Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

15. apríl 2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  15. 04. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 15. apr. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Í upphafi óskað sveitarstjóri eftir því að tekinn yrði á dagskrá liður nr. 1. h); „Drög að samningi við SAGA-PLAST“. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1.    Fjármál, málefni stofnana o. fl.

a)    Undirbúningur að endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009. Eins og bókað var við afgreiðslu FJ-2009 á að endurskoða hana í maí 2009. Er sú vinna komin í gang, samhliða frágangi ársreiknings 2008. Innan skamms mun verða samráðsfundur með forstöðumönnum deilda og stofnana og í framhaldi af því mun liggja fyrir hvort og á hvern hátt verða teknir ákvarðanir um samdrátt í rekstri, en reynt að hafa að leiðarljósi að slíkt muni ekki leiða til beinnar skerðingar á þjónustu.
b)    3ja ára áætlun 2010 – 2012. Farið var yfir verkefnaáætlun 2009 – 2011, sem samþykkt var á seinasta ári. Eftir nokkra umfjöllun var málinu vísað til fundar / funda í maí.
c)    Greinargerð frá Djúpavogshreppi v/ fjárhagsætlunar 2009. Sveitarstjóri kynnti helztu áherzluatriði í greinargerðinni, en hún lá fyrir í fundargögnum.
d)    Lausafjárstaða sveitarfélagsins, heimild til yfirdráttar. Farið hefur verið fram á varanlega yfirdráttarheimild út árið 2009 hjá aðal  viðskiptabanka sveitarfélagsins, Sparisjóði Hornafjarðar. Sveitarstjórnin veitir sveitarstjóra heimild til að ganga frá yfirdráttarheimild að hámarki 25 milljónir króna. Heimildin gildir til loka árs 2009. Undir þessum lið var sveitarstjóra einnig veitt heimild til að ganga til samninga við Lánasjóð sveitarfélaga um lántöku allt að 30 milljónir króna, eða lánalengingu / skuldbreytingu upp á sömu fjárhæð.
e)    ParX, tilboð um þjónustu, dags. 27. marz 2009. (Hefur verið sent í tp.). Boðið er upp á svonefnda samanburðargreiningu fyrir íslenzk sveitarfélög. Um er að ræða ítarlega greiningu og samanburð á margvíslegum upplýsingum, bæði fjárhagslegum og lýðfræðilegum, er tengjast rekstri, þróun og stöðu sveitarfélaga. Afgreiðslu frestað. Verður tekið fyrir samhliða afgreiðslu endurskoðaðrar FJ-2009.
f)    Intrum Justitia, samningsdrög v/ innheimtuþjónustu. Sveitarstjóri kynnti drögin og honum veitt leyfi til að undirrita fyrirliggjandi samning.
g)    Staða mála v/ Dvalarheimilisins Helgafells. Oddviti gerði grein fyrir stöðu málsins. M.a. kom fram hjá honum að tekist hefði eftir umtalsverða baráttu að tryggja rekstur Dvalarheimilisins a.m.k. fram að næstu áramótum með aðkomu HSA.  Tíminn fram til áramóta verður nýttur til að vinna að varanlegri lausn á rekstrarformi Helgafells og þjónustu almennt við eldri borgara í samfélaginu hér í Djúpavogshreppi. Þegar hefur verið ákveðið, að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála, ásamt HSA og heimamönnum á Djúpavogi komi að því að þróa slíka lausn. Þáttur heimamanna mun vega þungt í þeirri vinnu þ.e. að svara því til, hvernig þjónustu við viljum nákvæmlega búa eldri borgurum til framtíðar og hvaða þjónustu eldri borgarar óska sjálfir eftir í ljósi þess svigrúms sem skapað verður í þessum efnum. Oddviti vildi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi var fyrir nokkrum vikum gagnvart starfsemi Helgafells, þakka heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni sérstakan skilning hans á málinu svo og Þuríði Bachman þingmanni sem hafði einnig aðkomu að málinu, sem leitt hefur til þeirrar lausnar sem uppi er í dag.
Jafnframt þessu vill sveitarstjórn skora á alla íbúa Djúpavogshrepps og aðra velunnara Helgafells að taka nú höndum saman um að styðja með einum eða öðrum hætti við samfélag eldri borgara á Djúpavogi, m.a. með því að  koma á fót sérstöku Hollvinafélagi Helgafells sbr. fyrirheit þar um á undirskriftalista sem afhentur var heilbrigðisráðherra á dögunum. Hollvinafélag sem þetta getur haft úrslitaáhrif á þjónustu við eldri borgara á Djúpavogi til framtíðar litið og verður því m.a. ætlað það hlutverk í viðræðum um framtíðarlausn í þessum mikilvæga málaflokki sem við viljum með öllum hætti tryggja hér í samfélaginu. Sveitarstjórn fagnar niðurstöðu málsins og bindur jafnframt vonir við að ásættanleg framtíðarlausn verði fundin.      
h)    Drög að samningi við SAGA-PLAST. Oddviti kynnti samninginn, en hann hefur verið í vinnslu í nokkra mánuði og hefur bæði nefndarmönnum í SBU og sveitarstjórn verið gerð grein fyrir stöðu mála í vinnuferlinu. Megin markmið samningsins er að draga verulega úr magni sorps til förgunar/urðunar eða allt að 80% og koma þess í stað á víðtækri flokkun og endurvinnslu, jafnframt því að spara umtalsverða fjármuni til lengri tíma litið. Samhliða er með verkefni þessu verið að stuðla að ábyrgri umgengni meðal íbúa gagnvart því hráefni sem til þessa dags hefur verið urðað. Síðast en ekki síst er með þessu fyrirkomulagi verið að skapa störf í heimabyggð þar sem umtalsverð vinna felst í flokkun sem þessari og sorphirðu.
Unnið er að því að koma upp sérstakri Safnstöð að Víkurlandi 6 (svonefnt Þróarhús við bræðsluna) þar sem byggja á upp góða og aðgengilega aðstöðu þar sem íbúar geta komið með flokkuð efni. Til lengri tíma litið verður aukið við mannafla á vegum sveitarfélagsins m.a. til að sinna sorphirðu og flokkun, en að sama skapi mun kostnaður við sorpurðun og -hirðu dragast saman eins og áður segir.
Mikilvægast af öllu til að verkefnið nái fram að ganga og tilætlaður árangur náist, er að íbúarnir taki þessari nýbreytni með opnum huga og tileinki sér strax frá upphafi nýja siði í þessum efnum.  Jafn mikilvægt er að kynning á verkefninu til íbúa verði sem best og mun sveitarfélagið vinna að því að svo verði með sem bestum hætti og verður sérstakt kynningarrit sent út til allra heimila í sveitarfélaginu að þessu tilefni, auk þess sem hægt verður að leita upplýsinga við starfsmenn áhaldahússins ef á þarf að halda.  Stefnt er á að byrja flokkun í næsta mánuði og verður sá tími auglýstur nánar og með fyrirvara þegar að kemur.  Sveitarstjóra falið að senda þeim aðilum sem hafa þjónustað Djúpavogshrepp í þessum efnum bréf til að kynna þær breytingar sem standa fyrir dyrum.  Samningur við Saga Plast ehf borinn upp og sveitarstjóra veitt heimild til að ganga frá honum.

