Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

13. febrúar 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 12.02.2015

9. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 12. febrúar 2015 kl. 16:30. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Þorbjörg Sandholt, Rán Freysdóttir og Kári Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Oddviti óskaði eftir að mál 2g, 2h, 4 og 5 yrðu tekin fyrir á fundinum þó þau væru ekki á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1. Fundargerðir

a) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 7. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 12. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
c) Hafnasamband Íslands, dags. 16. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
d) SSA, dags. 21. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
e) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 23. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
f) Cruise Iceland, dags. 23. janúar 2015. Lögð fram til kynningar.
g) Hafnarnefnd Djúpavogshrepps, dags. 26. janúar 2015. Liður 1, breytingar á gjaldskrá staðfestur. Liður 2, frestun ákvörðunar um frekari framkvæmdir þar til ákvörðun ríkisins um fjárframlag liggur fyrir staðfestur.
Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
h) Atvinnumálanefnd, dags. 9. febrúar 2015. Liður 2, Íris Hákonardóttir erindi um sumarlokun leikskólans. Atvinnumálanefnd bókaði eftirfarandi: Við leggjum til að þetta verði skoðað fyrir sumarið 2015. Sú tillaga kom fram að ef ekki næðist samstaða meðal starfsfólks leikskólans og yfirmanna um opnun allt árið, þá væri hægt að leigja út starfsemina til einkaaðila á þeim tíma sem sumarlokunin stendur yfir.
Sama erindi var tekið fyrir hjá fræðslu og tómstundanefnd 2, október 2014 en erindinu hafði verið beint til nefndanna beggja á fundi sveitarstjórnar 11. september 2014. Fræðslu og tómstundanefnd bókaði eftirfarandi:
Erindið snýr að sumarlokun Leikskólans Bjarkatúns. Erindið var rætt og ákveðið að mæla með því við sveitarstjórn að unnið verið að því að skipuleggja gæsluvöll sem komi til móts við þessa þörf. Einnig mælir nefndin með því að námskeiðið börn og umhverfi (barnapíunámskeið) verði í boði hér á næstunni.
Lagt til að unnið verði út frá bókun fræðslu og tómstundanefndar og nefndin vinni að nánari útfærslu. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
i) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 10. febrúar 2015. Lögð fram til kynningar.

2. Erindi og bréf

a) Landsnet, kerfisáætlun 2015-2024, dags. 2. janúar 2015. Lagt fram til kynningar.
b) Skipulagsstofnun, tillaga að breytingu á Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008-2020, Teigarhorn, dags. 8. janúar 2015. Lagt fram til kynningar.
c) Fljótsdalshérað, bókun náttúruverndarnefndar Fljótsdalshéraðs, dags. 12. janúar 2014. Lagt fram til kynningar.
d) Umsögn um tillögu um Landsskipulagsstefnu. Lagt fram til kynningar.
e) Hafnasamband Íslands, ársreikningur Hafnasambands Íslands 2014, dags. 3. febrúar 2014. Lagt fram til kynningar
f) Sýslumaðurinn á Austurlandi, umsókn um rekstarleyfi á Karlsstöðum í Berufirði, dags. 3. febrúar 2015. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir.
g) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, styrkumsókn vegna ljósmyndavefs, dags. 3. febrúar 2015. Hafnað.
h) Sýslumaðurinn á Austurlandi, umsókn um endurnýjun og breytingu á rekstarleyfi fyrir Hótel Framtíð, dags. 3. febrúar 2015. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir.
i) Guðmundur Valur Gunnarsson, umsókn um lóðarskipti á Lindarbrekku. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir.

3. Samkomulag við Náttúran.is

Oddviti kynnti samkomulag við fyrirtækið Náttúra.is um samstarf um Endurvinnslukortið. Innifalið í samkomulagi er meðal annars ítarupplýsingar á vefsíðu Náttúra.is um tilhögun endurvinnslu- sorphirðu og staðsetningar losunarsvæða á ýmsum endurvinnsluefnum og öðrum úrgangi á Djúpavogi. Um er að ræða miðlægan gagnagrunn sem sveitarfélög og íbúar þeirra geta nýtt sér með skilvirkum hætti. Vefslóðin verður birt á heimasíðu Djúpavogshrepps innan skamms og verður auglýst sérstaklega á heimasíðunni. Áskriftargjald er 11.160.kr á mán. 

4. Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt landnotkun í landi Teigarhorns

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða lýsingu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt landnotkun í landi Teigarhorns. Lýsingin var kynnt fyrir skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps þann 23. janúar sl. og á borgarafundi á Djúpavogi 24. janúar sl. Ábendingarfrestur var veittur frá 27. janúar til 5. febrúar 2015 og bárust engar ábendingar. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda lýsingu að breytingu á aðalskipulagi dags. 27. janúar 2015 ásamt viðbótum dags. 12. febrúar 2015 til umsagnar eftirfarandi stofnana: Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar, Skógræktar ríkisins, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Óskað er eftir að athugasemdum ofangreindra stofnana, ef einhverjar eru, fyrir 10. mars 2015.

