2009
12. nóvember 2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 12.11. 2009
Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 12. nóv. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Mætt voru: Albert Jensson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Sóley Birgisdóttir og Klara Bjarnadóttir. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.
Dagskrá:
1. Menningarráð Austurlands o.fl.
Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, mætti á fundinn undir þessum lið. Signý kynnti meðal annars nýja menningarstefnu Menningarráðs Austurlands, menningarsamning og fl. Að lokinni kynningu vék SO af fundi.
2. Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:
a) Rekstrarniðurst. jan./sept. 2009. Undirb. FJ-2010. Fulltrúi KPMG, Guðlaugur Erlingsson sat fundinn undir þessum lið. Að lokinni ítarlegri kynningu vék Guðlaugur af fundi.
b) Breytingar á gjaldskrá v/ búfjár utan vörzlusvæða. Skv. dagskrá átti fram að fara síðari umræða um drög, sem lágu fyrir eftir fund sveitarstjórnar 15. okt. 2009. Í millitíðinni hafði sveitarstjóri óskað álits (sjávarútvegs- og) landbúnaðarráðuneytisins á málinu, en tregt verið um aðstoð eða ábendingar vegna endanlegs frágangs. Leitaði hann því álits lögfræðisviðs Samb. ísl. sveitarfélaga. Í tp. frá lögfræðisviðinu 11. nóv. 2010 kom fram að fyrir lægi eftir símtal við rn. að það muni ekki staðfesta gjaldskrá vegna búfjár utan vörslusvæða í Djúpavogshreppi, jafnvel þótt henni verði breytt eins og tillaga sé gerð um (eftir fyrri umræðu). Fram kemur einnig hjá lögfræðisviðinu að afstaða ráðuneytisins byggist á mjög strangri túlkun búfjárhaldslaganna og að það líti jafnframt svo á að ákvæði í samþykkt sveitarfélagsins frá 2006 um gjaldskyldu séu ólögmæt og að fjáreigendum sé rétt að virða þau að vettugi. Ráðuneytið telji engu skipta að það sjálft hafi staðfest samþykktina á sínum tíma. Í lok álitsgerðar lögfræðisviðsins kemur fram að ólíklegt sé að árangur náist í málinu fyrr en lögunum verði breytt. (Sveitarstjóri tekur fram að ákvæðum í tilvitnaðri gjaldskrá hefur ekki verið beitt).
Svohljóðandi bókun borin upp og staðfest samhljóða:
„Sveitarstjórn furðar sig á afstöðu ráðuneytins vegna málsins, en mesta furðu vekur að ráðuneytið sjálft skuli ekki fyrir löngu hafa beitt sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum, sé það staðreynd að ekki sé hægt að ganga frá eðlilegum gjaldskrám á grundvelli laga, sem kveða á um slíkar heimildir.
Sveitarfélagið hefur fengið ákúrur úr ráðuneyti sveitarstjórnarmála vegna atriðis, sem tengist einmitt gjaldskrám og meðferð þeirra. Í ljósi þess, beinir sveitarstjórn Djúpavogshrepps því til ráðherra sveitarstjórnarmála að hann beiti sér fyrir því við ráðherra landbúnaðarmála, að hlutast verði til um breytingu umræddum lögum og jafnframt hætt að halda ímyndaðri verndarhendi yfir búskussum í stað þess að stuðla að metnaði í landbúnaði, sem reyndar lang flestir búendur á Íslandi sýna í dag.
Ennfremur sjái landbúðaðarráðherra til þess, að við nauðsynlega og löngu tímabæra endurskoðun á lögum um búfjárhald o.fl. verði tryggð sambærileg eftirlits- og þvingunarúrræði vegna landbúnaðarframleiðslu og í annarri matvælaframleiðslu“.
c) Breytingar á gjaldskrá v/ búfjáreftirlits. Síðari umræða. Fyrirliggjandi drög eftir fyrri umræðu staðfest og undirrituð. Sveitarstjóri láti ráðherra staðfesta gjaldskrána og komi henni síðan í birtingu í Stjórnartíðindum.
d) Ábendingar sveitarstjóra um hugsanlegan sparnað v. jóla, áramóta o.fl. Ákveðið var að ekki verði hengd upp jólaljós í götustaura svo sem verið hefur. Áætlaður sparnaður kr. 300 þús. Hugmyndunum að öðru leyti vísað til afgr. FJ-2010.
3. Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:
a) 19. fundur stjórnar Brunavarna á Austurlandi. Varðar m.a. rekstur BvA og fjárhags-áætlun fyrir árið 2010. Vísað til afgreiðslu fjárhagsáætlunar Djúpavoghrepps fyrir árið 2010 (FJ-2010).
b) Aðalfundur SKA, dags. 22. okt. 2009. Fundarg. lögð fram til kynningar.
4. Erindi og bréf:
a) Nefndasvið Alþingis, dags. 10. nóv. 2009. Persónukjör, ósk um umsögn. Fyrir fundinum lá umsögn SSA frá 14. sept. 2009 um frv. til laga um sveitarstjórnar-kosningar og var samþ. samhljóða að taka undir hana.
b) SSA, dags. 7. nóv. 2009. Tilnefning í vinnuhópinn: „Austurland eitt sveitarfélag“.
Tillaga kom fram um eftirtalda og var hún samþykkt (samhljóða).
Aðalmaður: Andrés Skúlason.
Varamaður: Albert Jensson.
c) Sveitarstjórnarráðuneytið. dags. 5. nóv. 2009. Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. 43/2009. Varðar stjórnsýslukæru Magnúsar H. Árnasonar f.h. eigenda Vörðu 18 á Djúpavogi. Í bréfi rn., dags. 5. nóvember 2009, er í fyrsta lagi kynntur úrskurður rn. og í öðru lagi þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að úrskurðurinn verði lagður fram á fundi sveitarstjórnar til kynningar. Hafði hann verið sendur út með fundargögnum. Í niðurstöðu úrskurðar ráðuneytisins segir svo:
Kröfu Magnúsar Helga Árnasonar hdl., f.h. Jóhanns Ævars Þórissonar kt. 190246-3299 og Kristrúnar Jónsdóttur kt. 080346-3529, Vörðu 18, Djúpavogi um að fella úr gildi álagningu B-gatnagerðargjalds að fjárhæð kr. 762.234 á fasteign þeirra Vörðu 18, er hafnað.
Á bls. 11, tl. 6 segir svo í úrskurði rn.:
„Þótt það hafi ekki áhrif á niðurstöðu málsins þykir ráðuneytinu rétt að fjalla nokkuð um meðferð málsins alls hjá Djúpavogshreppi en ljóst er að það á sér langa sögu. Telur ráðuneytið framkvæmd alla hjá Djúpavogshreppi við álagningu B-gatnagerðargjaldsins á A og B (eigendur Vörðu 18) ámælisverða að því leyti að ítrekað var gjaldið lagt á þau með formlega röngum hætti. Getur varla talist góð stjórnsýsla af hálfu sveitarfélags að þurfa aftur og aftur að afturkalla álagningu vegna mistaka og valda þannig íbúum verulegum óþægindum og jafnvel fjárútlátum.“
Sveitarstjóri skýrði ákveðin atriði varðandi framangreint, en bendir jafnframt þeim, sem vilja kynna sér málið út í hörgul, að báða úrskurði rn. má finna á heimasíðu þess:
I) Upphaflega var gjaldið lagt á þegar slitlag var komið á, kantar höfðu verið steyptir og gangstéttir lagðar á göturnar, Vörðu og Steina, nema 39.27 m vantaði af slitlagi á gangstétt í Vörðu. Allir íbúar við götuna féllust á að borga gjald sitt nema eigendur Vörðu 18 sem hengdu hatt sinn fyrst á það atriði að gatan væri ekki fullkláruð vegna þess að verktaki (Malarvinnslan hf.) varð frá að hverfa við lagningu slitlags á gangstétt vegna veðurs haustið 2006.