2.    Fundargerðir.

a)    SBU, 19. febrúar 2009.
Eftirtalin mál rædd / staðfest:
Ræddur tl. 5. Matsáætlun v/ Öxi, botns Berufjarðar og hringvegar um Skriðdal.
Staðfest byggingarleyfisskylt mál í tl. 6; Heimild til niðurrifs á gamla bænum á Skála, fastanr. 217-9213. Heimildin er veitt á grundvelli álits Húsafriðunarnefndar, sem hefur ákveðið að leggjast ekki gegn niðurrifi. Hins vegar áréttar sveitarstjórn álit SBU og Húsafriðunarnefndar að séð verði til þess að ummerki um hina öldnu byggingu, svo sem sökkulveggir fái að halda sér og ennfremur að Húsafriðunarnefnd í samráði við umhverfis- og menningarmálayfirvöld í byggðarlaginu fái að hirða nýtilegar minjar / byggingarefni úr húsinu.
b)    1. fundur samstarfsnefndar um samein. DPV. og Fljótsdalshéraðs 19. marz 2009. Fulltrúar Djúpavogshrepps í samstarfsnefndinni eru Andrés Skúlason og Guðmundur Valur Gunnarsson. Fundarg. lögð fram til kynningar.
c)    Skólaskrifstofa Austurlands, 5. marz 2009. Fundarg. lögð fram til kynningar.

