Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

16. október 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 16.10.2015

16. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps mánudaginn 16. október 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Júlía Hrönn Rafnsdóttir, Þorbjörg Sandholt og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Oddviti óskaði eftir að mál 2l, 7 og 8 verði tekin fyrir á fundinum þó þau séu ekki á dagskrá.
Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni – Fjárhagsáætlun 2016
Fjárhagsáætlun 2016. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu varðandi fjárhagsáætlun 2016 sem unnið hefur verið að undanfarið í samráði við KPMG og starfshóp um fjárhagsleg málefni. Tillaga að fjárhagsáætlun verður lögð fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga.

2. Fundargerðir

a) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 2. september 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Brunavarna á Austurlandi, dags. 4. september 2015. Kári vék af fundi. Samþykkt ný reikniregla framlaga aðildarsveitarfélaga Brunavarna á Austurlandi, þ.e. að bætt yrði við launabreytu. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
Kári mætir aftur til fundar.
c) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. september 2015. Lögð fram til kynningar.
d) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 15. september 2015. Lögð fram til kynningar.
e) Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags 21. september 2015. Lögð fram til kynningar.
f) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 21. september 2015. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 22. september 2015. Lögð fram til kynningar.
h) Félagsmálanefnd, dags. 23. september 2015. Lögð fram til kynningar.
i) Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, dags. 25. september 2015. Lögð fram til kynningar.
j) Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 1. október 2015. Lögð fram til kynningar.
k) Hafnarnefnd, dags. 6. október 2015. Liður 1, seinkun á framkvæmdum við flotbryggjur, staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
l) Ferða og menningarmálanefnd, dags. 9. október 2015. Liður 11, styrkbeiðni. Hafnað. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
m) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 13. október 2015. Lögð fram til kynningar ásamt minnisblaði sveitarstjóra vegna árshlutauppgjörs Djúpavogsskóla. Launakostnaður er verulega hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ljóst er að launakostnaður, sérstaklega í tónskóla, hefur verið vanáætlaður, hagræðingaraðgerðir hafa ekki náð fram að ganga og viðbótarlaunakostnaður vegna nýs vinnumats grunnskólakennara er umtalsverður. Ljóst er að taka verður afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti megi hagræða innan skólanna með tilliti til launakostnaðar og þeirrar þjónustu sem þar er í boði. Samþykkt að starfshópurinn fundi með fulltrúum skólasamfélagsins og fari yfir málið fyrir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.
n) Fræðslu og tómstundanefnd, dags. 14. október 2015. Reglur í leik- og grunnskóla og um skólaakstur staðfestar. Að öðru leyti lögð fram til kynnningar.

3. Erindi og bréf

a) Skólastjórafélag Austurlands, dags. 23. september 2015. Ályktun vegna kjarasamninga. Lagt fram til kynningar.
b) Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, dags. 24. september 2015. Styrkbeiðni. Hafnað.
c) Heimili og skóli, dags. 25. september 2015. Ályktun vegna gervigrasvalla og eiturefna í dekkjakurli. Fyrir fundinn barst einnig erindi undirritað af hluta foreldra barna við Djúpavogsskóla þar sem þess er krafist að því kurli sem er á sparkvellinum verði skipt út. Samþykkt að taka erindið fyrir. Samþykkt að stefnt skuli að því að skipta út kurli á vellinum í samráði og samvinnu við nágrannasveitarfélög. Að öðru leyti lagt fram til kynningar.
d) Ungliðahreyfing Slow Food á Íslandi, dags. 28. september 2015. Styrkbeiðni vegna ferðar ábúenda á Karlsstöðum á ráðstefnuna We Feed the Planet. Samþykkt að styrkja verkefnið um 25.000 kr.
e) Kálkur ehf, dags. 4. október 2015. Heimild til breytinga á rekstarformi Ríkarðsafns. Málinu vísað til hönnuðar sýningarinnar og til umsagnar hjá ferða og menningarmálanefnd.
f) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. október 2015. Móttaka sveitarfélaga á flóttamönnum. Lagt fram til kynningar.
g) Kristín Rögnvaldsdóttir, stofnun lóðar undir sumarhús Múli II, dags. 12. október 2015. Afgreiðslu frestað.
h) Félag eldri borgara, öldungaráð, dags. 12. október 2015. Sveitarstjórn fagnar frumkvæði félags eldri borgara við stofnun öldungaráðs. Samþykkt að Þorbjörg Sandholt og Óðinn Sævar Gunnlaugsson taki sæti í ráðinu fyrir hönd sveitarfélagsins.

