Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

27. apríl 2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  27. 04. 2010

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjud. 27. apríl 2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Andrés Skúlason, Albert Jensson, Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson og Klara Bjarnadóttir. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundson sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1.    Ársreikningar Djúpavogshrepps 2009, fyrri umræða:

Ákveðið var að fresta þessum lið og taka hann fyrir kl. 17:00, en þá mættu á fundinn fulltrúi KPMG, Magnús Jónsson og skoðunarmenn ársreikninga, Ásdís Þórðardóttir og Ólafur Eggertsson, auk þess sat skrifstofustjóri og bókari, Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir, fundinn. M.J. gerði grein fyrir ársreikningnum. Eftir ítarlega umfjöllun var ákveðið að vísa honum til síðari umræðu og þá verða helztu lykiltölur færðar inn.

2.    Önnur fjárhagsleg málefni:

a)    Mötuneyti leikskóla. Fyrir fundinum lá ósk leikskólastjóra þess efnis að í ljósi góðrar reynslu af rekstri mötuneytis í leikskólanum að undanförnu yrði ákvörðun þar um breytt úr tímabundnu fyrirkomulagi í varanlegt.  Þórdís Sigurðardóttir, leikskólastjóri sem jafnframt sat sveitarstjórnarfundinn gerði grein fyrir málinu. Borin upp tillaga um að ósk leikskólastjóra verði samþykkt. Hún samþykkt samhljóða.
b)    Endurskoðun á samningi um Skólaskrifstofu Austurlands. Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðuðum samningi um Skólaskrifstofuna.  Sveitarstjórn Djúpavogshrepps styður þær breytingartilögur sem fyrir liggja og leggur áherzlu á mikilvægi starfseminnar og tilvist Skólaskrifstofunnar fyrir skólastofnanir Djúpavogshrepps.  Ákveðið var að sveitarstjórnin óskaði eftir því að verða áfram aðili að Skólaskrifstofu Austurlands á grundvelli endurskoðaðs samnings þar um.  Er það von sveitarstjórnar að starfsemin verði áfram jafn fagleg og aðgengileg fyrir forsvarsmenn skólanna á Austurlandi sem hingað til, en jafnframt að tryggður verði aðgangur að þeirri þjónustu sem lög gera ráð fyrir en ekki hefur ætíð tekist að sinna vegna manneklu.
c)    Undir þessum lið var einnig kynnt söluferli á íbúðinni Eyjaland 3 (Björk), sem sveitarfélagið eignaðist á uppboði fyrir skömmu. Íbúðin var auglýst til sölu og hafa nokkrir sýnt henni áhuga og m.a. borizt í hana hagstætt tilboð að mati fasteignasala og mun hagstæðara að aðrir höfðu kynnt eða sent inn.  Var tilboðið opnað á fundinum, en frumrit þess sendi tilboðsgjafi til fasteignasalans. Sveitarstjórnin veitir sveitarstjóra heimild til að ganga frá sölunni í samræmi við framangreint tilboð með aðstoð Ævars Orra Dungal hjá fasteignasölunni Domus á Egilsstöðum.

3.    Erindi og bréf:

a)    Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna dags. 25. mars 2010. Varðar áskorun um að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Með erindinu fylgja fyrri erindi FÍA til samgönguyfirvalda um sama mál. Í framangreindu erindi, sem sent er til allra sveitarstjórna á Íslandi kemur fram að samgönguyfirvöld eru hvött til að hefja nú þegar byggingar á nýrri samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni til að bæta aðbúnað við farþega svo íbúar landsins megi búa við sem bestar flugsamgöngur til og frá höfuðborginni. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps tekur einróma undir áskorun FÍA og felur sveitarstjóra að koma upplýsingum þar um til hlutaðeigandi.
b)    Héraðsskjalasafn Austfirðinga dags. 14. apríl 2010. Erindið varðar nýjar reglubreytingar varðandi skjalavörslu sveitarfélaga og m.a. möguleika á að færa hana yfir í rafrænt form. Í niðurlagi bréfsins eru sveitarfélög engu að síður hvött til þess af forsvarsmönnum Héraðsskjalasafns Austfirðinga að taka ekki upp rafræna skjalavörslu að svo stöddu með vísan til skýringa, sem koma fram í bréfinu. Lagt fram til kynningar.
c)    Fóðurverkefnið, bréf Þórarins Lárussonar og fylgigögn, dags. 16. mars 2010. Erindið varðar áform um að koma á laggirnar færanlegri kögglunarsamstæðu sem hægt væri að nýta til þess að vinna fóðurvörur fyrir búfé beint úr heyrúllum. Jafnframt væri hægt að þróa kögglun á trjákurli og ýmsum úrgangsefnum til urðunar og endurvinnslu. Farið er fram á fjárhagslegan stuðning sveitarstjórna við verkefnið. ÞL hefur upplýst að sambærilegt erindi hafi verið sent til SSA og Eyþings. Sveitarstjórn samþykkir að vísa málinu til SSA.
d)    Auk framangreindra erinda var samþ. samhljóða að taka á dagskrána bréf frá Þjóðskrá, dags. 19. apríl 2010 varðandi kjörskrár o.fl. Fram kemur í bréfinu að kjósandi telst á kjörskrá í því sveitarfélagi, sem hann er skráður þrem vikum fyrir kjördag, þ.e. 8. maí 2010. Lagt fram til kynningar.

