Ungmennafélagið Neisti var stofnað 24. febrúar 1919.Þetta er skráð í fundargerðarbók nr. 2 en elsta fundargerðarbókin mun vera týnd. Séra Jakob Jónsson frá Hrauni segir í ævisögu sinni: „Georg Jónsson frá Strýtu stofnaði Ungmennafélagið Neista.“
Í ævisögum Eysteins Jónssonar fyrrverandi ráðherra og Ríkarðar Jónssonar myndhöggvara segir að formaður fyrstu árin hafi verið Georg Jónsson á Strýtu. Auk hans eru nefndir Sigurður Thorlacius á Búlandsnesi og Jakob Jónsson sem forystumenn í félaginu.
Fyrstu árin eftir stofnun starfaði félagið af miklum þrótti og gekkst það fyrir leiksýningum, málfundum, álfabrennum, og annarri skemmtan auk þess að halda úti skrifuðu blaði. Leikstarfsemin blómstraði á þessum árum og margir góðir leikarar voru á Djúpavogi á þeim árum. Sigurður Thorlacius, einn af stofnendum Neista, skrifaði leikgerð úr sögunni „Maður og kona“ eftir Jón Thoroddsen og var það e.t.v. í fyrsta sinn sem efni sögunnar var flutt í leikritsformi.