Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

15. maí 2014

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 15.05.2014

47. fundur 2010 – 2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 15. maí 2014 kl. 16:00. 

Fundarstaður: Geysir.

Mætt: Andrés Skúlason, Albert Jensson, Sóley Dögg Birgisdóttir, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Andrés stjórnaði fundi.

Sveitarstjórn samþykkir að taka fyrir liði 2 b), 4 og lið 5 sem ekki voru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni - Ársreikningur Djúpavogshrepps 2013, síðari umræða.

Helstu niðurstöður ársreiknings 2013 eru, í þús. króna:

Rekstur A og B hluta

Rekstrartekjur .............................. 446.649
Rekstrargjöld ............................... (408.418)
Afkoma fyrir fjármagnsliði ......... 38.231
Fjármagnsliðir ............................. (29.389)
Tekjuskattur ................................. 197
Rekstrarniðurstaða .................... 9.039

Rekstur A hluta
Rekstrartekjur .............................. 385.532
Rekstrargjöld ............................... (378.467)
Afkoma fyrir fjármagnsliði ......... 7.065
Fjármagnsliðir ............................. (25.860)
Rekstrarniðurstaða .................... (18.794)

Eignir A og B hluta
Varanlegir rekstrarfjármunir ............. 680.452
Áhættufjármunir og langtímakröfur . 40.150
Óinnheimtar skatttekjur .................... 13.577
Aðrar skammtímakröfur .................... 21.503
Handbært fé ........................................ 23.549
Eignir samtals .................................... 779.231

Eignir A hluta

Varanlegir rekstrarfjármunir ............. 410.718
Áhættufjármunir og langtímakröfur . 62.650
Óinnheimtar skatttekjur .................... 13.577
Aðrar skammtímakröfur .................... 8.807
Handbært fé ........................................ 8.313
Eignir samtals .................................... 504.065

Eigið fé og skuldir A og B hluta
Eiginfjárreikningar ............................. 294.579
Skuldbindingar ................................... 4.250
Langtímaskuldir ................................. 346.850
Skammtímaskuldir ............................ 133.551
Eigið fé og skuldir samtals .............. 779.231

Eigið fé og skuldir A hluta
Eiginfjárreikningar ............................. 51.322
Langtímaskuldir ................................. 289.088
Skammtímaskuldir ............................ 163.655
Eigið fé og skuldir samtals .............. 504.065

Sveitarstjórn telur að góður árangur hafi náðst síðustu ár í fjármálum Djúpavogshrepps. Á síðasta ári tók sveitarsjóður engin ný lán þrátt fyrir fjárfrekar framkvæmdir og viðhaldsverkefni. Af helstu framkvæmdum má telja nýframkvæmd við trébryggju fyrir smábáta við Djúpavogshöfn sem nú er að mestu lokið, bygging á félagsaðstöðu fyrir eldri íbúa að Markarlandi 2, gatnaframkvæmdir, endurbyggingu gamalla húsa og fl.

Miðað við íbúatölu verður þjónustustig að teljast hátt í sveitarfélaginu og hefur sveitarstjórn kappkostað að viðhalda og bæta það á kjörtímabilinu við annars lítið fjárhagslegt svigrúm.
Á síðasta ári var eins og áður segir bætt úr félagsaðstöðu og þjónustu við eldri íbúa og þá hafa einnig verið tryggð úrræði við dagvistun frá og með næsta hausti. Fulltrúar sveitarfélagsins komu sömuleiðis að því að þrýsta á heilbrigðisyfirvöld og tryggja frekar stöðu héraðslæknis í Djúpavogshreppi með ráðningu nýs læknis. Þá tókst sömuleiðis að ráða í stöðu hjúkrunarfræðings, sem eru góðar fréttir og mikið öryggismál fyrir íbúa svæðisins, ekki síst með tilliti til hárrar prósentu barnafjölskyldna á Djúpavogshreppi.

