Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn

22. janúar 2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  22. 01. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 22. jan. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Sigurður Ágúst Jónsson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.


Dagskrá:

1.    Fjárhagsáætlun 2009; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a)    Samgönguráðuneytið, 30. des. 2008; heimild til frestun á afgr. FJ-2009. Lagt fram til kynningar.
b)    Gjaldskrár 2009. Borið undir atkvæði fyrirliggjandi skjal, sem hlotið hefur ítarlega umfjöllun, bæði á vinnuf. og við fyrri umr. Það samþ. samhljóða og undirritað.
c)    Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega. Reglurnar staðfestar og undirritaðar.
d)    Drög að samningi við Golfklúbb Djúpavogs. Sveitarstjóri og oddviti kynntu málið. Meginmarkmið samningsins er annars vegar að stuðla áfram að vexti og viðgangi íþróttarinnar í byggðarlaginu og bjóða upp á aðstöðu fyrir ferðamenn, sem stunda vilja þessa íþrótt. Hins vegar hefur samningurinn þau áhrif að bein fjárframlög minnka m/v undanfarin ár, en á móti kemur að sveitarfélagið yfirtekur núverandi golfskála og leggur hann fram til notkunar fyrir iðkendur og félaga í Golfklúbbi Djúpavogs. Samningsdrögin borin undir atkvæði og samþykkt með þremur atkvæðum. Tveir sátu hjá. (GVG, BE)
e)    Eignabreytingar og framkvæmdir 2009. Fyrirliggjandi skjal borið undir atkvæði. Það samþ. samhljóða og undirritað á fundinum.
f)    Viðhaldsáætlun Eignasjóðs og stofnana lögð fram og samþ. samhljóða.
g)    Erindi um styrki o.fl. til afgreiðslu. Fyrirliggjandi skjal borið upp, lið fyrir lið. Það síðan undirritað af sveitarstjórn
h)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2009. Síðari umræða. Fyrirliggjandi gögn kynnt. Helztu niðurstöðutölur eru (þús. kr.):    
*    Skatttekjur A-hluta .........................................        232.500
*    Fjármagnsliðir A-hluta....................................            18.768
*    Rekstrarniðurstaða A-hluta  ............................             3.139
*    Rekstrarniðurst. m. öðrum sjóðum, A-hluta ....             -13.059
*    Samantekinn rekstur A- og B- hluti ................            -19.224
*    Fjármagnsliðir samtals A og B hluti (nettó) .......            71.466
*    Afskriftir A og B hluti ....................................             29.732
*    Eignir .............................................................        679.036
*    Skuldir og skuldbindingar...............................           519.170
*    Eigið fé í árslok 2009 .....................................          159.866
*    Veltufé frá rekstri áætlað ................................           63.333
*    Fjárfestingar varanl. rekstrarfjárm. (nettó) ........           16.500
Áætlaður hallarekstur er skv. framanrituðu rúmlega 19 millj. króna. Stafar það ekki sízt af fjármagnsliðum, sem eru áætlaðir um 71 millj. króna.
Áætlunin borin undir atkvæði. Samþ. samhlj. Að því búnu var áætlunin undirrituð af sveitarstjórn og sveitarstjóra.
i)    Tilboð í félagslega íbúð að Borgarlandi 42. Fyrir liggur í málinu:
I)    Tilboðsfjárhæð er sambærileg og nýleg söluverð félagslegra eigna á vegum Djúpavogshrepps.
II)    Sveitarstjórn hefur áður ákveðið á grundvelli tillögu frá húsnæðisnefnd að selja skuli ofangreinda íbúð.
III)    Sýnilegt hefur verið á heimasíðu sveitarfélagins í fundargerð að íbúðin væri föl.
IV)    Borgarland 42 og 44 er parhús og íb. nr. 44 hefur nýlega verið seld. Eðlilegt er að parhúsið í heild hverfi úr eigu sveitarfélagsins, þegar upp kemur sú staða að hægt er að selja hina íbúðina.
V)    Íbúðin að Borgarlandi 40 hefur nýlega verið auglýst laus til leigu. Engin umsókn barst. Fyrir liggur að núverandi leigjandi í Borgarlandi 42, sem er starfsmaður sveitarfélagsins, er fús að flytja yfir í Borgarland 40, þegar sinnt hefur verið nauðsynlegu viðhaldi á henni.
VI)    Fyrir liggur að Varasjóður húsnæðismála mun bæta sölutap íbúðarinnar á sama hátt og gert hefur verið vegna undangenginnar sölu á félagslegum íbúðum.
Borið undir atkvæði, hvort taka skuli umræddu tilboði, með þeim fyrirvörum, sem í því eru gerðir. Samþ. samhljóða að taka tilboðinu.
j)    Starfsmannabreytingar á skrifstofu Djúpavogshrepps. Elísabet Guðmundsdóttir, launafulltrúi o.fl. hefur óskað eftir að láta af störfum, en er reiðubúin að sinna ákv. verkþáttum áfram eftir því sem þörf krefur. Fjallað var um á hvern hátt manna eigi skrifstofuna í náinni framtíð og til lengri tíma litið og hvort gera eigi ákv. breytingar á fyrirkomulagi starfa samhliða því. Sveitarstjórn er sammála um að veita sveitarstjóra heimild til að auglýsa 100 % stöðu fjármálastjóra hjá Djúpavogshreppi. Launakostnaður skrifstofu myndi aukast við þessa ákvörðun, en að sama skapi myndi minnka aðkeypt  þjónusta m.a. er nauðsynlegt að efla þennan þátt í starfseminni, t.d. í ljósi aukinna krafna um upplýsingagjöf frá sveitarfélögum vegna „kreppunnar“. Þá hefði fjármálastjóri það á verksviði sínu að vera sveitarstjórn og forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins til ráðgjafar, gera tillögur til úrbóta í hagræðingarskyni og jafnframt gera spár og reiknilíkön um stöðu sveitarfélagsins til lengri og skemmri tíma.
k)    Ríki Vatnajökuls.  Fram kom tillaga um að veita ferða- og menningarmálafulltrúa heimild í samráði við formann F og M og sveitarstjóra að kanna möguleika á að Djúpavogshreppur fái inngöngu í Ríki Vatnajökuls.  
l)    Samantekt ferða- og menningarmálafulltrúa v/ Sea Trade í Feneyjum, des. 2008. Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með störf Bryndísar Reynisdóttur sem ferða- og menningarmálafulltrúa, en verkefni hennar eru að mjög stórum hluta kostuð með opinberu fjármagni úr svonefndum vaxtarsamningi, úr sjóði vegna „mótvægisaðgerða“ og nú síðast liggur fyrir fjárveiting í gegnum „NA-verkefnið“.

