Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

14. júlí 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.07.2015

4. aukafundur 2014 – 2018

Aukafundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjudaginn 14. júlí 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.
Mætt voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir sem einnig ritaði fundargerð, Rán Freysdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða lýsingu á breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z. Lýsingin var kynnt fyrir skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps þann 24. júní sl. og á borgarafundi á Djúpavogi 25. júní sl. Ábendingarfrestur var veittur frá 1. júlí til 10. júlí 2015 og bárust engar ábendingar.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda lýsingu á breytingu á aðalskipulagi dags. 25. júní 2015 ásamt viðbótum dags. 14. júlí 2015 til umsagnar eftirfarandi stofnana: Skipulagsstofnunar, Minjastofnunar, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Óskað er eftir að athugasemdum ofangreindra stofnana ef einhverjar eru fyrir 12. ágúst 2015.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 15:30.

Fundarerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

15.07.2015

9. júlí 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 09.07.2015

14. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 9. júlí 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Rán Freysdóttir, Þorbjörg Sandholt og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.
Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:


1. Fjárhagsleg málefni

a) Kaup á fasteigninni Hammersminni 2b
Kári vék af fundi. Á síðasta fundi sveitarstjórnar 11. júní 2015 var sveitarstjóra falið að ganga til samninga við Rafstöð Djúpavogs ehf varðandi kaup á fasteigninni Hammersminni 2b.
Fasteignamat er kr. 1.569.000, brunabótamat kr. 3.980.000 og verðmat fasteignasölunnar Inni dags. 9. mars 2015 er 2.500.000 - 3.000.000.
Sveitarstjóri kynnti að samkomulag hefði náðst um kaupverð kr. 2.000.000 miðað við afhendingu 1. september. Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga frá kaupsamningi. Stefnt er að því að rífa eignina enda er í aðalskipulagi ekki gert ráð fyrir athafna- eða iðnaðarstarfsemi á þessu svæði til framtíðar.

b) Viðauki við fjárhagsáætlun 2015 – Kaup á fasteigninni Hammersminni 2b
Fjárfest verður í fasteigninni að Hammersminni 2b sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2015. Áhrif: Fjárfestingaráætlun 2015 hækkar um 2.000.000 og kemur til lækkunar á handbæru fé.

Heildaráhrif viðauka
Samþykkt viðauka hefur í för með sér nettó hækkun fjárheimilda til fjárfestinga að fjárhæð 2.000.000 kr. sem mætt verður með nýtingu á því handbæra fé sem sveitarfélagið hefur til umráða. Breytingar afskrifta, verðbóta og annarra afleiddra liða sem tengjast ofangreindum breytingum færast á afkomu ársins. Viðauki við fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir árið 2015 er gerður í samræmi við 2. mgr., 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kári kemur aftur til fundar.

2. Fundargerðir

a) Stjórn Brunavarna á Austurlandi, dags 15. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Almannavarnanefnd Múlaþings, dags 15. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 23. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
d) Skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefnd, dags. 24. júní 2015. Lögð fram til kynningar
e) Félagsmálanefnd, dags. 25. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
f) Hafnarnefnd, dags. 30. júní. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Eðvald Smári Ragnarsson og Hólmfríður Haukdal, ósk um rétt til að kaupa Hammersminni 2b, dags. 11. júní 2015. Sveitarstjóri brást við erindinu 23. júní þar sem bréfriturum var bent á að það er ákvörðun eigenda Rafstöðvar Djúpavogs ehf að selja Djúpavogshreppi umrædda eign.
b) Lárus Einarsson, kaup á stáltönkum við bræðsluhúsið í Gleiðuvík, dags. 21. júní 2015. Sveitarstjórn sammála um að selja ekki tankana að svo stöddu.
c) Þjóðskrá Íslands, Fasteignamat 2016, dags. 24. júní. Lagt fram til kynningar.
d) Byggðastofnun, umsókn um þátttöku í verkefninu „Brothættar byggðir“, dags. 26. júní. Í bréfinu segir: „ Ekki er unnt að gefa loforð um að hægt verði að taka fleiri byggðarlög inn í verkefnið að svo stöddu. Framhaldið verður metið þegar líður á árið 2016 og fer þá eftir því hvort viðbótarfjármagn verður tryggt til verkefnisins svo hægt verði að taka inn fleiri byggðarlög.“
Sveitarstjórn furðar sig á ótrúlegum seinagangi stofnunarinnar við að svara erindinu en formleg umsókn var send Byggðastofnun í nóvember 2014. Í ljósi þess áfalls sem Djúpavogshreppur varð fyrir þegar Vísir hf hætti fiskvinnslu á staðnum á síðasta ári og flutti 90% af aflaheimildum byggðarlagsins með sér til Grindavíkur með tilheyrandi fólksflutningum er það ámælisvert að stofnunin telji sig ekki hafa átt þess kost að svara umsókn Djúpavogshrepps fyrr en nú. Samkvæmt 2. grein laga um Byggðastofnun segir að stofnunin skuli „vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.“ Það að stofnunin skuli hafa þurft 8 mánuði til að afgreiða málið með neikvæðri niðurstöðu og ekki sýnt minnsta frumkvæði á tímabilinu að því að koma byggðarlaginu til aðstoðar hlýtur að teljast með öllu óforsvaranlegt. Byggðastofnun sjálf hefur því aðeins afrekað það með framkomu sinni að tefja framgang ákveðina mála sem sveitarfélagið hugðist horfa til og þar með veikt stöðu þess með sinnuleysi sínu þvert á yfirlýstan tilgang stofnunarinnar.
Sveitarstjóra falið að koma óánægju sveitarstjórnar á framfæri.
e) Verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála, tilnefningar til Menningarverðlauna SSA, dags. 26. júní 2015. Lagt fram til kynningar.
f) Félagsmálanefnd, Átak í meðferð heimilisofbeldismála, dags. 29. júní. Sveitarstjóra falið að kynna sér málið frekar.

