Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn - 2. júní 2018

Sveitarstjórn - 2. júní 2018

Sveitarstjórn - 2. júní 2018

Ólafur Björnsson skrifaði 06.06.2018 - 11:06

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 02.06.2018

46. fundur 2014-2018

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 2. júní 2018 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Rán Freysdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Fundargerðir

a) Héraðskjalasafn Austfirðinga, dags. 26. febrúar 2018. Lögð fram til kynningar.
b) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 23. apríl 2018. 2018. Lögð fram til kynningar.
c) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 3. maí 2018. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn SSA, dags. 14. maí 2018. Lögð fram til kynningar.
e) Aðalfundur Brunavarna á Austurlandi, dags. 15. maí 2018. Lögð fram til kynningar.
f) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 18. maí 2018. Lögð fram til kynningar.
g) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 29. maí 2018. Lögð fram til kynningar.

2. Erindi og bréf

a) Fullveldi Íslands, dags. í maí 2018. Lagt fram til kynningar
b) Minjastofnun, dags. 7. maí 2018. Lagt fram til kynningar.
c) Þráinn Sigurðsson, dags. 30. maí 2018. Sveitarstjórn afsalar sér forkaupsrétti að bátnum Amanda SU47, skipaskrárnr. 2867.

3. Samgöngumál

Oddviti óskaði eftir að gefa skýrslu undir þessum lið um stöðu samgöngumála og eftirfylgni í helstu áherslumálum Djúpavogshrepps í þeim efnum. Oddviti fór yfir fundi á síðustu vikum og mánuðum vegna málsins með þingmönnum, ráðherrum, vegamálastjóra og sveitarstjórnarfólki á Austurlandi. Fyrir liggur að Axarvegur hefur verið langstærsta baráttumál Djúpavogshrepps um mjög langt skeið. Á þeim 16 árum sem oddviti hefur verið í forsvari fyrir sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur sveitarstjórn lagt stóraukna áherslu á gerð nýs heilsársvegar um Öxi og hefur því verið fylgt eftir af festu. Þessi þrýstingur og eftirfylgni Djúpavogshrepps skilaði sér árið 2008 þegar ákveðið var af samgönguyfirvöldum að ráðist í sameiginlegt umhverfismat og hönnun Axarvegar ásamt Berufjarðar- og Skriðdalsbotni. Samhliða miklum niðurskurði til samgöngumála í kjölfar kreppunnar var hinsvegar ákveðið að brjóta framkvæmdina upp í þrjú aðskilinn útboð. Staðan í dag er sú að framkvæmdir standa yfir í botni Berufjarðar, ásamt því að Skriðdalsbotn verður boðin út á næstu dögum, en við það bætist 6 km leið á bundnu slitlagi á leiðinni um Axarveg. Ennfremur hefur náðst sá mikilvægi árangur að Djúpavogshreppur hefur um árabil náð miklum meirihlutastuðningi inn á Aðalfundum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi að setja heilsársveg um Öxi sem forgangsframkvæmd inn í samþykktir SSA. Á síðustu mánuðum hefur því verið lögð mikil vinna af hálfu fulltrúa Djúpavogshrepps gagnvart stjórnvöldum að fylgja eftir heilsársvegi um Öxi inn á fyrirliggjandi 4—5 ára samgönguáætlun með fullnaðarfjármögnun með það fyrir augum að skipta Axarvegaframkvæmdinni niður á 3 ár. Það er því gríðarlega mikilvægt að ný sveitarstjórn kviki í engu frá þeirri baráttu og þeirri miklu vinnu sem nú hefur verið lagður grunnur að í ljósi þess að ný samgönguáætlun verður lögð fram á hausti komandi.

Sveitarstjórn vill sömuleiðis nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sveitarfélögum á Austurlandi sem stutt hafa Djúpavogshrepp heilshugar í baráttu sinni fyrir þessu langstærsta hagsmunamáli sveitarfélagsins í samgöngumálum – þessa samstöðu má ekki rjúfa.

Eftirfarandi bókun samþykkt og sveitarstjóra falið að fylgja henni eftir.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps skorar á samgönguráðherra, þingmenn kjördæmisins og alþingi allt að standa við gefin fyrirheit um að ráðast í gerð heilsársvegar um Öxi strax við gerð næstu 4 – 5 ára samgönguáætlunar og í beinu framhaldi af Skriðdalsbotni sem segja má að sé fyrsti áfangi í gerð heilsársvegar um Öxi. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps gerir þá sjálfsögðu kröfu að alþingi virði þá forgangsröðun framkvæmda sem skýr niðurstaða hefur orðið um um inn á hinum sameiginlega vettvangi sveitarfélaga á Austurlandi, allt annað er óboðlegt gagnvart lýðræðislegi niðurstöðu Aðalfunda SSA.

4. Húsnæðisáætlun

Húsnæðisáætlun Djúpavogshrepps 2018-2026 lögð fram. Afgreiðslu frestað.

5. Skipulags- og byggingamál

Formaður skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefndar lagði fram lokaútgáfu af lóðarblaði vegna Hammersminnis 24.

6. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri kynnti stöðuna varðandi flutning gamla golfskálans á nýjan stað á Neistavellinum þar sem hann mun standa í staða gamla skúrsins sem hefur verið fjarlægður. Nýja „Neistahöllin“ er nú komin á sinn stað. Stefnt er að því að taka hana í notkun við hátíðarhöldin 17. júní.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir úttekt og kostnaðaráætlun vegna viðgerða á girðingum á Berufjarðarströnd. Sveitarstjórn er sammála um að brýnt sé að vinna að endurbótum.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir malbikunarframkvæmdum, alls um 3000 ferm. á hafnarsvæðinu, við grunnskólann og ofan við Löngubúð sem nú standa yfir.
d) Sveitarstjóri gerði grein fyrir kvörtunum vegna lausagöngu katta. Sveitarstjóra falið að birta áskorun til kattaeigenda um að stemma stigu við lausagöngu þeirra um varptímann.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:45.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Gauti Jóhannesson, fundarritari.