Djúpavogshreppur
A A

Skipulags- og byggingarmál

Skipulagsmál Djúpavogshrepps heyra undir skipulags-, framkvæmda- og umhverfismálanefnd (SFU). Nefndin fer með skipulagsmál í umboði sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 m.s.br., skipulagsreglugerð nr. 90/2013 m.s.br. og lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 m.s.br.Nefndin mótar stefnu í skipulagsmálum og gerir tillögur til sveitarstjórnar þar að lútandi. SFU gerir tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslur framkvæmdaleyfisumsókna.

Skipulagsfulltrúi heldur utan um skipulagsferla og er skipulags- og framkvæmdaráði til ráðgjafar um skipulagsmál, og getur fyrir hönd sveitarstjórnar gefið út framkvæmdaleyfi á grunni skipulagslaga.

Samkvæmt skipulagslögum skiptast skipulagsáætlanir í svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og skulu þær vera í innbyrðis samræmi. Skipulagsáætlanir eru settar fram í greinargerð og á uppdrætti.

Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag, þar sem sett er fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál.

Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru t.d. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur.

Við mótun stefnu í skipulagi skal leitað eftir sjónarmiðum íbúa.

Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.