II) Álagning fór aftur fram þegar framangreindir metrar og sentimetrar höfðu verið huldir slitlagi í kjölfar aths. eigenda Vörðu 18. Á þeim tímapunkti kom í ljós að sveitarstjóra hafði láðst að fá staðfestingu ráðherra á gjaldskrá sem álagningin átti að byggja á. Af þeim sökum áformaði sveitarfélagið að fresta álagningu unz gjaldskráin hefði hlotið formlega staðfestingu ráðuneytisins og hefði verið birt í Stjórnartíðindum. Í millitíðinni lá fyrir mat lögmanns sveitarfélagsins, sem borið hafði verið undir sérfræðing í þessum efnum og voru báðir sammála um að í ljósi nýrra laga um gatnagerðargjöld þyrfti ekki staðfestingu ráðherra á umræddri gjaldskrá. Var því ákveðið að leggja á umrædda eign, enda höfðu þá allir aðrir eigendur við framangreindar götur greitt gjöld, án nokkurra formlegra fyrirvara og þannig fallist á að leggja sitt af mörkum til samfélagsins í kjölfar þeirra stórkostlegu breytinga sem urðu á umhverfi þeirra þegar lagt var bundið slitlag á áratuga gamlar götur og þær fullgerðar með tilheyrandi kostnaði.
III) Í kjölfar úrskurðar rn. 30. apríl 2009 (68/2008) var fyrri álagningin að sjálfsögðu dregin til baka en jafnframt boðuð álagning á grundvelli reglugerðar frá Búlandshreppi hinum forna, sem rn. benti á í fyrri úrskurði sínum að kynni að vera í fullu gildi og rn. raunar staðfestir að svo sé með hinum nýja úrskurði.
d) Markaðsstofa Aust. dags. 16. okt. 2009. Ósk um viðræður um nýjan samning um MA. Samþ. að ganga til viðræðna á grundvelli erindisins og fyrirliggjandi gagna. Í viðræðuhópnum verði: Ferða- og menningarfulltrúi, form. F & M og varaform. F & M.
e) Umhverfisstofnun dags. 5. nóv. 2009. Í erindinu er kynnt fyrirsjáanlegt fjármagnssvelti til refaveiða á næsta ári, þar sem í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekki eyrnamerkt neitt fé í þær dúsur, sem hingað til hafa þó fengist í framangreindu skyni. Samþ. að vísa málinu til LBN (landbúnaðarnefndar Djúpavogshrepps).
f) Umsókn um stofnun fasteigna í fasteignaskrá. Nýjar lóðir. Fyrir fundinum lá bréf frá starfandi byggingarfulltrúa Djúpavogshrepp varðandi eignir í landi Berufjarðar í Djúpavogshreppi. Til að stofna lóðir þær, sem fram koma í erindinu, en þær eru allar vegna bygginga, sem nú þegar hafa verið reistar, þarf sveitarstjórn að samþykkja gjörninginn. Tillaga þar um borin upp og samþ. samhljóða.
5. Skýrsla sveitarstjóra:
a) Sveitarstjóri og varaoddviti gerðu grein fyrir fundi fulltrúa sveitarstjórnar Djúpavogshrepps með þingmönnum 28. október. Einnig lagt fram minnisblað
v/ atriða, sem rædd voru við þingmenn.
b) Oddviti gerði grein fyrir fundum sínum í REK fyrir skömmu með heilbrigðisráðh. o.fl.
c) Sveitarstjóri kynnti stöðu mála vegna verkefnisins H2OWATN ehf.
d) Fyrir fundinum lá minnisblað varðandi hugsanlega þátttöku í Seatrade Miami 2010 í samstarfi við Hornfirðinga, en sveitarfélögin hafa hingað til skipt kostnaði á milli sín. Til stendur að F&M fulltrúi og sveitarstjóri fundi með bæjarstjóra Hornarfjarðar og framkvæmdastjóra Ríkis Vatnajökuls til þess að ræða áframhaldandi samstarf á þessu sviði en ekki náðist að koma á þeim fundi fyrir fund sveitarstjórnar. Bryndís Reynisdóttir, ferða og menningarmálafulltrúi gerði grein fyrir málinu. Sveitarstjóra veitt heimild til ákvarðanatöku á grundvelli frekari upplýsinga varðandi fjármögnun.
e) Sveitarstjóra veitt heimild til þess – í samráði við oddvita – að ganga frá kaupum á hitunarbúnaði fyrir áhaldahúsi og safnstöð að Víkurlandi 6 í samræmi við fyrirliggjandi gögn og hagkvæmnisútreikninga.
Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.