2009
3. september 2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 03. 09. 2009
Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 3. september 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Mættir voru: Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Kristinsson, Andrés Skúlason, Sigurður Ágúst Jónsson og Klara Bjarnadóttir. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.
Dagskrá:
1. Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:
a) Áformuð lántaka hjá SpHorn. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um kjör komi til þess að sveitarstjórn ákveði að taka lán til allt að 5 ára. Endanleg ákvörðun um lántöku verður þó ekki tekin fyrr en samhliða endurskoðun á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009 í ljósi rekstrarniðurstöðu fyrstu 9 mánaða ársins. Á þeim tíma eiga einnig að liggja fyrir upplýsingar um nokkuð endanlegar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári, en sterkar vísbendingar eru um að heildargreiðslur verði mun lægri en 2008 og munar þá mestu um hlut sveitarfélagsins úr svonefndum eins milljarðs potti.
b) Ákv. HSA um lokun Helgafells. Oddviti fór yfir málið og gerði m.a. grein fyrir viðbrögðum sínum við fréttatilkynningu HSA frá 13. júlí s.l., sem hann kom á framfæri við ákveðna fjölmiðla. Málefni aldraðra rædd í ljósi stöðunnar. Í framhaldi kynnti oddviti nýjar hugmyndir að framtíðar nýtingu á húsnæði Helgafells. Hugmyndir þessar sem eru í frumathugun ganga út á að kanna hvort sé hægt að breyta hluta hússins í 3 – 4 þjónustuíbúðir með góðu aðgengi þar sem aldraðir hefðu forgang. Grófar teikningar lagðar fram til kynningar til stuðnings hugmyndinni, en of snemmt er að segja á þessu stigi hvort hugmyndir þessar geti gengið eftir. Unnið verður áfram að málinu og hugmyndirnar kynntar fyrir arkitekt hússins. Sveitarfélagið er hlynnt því að veita eldri borgurunum í Djúpavogshreppi eins góða þjónustu og unnt er og rækja skyldur sínar gagnvart þessum hópi íbúa.
c) Hugm. um lækkun launaliða og ferðakostnaðar Sveitarstjóri kynnti hugmyndir sínar o.fl. um framangreind atriði. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
d) Mötuneytismál í Leikskólanum Bjarkatúni í kjölfar lokunar Helgafells. Leikskólastjóri, Þórdís Sigurðardóttir og sveitarstjóri, gerðu grein fyrir stöðu mála. Kom m.a. fram að samið hefur verið tímabundið við fyrirtækið „Við Voginn“ um afhendingu máltíða næstu vikur með svipuðu fyrirkomulagi og var frá Helgafelli. Afgreiðslu ákvörðunar um framtíðar fyrirkomulag frestað til næsta fundar. Undir þessum lið var einnig kynnt fyrirspurn varðandi hefðbundna sumarlokun leikskólans. Leikskólastjóri mun taka málið upp á næsta fundi í foreldrafélaginu.
e) Yfirferð um þjónustuframboð á vegum Djúpavogshr. og hugsanlegan niðurskurð. Ýmsar hugmyndir ræddar, afgreiðslu frestað.
f) Breytingar á gjaldskrá vegna félagslegrar heimaþjónustu. Fyrir liggur bréf frá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Vopnafjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðar-hrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 27. ágúst 2009 um nýja gjaldskrá, sem tekur gildi 2. sept. og kemur til framkvæmda 15. okt. 2009. Sveitarstjórn staðfestir gjaldskrána fyrir sitt leyti og samþykkir að birta hana á heimasíðu sveitarfélagsins.
g) Eggin í Gleðivík, uppsetning, styrkir og fleira. Sveitarstjóri gerði grein fyrir málinu.
Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar undir fundarg. hafnarnefndar í lið 2 c).
h) GIFT ehf. Í bréfi, sem lá fyrir fundinum kemur fram að Djúpavogs- og Vopnafjarðarhreppur hafa sameiginlega óskað liðsinnis lögfræðideildar Samb. ísl. sveitarfélaga að ganga frá erindi um til sérstaks saksóknara um opinbera rannsókn á GIFT ehf. Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með að málið skuli vera komið í þennan farveg.
i) Samræmd innkaup stofnana. Oddviti kynnti hugmyndir, sem fram hafa komið. Samþ. að fela honum sem forstöðumanni Íþróttamiðstöðvar Djúpavogs að leiða framgang málsins.
j) „Ólafshjáleiga“, kynnt gögn frá Eðvald Smára Ragnarssyni og Ólafi Áka Ragnarssyni v/ landspildu í Hamarfirði neðan þjóðvegar milli Hálstanga og Grjótgarðstanga, í kjölfar auglýsingar sveitarfélagsins á sínum tíma. Tvö tilboð bárust og var tilboð ESR og ÓÁR sýnu hagstæðara. Vegna þess að í ljós kom að landstærð var ofmetin í auglýsingu, m.a. vegna vegagerðar sem skerti land á seinni stigum máls. Koma tilboðsgjafar nú á framfæri hugmyndum um lækkun heildarverðs, lengri greiðslutíma, auk þess sem fram eru settar skýrari upplýsingar um starfsemi á svæðinu, verði af kaupunum. Afgreiðslu frestað.
2. Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:
a) Landbúnaðarnefnd (LBN), 27. júlí 2009.
Eftirtaldir liðir ræddir / afgreiddir:
Liður 2, fjallskilamál í Búlandsdal / Hamarsfirði. Hugmynd um skilarétt sunnan við Hálsa. Ákveðið var að mæla með reit fyrir rétt skammt frá kirkjugarðinum að Hálsi. Ennfremur er sveitarstjórn opin fyrir því að komið verði upp beitarhólfi á umræddu svæði sbr. lið 4a í fundargerð LBN frá 25. ágúst 2009.
Liður 3, fjallskilamál á miðri Berufjarðarströnd / aukarétt í landi Gautavíkur. Ákveðið var að heimila landbúnaðarnefnd að setja málið í gang að höfðu samráði við landeigendur.
Liður 10, ósk um að sendar verði út aftur samþykkt sveitarfélagsins um búfjárhald. Ákveðið var að fela sveitarstjóra að senda samþykktirnar út.
Liður 11, búfjárhald í Löngulág. Skv. upplýsingum búfjáreftirlits hafa einungis 2 af 7 leigutökum / eigendum búfjár í Löngulág farið eftir ákvæði um fjölda búfjár. Sveitarstjórn samþykkir tillögu LBN um að þeim 5 samningum sem ekki hefur verið farið eftir verði sagt upp frá og með 1. júní 2010, hafi meinbugir ekki verið lagfærðir skv. ásetningsskýrslum nú í haust. Einnig tekur sveitarstjórn undir vangaveltur LBN, hvort leigja eigi aðstöðuna í Löngulág til fólks, sem er ekki með lögheimili í Djúpavoghreppi.
Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.
b) Landbúnaðarnefnd, 25. ágúst 2009.
Eftirtaldir liðir ræddir / afgreiddir:
Liður 3; Staðfest ákvörðun LBN um kr. 15.000.- fyrir dagsverk vegna fjallskila.
Liður 4 b); Bókun LBN, svohljóðandi: „Að gefnu tilefni vill LBN koma því á framfæri við sveitarstjórn að hún geri athugasemdir við ákvörðun eigenda jarðarinnar Hofs að takmarka akstur á vegslóða í landi jarðarinnar með því að læsa hliðum innan við útihúsin þar. Jafnframt verði farið fram á það við landeigendurna að framangreindri ákvörðun verði breytt“. (BHG vék af fundi við afgreiðslu málsins.) Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að koma ábendingum þessum á framfæri með sérstöku bréfi til landeigenda þar sem óskað verði svara við athugasemdum þessum.
Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.
c) Hafnarnefnd 31. ágúst 2009.
Eftirtaldir liðir ræddir / afgreiddir:
Liður 2. Eggin í Gleðivík / aðkoma hafnarsjóðs Djúpavogshrepps.
Bókun Elísar Grétarssonar og umfjöllun hafnarnefndar, svohljóðandi. „Elís bað um orðið og gerði að umtalsefni að tilkynnt hefði verið að hafnarsjóður Djúpavogshrepps kæmi til með að fjármagna hluta af kostnaði við verkið. Kvaðst hann ekki minnast þess að um málið hefði verið fjallað í hafnarnefnd og taldi að ekki hefði átt að ganga fram hjá nefndinni við ákvarðanatökuna, enda hefði sér þá gefizt tækifæri til að bóka andmæli sín við framangreinda ákvörðun. Hafnarnefnd samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að hún fjalli um málið á fundi hennar 3. sept. 2009 og skýri af hverju tilkynnt var um aðkomu hafnarsjóðs, án þess að fjallað hefði verið fyrst um það í nefndinni“. Sveitarstjóri upplýsti að við vígslu listaverksins og með upplýsingum, m.a. á heimasíðu sveitarfélagsins hefði komið fram að hafnarsjóður myndi styrkja verkið með fjárframlagi. Sú ákvörðun hefði verið tekin í samráði við form. hafnarnefndar og oddvita og upplýsa hefði átt nefndina um hana á næsta fundi hennar. Sveitarstjóri baðst afsökunar á því hvernig málið hefði borið að og því að hafnarnefndarmenn hefðu frétt um málið á þennan hátt. Hins vegar taldi hann í ljósi þess að sveitarstjórn hefði síðasta orðið í máli sem þessu talið sig hafa skýran stuðning við þennan framgang málsins og m.a. hefði jákvæð afstaða form. hafnarnefndar legið fyrir. Ákv. hefði verið tekin og tilkynnt m.a. út frá því sjónarmiði að listaverkið væri frábært innlegg i markaðssetningu sveitarfélagsins í ferðamálum, hvað varðaði komur skemmtiferðaskipa. Vissulega væru skiptar skoðanir um aðkomu sveitarfélagsins að framkvæmdinni, en skýrðir hefðu verið ákveðnir þættir við vígsluathöfnina og væri hann reiðubúinn að gera það frekar, t.d. á borgarafundi. M.a. lá fyrir, að erfitt hefði verið að breyta ákvörðuninni, sem tekin var „fyrir kreppu“. Auk þess hefði einungis þurft að greiða upphaflega umsamda fjárhæð í íslenzkum krónum (6 milljónir) fyrir framleiðsluferlið í Kína, efnið í eggin, flutning verksins til Íslands og höfundarlaun, þrátt fyrir verðfall krónunnar í kjölfar kreppunnar og að líklega hefði verkið átt að hækka um helming með hliðsjón af stöðu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Ekki mætti gleyma því hversu stórt nafn Sigurður Guðmundsson er í hinum alþjóðlega heimi lista. Bein fjárútlát (frágangur innflutningsskjala, efni, tryggingar og ýmiss uppsetningarkostnaður væru um 400 – 500 þús., en ekki væri lagt mat á verðmæti stólpanna, sem verkin hvíla á. Þeir væru gjöf frá Nordic Factory, sem enn hefði ekki verið metin til fjár. Innkomnir / lofaðir styrkir í beinhörðum peningum væru í dag kr. 2,4 milljónir og áfram yrði sótt um frekari styrki og góðar vonir væru bundnar við jákvæðar afgreiðslur vegna þeirra. Síðast en ekki sízt hefðu ýmsir verktakar o.fl. heima fyrir styrkt uppsetningu verksins um kr. 711.597.