Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

17. janúar 2011

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  17. 01. 2011

7. fundur 2010-2014


Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps mánudaginn. 17. jan. 2011 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Bryndís Reynisdóttir, Albert Jensson, Sigurður Ágúst Jónsson og Sóley Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.


Dagskrá:


1.    Fjárhagsleg málefni

a)    Endurskoðun vegna 2010. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi með KPMG og tillögu þeirra varðandi viðskiptastöður B hluta fyrirtækja við aðalsjóð og viðskiptaskuld vegna hafnarsjóðs.  Tillagan gerir ráð fyrir að viðskiptaskuldir vatnsveitu, fráveitu og félagslegra íbúða verði felldar niður og færist til hækkunar á eigin fé B hluta fyrirtækja en samsvarandi til lækkunar hjá aðalsjóði.  Einnig að viðskiptaskuld hafnarsjóðs við aðalsjóð verði jöfnuð með yfirtöku hafnarsjóðs á tilgreindu láni frá Lánasjóði sveitarfélaga..    Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirlagðar tillögur og felur sveitarstjóra að ganga frá málinu í samráði við KPMG.
b)    Kaup á gömlu kirkjunni.  Sveitarstjóri greindi frá fundi með sóknarnefnd Djúpavogshrepps fyrir skemmstu þar sem rætt var m.a. kaup Djúpavogshrepps á gömlu kirkjunni. Samþykkt var af hálfu sóknarnefndar að Djúpavogshreppur leysti til sín kirkjuna á 500.000.kr. Sveitarstjóri óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að ganga frá málinu.
Markmið sveitarfélagsins er á að vinna að uppbyggingu kirkjunnar í samstarfi við húsafriðun á næstu árum eins og  fjármunir leyfa hverju sinni og tryggja þannig að kirkjan fái notið sín um ókomna framtíð í bænum, enda setur hún óneitanlega mikinn svip á bæinn. Samþykkt samhljóða.

2.    Byggðakvóti

Djúpavogshreppi var úthlutað 53 þorskígildistonna byggðakvóta fiskveiðiárið 2010/2011 sbr. bréf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis dags. 22. desember 2010, í kjölfar umsóknar þar um dags 13. okt. 2010. Lagt fram til kynningar.

3.    Friðlýsing

Þann 10. feb. næstkomandi er stefnt að því að umhverfisráðherra staðfesti friðlýsingu á afmörkuðu svæði upp á Hálsum vegna búsvæðis tjarnaklukku (Agabus uliginosus).  Sveitarstjórn fagnar áfanga þessum  en með friðlýsingunni er markmiðið að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á svæðinu og á Íslandi öllu. Sveitarstjórn lítur svo á að hér sé enn eitt dæmið um sérstöðu sem er að finna hér í lífríki Djúpavogshrepps sem hægt er að vinna áfram með sveitarfélaginu til framdráttar.    

4.    Málefni fatlaðra

Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga um áramót.  Markmiðin með flutningnum eru:
1)    að bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum
2)    að stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga
3)    að tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga
4)    að tryggja góða nýtingu fjármuna
5)    að styrkja sveitarstjórnarstigið
6)    að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga
Sveitarfélögin á Austurlandi hafa komið sér saman um að standa saman að þjónustusvæði enda er gert ráð fyrir að þjónustusvæði samanstandi af ekki færri en átta þúsund íbúum.  Gert er ráð fyrir að Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð verði hvort um sig leiðandi á sínu félagsþjónustusvæði og málefni fatlaðra bætist við það samstarf sem verið hefur um árabil um félagsþjónustu og sameiginlega félagsmálanefnd.  

5.    Atvinnumál

a)     Sveitarstjóri gerði grein fyrir samstarfi við Vinnumálastofnun varðandi átaksverkefni og reynsluráðningar til sveitarfélagsins. Sveitarstjóra falið að vina áfram að málinu í samráði við oddvita.
b)    Oddviti gerði grein fyrir stöðu mála og hugmyndum varðandi fjarvinnslu og önnur atvinnutækifæri.

6.    Erindi og bréf

a)    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dags. 30. desember 2010. Frá og með 1. janúar 2011 tekur innanríkisráðuneyti til starfa með samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar.  Lagt fram til kynningar.
b)    Umhverfisstofnun, dags. 3. janúar 2011. Kynning á tillögu að starfsleyfi fyrir HB Granda í Berufirði.  Í tillögunni er lagt til að rekstraraðila sé heimilt að framleiða allt að 4000 tonn af þorski í sjókvíum í Berufirði.  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við tillögu Umhverfisstofnunar.
c)    Velferðarráðuneytið, dags. 3. janúar 2011.  Velferðarráðherra beinir  tilmælum til sveitarstjórna um að þær tryggi að einstaklingar hafi að lágmarki sambærilega fjárhæð og atvinnuleysisbætur til framfærslu á mánuði.  Lagt fram til kynningar.

7.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
b)    BúfjárhaldFleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:00.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.


Gauti Jóhannesson, fundarritari.

18.01.2011