2.    Erindi og bréf.

a)    Sameiningarmál. Farið var yfir fyrri óformlegar viðræður forsvarsmanna Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps v/ hugmynda um hugsanlega sameiningu þessara sveitarfélaga. Auk þess var tekin staðan á áformum ráðherra sveitarstjórnarmála þessu að lútandi og rifjaðar upp þær áherzlur, sem fram komu hjá honum á fundi á Djúpavogi fyrir skömmu.
b)    Bændasamtök Íslands, dags. 16. jan. 2009 (afrit bréfs til SÍS). Sjónarmiðum BÍ á bótarétti v/ framkvæmda í almennaþágu og framkvæmd eignarnáms. Lagt fram til kynningar.
c)    Sveitarstjóri Breiðdalshrepps, dags. 2. jan. 2009. Um er að ræða „föðurlega áminningu“ v/ bókunar sveitarstjórnar Djúpavogshrepps 29. des. 2008 (sjá lið 3 a) í þeirri fundargerð) varðandi snjómokstur á Öxi og hvatt til þess að sveitarstjórnin endurskoði afstöðu sína og berjist fyrir aukinni þjónustu á eigin forsendum en ekki á kostnað annarra. Lagt fram til kynningar. Einnig kynnti oddviti svarbréf sín sbr. þennan lið og lið 2 d). Sveitarstjórn tekur undir svarbréf oddvita.
d)    Lárus Sigurðsson, Gilsá, Breiðdal, dags. 2. jan. 2009. Bréf LS er svipaðs efnis og bréf skv. lið 2 c) hér að framan. Lagt fram til kynningar.
e)    Seyðisfjarðarkaupstaður, dags. 17. jan. 2009. Um er að ræða bókun bæjarráðs frá 15. jan. 2009, er þar er lýst stuðningi við áherzlur sveitarstjórnar Djúpavogshrepps um snjóruðning á Öxi. Einnig er ítrekuð nauðsyn þess að veginum um Breiðdalsheiði sé haldið opnum.
f)    Erindi oddvita til samgöngunefndar SSA varðandi snjóruðning á Öxi. Lagt fram til kynningar.
g)    ASÍ, dags. 15. jan. 2009. Í bréfinu er hvatt til þess að sveitarfélög bjóði atvinnulausu fólki upp á ókeypis aðgang að sundstöðum, án endurgjalds. Lagt fram til kynningar.
h)    Samgönguráðuneytið, dags. 7. jan. 2009. Varðar reglur um afslætti á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega. Lagt fram til kynningar.
i)    Vegagerðin, dags. 7. jan. 2009. Kynnt gildistaka nýrrar vegaskrár 1. jan. 2009. Einnig farið fram á að fyrri samningur um veghald þjóðvega í þéttbýli á Djúpavogi verði óbr. til 1. júní 2009. Samþ. samhljóða.
j)    Samband íslenskra sveitarfélaga (vegaskrá), dags. 8. jan. 2009. Minnisblað v/ fundar með fulltr. samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um vegaskrá. Lagt fram til kynningar.
k)    Sigurrós R. Guðmundsdóttir, dags. 29. des. 2008. Sveitarstjóri sér ástæðu til að þakka fyrir umslagið. Erindið varðar búfjárhald í Löngulág og hefur sveitarstjóri komið tilmælum til Þjónustumiðstöðvar Djúpavogshrepps að leita leiða til úrbóta á kvörtunarefninu. Að öðru leyti lagt fram til kynningar.