3.    Erindi og bréf.

a)    Sjóvá, dags. 2. apríl 2009. Í erindinu er óskað eftir að fá tækifæri til að gera tilboð í vátryggingar fyrir næstu endurnýjun Djúpavogshrepps á „tryggingarpakka“.
b)    Sveitarstjóri kynnti sambærilegt erindi frá VÍS (upphaflega símtal ME við BHG í marz og ennfr. tp. frá ME, dags. 14. ap. v/ sama máls).
Vegna liðar a og b var samþykkt að fela sveitarstjóra að tilkynna að nýr samingur verði boðinn út m/v 1. jan. 2010 og óskað verði eftir tilboðum frá tryggingarfélögum sem hafa starfstöð á Djúpavogi.
c)    Fornleifafélag Íslands, styrkbeiðni v/ þýðingar skýrslu um fornleifarannsóknir í Gautavík frá árunum 1979-1980, dags. 26. marz 2009. Að höfðu samráði við eigendur jarðarinnar Gautavíkur í Berufirði var sveitarstjóra veitt heimild til að tilkynna styrkbeiðanda um sameiginlegan styrk að fjárhæð kr. 100 þús. Fjárhæðin skiptist jafnt milli Djúpavogshrepps og eigenda Gautavíkur, þannig að staðfestur styrkur sveitarfélagsins er kr. 50 þús. og verður til greiðslu, þegar þýðingu skýrslunnar er lokið.
d)    Daníel Arason, styrkb. v/ útgáfu á verkum Inga T. Lárussonar, marz 2009. Erindinu hafnað.
e)    KSÍ, ályktun frá ársþingi KSÍ, dags, 14. feb. 2009, en þar er skorað á sveitarfélög að efla enn frekar íþróttastarfsemi í landinu með það að leiðarljósi, að byggt verði upp samfélag þar sem íþróttir eru viðurkennd leið til heilbrigðra lífsgilda.
f)    UÍA, styrkbeiðni, dags. 10. feb. 2009. Umbeðin fjárhæð er kr. 200 pr. íbúa eða kr. 90.800.- Fyrir liggur að forsvarsmenn UMF Neista mæla með jákvæðri afgreiðslu, enda telja þeir mjög sýnilega breytingu til hins betra í starfi UÍA. Styrkbeiðnin staðfest með þeim fyrirvara að almenn samstaða náist um málið á vettvangi sveitarfélaga á starfssvæði UÍA.
g)    Menningarráð Austurlands, ný stefna um menningarmál á Austurlandi. Stefnan borin upp til staðfestingar og hún samþykkt samhljóða. Undir þessum lið var einnig kjörinn fulltrúi Djúpavogshrepps á aðalfund Menningarráðs Austurlands 7. maí.
Aðalmaður:    Bryndís Reynisdóttir
Varamaður: Kristján Ingimarsson
Jafnframt var samþykkt að tilnefna Kristján Ingimarsson í stjórn Menningarráðsins næstu 2 árin.
h)    Saman-hópurinn, dags. 30. marz 2009. Í erindinu er hvatt til þess að séð verði til þess að allir unglingar eigi kost á sumarstörfum og að börn og ungmenni hafi aðgang að íþrótta- tómstundastarfi við hæfi. Lagt fram til kynningar.
i)    Alcoa, kynningargögn, marz 2009.
j)    Umhverfisstofnun, dags. 16. marz 2009. Í erindinu er kynnt breyting á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, en skv. 14. gr. laganna skulu sveitarfélög koma upp aðstöðu fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Sveitarstjórnin telur að málið falli vel að áherzlum hennar í sorpmálum almennt séð, sbr. lið 1 h) hér að framan.
k)    Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi, dags. 13. marz 2009. Í erindinu eru kynntar áherzlur samtakanna og hvatt til þess að staðinn verði vörður um rekstur sundstaða m.t.t. núverandi ástands í samfélaginu. Einnig er hvatt til þess að markvisst verði unnið að því að koma í veg fyrir einelti o.fl. í búningsklefum.
l)    Ungmennafélag Íslands, dags. 13. marz 2009. Varðar auglýsingu um umsóknir um undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ, sem halda á um verzlunar-mannahelgina árið 2011. Lagt fram til kynningar.
m)    Úthlutun á hluta af slægjulandi neðan við skógrækt. Fyrirspurnir / umsóknir hafa borizt frá eftirtöldum (tímaröð):
Ragnar Elísson,
Baldur Gunnlaugsson,
Ómar Enoksson.
                Afgreiðslu frestað.
n)    SÍS / Vegagerðin v/ vegaskrá, dags. 3. ap. 2009. Lagt fram til kynningar.

4.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Skipulagsstofnun, 24. marz 2009. Tilkynning um frestun á afgreiðslu aðalskipulags Djúpavogshrepps. Lagt fram til kynningar.

5.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Samþykkt að leita eftir því við forsvarsmenn Vopnafjarðarhrepps að þeir standi að því með forsvarsmönnum Djúpavogshrepps að óska eftir opinberri rannsókn á málefum Eignarhaldsfélagsins GIFT (áður Samvinnutryggingar GT).
b)    Umsókn um byggðakvóta. (Umsóknin kynnt).
c)    Fjallað um atvinnumál. M.a. kom fram að stofnað var nýlega á Djúpavogi fyrirtæki um rafvirkjaþjónustu, nýtt fyrirtæki í ferðaþjónustu, nýr bátur er kominn í flotann, unnið er að breytingum á gömlu bryggjunni, mikil vinna hjá Vísi hf.
d)    Kjörskrá fyrir Alþingiskosningarnar. Sveitarstjóra falið að undirrita kjörskrána og leggja hana fram.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:00.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson / Andrés Skúlason, fundarritarar.

16.04.2009