2009
2. júlí 2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 02. 07. 2009
Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 2. júlí 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Mættir voru: Albert Jensson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Sigurður Ágúst Jónsson og Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.
Dagskrá:
1. Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:
a) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir 2009. Endurskoðun, síðari umræða.
Helztu niðurstöðutölur eru (þús. kr.):
* Skatttekjur A-hluta ......................................... 232.541
* Fjármagnsliðir aðalsj. ................................... 27.624
* Rekstrarniðurstaða aðalsj. ............................ 9.546
* Rekstrarniðurst. m. öðrum sjóðum, A-hluta .... - 4.573
* Samantekinn rekstur A- og B- hluti ................ - 8.564
* Fjármagnsliðir samtals A og B hluti (nettó) ....... 79.908
(þar af reikn. verðb. 57.419 þús.)
* Afskriftir A og B hluti .................................... 29.675
* Eignir ............................................................. 739.733
* Skuldir og skuldbindingar............................... 633.426
* Eigið fé í árslok 2009 ..................................... 106.305
* Veltufé frá rekstri áætlað ................................ 78.530
* Fjárfestingar varanl. rekstrarfjárm. (nettó) ........ 19.500
Áætlaður hallarekstur er skv. framanrituðu rúmlega 8,5 millj. króna. Stafar það ekki sízt af fjármagnsliðum, sem eru áætlaðir um 80 millj. króna (nettó).
Áætlunin borin undir atkvæði. Samþ. samhlj. Að því búnu var áætlunin undirrituð af sveitarstjórn og sveitarstjóra.
Samhliða ofangreindu var ákveðið að hafa sérstakan vinnufund með forstöðumönnum og fulltrúum sveitarstjórnar eigi síðar en um miðjan júlí til að fara yfir leiðir til að draga úr rekstrarkostnaði, án þess að það leiði til beinnar skerðingar á þjónustu.
b) Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2009 til endurskoðunar. Fyrirliggjandi vinnublað rætt, staðfest og undirritað. BE sat hjá. Nettófjárhæðin kemur fram í lið 1 a).
c) 3ja ára áætlun 2010 – 2012, síðari umræða. Fyrirl. vinnubl. rætt, staðfest og undirritað. BE sat hjá.
d) Álit skoðunarmanna v/ ársreiknings 2008. Í ályktuninni kemur fram að skoðunarmenn gera engar athugasemdir við bókhaldsgögn sveitarfélagsins árið 2008.
e) Mötuneytismál v/ leikskóli. Umræðu frestað.
f) Hlíðarendi ehf., stofnskrá. Í útsendum gögnum fyrir fundinn er stofnskrá Hlíðarenda ehf., en tilgangur félagsins er að hanna og reisa safnhús undir verk Ríkarðs Jónssonar, myndhöggvara að Hlíðarenda á Djúpavogi. Jafnframt mun byggingin gegna hlutverki að verða vettvangur menningar- og listviðburða, sem stjórn hússins telur samrýmast tilgangi þess. Stofnendur eru auk Djúpavogshrepps Ásdís og Ólöf Ríkarðsdætur. Sveitarstjórn staðfestir eignarhlut Djúpavogshrepps skv. fyrirliggjandi stofnskrá.
g) Sjálfsmat, skýrsla Grunnskóla Djúpavogs. Skýrsla unnin af skólastjóra lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn þakkar skýrsluna.
2. Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:
a) Skólanefnd, dags. 18. maí 2009. Fundargerð lögð fram til kynningar
b) SBU, dags. 23. júní 2009. Liður 1 vegna Aðalskipulags staðfestur. Vegna liðar 2 staðfestir sveitarstjórn eftirtalin byggingarleyfi / framkvæmdaleyfi með þeim fyrirvörum sem nefndin gerir vegna liða 2 a) og 2 c):
2 a) Ólafur Eggertsson, vegna gestahúss og þjónustuhúss Berunesi.
