Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

7. maí 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 07.05.2015

12. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 7. maí 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Þorbjörg Sandholt, Rán Freysdóttir og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.
Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:


1. Fjárhagsleg málefni

a) Ársreikningur Djúpavogshrepps 2014, síðari umræða.

Helstu niðurstöður ársreiknings 2014 eru, í þús. króna:

Rekstur A og B hluta

Rekstrartekjur .............................. 515.096
Rekstrargjöld ............................... (456.133)
Afkoma fyrir fjármagnsliði ................ 58.964
Fjármagnsliðir ............................... (18.800)
Tekjuskattur ................................... 218
Rekstrarniðurstaða ......................... 40.381

Rekstur A hluta
Rekstrartekjur .............................. 446.272
Rekstrargjöld ............................... (426.052)
Afkoma fyrir fjármagnsliði .............. 20.220
Fjármagnsliðir ............................. (17.597)
Rekstrarniðurstaða ........................ 2.623

Eignir A og B hluta
Varanlegir rekstrarfjármunir ............. 679.756
Áhættufjármunir og langtímakröfur .... 32.922
Óinnheimtar skatttekjur .................... 12.288
Aðrar skammtímakröfur .................... 21.984
Handbært fé ................................... 41.984
Eignir samtals ................................. 788.933

Eignir A hluta

Varanlegir rekstrarfjármunir ............... 411.120
Áhættufjármunir og langtímakröfur ...... 55.422
Óinnheimtar skatttekjur .................... 12.288
Aðrar skammtímakröfur .................... 10.340
Handbært fé ......................................25.544
Eignir samtals ................................. 514.714

Eigið fé og skuldir A og B hluta
Eiginfjárreikningar ............................. 334.960
Skuldbindingar ................................... 4.033
Langtímaskuldir ................................. 329.337
Skammtímaskuldir ............................ 120.604
Eigið fé og skuldir samtals ................... 788.933

Eigið fé og skuldir A hluta
Eiginfjárreikningar ............................. 53.945
Langtímaskuldir ................................. 272.517
Skammtímaskuldir ............................ 188.252
Eigið fé og skuldir samtals ................... 514.714

Eftir umfjöllun var ársreikningurinn borinn upp, staðfestur og undirritaður af sveitarstjórn.

b) Viðauki við fjárhagsáætlun 2015 – Breyting á rekstarútgjöldum
Gert er ráð fyrir að útgjöld verði 0,7 millj. hærri en fjárhagsáætlun 2015 gerði ráð fyrir. Helgast það af kostnaði vegna úttektar á Djúpavogsskóla.
Samþykkt viðauka hefur í för með sér hækkun rekstargjalda að fjárhæð 700 þús. sem mætt verður með því handbæra fé sem sveitarfélagið hefur til umráða.
Viðauki við fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir árið 2015 er gerður í samræmi við 2. mgr., 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og bókun sveitarstjórnar frá 12. mars 2015. Viðaukinn samþykktur samhljóða.

