Djúpivogur
A A

Fréttir

Dagatal

Ég vil benda foreldrum á að nú er hægt að nálgast dagatal hvers mánaðar á heimasíðu leikskólans, sjá dagatal.  Einnig er hægt að fara inn á www.mentor.is og fylgjast með starfi barnsins inn á viðburðardagatal. Þeir foreldrar sem þekkja ekki mentor og hafa ekki lykilorð að svæðinu er bent á að hafa samband við leikskólastjóra og fá nýtt lykilorð eða kennslu í vefnum en hann er bæði notaður í leikskólanum og grunnskólanum.  

Dagatal októbermánaðar er komið inn á heimasíðuna.

ÞS

21.09.2009

Fyrsta grunnskólaheimsóknin

Elstu nemendur leikskólans fóru í árlegu grunnskólaheimsókn í síðastliðinni viku.  Þetta var fyrsta heimsókn vetrarins en í henni hitta kennara 1. bekkjar og nemendur sem sýna þeim skólann. Nemendur leikskólans hittu skólastjórann sem og aðra nemendur grunnskólans, þau borðuðu nesti og fóru í frímínútur.

 

Við borðuðum nesti og hlustuðum á sögu á meðan

Svo var farið í frímínútur

Við hittum skólastjóra grunnskólans

En þetta fannst okkur rosalega skrítið og spennandi

 

Fleiri myndir er hægt að sjá hér

 

ÞS

Í berjamó

Í byrjun september fór Kríudeild í berjamó.  Ekki þarf að fara langt í berjamó þar sem berin vaxa nánast allt í kringum lóð leikskólans auk þess sem eitthvað er af lyngi á lóðinni en þau ber hverfa mjög fljótt og ná aldrei að verða svört. En börnin elska ber eins og sjá má á þessum myndum.

 

Við krækiberjalyngið

 

ÞS

21.09.2009

Til umhugsunar

Það er mál manna sem heimsótt hafa Djúpavog á liðnum árum að bærinn okkar sé snyrtilegur og umfram allt fallegur og yfir því eigum við að sjálfsögðu öll að vera stolt, því með með góðri umgengni og snyrtimennsku styrkjum við ímynd okkar bæði inn á við sem út á við.  
En um leið og gleðjast má yfir fegurð bæjarins og góðri umgengni í flesta staði finnast undantekningar og nú finnst undirrituðum full ástæða til að gera að umtalsefni hér á vefnum okkar ákveðið efni sem getur ekki verið yfir umræðu hafið á þessum opinbera vettvangi okkar.  Hér skal því gert að umtalsefni miður góð umgengni um ákveðin verðmæti í eigu sveitarfélagsins og önnur óbein verðmæti sem okkur snertir.  Nú háttar þannig til að einhver/einhverjir virðast finna jöfnum höndum hjá sér hvöt að skemma hluti sem lagðir hafa verið bæði mikil vinna og fjármunir í á liðinum árum.  
Eins og bæjarbúum er kunnugt var fyrir nokkuð margt löngu settir niður fallegir ljósastaurar með göngustígum í bænum nánar tiltekið frá versluninni Við Voginn og yfir Bjargstúnið og annarsvegar upp Klifið.
Nú er svo komið að flestir þessara dýrkeyptu staura sem settir voru niður til fegrunar á sínum tíma hafa verið skemmdir mikið  á liðnum árum og má heita að sumir þeirra séu nú ónýtir með öllu þar sem þeir hafa verið grýttir mjög illa og eða notað á þá barefli einhversskonar.
Fyrir liggur að mjög erfitt er að útvega nýja skerma og ljós á þessa staura og er því skaðinn umtalsverður. 
Í annan stað virðist það nánast árleg uppákoma að ljóskastarar við listaverkið sem felldir hafa verið ofan í stallinn hafa verið brotnir og það gerist því miður ekki óvart.  Glerið í ljósakösturum þessum er sérstaklega sterkt, en það þolir hinsvegar ekki hvað sem er og þegar grjóthnullungum er kastað endurtekið ofan á gler þessi þá gefa þau sig á endanum og þá tvístrast glersallinn út um nærsvæði listaverksins með þeim umhverfisspjöllum sem því fylgir.  
Fyrir skemmstu var einmitt gler brotið í einum kastaranum við listaverkið og hlýtur það að teljast afskaplega dapurlegt að enn og aftur skuli þurfa að endurnýja þennan búnað með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, auk þrifa á glersallanum á svæðinu.  Hvernig sem á því stendur virðist þessi þráhyggja viðkomandi að skemma endurtekið sömu hlutina hér í bænum benda til þess að sömu aðilar eigi oft í hlut og þá líklegast þeir sömu og virðast hafa þráhyggju fyrir því að mæta reglulega inn á vegagerðarlóð sem við köllum og brjóta þar reglulega rúður í bifreiðum sem þar standa ýmist til geymslu eða bíða þess að verða settir í brotajárn.  Sem dæmi var settur fólksbíll nú síðsumars inn á lóðina í geymslu og þá liðu ekki margir dagar þangað til allar rúður höfðu verið brotnar í honum og var bíllinn dældaður að auki.  Í alla staði er hér um alvarlega verknaði að ræða því bæði er erfitt að laga það sem skemmt hefur verið og í mörgum tilfellum mjög kostnaðarsamt.   