Sveitarstjórn vill þakka sveitarstjóra Gauta Jóhannessyni sem áður hlut sinn í þeim góða árangri sem náðst hefur við annars erfið ytri skilyrði sem sveitarfélagið hefur þurft að glíma við á síðustu árum. Sveitarstjórn er sem áður meðvituð um að áfram þarf að gæta aðhalds í rekstri, ekki síst nú um stundir þegar óvissuástand hefur skapast í kringum stærsta vinnustaðinn Vísir hf á Djúpavogi. Það er mat núverandi sveitarstjórnar að mikilvægt sé að tíminn á næstu vikum verði vel nýttur til aðgerða svo og til að leggja mat á þau áhrif sem kunna að verða á sveitarsjóð ef áform Vísis hf ganga eftir að öllu leyti.
Eftir umfjöllun var ársreikningurinn borinn upp, staðfestur og undirritaður af sveitarstjórn

2. Fundargerðir

a) SSA, dags. 6. maí 2014. Lögð fram til kynningar.
b) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga dags. 12. maí 2014. Sveitarstjóra falið að árétta fyrra erindi þar sem leitað var stuðnings Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga við bókun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps um atvinnumál 25.apríl 2014.

3. Erindi og bréf

a) Skólaskrifstofa Austurlands, dags. 9. maí 2014. Sveitarstjórn tekur undir með Skólaskrifstofu Austurlands varðandi mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.
b) Kálkur ehf, dags. 30. apríl 2014. Rán Freysdóttir. Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með starfsemi Löngubúðar og er sammála um að fela sveitarstjóra og oddvita að kalla eftir frekari gögnum og ganga til samninga um framhald leigu.

4. Auknar aflaheimildir til sjávarbyggða í vanda – Tilkynning frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Bókun sveitarstjórnar:

“Tillögur sjávarútvegsráðherra eru víðsfjarri kröfum sem lagðar voru fram í bókun um málið á síðasta fundi sveitarstjórnar. Ljóst er að ef viðbrögð stjórnvalda verða í samræmi við tillögu ráðherra og engar raunhæfar mótvægisaðgerðir verði settar fram, lýsir sveitarstjórn fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda gangi fyrirhugaðar aðgerðir Vísis hf eftir í skjóli þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem byggðinni er ætlað að búa við.”
Fulltrúar sveitarstjórnar munu það sem eftir lifir kjörtímabilsins halda áfram að kalla eftir viðbrögðum frá stjórnvöldum og berjast fyrir þeim miklu hagsmunum sem í húfi eru fyrir samfélagið. Sveitarstjórn mun kalla eftir fundi með fulltrúum Byggðstofnunar strax eftir helgi til að fara yfir stöðuna og mögulega aðkomu stofnunarinnar að málinu og einnig með uppbyggingu annarra atvinnutækifæra í huga.

5. Klasamiðstöð

Sveitarstjóri gerði grein fyrir viðræðum fulltrúa Djúpavogshrepps sem staðið hafa yfir við Afl Starfsgreinafélag um afnot af húsnæði félagsins í Sambúð undir klasasamstarf og nýsköpun fyrir minni fyrirtæki og frumkvöðla í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð og Austurbrú.
Stefnt er að gerð samnings um notkun húsnæðisins sem fyrst og sveitarstjóra falið að mynda starfshóp um verkefnið. Sveitarstjórn bindur vonir við að þetta samstarfsverkefni geti orðið til að fjölga nýjum og fjölbreyttari störfum í samfélaginu á Djúpavogshreppi.

6. Kynningarmyndband

Sveitarstjóri kynnti samning sem gerður hefur verið við Arctic Projects vegna kynningamyndbands sem verið er að vinna til að vekja athygli á áhrifum fiskveiðistjórnunarkerfisins á hina blómlegu byggð á Djúpavogi í ljósi áforma Vísis hf.
Verkefnið er unnið með stuðningi AFLs verkalýðsfélags.

7. Skólamötuneyti

Samningur vegna skólamötuneytis rennur út í lok þessa skólaárs. Sveitarstjóra falið að leita samninga um skólamötuneyti til næstu fjögurra ára í samræmi við innkaupareglur sveitarfélagsins.

8. Refa- og minkaeyðing

Sveitarstjóri kynnti samninga vegna veiða á ref og mink í sveitarfélaginu.

9. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri og oddviti gerðu grein fyrir ferð til Reykjavíkur
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu starfsmannamála. Þrír hafa sótt um stöðu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og stefnt er að því að ganga frá ráðningu fljótlega.
c) Sveitarstjórnarkosningar. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu undirbúnings vegna sveitarstjórnarkosninga 31. maí 2014.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:45. Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð. Gauti Jóhannesson, fundarritari

16.05.2014