- með vinnuframlagi eða á annan hátt. Kvaðst sveitarstjóri ákaflega ánægður með góð viðbrögð við óskum sveitarfélagsins um styrki / framlög og taldi að augljóslega hefðu margir snúist á þá sveif að styðja framkvæmdina. Vissulega væru engin mannanna verk hafin yfir gagnrýni og á tímum sem þessum mætti vel halda því fram að sveitarsjóður hefði ekki bolmagn til annarra hluta en lögbundinna verkefna. Mat margra væri hins vegar að tilvist „Eggjanna í Gleðivík“ myndi efla ferðaþjónustu í byggðarlaginu og þar með atvinnulíf hér um ókomna framtíð. Viðbrögð fjölmargra, sbr. nýlegar upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins styrktu það mat. Verkið væri mjög varanlegt og t.d. lægi fyrir að seljandi granít steinanna veitti 600 ára ábyrgð á vörunni. Enginn gagnrýndi sér vitanlega árleg fjárframlög sveitarfélagsins t.d. í snyrtingu og slátt opinna svæða, þótt velta mætti því fyrir sér, hvort það væri gert fyrir heimamenn eða væntanlega gesti (eða báða hópana). Vel snyrt svæði væru reyndar listaverk á sinn hátt. Yfirlýsingar fjölmargra ferðamanna bæði í sumar og fyrr gæfu til kynna að Djúpivogur hefði upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn og að hér hefði greinilega verið vel staðið að uppbyggingu í þeim málaflokki, ekki sízt í seinni tíð. Að lokum tók sveitarstjóri fram að hann teldi að aðkoma sín og sveitarfélagsins að málinu væri á margan hátt minna gagnrýni verð, en mörg tímaeyðsluverkefni, sem lentu gjarnan á borðum sveitarstjórna án þess að nokkur óskaði eftir þeim eða sæi fyrir að þeirra væri von. Hins vegar væri það réttur íbúanna að hafa skoðun á ákvarðanatöku sem þessari og eftir atvikum að nýta rétt sinn til velja nýtt fólk til þess að fara með umboð sitt.
d) Skólaskrifstofa Austurlands, 2. júlí 2009. Fundarg. lögð fram til kynningar.
3. Skipulagsmál:
a) Aðalskipulag. Oddviti / formaður SBU kynnti drög að svörum vegna framkominna athugasemda. Svörin staðfest og undirrituð. (GK sat hjá).
„Undir þessum lið var einnig lögð fram tillaga að Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020, greinargerð og uppdrættir, sem auglýst hefur verið í Lögbirtingablaðinu 6. júlí 2009, skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. Tillögunni verður breytt til samræmis við svör við athugasemdum sem bárust og afgreidd voru á fundi sveitarstjórnar þ. 3. 9. 2009.“
Afgreiðsla:
„Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með áorðnum breytingum og felur sveitarstjóra að senda Skipulagsstofnun hana til afgreiðslu sbr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 97/1997 m.s.br.“
4. Erindi og bréf:
a) AFS á Íslandi, dags. 20 júlí 2009. Varðar skiptinema. Vísað til afgreiðslu FJ 2010.
b) Hrossaræktarsamtök Austurlands dags. 15. júlí 2009. Styrkbeiðni vegna uppbyggingar reiðhallar. Erindinu hafnað.
c) Félag fagfólks í frítímaþjónustu dags. 15. júlí 2009. Varðar starfsemi félagsmiðstöðva og frístundheimila, lagt fram til kynningar.
d) Þjóðkirkjan dags. 14. júlí 2009. Í bréfinu er upplýst um nauðsyn þess að þinglýsa kirkjulegar eignir og bent á hlutverk sveitarstjórna/byggingaryfirvalda í því sambandi. Lagt fram til kynningar.
e) SÍS dags. 9. júlí 2009. Tilkynning um sveitarstjórnarkosningar 29. maí 2010.
f) Baldur Gunnlaugsson dags. 6. júlí 2009. Varðar tún við Borgargarð 3 og Hermannastekka. Sveitarstjóra falið að vinna að málinu með hliðsjón af áður gerðum samningi um tún í Merki.
g) R-3 Ráðgjöf. dags. 4. ágúst 2009. Upplýsingar um ráðgjöf við faglega aðstoð við endurskoðun á rekstrarháttum og fleiru. Vísað til endursk. fjárhagsáætlunar 2010.
h) Ólafur Áki Ragnarsson, dags. 11. ágúst 2009. Lagt fram til kynningar.
i) UNICEF Ísland, dags. 29. júlí 2009. Varðar áhrif efnahagsþrenginga á velferð íslenskra barna. Lagt fram til kynningar.