4.    Kosningar:

a)    Fulltrúi á aðalfund Menningarráðs Austurlands 12. maí 2010. Aðalmaður kjörinn Albert Jensson, varamaður Bryndís Reynisdóttir.
b)    Aðalfundur Þekkingarnets Austurlands 12. maí 2010. Aðalmaður kjörinn Sóley Dögg Birgisdóttir, varamaður Bryndís Reynisdóttir.
c)    Undir þessum lið var oddvita og sveitarstjóra veitt heimild til að ganga frá tilkynningu á fulltrúa Djúpavogshrepps á aðalfund Starfsendurhæfingar Austurlands 18. maí 2010 sem haldinn verður á Djúpavogi.

5.    Staðfesting á dagsetningu borgarafundar:

Samþykkt að halda borgarafund föstudaginn 30. apríl nk. kl 18:00.  Á honum verða kynntir ársreikningar 2009, fjárhags- og framkvæmdaáætlun v/ ársins 2010 og 3ja ára áætlun 2011 – 2013. Auk þess verða kynntar helztu áherzlur sveitarstjórnar í ýmsum málaflokkum sem hún hefur unnið að á kjörtímabilinu og gerð grein fyrir stöðu ýmissa verkefna á hennar vegum.

6.    Skipulags- og byggingarmál:

a)    Samband íslenskra sveitarfélaga, minnisblað dags. 20.04.2010. Varðar verklag við staðfestingu ákvarðana skipulagsnefnda. Lagt fram til kynningar en jafnframt vísað til SBU.
b)    Skipulagsstofnun dags. 16.03.2010. Varðar greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags-gerðar. Í erindinu er undirstrikað mat Skipulagstofnunar að öðrum aðilum en sveitarsjóði og eftir atvikum Skipulagssjóði sé óheimilt að bera kostnað vegna framkvæmdar á aðalskipulagi. Jafnframt er óskað eftir því að sveitarstjórnir upplýsi framvegis vegna aðalskipulagsvinnu sbr. 19. og 21. grein skipulags- og byggingarlaga, hvort einhverjir aðrir en tveir framgreindir aðilar hafi komið að greiðslu aðalskipulags. Lagt fram til kynningar.

