Djúpivogur
A A

Sveitarstjórn - 14. júní 2018

Sveitarstjórn - 14. júní 2018

Sveitarstjórn - 14. júní 2018

Ólafur Björnsson skrifaði 15.06.2018 - 09:06

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.06.2018
1. fundur 2018 – 2022

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 14. júní 2018 kl. 16:00.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Gauti Jóhannesson, Þorbjörg Sandholt, Berglind Häsler, Kári Snær Valtingojer og Bergþóra Birgisdóttir. Kári stjórnaði upphafi fundar.

Dagskrá:

1. Kosning oddvita og varaoddvita.

a) Kosning oddvita.
Kosningu hlaut Gauti Jóhannesson. Bergþóra Birgisdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: Ég hef ákveðið að sitja hjá við kjör oddvita Djúpavogshrepps. Ástæðan er að meirihluti sveitarstjórnar hefur ákveðið að sami aðili, Gauti Jóhannesson, gegni starfi sveitarstjóra og oddvita sveitarfélagsins. Á undanförnum árum hefur það verið krafa fólks að stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga sé opinn, gegnsæ og hafin yfir gagnrýni. Sú afstaða meirihluta sveitarstjórnar Djúpavogshrepps sem kennir sig við “L-listi –Lifandi samfélag” er í hrópandi ósamræmi við þá lýðræðisumbætur sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi”
b) Kosning varaoddvita. Tillaga kom fram um Þorbjörgu Sandholt sem var kjörin með öllum greiddum atkvæðum.
c) Kosning ritara. Kosningu hlaut Þorbjörg Sandholt með öllum greiddum atkvæðum.

2. Ráðning sveitarstjóra.
(Gauti víkur af fundi, varaoddviti tekur við fundarstjórn). Varaoddvita veitt heimild til að ganga frá og undirrita samning við Gauta Jóhannesson vegna ráðningar hans í starf sveitarstjóra Djúpavogshrepps. Gert er ráð fyrir að Gauti haldi sömu kjörum og á síðasta kjörtímabili að því undanskildu að fastar akstursgreiðslur falla niður. Mánaðarlaun hans frá og með 1. júlí verða 840.961 kr. auk 40 klst. fastrar yfirvinnu á mánuði. Gert er ráð fyrir að samningurinn í heild verði lagður fram til kynningar á næsta fundi sveitarstjórnar. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. (Gauti kemur aftur til fundar).

3. Samþykkt um stjórn og fundarsköp - Nefndir og erindisbréf nefnda.
Tillaga að samþykkt um stjórn og fundarsköp Djúpavogshrepps ásamt tillögum um fastanefndir og fulltrúafjölda kjörtímabilið 2018 – 2022 lagðar fram auk draga að erindisbréfum. Sveitarstjórn samþykkir að vísa tillögum um fastanefndir ásamt erindisbréfum til síðari umræðu um stjórn og fundarsköp þann 12. júlí og munu þá tilnefningar um fulltrúa jafnframt liggja fyrir frá hvorum lista í samræmi við niðurstöðu nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga.

Fylgiskjöl:
Samþykkt um stjórn og fundarsköp Djúpavogshrepps
Tillögur að fastanefndum ásamt erindisbréfum

4. Kosningar og tilnefningar í félög, stjórnir og ráð til eins árs, fjögurra ára og sameiginlegar fastanefndir
Sveitarstjórn samþykkir að vísa kosningum í félög, stjórnir og ráð til eins og fjögurra ára ásamt sameiginlegra fastanefnda til næsta fundar.

5. Ákvörðun um laun sveitarstjórnar og nefnda kjörtímabilið 2018 - 2022.
Könnun á kjörum sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga 2018 sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf nýlega út var send út með fundarboði. Samþykkt að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

Fylgiskjöl:
Könnun á kjörum sveitarstjórnarmanna og framkvæmdarstjóra sveitarfélaga 2018

6. Erindi og bréf

a) Jafnréttisstofa, dags. 29. maí 2018. Lagt fram til kynningar.
b) Þórir Stefánsson, dags. 1. júní 2018. Afgreiðslu frestað.
c) Sigrún Landvall, dags. 3. júní 2018. Á fundi sveitarstjórnar Djúpavogshrepps dags. 11. maí 2017 var meðal annars bókað eftirfarandi: „f) Steinaborg - Erindi frá Sigrúnu Landvall dags. 23. apríl 2017. – Samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir einu frístundahúsi þegar samþykktar teikningar liggja fyrir. Frekari byggingarleyfi verða hinsvegar ekki gefin út fyrr en samþykkt deiliskipulag liggur fyrir“ Með vísan til ofangreindrar bókunar fellst sveitarstjórn ekki á umbeðna undanþágu varðandi byggingarleyfi.

7. Siðareglur sveitarstjórnar
Farið var yfir gildandi siðareglur sveitarstjórnar. Niðurstaða sveitarstjórnar er sú að reglurnar þarfnist ekki endurskoðunar og halda þær því gildi sínu óbreyttar.

Fylgiskjöl:
Siðareglur kjörinna fulltrúa í Djúpavogshreppi

8. Húsnæðisáætlun
Húsnæðisáætlun Djúpavogshrepps 2018-2026 lögð fram en afgreiðslu var frestað á síðasta fundi sveitarstjórnar. Húsnæðisáætlunin staðfest.

Fylgiskjöl:
Húsnæðisáætlun Djúpavogshrepps 2018-2026

9. Fundargerðir

a) Fundur vegna endurskoðunar fjallskilasamþykktar Múlasýslna, dags. 31. maí 2018. Lögð fram til kynningar.
b) Stjórn SSA, dags. 4. júní 2018. Lögð fram til kynningar.

10. Sumarleyfi sveitarstjórnar 2018.
Sumarleyfi ákveðið frá 15. júlí til 30. ágúst. Áskilinn er þó sá réttur að boða til aukafundar ef þörf krefur á tímabilinu.

11. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir malbikunarframkvæmdum sem nú er lokið. Á verktíma var nokkru bætt við upphaflegar áætlanir og því ljóst að kostnaður verður meiri en ráð var fyrir gert. Greinargerð um endanlega kostnað verður lögð fyrir sveitarstjórn um leið og hún liggur fyrir.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála vegna nýrra persónuverndarlaga sem taka gildi 15. júlí nk. Stefnt er að fundi með verkefnisstjóra innleiðingar nýrra laga með sveitarstjórn á allra næstu dögum.
c) Sveitarstjóri kynnti nýja framsetningu á fundargerðum á vef sveitarfélagsins. Hér eftir verða fylgiskjöl og gögn birt samhliða bókunum að því gefnu að eðli þeirra og innihald leyfi.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:11

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Fundarritari Þorbjörg Sandholt.