2. Fundargerðir

a) Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga, dags 27. mars 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Hafnasamband Íslands, dags 10. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
c) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 13. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
d) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 15. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
e) Landbúnaðarnefnd, dags. 16. apríl 2014.
Upprekstrarsamningur á Tungu. Sveitarstjórn staðfestir bókun landbúnaðarnefndar varðandi upprekstrarsamning við Torfa Sigurðsson vegna Tungu til eins árs. Varaformanni landbúnaðarnefndar og sveitarstjóra falið að ganga frá nýjum samningi og funda með TS þar sem tilgreint verði nákvæmlega með hvaða hætti staðið verði að fjallskilum sem mikil vanhöld voru á síðastliðið haust. Sveitarstjórn leggur jafnframt áherslu á að umgengni og samskipti TS við land- og fjáreigendur verði með sómasamlegum hætti. Verði vanhöld á fyrirgerir TS möguleikum sínum til frekari upprekstrarsamninga. Samþykkt með atkvæðum AS, KSV og SDB. RF greiðir atkvæði á móti. ÞS situr hjá.
f) Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 21. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
g) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 27. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
h) Hafnarnefnd, dags. 5. maí 2015.
1) Uppsátur í Djúpavogshöfn. Staðfest. Sveitarstjóra ásamt formanni hafnarnefndar falið að hefja undirbúningsvinnu að nýju uppsátri fyrir smábáta í Djúpavogshöfn.
i) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags 6. maí 2015.
1) Starfstími Djúpavogsskóla. Sveitarstjóra og formanni fræðslu- og tómstundanefndar falið að funda með skólastjóra varðandi starfstíma Djúpavogsskóla.
2) Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni um að unnið verði áfram með tillögur Skólastofunnar. Sveitarstjóra í samráði við formann fræðslu- og tómstundanefndar og skólastjóra falið að auglýsa starf leikskólastjóra hið fyrsta. Jafnframt verði tækifærið notað og auglýst eftir kennurum og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.
j) Ferða- og menningarmálanefnd, dags 13. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Gísli Sigurgeirsson, styrkbeiðni, dags. 4. nóvember 2014. Samþykkt að fela sveitarstjóra ganga til samninga við N4 um mánaðarlegt framlag.
b) Ráðrík, tilboð um ráðgjöf, dags. 24. mars 2015. Lagt fram til kynningar.
c) Vegagerðin, Teigarhorn í Djúpavogshreppi – beiðni um umsagnir Vegagerðarinnar, dags. 1. apríl 2015. Lagt fram til kynningar.
d) Svavar Pétur Eysteinsson, fyrirspurn varðandi ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn, dags. 7. apríl. Sveitarstjórn þakkar erindið og lýsir jafnframt yfir áhuga á að vinna með sérstökum hætti að þessu brýna hagsmunamáli. Sveitarstjórn er því sammála í ljósi umfangs málsins að stofna sérstakan starfshóp til að vinna að málinu með það fyrir augum að ná fram úrbótum til hagsbóta fyrir dreifbýlið í þessum efnum. Formanni atvinnumálanefndar falið að boða til fyrsta fundar í samráði við sveitarstjóra. Erindið jafnframt að hluta tekið fyrir undir lið 4 í fundargerð.
e) Minjastofnun Íslands, styrkúthlutun vegna Faktorshúss 2015, dags. 8. apríl 2015. Umsóknir til Faktorshússins voru sendar inn í tveimur hlutum.
Lagt fram til kynningar, að öðru leyti vísað til lið 3h) í fundargerð um sama málefni.
f) Landsbankinn, viðskipti við Landsbankann, dags 9. apríl 2015. Lagt fram til kynningar. Undir þessum lið kynnti oddviti aðkomu sveitarfélagsins að málinu og efni funda í Reykjavík og Djúpavogi með fulltrúum Landsbankans, sveitarstjórn fagnar því að tekist hafi að verja þessa mikilvægu þjónustu í heimabyggð.
g) Eigendur Berufjarðar, fyrirhuguð veglagning í botni Berufjarðar, dags. 20. apríl 2015. Lagt fram til kynningar og oddvita og sveitarstjóra falið hafa samband við Vegagerðina um málefnið.
h) Minjastofnun Íslands, Faktorshúsið – styrkur úr húsafriðunarsjóði 2015, dags. 29. apríl 2015. Djúpavogshreppi er veittur 10 millj. kr. styrkur vegna Faktorshúss til framkvæmda á árinu 2015. Sveitarstjórn þakkar veittan stuðning sem er mjög mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu við Faktorshúsið. Undir þessum lið gerði oddviti grein fyrir framlögum til hússins og lagði til í framhaldi að farið yrði í samfellda vinnu við fyrsta áfanga við Faktorshúsið þ.e. frágang lóðar og 1. hæð og þeim verkáfanga verði lokið á árinu 2016. Jafnframt verði haldið áfram að leita stuðnings við þetta mikilvæga verkefni. Faktorshúsið mun fá viðamikið og fjölbreytt hlutverk sem mun skila samfélaginu miklu til framtíðar litið.
Samþykkt samhljóða.
i) Ábúendur jarða sunnan Djúpavogs, refa og minkaveiðar, dags. 30. apríl 2015.
Að gefnu tilefni upplýsist að kostnaður Djúpavogshrepps vegna refaveiða frá árinu 2009 til 2015 er kr. 11.274.130. Endurgreiðslur frá ríkinu á sama tíma voru kr. 1.095.300. Til minkaveiði á sama tíma hefur verið varið kr. 3.723.669, mótframlag frá ríkinu var 1.694.483. Í ljósi þess að enginn sótti um starf minkaveiðimanns er sveitarstjórn sammála um að nýta það fé sem til þeirra var ætlað til refaveiða. Samþykkt að auka fé til refaveiða tímabundið um kr. 800.000 sem skiptist jafnt á veiðisvæði og er ætlað til grenjavinnslu eingöngu. Sveitarstjóra falið að ganga til samninga við refaveiðimenn varðandi framlengingu á samningum þeirra miðað við þessa aukafjárveitingu. Jafnframt verði fyrirkomulag veiðanna tekið til endurskoðunar sbr. bókun sveitarstjórnar 9. apríl 2015.
j) Búnaðarfélag Beruneshrepps, refa og minkaveiðar, ódags. Sjá bókun 3i)

4. Uppbygging ljósleiðaranets og ríkisstyrktarreglur EES

Farið yfir gögn frá Póst- og fjarskiptastofnun varðandi uppbyggingu ljósleiðaranets og ríkisstyrktarreglur EES. Að öðru leyti vísast til liðar 3d) í fundargerð.

5. Skýrsla sveitarstjóra

a) Hraðahindranir. Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum við Vegagerðina vegna hraðahindrana en mikil þörf er á að draga úr hraða bifreiða sem koma inn í bæinn. Gert er ráð fyrir að umferðaröryggisfulltrúi heimsæki Djúpavog fljótlega.
b) Faktorshús. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda við Faktorshús. Gert er ráð fyrir að vinna við grjóthleðslu hefjist um miðjan mánuðinn og ljúki fyrir miðjan júní.
c) Salernisaðstaða. Sveitarstjóri gerði grein fyrir viðræðum við N1, Samkaup og Hótel Framtíð vegna salernisaðstöðu við Samkaup/tjaldstæði. Sveitarstjóra falið að vinna að málinu áfram í samráði við umhverfis- og framkvæmdanefnd og byggingarfulltrúa.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 19:15.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Gauti Jóhannesson, fundarritari.

11.05.2015