2 b) Lilja Aðalsteinsdóttir, viðbygging við sumarhús að Víkurlandi 4 a)
2 c) Kári Valtingojer, bílskúrsbygging að Kambi 10.
2 d) Þór Vigfússon, vegna „bíslags“ við Sólhól.
c) 1. – 5. fundur samstarsnefndar um sameiningu Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps. Fundargerðirnar í heild lagðar fram til kynningar, en auk þess gerðu fulltrúar Djúpavogshrepps í samstarfsnefndinni og sveitarstjóri lítillega grein fyrir starfi hennar.
3. Erindi og bréf:
a) Samþykkt stjórnar SÍS 26. júní, um „stöðugleikasáttmálann“. Lögð fram til kynningar.
b) Sjávarútvegsráðuneytið, dags. 26. júní 2009. Tilkynning um úthlutun byggðakvóta til Djúpavogshrepps fiskveiðiárið 2008/2009. Um er að ræða 16 þorskígildistonn. Í bréfinu kemur fram að vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eigi hún að skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 21. júlí 2009. Fram kom tillaga um að ekki verði settar neinar sérstakar reglur varðandi hungurlús þá, sem um ræðir, en þess í stað látnar gilda reglur ráðuneytisins sem fram koma í reglugerð ráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2008/2009 frá 25. júní 2009, enda er það í samræmi við stefnumörkun sveitarstjórnar v/ byggðakvóta undanfarin fiskveiðiár. Samþykkt samhljóða.
c) SSA, tilk. um aðalfund 25. og 26. sept. 2009. Lögð fram til kynningar.
d) Samgönguráðuneytið, dags. 10. júní ásamt stjórnsýslukæru lögmanns eigenda Vörðu 18, dags. 5. júní 2009. Kynnt drög að svari sveitarfélagsins. Lögmaður sveitarfélagsins, Bjarni G. Björgvinsson var í símasambandi undir þessum lið og gerðu hann og sveitarstjóri grein fyrir framgangi málsins frá því að ráðuneytið úrskurðaði þann 30. apríl 2009 um álagningu gatnagerðagjalda Vörðu 18, Djúpavogi. Til að taka af öll tvímæli undirstrikar sveitarstjórn að sveitarstjóri starfar í fullu umboði hennar að afturköllun eldri álagningar og ákvörðun um nýja álagningu skv. reglugerð um B-gatnargerðargjöld í Búlandshreppi 1989, sbr. svohljóðandi bókun sem gerð var við umfjöllun um málið 6. maí 2009: „Ráðuneytið staðfesti í úrskurði sínum að lagaheimild til álagningar B-gatnagerðargjalds sé enn til staðar. Sveitarstjórn lítur svo á að málinu sem slíku sé ekki lokið þrátt, fyrir niðurstöðu ráðneytisins, enda standi lagaheimildir til þess að B-gatnagerðargjald verði lagt á fasteignina Vörðu 18 á Djúpavogi á sama hátt og á aðrar fasteignir við þá götu.
4. Málefni varðandi búfjárhald.
Stefaníu Lárusdóttur og Jónasi Kjartanssyni á Stórhól stóð til boða að mæta á fundinn. Stefanía forfallaðist á síðustu stundu og tilkynnti að Jónas sæi sér ekki heldur fært að mæta. Eftirt. atriði voru engu að síður rædd og afgr., enda liðurinn á dagskrá skv. fundarboði:
a) Munnleg ósk Stefaníu að sveitarstjórn beiti ekki ákvæðum 3. gr. búfjársamþykktar nr. 399/2006 eða vinni ekki að því á annan hátt að leggja búskap á Stórhól alveg af. Kveðst hún reiðubúin til samninga þar að lútandi, þar sem m.a. væri kveðið á um hámarkstölu búfjár.
