greppibarnið eru bækur eftir Axel Scheffler og Julia Donaldson og hafa notið mikilla vinsælda um allan heim undanfarin ár en Þórarinn Eldjárn sá um þýðingu á bókunum

Greppikló? Hvað er greppikló?
Hva, greppikló? Það veistu þó! 
Þetta segir litla músin við refinn, ugluna og slönguna sem hún mætir á göngu sinni um skóginn. Þau verða hrædd og þjóta burt þótt músin viti vel að það er ekki til nein greppikló. Og þó … 

"Engin greppikló má," sagði Greppikló, "gera sér ferð inn í Dimmaskóg..."
Greppiklóin er ekki búin að gleyma músinni ógurlegu sem gabbaði hana eitt sinn og því harðbannar hún Greppibarninu að fara inn í skóginn.
En Greppibarnið óttast ekki neitt og eina dimma vetrarnótt læðist það frá mömmu sinni.

 

Við ákváðum því að nýta þessar sögur á dögum myrkurs og unnum með þær þannig að sögurnar lifnuðu við á veggjum og gólfi leikskólans.

Hér er verið að teikna upp og hanna Greppikló, krakkarnir á Tjaldadeild sáu um það

Fótspor Greppiklóarinnar, Greppibarnsins og músarinar

Enduðum svo á því í morgun að horfa á myndirnar um Greppikló og Greppibarnið

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

 

 

Sólblómaleikskólinn Bjarkatún

Eins og fram hefur komið ákváðu nemendur og starfsfólk Bjarkatúns að taka að sér SOS-Sólblómabarn.  Það er hún Carol sem býr í SOS þorpi í Zambíu. 

Nemendur hafa sl. vikur verið að undirbúa afmælisgjöf handa henni en hún verður þriggja ára núna 27. nóvember.  Pakkinn frá krökkunum fór í póst í gær og í honum voru límmiðar, hárskraut, litabók og litir.  Börnin á Tjaldadeild bjuggu til afskaplega fallegt afmæliskort sem fór líka með.

Leikskólinn borgar fast árgjald til Carol sem fer í að sjá henni fyrir helstu nauðsynjum.  Okkur stendur einnig til boða að greiða valfrjálsan gíróseðil að eigin upphæð.  Sá peningur fer í að búa til sjóð sem hún fær afhentan þegar hún yfirgefur barnaþorpið og þarf að standa á eigin fótum og mennta sig.

Í forstofunni í leikskólanum er baukur.  Það er öllum frjálst að koma í heimsókn og kannski setja nokkrar krónur í baukinn sem renna allar óskiptar til Carol.  Við ætlum síðan að leggja þennan pening inn á afmælisdeginu hennar og hvetjum alla til að vera með.

 

HDH

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leikur með dósum

Oft þarf ekki flott eða dýr leikföng til að leika sér með og er þetta leikefni vinsælasta dótið í dag í leikskólanum

Við röðum dósunum upp

Byggjum síðan stóran vegg

Fleiri myndir hér

31.10.2014

Lubbi finnur málbein

Í leikskólanum er unnið markvisst með málörvun þar sem unnið er meðal annars með bókina Lubbi finnur málbein.  Bókin er um hund sem langar til að læra að tala en til þess þarf hann að læra hljóðin sem stafirnir eiga.  Hann finnur málbein með stöfunum sem hann borðar á ferð sinni um Ísland.  Á hverri blaðsíðu er fjallað um einn eða tvo stafi/málhljóð og stutt saga fylgir.  Einnig er vísa um stafinn sem Þórarinn Eldjárn orti og geisladiskur fylgir bókinni þar sem hver vísa er sungin.  Við eigum líka DVD diskinn Lubbi finnur málbein þar sem krakkar syngja og gera hreyfingar með hverju málhljóði. 

 

Í vetur höfum við á Kríudeild verið svo heppinn að fá Lubba í heimsókn til okkar en hann kemur til okkar í málörvunarstundirnar. 


Hér má sjá Lubba með málbeinin sín, hann er búin að borða A, B, D, M og N

Við æfum okkur í að skrifa stafina og vinna með stafina eins og þegar við lærðum um B þá blésum við sápukúlur á blað eða bjuggum til dreka úr D-inu. 


Lubbi fylgist spenntur með þegar við klippum D í drekann

Síðan lærum við líka landafræði þar sem við förum til Dalvíkur og skoðum okkur um þar.

En við vitum líka að Djúpivogur á D

Fleiri myndir úr málörvun á Kríudeild eru hér

ÞS

 

29.10.2014

Vetrarball 2014

Fyrsti dagur vetrar er á morgun og af því tilefni var haldið náttfataball í leikskólanum.  Mættu börnin í náttfötunum sínum í leikskólann og síðan var dansað og tjúttað í morgun eins og sjá má á þessum myndum.

 

Fugladansinn tekinn

Allir í hókí pókí

ÞS

 

24.10.2014

Snjór....

