Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

6. júní 2014

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 06.06.2014

48. fundur 2010 – 2014

 

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps föstudaginn 6. júní 2014 kl. 16:00.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt: Andrés Skúlason, Albert Jensson, Sóley Dögg Birgisdóttir, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Fjárhagsleg endurskipulagning
Sveitarstjóri kynnti hugmyndir um hagræðingu í rekstri Djúpavogshrepps og möguleikum í fjárhagslegri endurskipulagningu. R3 Ráðgjöf sem komið hefur að samskonar verkefnum hjá fjölda sveitarfélaga hefur lagt fram umfangs- og kostnaðaráætlun. Gert er ráð fyrir að endanleg skýrsla gæti legið fyrir um mánaðarmót ágúst/september nk.
Samþykkt að vísa málinu til næstu sveitarstjórnar til afgreiðslu.
b) Viðauki við fjárhagsáætlun 2014. Tilfærslur og breyting á fjárfestingu:
I. Fjárfesting í félagsaðstöðu eldri borgara að Markarlandi 2
Í upphaflegri fjárhagsáætlun 2014 var gert ráð fyrir óverulegri fjárfestingu vegna félagsaðstöðu eldri borgara í fasteigninni að Markarlandi 2. Nú er fyrirséð að framkvæmdakostnaður muni nema 3.500.000 kr. á árinu 2014.
Áhrif: Fjárfestingaáætlun 2014 hækkar um 3.500.000 kr. og koma til lækkunar á handbæru fé.
Heildaráhrif viðauka
Samþykkt viðauka hefur í för með sér nettó hækkun fjárheimilda til fjárfestinga að fjárhæð 3.500.000 kr. sem mætt verður með því handbæra fé sem sveitarfélagið hefur til umráða.
Breytingar afskrifta, verðbóta og annarra afleiddra liða sem tengjast ofangreindum breytingum færast á afkomu ársins.
Viðauki við fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir árið 2014 er gerður í samræmi við 2. mgr., 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

2. Fundargerðir

a) FMA, dags. 28. maí 2014. Styrkbeiðni kr. 100.000 til handa Hrönn Jónsdóttur vegna útgáfu bókar staðfest. Samþykkt að ráða verkefnisstjóra vegna CEAC. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
b) FJN, dags. 4. júní 2014. Skóladagatal staðfest. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
c) HAUST, dags. 15. maí 2014. Lögð fram til kynningar.
d) Hafnasamband Íslands, dags. 15. maí 2014. Lögð fram til kynningar.
e) SÍS, dags. 16. maí 2014. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Austurbrú, styrkveiting Austurbrúar 2014, dags. 26. maí 2014. Austurbrú ses og Menningarráð Austurlands veita styrk til CEAC-Verkefnið Chinese European Art Centre Djúpivogur kr. 800.000.
b) SÍS, kynning á siðanefnd, ódags. Lagt fram til kynningar.
c) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 26. maí 2014. Lagt fram til kynningar.
d) UMF. Neisti, umsókn um flutning á húsi sveitarfélagsins sem staðsett er á Hamri, dags. 19. maí 2014. Samþykkt að flytja húsið, sótt verður um stöðuleyfi til bráðabirgða þar til nýtt deiliskipulag liggur fyrir.
e) Austurfrétt, stuðningur við starfsemi svæðisbundinna miðla, dags. 15. maí 2014. Lagt fram til kynningar.
f) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, aukið fjármagn til uppbyggingar og verndaraðgerða ferðamannastaða, dags. 2. júní 2014. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ákveðið að veita 5.000.000 kr. styrk vegna framkvæmda við göngustíga við Teigarhorn í Djúpavogshreppi.

4. Listviðburður í samvinnu við CEAC

Alþjóðlega myndlistarsýningin „Rúllandi snjóbolti-5, Djúpivogur“ verður opnuð laugardaginn 12. júlí nk. kl. 15:00 í Bræðslunni á Djúpavogi. Alls taka 33 listamenn frá Kína, Evrópu og Íslandi þátt í sýningunni sem er skipulögð af Chinese European Art Center (CEAC).
Sýningin er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og CEAC. Þessi kínversk-evrópska menningarmiðstöð er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína. Ísland er fyrsta landið utan Kína þar sem stofnunin stendur fyrir sýningu.
Flestir listamannana sem þátt taka í sýningunni eru alþjóðlegir. Nú í sumar 2014 munu Hollensku gestalistamennirnir Marjan Laaper og Scarlett Hooft Graafland dvelja á staðnum og vinna að list sinni fyrir sýninguna ,,Rúllandi Snjóbolti-5“ með þrjátíu og þremur listamönnum frá Kína og Evrópu. Þátttakendur fyrir Íslands hönd eru Erró, Ragnar Kjartansson Ragna Róbertsdóttir, Rúrí, Hrafnkell Sigurðsson, Þór Vigfússon, Sara Riel, Árni Guðmundsson, Kristján Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson. Sveitarstjórn sér sérstaka ástæðu til að fagna þessum listviðburði enda af slíkri stærðargráðu og gæðum. Sömuleiðis er sérstök ástæða til að þakka þeim Sigurði Guðmundssyni sem okkur er orðin að góðu kunnur og konu hans Ineke fyrir að koma þessum mikla listviðburði upp hér á Djúpavogi sem ætlað er að verði að árlegum viðburði.

Menningarráð Austurlands hefur styrkt verkefnið um kr. 800.000.

5. Samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Háskóla Íslands

Sveitarstjóri kynnti skýrslur sem unnar voru af nemendum í safnafræði við Háskóla Íslands. Samþykkt að leggja þær fyrir ferða-, menningar- og atvinnumálanefnd.

6. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Oddviti kynnti samning um styrkveitingu kr. 11.590.000 vegna Teigarhorns – deiliskipulag, uppbygging stíga og endurbætur á húsakosti, auk mótframlags frá sveitarfélaginu og stöðu verkefnisins og annarra stuðnings- og samstarfsverkefna vegna Teigarhorns.

7. Kjör sveitarstjórnarmanna

Sveitarstjóri kynnti skýrslu sem hag- og upplýsingasvið SÍS gerði um kaup og kjör sveitarstjórnarmanna og þeirra sem starfa í nefndum á vegum sveitarfélaganna 2013-2014.

8. Deiliskipulag miðsvæðis.

Oddviti kynnti vinnu við deiliskipulag miðsvæðis á Djúpavogi sem vinna er hafin við.

9. Við lok kjörtímabils Nýlistans

Oddviti óskaði eftir að eftirfarandi bókun yrði lögð fram.
Nú þegar Nýlistinn hefur lokið samfelldri þriggja kjörtímabila setu í meirihluta í sveitarstjórn Djúpavogshrepps verður ekki hjá því litið að fagna þeim mikla árangri sem náðst hefur undir stjórn listans oft þó við erfiðar ytri aðstæður, samstarfslistum skal sömuleiðis þakkað samstarf og samvinnu í þeim árangri sem náðst hefur. Segja má að öllum meginmarkmiðum sem Nýlistinn setti fram á starfstíma sínum hafi náðst fram og einnig var tekist á við mörg önnur og ný metnaðarfull verkefni sem voru leyst farsællega af hendi. Önnur verkefni sem á skemmri veg eru komin s.b.r. fráveitumál og gatnagerð verður unnið að á komandi árum. Mikil uppbygging á mannvirkjum og þjónustu átti sér stað á starfstíma Nýlistans sérstaklega í þágu ungs fjölskyldufólks, nægir þar að nefna að ný sundlaug var tekin í notkun og nýr leikskóli. Gatnaframkvæmdir voru umtalsverðar og nýframkvæmd var við smábátahöfn. Þá voru gerðar viðamiklar skipulagsbreytingar á skólaumhverfinu þar sem grunn- leik- og tónskóli voru sameinaðir undir nafni Djúpavogsskóla. Sérstök áhersla var lögð á styrkingu tónskóla og samstarf við Neista allt til fyrirmyndar og af því tilefni m.a. ráðinn Íþrótta- og æskulýsfulltrúi. Þá var einnig ráðinn ferða- og menningarmálafulltrúi í fullt starf. Tryggð var staða héraðslæknis og lögregluembættis, hjúkrunarfræðingur ráðinn, auk þess komið á fót starfsstöð Austurbrúar. Þjónusta undir stjórn Nýlistans hefur því almennt verið stórbætt gagnvart íbúum á síðustu árum.

Sú mikla uppbygging á sviði ferðaþjónustu hefur skilað Djúpavogshreppi í þriðja sæti yfir fjölsóttustu ferðamannastaði á Austurlandi. Aðkoma sveitarfélagsins að Teigarhorni skapar einnig mikla möguleika. Þá hefur verið unnið ötullega að menningartengdum verkefnum sbr. Hammond, húsvernd, Ríkarðshúsis og fl. Þá skal nefna mikinn metnað forsvarsmanna sveitarfélagsins á sviði umhverfismála sem hefur einnig gefið sveitarfélaginu jákvæða ímynd sem hefur verið til þess fallinn að sveitarfélagið hefur almennt fengið jákvæða umfjöllun og um leið laðað að ungt fjölskyldufólk sem að er lykillinn að framtíð svæðisins. Sveitarfélagið vinnur einnig um þessar mundir að bættri upplýsingaöflun með gerð nýrrar og skilvirkari heimasíðu.

Ekki verður látið hjá líða að minnast á þá tímabundnu erfiðleika sem steðjað hafa að á síðustu vikum er varðar óvissu um framtíð fiskvinnslu á svæðinu. Sveitarstjórn metur að fulltrúar sveitarfélagsins hafi brugðist við með ábyrgum hætti og bindur vonir við að fiskvinnsla á svæðinu geti áfram sem áður blómstrað hér við voginn.

Nýlistinn vill við lok þessara tímamóta þakka sérstaklega íbúum öllum í Djúpavogshreppi gott samstarf því án þeirra hefði umræddur árangur ekki náðst. Fyrrverandi sveitarstjóra Birni Hafþóri Guðmundssyni eru að þessu tilefni færðar þakkir fyrir hans hlut.

Þá skal hér síðast en ekki síst að lokum þakka Gauta Jóhannessyni sveitarstjóra fyrir hlut hans í þeim góða árangri sem náðist á því kjörtímabili sem nú er að líða en sveitarstjórn metur að störf hans eigi veigamikinn þátt í þeirri stöðu sem sveitarfélagið hefur náð að skapa sér. Að sama skapi vill oddviti þakka núverandi sveitarstjórn og fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum sérstaklega ánægjulegt og árangursríkt samstarf.

 

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:45. Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð. Gauti Jóhannesson, fundarritari.

10.06.2014