7.    Fundargerðir:

a)    LBN 8. apríl 2010. Á framangr. fundi LBN lá fyrir ósk Eiðs Gísla Guðmundssonar um endurskoðun á fyrri ákvörðun hennar um afgreiðslu umsókna v/ minkaveiða í Djúpavogshreppi. Með erindi EGG hafði fylgt undirskriftarlisti frá 20 eigendum / ábúendum jarða í Berufirði, Hamarsfirði og Álftafirði, sem mæla með því að samið verði við hann. Fram kemur í fundargerð LBN að hún samþykki samhljóða að taka til baka fyrri ákvörðun og mælir með því við sveitarstjórn að Eiður Gísli verði ráðinn til starfans til reynslu í eitt ár til. (Undir þessum lið viku Guðmundur Valur Gunnarsson og Albert Jensson af fundi). Tillagan borin upp og samþykkt með  3 atkv. allra viðstaddra.  (Hér mættu GVG og AJ aftur á fundinn). Undir þessum lið var síðan lögð fram  bókun frá aðalfundi Félags Sauðbjárbænda á Suðurfjörðum 13. marz 2010,  sem fram kemur í bréfi Lárusar Sigurðssonar, dags sama dag. Í bókuninni er lýst áhyggjum vegna vaxandi fjölda refa og sveitarstjórnir hvattar til þess að leggja auknar áherslur á refaveiðar svo halda megi aftur af fjölgun refa. Lagt fram til kynningar og samþykkt að vísa erindinu til nýrrar sveitarstjórnar.
b)    Samþykkt var samhljóða að bæta við á dagskrána fundargerð SKN frá 20. apríl 2010 og færast aðrar fundargerðir í lið 7 aftur sem því nemur. Í lið 1 í fundargerð SKN eru staðfestar innritunarreglur í Leikskólann Bjarkatún og þeim síðan vísað til sveitarstjórnar. Þær voru sendar út með fundarboði. Samþykkt samhljóða að staðfesta reglunar.  Í lið 2 er fjallað um biðlista í leikskólanum og skorað á sveitarstjórn að gera það sem gera þarf til að tryggja dagvistunarúrræði fyrir öll börn á dagvistunaraldri, svo hægt sé að eyða biðlista. Sveitarstjórn samþykkir að fela leikskólastjóra hið fyrsta að leggja fram tillögur að lausn mála með það að markmiði að eyða biðlista.
c)    Skólaskrifstofa Austurlands 11. mars 2010. Lögð fram til kynningar, sbr. þó bókun undir lið 2 b).
d)    Aðalfundur Kvennasmiðjunnar 16. apríl 2010. Sveitarstjóri gerði grein fyrir málinu. Fyrir liggur að Djúpavogshreppur ber ábyrgð á húsnæðinu í Löngubúð og söfnunum þar en samkomulag hefur verið um að Kvennasmiðjan sinnti veitingarekstri í húsinu. Í samráði við form. stjórnar Kvennasmiðjunnar ehf. gerði sveitarstjóri tilboð í hlutabréfin í félaginu. Fram kemur í fundargerðinni að fjallað hafi verið um tilboðið en það síðan dregið til baka af sveitarstjóra til að sveitarstjórnin gæti fjallað um stöðu málsins eins og hún var, þegar fresta varð fundinum.
Fyrir liggur að halda á framhaldsaðalfund í félaginu vegna ársins 2008, samhliða aðalfundi vegna ársins 2009. Sá fundur verður 6. maí. Fram kom tillaga um að Djúpavogshreppur endurnýjaði tilboð sitt óbreytt í hlutabréf í Kvennasmiðjunni ehf. Hún borin upp og samþykkt samhljóða.   Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.

8.    Skýrsla sveitarstjóra:

a)    Leiksvæði í Blánni, erindi frá íbúa. Málið kynnt.
b)    Flokkun og endurvinnsla. Fjallað var um með hvaða hætti eigi að taka upp hvatakerfi í tengslum við flokkun og endurvinnslu. Vísað til nýrrar sveitarstjórnar.  
c)    Fjallað var stuttlega um nýlokna Hammondhátíð 2010 og svohljóðandi bókun samþ. samhljóða: Að lokinni Hammondhátíð 2010 vill sveitarstjórn Djúpavogshrepps koma á framfæri hamingjuóskum til þeirra sem stóðu að hátíðinni og telur að hún sé svo sannarlega komin til að vera.  Hátíðin í ár heppnaðist einstaklega vel í alla staði og dró að sér fjöldann allan af gestum víðsvegar að af landinu. Forsvarsmenn sveitarfélagsins gera sér grein fyrir því, hve mikilvæg bæjarhátíð þessi er fyrir samfélagið í heild sinni og hvetur til þess að í nafni Tónlistarfélags Djúpavogs verði unnið að því að kaupa veglegt Hammond orgel til að nýta framvegis í Mekka Hammondtónlistar á Íslandi. Hátíðin hefur áhrif á allt menningarlíf í byggðarlaginu eins og glöggt mátti sjá af þeim fjölda menningarviðburða sem hér voru í boði um s.l. helgi. Að öðrum ólöstuðum er sérstök ástæða til að nefna stórglæsilega og metnaðarfulla sýningu á vegum Ágústu Arnardóttur í Löngubúð s.l. laugardag, sem var henni og byggðarlaginu til mikils sóma.  Að öðru leyti er bent á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem annarra frábærra viðburða undanfarna daga er getið.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.


28.04.2010