Sveitarstjórn - 9. júlí 2020

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 9.7.2020
24. fundur 2018-2022
Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 9.7.2020 kl. 16:15.
Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Gauti Jóhannesson, Þorbjörg Sandholt, Kári Snær Valtingojer, Kristján Ingimarsson og Bergþóra Birgisdóttir. Þorbjörg ritaði fundargerð og Gauti stjórnaði fundi.
Dagskrá:
1. Fundargerðir
a) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 19. maí 2020. Lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 26. maí 2020. Lögð fram til kynningar.
c) Aðalfundur Cruise Iceland, dags. 4. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
d) Fundur bæjar- og sveitarstjóra, dags. 5. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
e) Stjórn Brunavarna á Austurlandi, dags. 9. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
f) Heilbrigðisnefnd Austurlands, 9. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 12. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
h) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 15. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
i) Fræðslu-, tómstunda- og jafnréttisnefnd, dags. 25. júní 2020. Vegna liðar 2, Umf. Neisti, er formanni nefndarinnar og sveitarstjóra falið að vinna að útfærslu á fjárhagsstuðningi til ársloka með stjórn Neista.
j) Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 29. júní 2020. Lögð fram til kynningar.
k) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 2. júlí 2020. Liður 1, lóðamál, staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
l) Atvinnu- og menningarmálanefnd, dags. 2. júlí 2020. Liður 2, gangnaboð, staðfestur. Formanni nefndarinnar og sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
m) Hafnarnefnd, dags. 3. júlí 2020. Vegna liðar 3, viðbygging við fiskverkunarhús, gerir sveitarstjórn ekki athugasemdir við fyrirhuguð byggingaráform og felur byggingarfulltrúa afgreiðslu málsins. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
2. Erindi og bréf
a) Samband ísl. sveitarfélaga, álagning fasteignaskatts, dags. 15. júní 2020. Lagt fram til kynningar.
b) Landvernd, ályktun, dags. 12. júní 2020. Lagt fram til kynningar.
c) Vegagerðin, styrkvegir, dags. 22. júní 2020. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir.
d) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, breytingar á stofnsamningi, dags. 23. júní 2020. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagðar tillögur.
e) Dómsmálaráðuneytið, kostnaður við kosningar, dags. 24. júní 2020. Lagt fram til kynningar.
f) Þjóðskrá, Fasteignamat 2021, dags. 29. júní 2020. Lagt fram til kynningar.
g) Byggðaráð Skagafjarðar, opinber störf á landsbyggðinni, dags. 30. júní 2020. Sveitarstjórn tekur undir með byggðaráðinu varðandi mikilvægi eflingar opinberra starfa á landsbyggðunum.
3. Sumarleyfi sveitarstjórnar
Sumarleyfi sveitarstjórnar ákveðið frá 13. júlí til 31. ágúst. Áskilinn er þó réttur til að boða til aukafunda ef þörf krefur á tímabilinu.
4. Kjörskrá
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir að fela varaoddvita að semja kjörskrá. Jafnframt er varaoddvita veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem upp kunna að koma fram að kjördegi vegna sveitarstjórnarkosninga 19. september 2020 í samræmi við 4. grein laga um kosningar til sveitarstjórna.
a) Lagning ljósleiðara í Djúpavogshreppi - frá Stekkjarhjáleigu að sveitarfélagamörkum í suðri - breyting á aðalskipulagi – tillaga
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi (dags. 9. mars 2020 m.s.br.) lögð fram og endanlega samþykkt. Skipulagsfulltrúa falið að senda tillöguna til staðfestingar Skipulagsstofnunar.
b) Snædalsfoss í landi Bragðavalla - útsýnis- og göngupallur – fullnaðarhönnun
Drög að tillögu að útsýnis- og göngupalli við Snædalsfoss (dags. 9. júní 2020) lögð fram til kynningar og samþykkir sveitarstjórn þau. Sveitarstjóra falið að gefa út framkvæmdaleyfi þegar endanlegir uppdrættir hafa verið samþykktir af byggingarfulltrúa.
c) Blábjörg - lóð fyrir rekstur gistiþjónustu – óveruleg breyting á deiliskipulagi
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi (dags. 8. júlí 2020) lögð fram og samþykkt til kynningar. Skipulagsfulltrúa falið að kynna tillöguna og senda til umsagnar stofnana.
d) Vogaland 4 – Hótel Framtíð - bætt aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða.