Í ljósi þessa eru íbúar beðnir um að hafa augun opin og gera viðvart ef þeir verða vitni að skemmdarverkum sem þessum því hér er um sameiginlegar eigur okkar íbúana að ræða og því sárt að horfa endurtekið upp slíkt virðingarleysi gagnvart þeim verðmætum sem hér eru í bænum.    
Markmið okkar hlýtur í hvert sinn þegar slíkt kemur upp á að reyna að finna hver er valdur að skemmdum sem þessum svo hægt verði að kalla eftir að sá er tjóni veldur bæti það að fullu. Ef hinsvegar ábendingar berast ekki um skemmdarverk af þessu tagi er einsýnt að leikurinn heldur áfram með öllu því tjóni sem af hlýst. 
Tökum því höndum saman og reynum að uppræta slíka umgengni í eitt skipti fyrir öll. 

                         Með umhverfiskveðjum
                         Form.Umhverfisnefndar Djúpavogshr.
                         Andrés Skúlason


Þessi staur er lítið augnayndi í dag og svona eru þeir margir hverjir útlítandi


Ljóskerið undir listaverkinu fær jöfnum höndum að kenna á því

   
 Í þúsund molum og glersalli á víð og dreif, hverjum líður betur með þetta ? 

                                                                               

  Þessi bíll var óskemmdur fyrir mánuði síðan, skyldi gerandi verið reiðubúin að greiða fyrir tjónið ? Það má kannski gera við fyrir þrjúhundruðþúsund.                                                                                             

Leikjanámskeið Neista - umfjöllun og myndir

Umf. Neisti hefur í sumar haldið 3 leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 4-7 ára. Þátttaka hefur verið góð og alltaf er mikið stuð í tímunum, þar sem börnin skemmta sér í ýmsum leikjum og gönguferðum.

Síðasta leikjanámskeið sumarsins var í síðustu viku, en þá var endað á því að fara í ferð út á sanda að gera sandkastala. Hjálpuðust börnin að við að gera einn stórann sandkastala, skreyta hann með beinum og ýmsu öðru tilfallandi en einnig var lagður vegur að kastalanum. Þegar búið var að mynda hópinn hjá kastalanum var “auðvitað“ næst á dagskrá að rífa bygginguna ... og því var kastalinn jafnaður við jörðu (með miklum látum) áður en við héldum heim.

Hér má sjá myndir úr ferðinni.

SDB

Haustþing leikskólakennara

Haustþing leikskólakennara verður haldið þann 11. september nk. á Fáskrúðsfirði.  Leikskólinn verður lokaður þennan dag en starfsmenn munu fara á þingið.  Á þinginu í ár verður boðið upp á fyrirlestra um Krakkamat, hollur og bragðgóður í umsjá rannsóknarþjónustunnar Sýni ehf. en það er fyrir starfsfólk leikskólamötuneytis, Ég og leikskólinn minn, ferlilmöppur í umsjá Sigríðar Herdísar Pálsdóttur, félagstengsl ungra barna og þróun eineltis  í umsjá Jarþrúðar Ólafsdóttur kennsluráðgjafa hjá Skólaskrifstofu Austurlands og tónlist og hreyfing í umsjá Dagnýjar Elísdóttur og Jóhönnu Fjólu Kristjánsdóttur.  Allir starfsmenn leikskólans munu sitja þessa fyrirlestra auk þess mun 4 starfsmenn sitja "segjum börnum sögur" í umsjá Berglindar Óskar Agnarsdóttur og 3 starfsmenn munu sitja námskeið um útikennslu í umsjá Dísu Maríu Egilsdóttur og Jóhönnu Fjólu Kristjánsdóttur. 

Eins og sjá má er margt spennandi í boði fyrir okkur og teljum við að þetta allt geti nýst okkur í starfi hér í Bjarkatúni.

 

ÞS

02.09.2009