4. Kjör fulltrúa sveitarfélagsins

Til eins árs

Tveir aðalmenn og tveir til vara á aðalfund SSA
Andrés Skúlason Sóley Dögg Birgisdóttir
Rán Freysdóttir Kári Snær Valtingojer
Einn fulltrúi og annar til vara á aðalfund Skólaskrifstofu Austurlands
Gauti Jóhannesson Helga R Guðjónsdóttir

Einn fulltrúi og annar til vara á aðalfund Heilbrigðiseftirlits Austurlands
Þorbjörg Sandholt Birgir Th Ágústsson

5. Lögreglusamþykkt

Sveitarstjóri kynnti lögreglusamþykktir nokkurra sveitarfélaga. Sveitarstjórn sammála um nauðsyn þess að gengið verði frá lögreglusamþykkt í sveitarfélaginu fyrir sumarið 2016. Sveitarstjóra falið að koma með drög til kynningar á næsta fund sveitarstjórnar.

6. Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019

Endanleg Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019 lögð fram til kynningar.

7. Aðalfundur SSA 2.-3. október á Djúpavogi

Drög að dagskrá aðalfundar SSA 2.-3. október á Djúpavogi lögð fram til kynningar. Þess er farið á leit við sveitarstjórn að hún komi með tillögur um málefni sem taka ætti til umræðu og afgreiðslu í nefndum aðalfundar SSA fyrir 20. ágúst. Sveitarstjóra falið að koma tillögum sveitarstjórnar á framfæri innan tilskilins frests.

8. Búlandsdalur – Hreindýraveiði

Fulltrúar Djúpavogshrepps hafa að gefnu tilefni á undanförnum mánuðum og vikum átt í viðræðum og fundum við stjórn FLH (stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum) ásamt fulltrúa Umhverfisstofnunar á Austurlandi sem hefur málaflokk hreindýraveiða á sinni könnu. Ástæða funda þessara varðar m.a. alvarlegar umkvartanir og ábendingar sem fulltrúum sveitarfélagsins hafa borist vegna slæmrar umgengni vegna notkunar á ökutækjum inn á Búlandsdal sem rekja má að mestu leyti til hreindýraveiða og mögulegra annarra aðila að einhverju leyti. Stjórn FLH hefur sýnt málefni þessu fullan skilning og átelur slíka umgengni og háttsemi mjög m.a. í Búlandsdal, þessa sé þó víðar að gæta. Í ljósi þeirra náttúruspjalla sem þegar hafa verið unnin á landi og vegna endurtekinna kvartana, þá samþykkir sveitarstjórn að allur akstur vélknúinna ökutækja,einnig vegna hreindýraveiða verði bannaður innan við göngubrú sem liggur yfir Búlandsá og uppbyggður vegur liggur að. Þá er áréttað að umferð ökutækja um fólkvanginn á Teigarhorni utan þegar lagðra vega er með öllu óheimil nema umsjónaraðilum á afmörkuðum svæðum. sbr. reglugerð. Síðast en ekki síst er sveitarstjórn sammála um að ekki sé hægt að réttlæta umferð ökutækja á umræddu svæði þar sem að nokkuð stórum hluta er um vatnsverndarsvæði sveitarfélagsins að ræða sem liggur beggja vegna Búlandsár á dalnum.Bann þetta skal taka gildi frá og með 15 júlí næstkomandi og er sveitarstjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar á framfæri með skilmerkilegum hætti og senda stjórn FLH og UST afgreiðslu málsins. Að sama skapi vill sveitarstjórn óska ábendinga frá FLH um hvar megi bæta úr þegar mörkuðum vegslóðum á öðrum svæðum til að auðvelda veiðimönnum aðgengi að veiðslóð. Samþykkt samhljóða.

9. Sumarleyfi sveitarstjórnar 2015

Sumarleyfi ákveðið frá 15. júlí til 30. ágúst. Þó verður boðað til aukafunda ef þörf krefur á tímabilinu.

10. Skýrsla sveitarstjóra

a) Rúllandi snjóbolti. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning sýningarinnar Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur sem opnar í Bræðslunni 11. júlí.
b) Fundarferð verkefnisstjóra sveitarstjórnarmála. Sveitarstjóri kynnti fyrirhugaða fundarferð verkefnisstjóra sveitarstjórnarmála 7.-18. september. Tilgangur heimsóknanna er að fylgja úr hlaði drögum að ályktunum fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2.- og 3. október, fara yfir fyrirkomulag fundarins auk annarra mála er sveitarstjórnarmenn kunna að vilja ræða. Sveitarstjóra falið að finna hentugan fundartíma.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum heimsóknum umhverfisráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra á næstu dögum og vikum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:00.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

10.07.2015