Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

9. mars 2011

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  09. 03. 2011

9. fundur 2010 - 2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 9. mars. 2011 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Bryndís Reynisdóttir, Albert Jensson, Þórdís Sigurðardóttir og Sóley Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.


Oddviti óskaði eftir að sveitarstjórn samþykkti að bæta liðum 5 og 6 á dagskrána.  Tillaga þar um borin upp og samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni

a)    Þriggja ára áætlun 2012 – 2014. Síðari umræða. Að lokinni umræðu var áætlunin samþykkt samhljóða.

2.    Fundargerðir

a)    Skólanefnd, 16. febrúar 2011. Lögð fram til kynningar og staðfest.
b)    Skólanefnd 2. mars 2011. Lögð fram til kynningar og staðfest.
c)    Skólanefnd 4. mars 2011. Lögð fram til kynningar og staðfest.
d)    Samband sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 28. febrúar 2011. Lögð fram til kynningar.
e)    Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. febrúar.  Lögð fram til kynningar.

3.    Erindi og bréf

a)    Umboðsmaður barna, dags. 2. mars 2011. Niðurskurður sem bitnar á börnum. Lagt fram til kynningar
b)    Orkusetur, fundarherferð vegna sveitarf. á köldum svæðum, dags. 3. mars 2011. Lagt fram til kynningar.
c)    Innanríkisráðuneytið, 18. febrúar 2011. Snjómokstur á Axarvegi. Lagt fram til k.
d)    Lánasjóður sveitarfélaga 23. febrúar 2011. Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar.
e)    Félag leikskólakennara, 22. febrúar 2011. Ályktun vegna niðurskurðar. Lagt fram til kynningar.
f)    Félag tónlistarskólakennara, dags. 11. febrúar 2011. Ályktun mótmælafundar. Lagt fram til kynningar.
g)    Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 9. febrúar. Námskeið fyrir sveitarstjórnamenn vorið 2011. Lagt fram til kynningar.
h)    Samband íslenskra sveitarfélaga, 24. febrúar. XXV landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar.
i)    Samband íslenskra sveitarfélaga, 1. mars 2011.  Umsögn um niðurstöðu Ríkislögreglustjóra.  Lagt fram til kynningar.

4.    Kjör landsþingsfulltrúa 2010 – 2014

Breyting gerð á kjöri landsþingsfulltrúa sveitarfélagsins frá 2. fundi 8. júlí 2010. Aðalmaður var kjörinn Andrés Skúlason. Varamaður Bryndís Reynisdóttir. Samþykkt samhljóða.

5.    Innkaupareglur Djúpavogshrepps.

Sveitarstjóri kynnti drög að innkaupareglum fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjóra veitt heimild til að vinna að framgangi málsins að öðru leyti lagt fram til kynningar.

6.    Siðareglur Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og verklag við meðferð persónu-upplýsinga.

Á fundi sameiginlegrar félagsmálanefndar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Vopnafjarðarhrepps 21. febrúar 2011 voru lagðar fram til kynningar og samþykktar annars vegar siðareglur félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og hins vegar verklagsreglur við meðferð persónuupplýsinga vegna fatlaðs fólks hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs. Reglurnar  lagðar fram til kynningar hjá sveitarstjórn og samþykktar. Sveitarstjóra falið að tilkynna   félagsmálastjóra Fljótsdalshéraðs um samþykktina.

7.    Málefni Héraðsskjalasafns Austurlands

Tekið fyrir erindi 23.02.2011 frá Halldóri Árnasyni vegna Bókasafns Halldórs og Önnu sem er vistað á Héraðskjalasafni Austurlands. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu þessa máls af hálfu stjórnar Héraðskjalasafnsins.

8.    Þjónustuíbúðir á Helgafelli

Oddviti kynnti ný drög að hönnun á þjónustuíbúðum á Helgafelli ásamt kostnaðarútreikningum. Sveitarstjórn lýst vel á hugmyndirnar og er sammála um að unnið verið áfram að framgangi málsins.

9.    Kynningarfundur Matís

Sveitarstjórn lýsir ánægju með kynningarfund þann sem fulltrúar frá MATÍS héldu í Löngubúð þann 17. feb. síðastliðinn og hvetur  íbúa sveitarfélagsins í framhaldi að kynna sér enn frekar þá þjónustu og aðstöðu sem viðkomandi stofnum hefur upp á að bjóða.

10.    Gift ehf.

Efni bréfs frá ríkislögreglustjóra dagss. 9 feb. síðstl. lagt fram til kynningar. Bréfið varðar málefni Gift ehf þar sem ríkislögreglustjóri vísar kæru Djúpavogshrepps dags.17. feb. 2010 á hendur Gift ehf frá.  Sveitarstjórn lýsir furðu á lyktum þessa máls af hendi ríkislögreglustjóra sem hefur gefið sér næstum heilt ár í að komast að þessari niðurstöðu. Sveitarstjórn hefur þegar sent bréf  og vísar sama máli áfram til ríkissaksóknara til meðferðar að höfðu samráði við lögfræðideild Sambands íslenskra sveitarfélaga.

11.    Breyting á samþykkt um hundahald

Ákveðið að samþykkt um hundahald í Djúpavogshreppi frá 1. október 2008 / nr. 996 skuli standa óbreytt enda fullnægir hún þeim kröfum sem til hennar eru gerðar án orðalagsbreytinga.

12.    Skólamál  - samrekstur grunn- leik- og tónskóla.

(Undir þessum lið viku Þórdís og Albert af fundi).