3.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Aðalskipulag. Fyrir liggur ákvörðun um kynningu á drögum að Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 fyrir íbúa sveitarfélagsins þann 7. febrúar næstkomandi. Sérstök auglýsing verður send á öll heimili vegna málsins.
b)    Tímabundin verkkaup v/ ýmissa atriða er tengjast skipulags- og byggingarmálefnum. Sveitarstjóri kynnti hugmyndir sínar, sem miða að því að leiðrétta skráningu eigna í sveitarfélaginu, vinna að endurmati þar sem það kann að eiga við, skrá inn áður óskráðar eignir, endurnýja skráningu þar sem það á við og/eða ganga frá og leiðrétta lóðarleigusamninga og afmarka lóðir / lóðastærðir á uppdráttum. Fyrir liggur samantekt unnin sumarið 2008 á stöðu mála varðandi lóðarleigusamninga o.fl. og ljóst að umtalsverðra leiðréttinga er þörf.

4.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    „Við Voginn“; eigendaskipti. Sveitarstjóri gerði grein fyrir aðkomu sveitarfélagins að málinu, sem unnið var í samráði við sveitarstjórn. Nýir eigendur taka einnig við fyrirtækinu í góðu samráði við fyrri eigendur þess. Auk sveitastjóra vann ferða- og menningarmálafulltrúi að lyktum málsins, enda var litið svo á að nauðsyn bæri til þess að sveitarfélagið stuðlaði að því að tryggja áfram dugmikla þjónustu gagnvart íbúunum svo og ferðamönnum. Sveitarstjórnin óskar nýjum eigendum velfarnaðar í rekstrinum um leið og hún þakkar fyrri eigendum framlag þeirra á þessu sviði í Djúpavogshreppi í næstum 20 ár. Sveitarstjórn vill að þessu tilefni þakka sveitarstjóra sérstaklega aðkomu hans að málinu.
b)    Fyrirhugaður fundur um byggðakvóta. Af óviðráðanlegum ástæðum var ákv. að fresta fundinum, sem upphaflega átti að vera um miðjan. des. 2008. Lagt var upp með að fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis og jafnvel form. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis hefðu framsögu á fundinum. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og ráðuneytinu er talið óhjákvæmilegt að fresta fundinum enn um sinn og verður hann auglýstur þegar mál hafa skýrzt.
c)    Atvinnuástand í Djúpavogshreppi í ársbyrjun 2009. Oddviti kynnti málið. Samkvæmt upplýsingum frá Svæðisvinnumiðlun Austurlands voru ellefu manns skráðir atvinnulausir nú í janúar í Djúpavogshreppi. Þrír af þeim eru þó í hlutastarfi. Hér er engu að síður um nokkra fjölgun að ræða frá fyrra ári og því er sveitarstjórn sammála um að það sé  mikilvægt að halda áfram að fylgjast með þróun mála á vinnumarkaði á svæðinu og eftir atvikum leita leiða til að bregðast við og auka atvinnuöryggið í byggðarlaginu, enda eru atvinnu- og velferðarmál eitt af skilgreindum hlutverkum sveitarfélaga skv. sveitarstjórnarlögum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:15.

Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

 
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.

 

23.01.2009