Uppdrættir og hönnunargögn vegna framkvæmda við bætt aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra við Hótel Framtíð (dags. 25. júní 2020) lögð fram til kynningar. Framkvæmdin hefur verið auglýst sbr. 6. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Engar athugasemdir bárust. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin falli vel að skilmálum gildandi verndarsvæðis í byggð og samþykkir hana með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Skipulagsfulltrúa falið að grenndarkynna framkvæmdina. Komi ekki fram neinar meiriháttar ábendingar á kynningartíma er sveitarstjóra falið að gefa út framkvæmdaleyfi þegar endanlegir uppdrættir hafa verið samþykktir af byggingarfulltrúa.
e) Innri Gleðivík - athafnasvæði - lóð fyrir kassaverksmiðju.
Umsókn BWEI box Iceland um 5.000 m2 lóð innan athafnasvæðis við Víkurland (dags. 26. júní 2020) lögð fyrir. Innan lóðarinnar er áformað að reisa plastkassaverksmiðju. Sveitarstjórn samþykkir úthlutun lóðarinnar í þessum tilgangi og leggur áherslu á að vandlega verði hugað að staðsetningu og ásýnd verksmiðjunnar svo hún falli sem best að staðháttum á svæðinu. Sveitarstjórn samþykkir að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Skipulagsfulltrúa falið að fylgja málinu eftir.
Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að unnin verði tillaga að breytingu á gildandi aðalskipulagi hvað varðar mörk umrædds athafnasvæðis, ef sýnt þykir að slíkt mæti betur kröfum um staðsetningu og ásýnd verksmiðjunnar.
f) Innri Gleðivík - uppbygging laxasláturhúss.
Með vísun í erindi BWEI box Iceland (dags. 26. júní 2020) lýsir sveitarstjórn yfir vilja til að hefja vinnu við gerð samkomulags milli sveitarfélagsins og þar til bærra aðila um byggingu laxasláturhúss í Innri-Gleðivík. Sveitarstjórn samþykkir að samhliða hugmyndum um frekari uppbyggingu í Innri Gleðivík verði hafin vinna við tillögu að breytingu á gildandi aðalskipulagi. Skipulagsfulltrúa falið að fylgja málinu eftir.
6. Skýrsla sveitarstjóra
a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu útboðs vegna fráveitu. Tilboð verða opnuð á skrifstofu sveitarfélagsins 21. júlí.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir hreinsunarátaki sem staðið hefur yfir undanfarið í sveitarfélaginu. Mikið af brotamálmi, timbri og öðru tilfallandi hefur verið fjarlægt. Samhliða hefur gámsvæðið verið tekið í gegn. Íbúum er þakkað gott samstarf.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir samstarfsverkefni vegna markaðssetningar á staðbundinni framleiðslu undir nafni Cittaslow í Kjörbúðinni. Sveitarstjórn fagnar þeim áfanga sem náðst hefur en leggur jafnframt áherslu á m.t.t. nýlegrar verðkönnunar ASÍ að forsvarsmenn Samkaupa gæti hófs í verðlagningu og leggi þar með sitt af mörkum til að viðhalda þeim velvilja sem verslunin hefur notið á staðnum.
d) Sveitarstjóri gerði grein fyrir opnun „Rúllandi snjóbolti/13, Djúpivogur“ í Bræðslunni laugardaginn 11. júlí kl. 15:00.
e) Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við Íþróttamiðstöðina. Verið er að leggja lokahönd á uppsetningu á nýjum heitum pottum og stefnt er að því að ganga frá utandyra við fyrsta tækifæri þar sem nú hefur verið komið fyrir bættu aðgengi fyrir fatlað fólk.
f) Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum á skólalóðinni í samræmi við tillögur stýrihóps.
Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:20.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Þorbjörg Sandholt, fundarritari.