Sveitarstjóri lagði fram minnispunkta og samantekt þar sem farið var yfir bæði rekstrarlega og faglega þætti er varðar málið. Eftir ítarlegar umræður og með hliðsjón að framlögðum gögnum, m.a. frá skólanefnd og með vísan til samráðs og viðræðna við skólastjórnendur og formann Kennarasambands Íslands og fl. aðila samþykkir sveitarstjórn að unnið verði að því að sameina rekstur leik- grunn- og tónskóla með einum skólastjóra. Sveitarstjórn væntir að breytingar þessar muni skila bæði rekstarlegum og faglegum ávinningi og munu styrkja skólastarfið í heild sinni til framtíðar litið. Sveitarstjórn óskar þess í framhaldi að allir sem hlut eiga að máli og tengjast málefnum skólans með einum eða öðrum hætti leggist á eitt við að sameining þessi gangi sem best eftir, skólastarfinu, nemendum og starfsfólki til heilla. Þá fjallaði sveitarstjórn um fyrirkomulag er varðar ráðningu skólastjóra og kom þar fram að undir þessum kringumstæðum er ekki skylt að auglýsa stöðuna. Í ljósi áralangrar reynslu og farsældar í starfi  fyrir Grunnskóla Djúpavogshrepps er sveitarstjórn sammála að bjóða Halldóru Dröfn Hafþórsdóttur starf skólastjóra við hinn nýja sameinaða Djúpavogs-skóla.  Ákvörðun sveitarstjórnar í þessum efnum byggir sömuleiðis á fundargerð skólanefndar dags. 04.03.2011. þar sem nefndin lýsir sig mjög hlynnta þessari tilhögun máls.

(Eftir afgreiðslu máls mættu Þórdís og Albert aftur til fundar).

13.    Félagsstarfið á Helgafelli

Sveitarstjórn lýsir ánægju sinni með það góða starf sem fram fer á Helgafelli og þakkar sömuleiðis þeim sjálfboðaliðum sem hafa lagt sig fram í þágu félagsstarfsins með metnaðarfullum uppákomum.
            
14.    Framlög frá Húsafriðun / fjárlaganefnd

Sveitarstjórn vill undir þessum lið lýsa ánægju sinni með stuðning húsafriðunarnefndar og fjárlaganefndar (sem búa við þröngan fjárhag um þessar mundir) til úthlutunar í verkefni sem tengjast endurbyggingu friðaðra og eldri húsa í Djúpavogshreppi. Þá komu sömuleiðis fjármunir í hið nýja Ríkarðssafn frá fjárlaganefnd.  Við úthlutun 2011 komu þrír styrkir í verkefni á vegum Djúpavogshrepps samtals 5.2 m.kr. Djúpavogskirkja eldri 1.500.000.- Faktorshús 2.200.000.- og Ríkarðssafn 1.500.000.  Þrír styrkir komu í önnur verkefni í sveitarfélaginu samtals 1.1 milljón.  

15.    Skýrsla sveitarstjóra

a.    Samgöngumál
Sveitarstjóri átti fund með Vegamálatjóra 23. febrúar sl. þar sem fylgt var eftir fyrri ályktun varðandi snjómokstur á Öxi. Vegamálastjóri sýndi málinu skilning en áréttaði fyrri ákvörðun Vegagerðarinnar um fyrirkomulag snjómokstur en lagði til að Djúpavogshreppur myndi senda Vegagerðinni formlegt erindi um málið fyrir næsta vetur.

b.    Girðingamál
Á fundi með Vegamálastjóra þann 23. febrúar lagði sveitarstjóri fram tillögu að því hvernig ljúka mætti við girðingu frá Goðsteinum í mynni Búlandsdals með Búlandsá til sjávar. Vegamálastjóri tók vel í erindið og ætlar að taka það fyrir innan stofnunarinnar og tilkynna ákvörðun Vegagerðarinnar fljótlega.

c.    Fundir oddvita  4. mars í Reykjavík
Oddviti kynnti fund með umhverfisráðherra og embættismönnum í umhverfisráðuneytinu og fund á skrifstofu TGJ. er varðar breytingu á deiliskipulagi og fl.  

d.    Suðurferð sveitarstjóra  
Sveitarstjóri átti fund með aðilum sem hafa áhrif á útflutning iðnaðarvatns úr Berufirði. Fyrirhugaðar eru viðræður þeirra við fulltrúa H2OWatns um mögulegt samstarf.

e.    Sveitarstjóri átti fund 22. febrúar með Argos, arkitektarstofu, varðandi endurbyggingu Faktorshús. Unnið er að hönnun á salernisaðstöðu í kjallara hússins og stefnt að því að sú aðstaða verði tilbúin á árinu.

f.    Sveitarstjóri átti fund með forstjóra HB Granda 24. febrúar þar sem farið var yfir stöðu mála varðandi fiskeldi HB Granda í Berufirði.

g.    Sveitarstjóri kynnti fyrirspurnir frá íbúum sem hafa verið duglegir við að flokka hvort hægt sé að fá felld niður sorphirðugjöld með innskilum á sorphirðutunnum. Sveitarstjórn stefnir á gjaldskrárbreytingar í þessum efnum við gerð næstu fjárhagsáætlunar enda verði þá komin nægileg reynsla á flokkunina til að byggja frekari ákvarðanir á og þá verði sömuleiðis ákveðin hvaða útfærsla verði lögð til grundvallar niðurgreiðslu sorphirðugjalda til þeirra íbúa sem flokka.  

h.    Suðurferð sveitarstjóra og oddvita 25. mars
Oddviti og sveitarstjóri kynntu fyrirhugaða suðurferð síðar í mánuðinum m.a. þátttöku í Landsþingi sveitarfélaga og fleiri fyrirhugaða fundi fyrir sveitarfélagið.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:10.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.10.03.2011