4. Langalág 10
Haft hefur verið samband við sveitarstjóra og falast eftir Löngulág 10 til kaups. Í ljósi þess áhuga sem virðist vera á eigninni er sveitarstjóra falið að auglýsa hana til sölu og ganga frá kaupsamningi og afsali fáist ásættanlegt verð enda verði húsið notað undir frístundabúskap.

5. Þjónusta N1 á Djúpavogi
Sveitarstjórn gerir enn og aftur alvarlegar athugasemdir við þjónustu N1 á Djúpavogi. Eldsneytisdælur hafa ítrekað verið bilaðar undanfarna mánuði og ár og engin salernisaðstaða er til staðar. Þess má geta að viðbragðsaðilar s.s. lögregla, sjúkra- og slökkvilið reiða sig nær eingöngu á þessa einu bensíndælu í sveitarfélaginu auk heimamanna. Skorti á salernisaðstöðu fylgir svo viðeigandi sóðaskapur.
Þolinmæði íbúa og sveitarstjórnar er þrotin gagnvart þessu ástandi og beinir sveitarstjórn því til stjórnenda fyrirtækisins að þeir nú þegar grípi til viðeigandi aðgerða til að tryggja að þessu ófremdarástandi linni.

6. Grenndarkynning – Hamrar 6
Farið hefur fram grenndarkynning vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hamra 6. Engar athugasemdir bárust innan tilskilins frests. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að byggt verði við húsið samkvæmt þeim uppdráttum sem liggja fyrir. Húseiganda er bent á að leggja fram byggingarleyfisumsókn og tilskilin gögn í samráði við byggingarfulltrúa.

7. Verndarsvæði í byggð
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir að tillaga að verndarsvæði í byggð (sbr. lög nr. 87/2015) verði útbúin samhliða gerð deiliskipulags fyrir miðbæjarsvæði á Djúpavogi innan þess svæðis sem nú þegar nýtur hverfisverndar skv. Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020. Með þessu stefnir Djúpavogshreppur á að verða fyrsta sveitarfélagið á landinu til að útbúa tillögu af þessu tagi. Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita og formanni SFU að vinna að framgangi málsins.

8. Gangstétt í Hammersminni
Tekið var fyrir erindi frá Jóhönnu Reykjalín og sýnt myndband sem hún sendi og sýnir ástand gangstétta í Hammersminni. Jóhanna hafði áður komið erindinu á framfæri við sveitarstjóra sem gerði ráð fyrir endurbótum í tillögu að fjárhagsáætlun. Sveitarstjórn sammála um að brýnt sé að bregðast við og felur sveitarstjóra að vinna áfram að málinu í samráði við formann skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefndar.

9. Skýrsla sveitarstjóra

a) Hraðahindrun. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi hraðahindrun á Hlíðarhæðinni. Ítrekað hefur verið haft samband við Vegagerðina vegna málsins og samkvæmt nýjustu upplýsingum verður farið í verkið fyrir lok mánaðarins.
b) Íbúafundur vegna deiliskipulags. Sveitarstjóri og oddviti gerðu grein fyrir íbúafundi sem haldinn var vegna deiliskipulags á miðbæjarsvæði.
c) Gangstéttir við Hraun. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við gangstéttir við Hraun. Framkvæmdum er lokið.
d) Faktorshús. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við Faktorshús. Vinnu við grjóthleðslu á þessu ári er lokið. Stefnt er að því að ljúka við grjóthleðslu og framkvæmdir á miðhæð fáist til þess fyrirgreiðsla á næsta ári.
e) Teigarhorn. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum á Teigarhorni. Miklar endurbætur hafa verið gerðar innanhúss og nú er unnið að viðgerðum á þaki sem stefnt er á að ljúki fljótlega. Verkefnið er fjármmagnað með styrk frá „Uppbygging innviða“.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:30.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

19.10.2015