5. Skýrsla sveitarstjóra:
a) H2O WATN. Oddviti og sveitarstjóri upplýstu að þeir hefðu þann 27. ágúst sl. gengið frá aðkomu sveitarfélagsins á 1/3 eignarhlut í einkahlutafélaginu H2O WATN (Worldwide Aqua Transport Network). Meðeigendur eru Auðunn S. Ólafsson og Ólafur S. Ögmundsson. Tilgangur félagsins er að vinna og selja vatn til útflutnings til neyslu og til iðnaðar -og landbúnaðarnotkunar, vinna að markaðsmálum og sölu framleiðsluvara og annar skyldur atvinnurekstur, auk reksturs fasteigna. Nánar tiltekið eru uppi áform um útflutning á vegum fyrirtækisins á vatni með tankskipum sem kæmu til með að liggja við festar í Fossárvík í Berufirði, en vatnið yrði tekið úr Nykurhyl, sem er einungis 1,5 km frá væntanlegum legustað skipanna. Reiknað er með að skip allt að 80 þús. tonn myndu lesta vatnið og að lestun hvers farms tæki um 2 sólarhringa. Enn stendur á ákveðnum leyfum / samþykki hins opinbera, en unnið hefur verið að framgangi málsins m.a. í samráði við landeigendur í um það bil eitt ár. Gangi áformin eftir munu þau hafa í för með sér gífurlega lyftistöng fyrir hafnarsjóð, sveitarsjóð, landeigendur, iðnaðarmenn og ýmsa þjónustuaðila, auk þess sem útflutningurinn myndi hafa í för með sér verulegar tekjur fyrir ríkissjóð. Sveitarstjórn bindur vonir við að þrátt fyrir miklar annir í ráðuneytum, sem málið varðar, takist að búa þannig um hnúta að hægt verði að ganga til samninga við væntanlega kaupendur fljótlega. Gert er ráð fyrir að iðnaðarvatnið yrði að stærstum hluta selt til ákveðinna landa við Miðjarðarhaf en fyrir liggur að þörf á slíku vatni fer mjög vaxandi í heiminum og hefur vatn m.a. verið nefnt „Bláa gullið“.
b) Hreindýraveiðar á Búlandsdal. Vísað til frekari umfjöllunar hjá SBU og LBN.
c) Erindi frá Ósnesi, sbr. bókun stjórnarfundar HAUST 2. sept. 2009: Heilbrigðisnefnd leggur til að veitt verði tímabundin undanþága til að fóðra þorsk í Berufirði. Undanþágan verði veitt í eitt ár. Að þeim tíma loknum kynni fyrirtækið hver árangur hefur orðið. Einungis er heimilt að nota fiskslóg og afskurð af fiski frá áðurnefndum fyrirtækjum og slóginu skal dreift a.m.k. tvisvar í viku. Skilyrði fyrir undanþágunni er að sveitarstjórn Djúpavogs og Grandi hf., sem stundar þorskeldi í Berufirði veiti samþykki sitt. Hægt er að afturkalla undanþáguna ef forsendur breytast. Sveitarstjórn veitir fyrir sitt leyti samþykki fyrir framangreindum áformum.
d) Fulltrúar á aðalfund SSA í lok sept. 2009: Andrés Skúlason og Guðmundur Valur Gunnarsson. Til vara: Albert Jensson og Klara Bjarnadóttir.
Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 19:30.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.