5. Teigarhorn - lýsing á deiliskipulagi

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða lýsingu að deiliskipulagi jarðarinnar Teigarhorns í Djúpavogshreppi. Lýsingin var kynnt fyrir skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps þann 23. janúar sl. og á borgarafundi á Djúpavogi 24. janúar sl. Ábendingarfrestur var veittur frá 27. janúar til 5. febrúar 2015 og bárust engar ábendingar.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda lýsingu að deiliskipulagi dags. 27. janúar 2015 ásamt viðbótum dags. 12. febrúar 2015 til umsagnar eftirfarandi stofnana: Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar, Skipulagsstofnunar, Skógræktar ríkisins, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Óskað er eftir að athugasemdum ofangreindra stofnana, ef einhverjar eru, fyrir 10. mars 2015.

6. Ungmennaráð – erindi frá Óskalistanum

Sveitarstjórn er jákvæð fyrir stofnun ungmennaráðs og sammála um að beina erindinu til fræðslu- og tómstundanefndar.

7. Starfshópur um starfstíma leikskóla

Lagt til að unnið verði út frá bókun fræðslu og tómstundanefndar og nefndin vinni að nánari útfærslu.

8. Samkomulag um aukna byggðafestu á Djúpavogi

Sóley vék að fundi. Sveitarstjóri kynnti samkomulag um aukna byggðafestu á Djúpavogi milli Byggðastofnunar og Búlandstinds ehf. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við samkomulagið og fagnar því að fiskvinnsla sé að nýju hafin undir merki Búlandstinds. Sveitarstjórn vill þó leggja áherslu á að þau 400 þorskígildistonn sem að Byggðastofnun leggur til duga hvergi nærri til að bæta upp þær aflaheimildir sem teknar voru frá byggðarlaginu árið 2014. Sóley kom inn á fund.

9. Samningur um sóknaráætlun Austurlands 2015-2019

Sveitarstjóri kynnti nýjan samning um sóknaráætlun Austurlands 2015-2019 og sérstaklega kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga.

10. Siðareglur Djúpavogshrepps

Siðareglur sem vísað var til síðari umræðu 16. október 2014 samþykktar samhljóða og undirritaðar af fulltrúum í sveitarstjórn.

11. Skýrsla sveitarstjóra

a) Málefni Kvennasmiðjunnar ehf. Eðvald Smári Ragnarsson krafðist þess 16. desember 2014 að mál er hann höfðaði gegn Kvennasmiðjunni ehf. og Djúpavogshreppi 27. október 2015 yrði fellt niður án kostnaðar. Þriðjudaginn 13. janúar 2015 úrskurðaði Héraðsdómur Austurlands að málið væri fellt niður. Stefnanda var gert að greiða Djúpavogshreppi og Kvennasmiðjunni ehf. málskostnað.

b) Bauja utan við Gleðivík. Bauja utan við Gleðivík hefur slitnað upp eða sokkið. Ljóst er að endurnýja þarf hana. Kostnaður vegna þess verður 1-2 millj. Ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun og því verður gengið frá viðauka vegna málsins um leið og nákvæmari kostnaðaráætlun liggur fyrir.

c) Fyrirkomulag snjómoksturs í Djúpavogshreppi. Sveitarstjóri gerði grein fyrir með hvaða hætti staðið er að snjómokstri í sveitarfélaginu. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 700 þús. til snjómoksturs og hálkueyðingar. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að sjá til þess að snjómokstur og hálkueyðing sé með viðeigandi hætti bæði á akbrautum og gangstéttum.

d) Vegaframkvæmdir við botn Berufjarðar. Sveitarstjóri og oddviti gerðu grein fyrir samskipum við vegamálastjóra. Innan Vegagerðarinnar er verið að fara yfir fjárhagsstöðu þeirra verkefna sem eru í gangi. Í óformlegum samskiptum nýverið kom fram hjá vegamálastjóra að lítið svigrúm væri til verkefna á þessu ári og ekki afráðið hvort eða hvað verður farið í af því sem var með fjárveitingu árið 2015.

e) Fundur með stjórn Eyþings og þingmönnum kjördæmisins. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann sat á Mývatni 11. febrúar með þingmönnum kjördæmisins, stjórn Eyþings og SSA þar sem farið var yfir málefni kjördæmisins.

f) Brunavarnir og sjúkraflutningar. Sveitarstjóri gerði grein fyrir viðræðum sem staðið hafa yfir um að Brunavarnir Austurlands taki yfir sjúkraflutninga líkt og gert hefur verið á Vopnafirði.

g) Húsakönnun. Húsakönnun í Djúpavogshreppi er komin út. Í þessari glæsilegu samantekt um eldri og merkari hús í sveitarfélaginu er getið um 19 hús í dreifbýli sveitarfélagsins og 16 hús í þéttbýlinu. Húsakönnunin hefur þegar vakið mikla athygli og mun nýtast sveitarfélaginu vel á komandi árum m.a. er varðar framgang húsverndarstefnu á svæðinu. Þótt um viðamikla sé að ræða er ekki um endanlega úttekt að ræða á húsakosti í sveitarfélaginu og því verður hægt að uppfæra og bæta við húsakönnun þessa í framtíðinni. Vert er að þakka Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur fyrir einstaklega gott handbragð vegna vinnu við húsakönnunarinnar. Verkefnið var unnið með góðum stuðningi Minjastofnunar Íslands sem ber að þakka sérstaklega.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 20:30.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Þorbjörg Sandholt, fundarritari.

 

13.02.2015