Djúpivogur
A A

Saga UMF Neista

Ungmennafélagið Neisti var stofnað 24. febrúar 1919.Þetta er skráð í fundargerðarbók nr. 2 en elsta fundargerðarbókin mun vera týnd. Séra Jakob Jónsson frá Hrauni segir í ævisögu sinni: „Georg Jónsson frá Strýtu stofnaði Ungmennafélagið Neista.“

Í ævisögum Eysteins Jónssonar fyrrverandi ráðherra og Ríkarðar Jónssonar myndhöggvara segir að formaður fyrstu árin hafi verið Georg Jónsson á Strýtu. Auk hans eru nefndir Sigurður Thorlacius á Búlandsnesi og Jakob Jónsson sem forystumenn í félaginu.

Fyrstu árin eftir stofnun starfaði félagið af miklum þrótti og gekkst það fyrir leiksýningum, málfundum, álfabrennum, og annarri skemmtan auk þess að halda úti skrifuðu blaði. Leikstarfsemin blómstraði á þessum árum og margir góðir leikarar voru á Djúpavogi á þeim árum. Sigurður Thorlacius, einn af stofnendum Neista, skrifaði leikgerð úr sögunni „Maður og kona“ eftir Jón Thoroddsen og var það e.t.v. í fyrsta sinn sem efni sögunnar var flutt í leikritsformi.

Georg Jónsson fæddist á Strýtu þann 24 febrúar 1895, sonur hjónanna Jóns Þórarinssonar og Ólafar Finnsdóttur. Systkini hans voru Ríkarður, Björn, Finnur, Karl og Anna. Fram til tvítugs vann hann við búskap á Strýtu auk þess að stunda sjómennsku. Árið 1916 hóf hann svo nám á Hvanneyri. Georg lauk svo burtfararprófi frá Hvanneyri 1918 eftir tveggja vetra nám með góðri einkunn og hafði skólastjóri orð á þvl að slikan afbragðs nemanda hefði hann ekki haft fyrr. Georg var sagður mjög sérstæður maður að manngildi, vinnuglaður, harðduglegur og vammlaus. Georg var gleðimaður mikill og félagslífið á Hvanneyri hafði ekki dregið úr þvi. Er heim kom var hann einn helsti baráttumaður fyrir stofnun ungmennafélags á Djúpavogi og fyrsti formaður þess. Hann vann af óbilandi áhuga í ungmennafélaginu, setti upp sjónleiki og lék sjálfur aðalhlutverkið og var leikstjóri. Að þessu var gerður góður rómur og fólk úr nærliggjandi byggðarlögum sat ekki af sér skemmtanir ungmennafélagsins. Hann stóð einnig fyrir byggingu á félagsheimili á staðnum og á tilsettum tlma reis það af grunni, mest allt var unnið í sjálfboðavinnu og félagarnir deildu kostnaðinum með sér, svo þegar upp var staðið, þá var „Neisti" en það var nafn hússins og félagsins skuldlaust. Þetta hús stóð í um 60 ár og þjónaði fólkinu í héraðinu dyggilega og bar vott um stórhug og dugnað aldamóta æskunnar. Georg var einnig einn af hvatamönnum að stofnun Kaupfélags Berfirðinga og sat hann í fyrstu stjórn þess. Árið 1927 kvæntist Georg Margréti Kjartansdóttur frá Önundarfirði og fluttu þau sama ár að Laugabökkum í Ölfusi en frá árinu 1931 bjuggu þau á Reynistað í Skerjafirði. Georg lést þann 24. Mars 1981.

Var efnið hjálplegt?