Fréttir
Bókagjöf
Þann 16. nóvember sl. á degi íslenskrar tungu kom Kristrún færandi hendi með bækur frá bókasöfnum á Austurlandi og gaf öllum börnum fæddum 2008 en í þeim árgangi eru 9 börn. Þetta verkefni var styrkt af Alcoa en bókin sem börnin fengu heitir Stafróf dýranna eftir Halldór Á. Elvarsson.
Börnin bíða spennt eftir að sjá hvað er í pokanum.
Strax byrjað að skoða bækurnar
ÞS
Í gestaviku
Þessi vika sem nú er að líða er svokölluð gestavika en þá gefst fólki kostur á að koma í heimsókn í leikskólann og fylgjast með starfinu. Afar, ömmur, frænkur, frændur, mömmur og pabbar hafa kíkt til okkar og tekið þátt í starfinu með sínu barni. Á Kríudeild komu 29 gestir og á Krummadeild komu 24 gestir sem dreifðust nokkuð jafnt og þétt yfir vikuna. Það er von okkar á leikskólanum að gestirnir hafi fengið smá innsýn inn í starf leikskólabarnsins en það er alltaf gaman að geta kynnt fyrir fólki þá mikilvægu vinnu sem unnin er hér í leikskólanum.
Móðir og sonur saman í einingakubbum
Faðir og dóttir saman í einingakubbum
Móðir og sonur (sem er hér í horninu og sést lítið í) í holukubbum
ÞS
Glaðar og góðar !!
Enn voru kvenfélagskonur að gefa Djúpavogsskóla góðar gjafir.
Fyrir nokkru gáfu þær Íþróttamiðstöðinni / grunnskólanum sundblöðkur að andvirði 100.000.- Koma þær sér mjög vel í sundkennslu grunnskólabarnanna.
Í morgun fengum við síðan pakka í leikskólann, þroskaleikföng með seglum að andvirði 60.000.- Þeir Fabian, Marjón, Gergö og Sævar Atli tóku við gjöfinni f.h. barnanna og kvenfélagskonurnar Ingibjörg og Bergþóra, sem starfa í leikskólanum afhentu þeim gjöfina formlega.
Enn og aftur vil ég þakka öllum þessum frábæru kvenfélagskonum fyrir velvilja í garð Djúpavogsskóla og barnanna á Djúpavogi. Þær lengi lifi !!! HDH
Foreldrahandbók og starfsáætlun
Nú er handbók vegna skólaársins 2012-2013 loksins tilbúin. Handbókin gegnir einnig hlutverki starfsáætlunar leikskólans. Hana má finna á síðunni hér til vinstri, undir "Skýrslur og áætlanir, 2012 - 2013". HDH
Gestavika í Djúpavogsskóla
Næsta vika, 19. - 23. nóvember er GESTAVIKA í Djúpavogsskóla. Þá eru allir íbúar sérstaklega velkomnir í skólann. Hægt er að heimsækja grunn- og tónskólann á þeim tímum sem skólarnir eru opnir en heimsóknartími í leikskólann er sem hér segir:
Krummadeild 9:00 - 11:30 og 14:00 - 16:00
Kríudeild 9:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00
Ýmis verkefni verða til sýnis í grunn- og leikskólanum sem gaman er að skoða.
Starfsfólk og nemendur Djúpavogsskóla
Dagur íslenskrar tungu
Nemendur á Kríudeild hafa verið að vinna verkefni sem tengjast Degi íslenskrar tungu. Þeir unnu með þrjár gátuvísur eftir Jónas Hallgrímsson þar sem lausnirnar voru: regnbogi, snjór og sandur. Unnu þau mjög skemmtileg verkefni sem sjá má hér. Einnig skal vakin athygli á því að myndirnar, ásamt fleiri verkefnum, verða til sýnis í gestavikunni, í næstu viku. HDH
Afleysingar í Bjarkatúni
Starfsmann vantar í afleysingar í Bjarkatúni, 22., 23., 26. og 27. nóvember.
Vinnutími frá 8:00 - 14:00
Umsóknarfrestur er til 16:00 þann 20. nóvember. Áhugasamir hafi samband við Halldóru í síma: 478-8832, 899-6913 eða á netfangið: skolastjori@djupivogur.is
Skólastjóri Djúpavogsskóla
Hjálmar og öryggisvesti á leikskóla Djúpavogs
Gréta Jónsdóttir, umboðsmaður Sjóvár á Djúpavogi, færði nýlega leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi um 30 öryggisvesti og tvo öryggishjálma vegna notkunar á tveimur hlaupahjólum í eigu leikskólans.
Frá vinstri eru þau Brynja og Óðinn komin með nýju hjálmana á höfuðið. Stepanie Tara klæddi sig í öryggisvesti, en þau lýsa vel í myrkri og geta því komið sér afar vel í vetur. Á leikskólanum á Djúpavogi setja börnin öryggið á oddinn!
ÓB