Djúpivogur
A A

10. júní 2010

10. júní 2010

10. júní 2010

skrifaði 11.06.2010 - 13:06

 

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  10. 06. 2010

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 10. júní 2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Klara Bjarnadóttir. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi, þeim 51. á kjörtímabilinu.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni, stofnanir o.fl.

a)    Viðhald Grunnskóla, hugmyndir um útlitsbreytingar. Gögn frá verkfræðistofunni Mannvit lögð fram til kynningar.

 2.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Búfjárhald og umgengni í Löngulág. Til kynningar.
b)    Suðurferð BHG 1. –  4. júní 2010. Sveitarstjóri gerði grein fyrir málinu.
c)    Hefðbundin sumarvinna, snyrting og hirðing opinna svæða. Til kynningar.
d)    Erindi Eli Smith, listmálara í Færeyjum um efnistöku úr Rauðuskriðum – allt að 500 kg. til að vinna málningarefni fyrir listsköpun sína. Sveitarstjóra og oddvita veitt heimild til að afgreiða erindið.

3.    Við lok kjörtímabils – kveðja til sveitarstjóra  

Oddvit tók til máls og flutti kveðju- og þakkarorð, sem hann óskaði eftir að bókuð yrðu:
„Við þessi tímamót þegar núverandi sveitarstjórn kveður vettvang þennan, vilja fulltrúar þeirra tveggja framboða sem leitt hafa sveitarfélagið síðastliðin tvö kjörtímabil, undir stjórn Björns Hafþórs Guðmundssonar, færa honum innilegar þakkir fyrir einstaklega ánægjulegt og árangursríkt samstarf.  Framboðin eru sammála um að undir stjórn Björns Hafþórs hafi tekist að skapa mikla og góða samstöðu á vettvangi sveitarstjórnar og að sú samstaða hafi leitt til  margra góðra verka sem sannarlega sjást merki um í samfélaginu, öllum íbúum til heilla.  
Sömuleiðis skal ekki síður þakka Birni Hafþór og konu hans, Hlíf Herbjörnsdóttur, þátt þeirra í að auðga hér mannlíf og samfélag með þátttöku í félags- og menningarlífi.  
Við viljum að lokum óska þeim alls hins besta í þeim verkefnum sem bíða þeirra í framtíðinni og vonumst við að sjálfsögðu til þess að sveitarfélagið muni áfram njóta krafta þeirra m.a. í þágu félags- og menningarstarfa, eins og verið hefur“.

Sveitarstjóri þakkaði oddvita og sveitarstjórn fyrir hlý orð í sinn garð og konu sinnar. Hann kvaðst vissulega kveðja starfið með ákveðnum söknuði, en umfram allt með miklu þakklæti í garð samstarfsmanna sinna undangengin tvö kjörtímabil. Með samstilltu átaki hefði mönnum tekizt að mynda samheldinn hóp inn á við og út á við og það væri að hans mati mjög mikils virði, ekki sízt nú á tímum. Hann minnti á áföll í atvinnumálum, sem byggðarlagið hefði orðið fyrir og á hvern hátt menn hefðu snúið sér að nýjum verkefnum til að mæta slíkum skakkaföllum. Hann kvaðst ekki vilja draga einstök mál út úr í hópi þeirra verkefna, sem unnið hefði verið að, oft af veikum fjárhagslegum burðum og í ríkjandi skilningsleysi stjórnvalda, hvað varðaði réttláta skiptingu tekjustofna að teknu tilliti til aðstæðna í minni sveitarfélögum. Hins vegar væri honum hugleikin sú uppbygging á sviði ferðaþjónustu og menningartengdum verkefnum, sem átt hefði sér stað, ásamt gífurlegum metnaði forsvarsmanna sveitarfélagsins á sviði umhverfismála í víðum skilningi. Ánægjulegt væri jafnframt að hafa tekið þátt í að gera heimasíðu sveitarfélagsins að jafn virkum og skemmtilegum miðli og hún væri orðin í dag.

Að lokum óskaði hann viðtakandi sveitarstjórn og eftirmanni sínum, Gauta Jóhannessyni alls velfarnaðar í störfum á komandi kjörtímabili.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 15:50.

Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.