Það kom smá snjóföl í morgun og mikið voru nú börnin í Bjarkatúni ánægð með að fá að fara út í snjóinn. 

 

Að finna klaka

Fleiri myndir hér

ÞS

22.10.2014

Fálki og Rjúpa

Hafið þið heyrt söguna um Rjúpuna og Fálkann ? 

 

Þannig er að börnin í Bjarkatúni voru í dag að læra um Rjúpuna og Fálkan en í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu.

En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar.

En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum.

Þetta hefur ekki úr skorðum skeikað né heldur hitt að fálkinn ofsæki hana, drepi og éti, og kennir hann þess ekki fyrr en hann kemur að hjartanu í rjúpunni að hún er systir hans enda setur þá að honum svo mikla sorg í hvert sinn er hann hefur drepið rjúpu og étið hana til hjartans að hann vælir ámátlega lengi eftir.

http://www.snerpa.is/net/thjod/rjupan.htm

og við fundum líka smá hér:

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/580134/

Við fengum því  lánaða Rjúpu og Fálka og fengu þau að sjá fuglana saman.

Fleiri myndir hér

ÞS

 

17.10.2014

Bleikur dagur

Október er mánuður bleiku slaufunnar sem er árveknis og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum og voru landsmenn því hvattir til að klæðast einhverju bleiku í dag, fimmtudaginn 16. október og þannig sýna samstöðu í baráttunni gegn krabbameini. Auðvitað tóku börn og starfsfólk leikskólans þátt í þessu og hér má sjá börnin á Kríudeild klæðast bleiku og það var mismikð sem börnin klæddust bleikt. 

Börnin á Kríudeild

ÞS

 

 

16.10.2014

Krabbar og sniglar

Börnin í leikskólanum hafa nýtt september vel í að skoða náttúruna.  Á degi náttúrunnar var farið í göngu- og/eða fjöruferð en síðan fengum við líka gesti í heimsókn, fyrst kom Guðrún með snigla sem hún fann í garðinum sínum.  Við vorum með þá heilan dag í leikskólanum þar sem við gátum fylgst með þeim skríða um, narta í laufblöð og fleira.  Svo einn morguninn beið kassi með fullt af kröbbum, krossfiskum og ígulkeri fyrir utan leikskóladyrnar.  Þetta var auðvitað tekið inn og grandskoðað enda merkilegir hlutir á ferð.  Það kom svo í ljós að einn pabbinn hafði veitt þetta og fáum við pabbanum og mömmunni sem skellti þessu hér fyrir utan bestu þakkir fyrir. 

En eins og sjá má á meðfylgjandi myndum finnst börnunum gaman að skoða dýrin. 

Sniglarnir að skríða upp úr kassanum sínum

Krabbar og fleira

Fleiri myndir af kröbbum hér

Fleiri mydnri af sniglum hér

ÞS

 

09.10.2014

Að giftast eða ekki giftast !!

Tveir vinir í leikskólanum voru að spjalla saman í morgun.  Annar drengurinn sagði:  "Mamma mín og pabbi eru alltaf að kyssast af því þau eru kærustupar.  Þá segi ég alltaf ojjjjj.  Þau eiga samt eftir að fara í kirkju og giftast og þá þarf mamma að safna síðu hári svo hún geti haft kórónu."

Þá sagði hinn drengurinn.  "Mamma mín og pabbi kyssast aldrei, þau eru líka búin að gifta sig.""

Þá vitum við það :)

HDH

30.09.2014

Skólamjólkurdagurinn

Í dag er skólamjólkurdagurinn og fengu allir krakkarnir í leikskólanum mjólk með hádegismatnum. 

Fleiri myndir hér

ÞS

24.09.2014

Hópastarfið byrjað

Hópastarfið í leikskólanum byrjaði í sl. viku.  Börnin fara í hópastarf á hverjum degi þar sem áhersla er lögð á ákveðna þætti í þjálfun.   Farið er í kubbastarf, tónlist, listsköpun, hreyfingu og málörvun. 

Í einingakubbum

Í listsköpun

Í hreyfingu

Í tónlist

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

23.09.2014

Landvörður

Halla Ólafsdóttir, landvörður, kom í heimsókn í Djúpavogsskóla í september. Hún hefur starfað sem landvörður við Herðubreiðarlindir en þar sem eldgos hófst í Holuhrauni var hún send þaðan burt. Hún kynnti Vatnajökulsþjóðgarð fyrir nemendum í 4. og 5. bekk. Þar var rætt um spendýr og fugla sem lifa í garðinum, einkenni þeirra og einnig um þjóðgarðinn sjálfann og einmitt um nafnið þjóð-garður, garður sem þjóðin á og við viljum að eigi um ókomna framtíð. Náttúruvernd og eldgos var nemendum ofarlega í huga í þessari heimsókn. Takk Halla fyrir að koma til okkar. Myndir fylgja þessari frétt.

LDB

Dagur náttúrunnar

Dagur náttúrunnar er í dag og að því tilefni fóru leikskólabörnin í gönguferð um náttúruna. 

Eldri  börnin á Krummadeild fóru í gönguferð í kringum leikskólann þar sem þau fundu blóm, ber og rosalega hátt gras sem var mikið hærra en þau sjálf.  Leitað var að músarholum og kíkt undir steina í leit að krókódílum sem fundust ekki.

Börnin á Kríudeild fóru í fjársjóðsferð þar sem þau fundu rusl sem sett var í ruslatunnu, gorkúlu eða kerlingarost sem þeim fannst mjög sérstakur.  Þá var farið í fjöruna og þar fundum við dauðan fugl, klettadoppur og fullt af fallegum steinum.  Þau fengu svo að henda steinum í sjóinn og reyna að fleyta kerlingar sem gekk misvel. 

Börnin á Tjaldi fóru upp á kletta og fundu mosa, blóm og gras.  Þau gengu svo niður í fjöru og týndu skeljar en þetta ætla þau að nota í listakrók í vetur. 

 

Fleiri myndir hér

 

ÞS

16.09.2014

Sólblómaleikskóli

Leikskólinn Bjarkatún er orðinn Sólblómaleikskóli.  Í því felst að við erum orðin fósturforeldrar stúlku sem heitir Carol Mwali.  Hún býr í SOS barnaþorpi í Sambíu og verður þriggja ára í nóvember.  Carol kom í SOS barnaþorpið eftir að hún missti foreldra sína og vann strax hug og hjörtu allra sem þar vinna.  Carol finnst gaman að heimsækja hin börnin í þorpinu en skemmtilegast finnst henni að sulla í vatni og leika sér í því.

Í SOS Barnaþorpunum fá munaðarlaus og yfirgefin börn nýt heimilli, nýja foreldra og systkini.  Á hverju heimili býr ein SOS fjölskylda. Í hverri fjölskyldu eru þrjú til tíu börn með SOS foreldrum sínum, yfirleitt SOS móður en stundum líika SOS föður.  Barnið elst uppmeð SOS systkinum sínum.  Blóðsystkini alast líka alltaf upp saman.

Hér í leikskólanum ætlum við að safna fyrir árgjaldinu hennar með því að biðja nemendur um að búa til fallega hluti sem við ætlum síðan að selja á uppskeruhátíð sem haldin verður seinna í vetur.  Börnin læra líka um SOS barnaþorpin, fá m.a. að kynnast fleiri börnum í gegnum þetta verkefni og siðum og venjum í öðrum löndum.  Einnig fjöllum við um fjölskylduna í víðum skilningi og margt fleira.

HDH

Tjaldur

Nemendum leikskólans hefur fjölgað jafnt og þétt frá því leikskólinn opnaði í nýju húsnæði.  Í vetur verða börnin 36 talsins og er þeim skipt niður á þrjár deildir.  Á yngstu deildinni, Krummadeild eru 11 börn á aldrinum eins til tveggja ára.  Á miðdeildinni, Kríudeild eru 16 börn á aldrinum þriggja til fjögurra ára og salurinn nú orðin að einni deild með elstu nemendum leikskólans en þau eru 9 talsins.  Elstu börnin fengu að velja sér nafn á sína deildina sína og völdu þau nafnið Tjaldur. 

Hér má sjá mynd af nokkrum nemendum deildarinnar Tjaldur

Myndir af Krummadeild

Myndir af Kríudeild

Myndir af Tjaldi

ÞS

10.09.2014

Foreldrafundur

Við viljum minna á foreldrakynningu fyrir alla foreldrar sem eiga börn í Djúpavogsskóla.
Hún verður í grunnskólanum klukkan 17:00, í dag.

Við minnum einnig á verkefnið "Göngum í skólann" sem hófst í dag og eru nemendur hvattir til að ganga eða hjóla í skólann þann tíma sem verkefnið stendur yfir og alltaf þegar veður og færð leyfa.

HDH

Bókasafnsdagurinn

Bókasafnsdagurinn er haldinn í dag um land allt á degi læsis, 8. september.  Að því tilefni fóru elstu nemendur leikskólans í heimsókn á bókasafnið þar sem þau fengu að skoða bækurnar þar og velja sér nokkrar bækur til að hafa með í leikskólann. 

Skoðuðum bækur á bókasafninu

Fleiri myndir hér

ÞS

Berjamór

Í morgun fóru nemendur leikskólans ásamt starfsfólki í berjamó en það er liður í starfi leikskólans.  Börnin læra um náttúruna og hvernig hægt er að nýta afurðir hennar, berin því þau týna ber sem eru síðan sett út í skyrið sem þau fá í hádegismatinn. 

Nóg af berjum hér

nammi namm ber

Það var týnt í dolluna og líka í munninn

Fleiri myndir hér

ÞS