b) Afrit bréfs Gísla M. Auðbergssonar, lögm. ábúenda, dags. 25. júní 2009, til héraðsdýralæknis, en þar koma fram áform ábúenda að draga saman í fjölda búfjár. Í bréfinu er bent á sem helstu rök að ábúendur hafa fengið sér til fulltingis búfjárræktarráðunaut og búfræðing sem eru að vinna að því að aðstoða viðkomandi við endurskipulagningu á búskap að Stórhól.
c) Samningur milli ábúenda og Djúpavogshrepps, dags. 29. des. 2006, sem miðaði m.a. að því að ábúendur á Stórhól fækkuðu eigi síðar en haustið 2007 fé niður í þann fjölda sem óbreyttur húsakostur á Stórhól var talinn rýma, eða í 600 kindur. Að mati sveitarstjórnar hefur sá samningur verið þverbrotinn og var farið yfir það á fundinum.
d) Fjallskil á vegum ábúenda, en fyrir liggur að mati sveitarstjórnar að þau hafa ekki verið innt af hendi sem skyldi, sbr. bókun hennar í lið 2 b) á fundi 12. feb. 2009, en þar var m.a. ákveðið að segja ábúendunum upp afnotum á svonefndum Oddum og upprekstrarheimild á landi sveitarfélagsins á svonefndri Tungu.
e) Bókun í lið 2 a) í fundargerð frá 11. júní 2009, en þar var oddvita og sveitarstjóra falið að vinna að því að höfðu samráði við lögmann sveitarfélagsins að nýta þau úrræði, sem sveitarfélagið hefur í málum eins og því, sem um ræðir, m.a. niðurlagsákvæði 3. gr. búfjársamþykktar Djúpavogshrepps nr. 399/2006, sbr. lög nr. 103/2002 Einnig bar á góma bókun sveitarstjórnar frá 2. júní 2009 um meint brot á dýraverndarlögum og kæru frá Matvælastofnun, sem nú er til rannsóknar hjá lögreglustjóraembættinu.
f) Farið var yfir neðangreinda bókun frá Búnaðarsambandi Austurlands:
„Í framhaldi af umræðu um málefni Stórhóls í Álftafirði á stjórnarfundi BsA þann 11. júní s.l. var eftirfarandi ályktun samþykkt. Stjórn hvetur sveitarfélög til að draga lærdóm af málinu og beita hörðum viðurlögum, miklu fyrr en raun var í þessu máli. Heimildir búfjáreftirlits og dýralækna eru takmarkaðar og skaðinn er mikill þegar svona er komið. Stjórnin óttast áhrif slíkra mála á ímynd dilkakjötsframleiðslu bæði innanlands og utan, því nú á tímum ljósvakamiðla getur markaður skaðast um allan heim vegna fréttaflutnings eins og þessa. Jafnframt óskar stjórnin þess að Djúpavogshreppur og Matvælastofnun sjái til þess að málum verði komið í fullkomlega ásættanlegt ástand strax eða viðkomandi gert að hætta búskap ella.“
g) Fyrir fundinum lá svohljóðandi erindi, undirritað af Stefaníu Lárusdóttur, ódags, en mótt. 2. júlí 2009:
„Ég undirrituð óska eftir áframhaldandi afnotum á Oddatúnum sem Stórhóll hefur nytjað í um 30 ár, enda hef ég látið rækta og þurrka hluta af landinu undanfarin ár (síðast í fyrra var gerð nýrækt þar). Einnig hafa verið endurnýjaðar girðingar þar og byrjað var síðastliðið haust á girðingavinnu sem átti að klára nú fyrir haustið.“
Erindin tekin fyrir og afgreidd sem hér greinir:
I) (liður a) hér að ofan) Erindi hvort beita eigi ákvæðum samþykkta og laga um búfjárhald og eftir atvikum laga um dýravernd. Farið var yfir málið með Bjarna G. Björgvinssyni, lögmanni sveitarfélagsins og einnig kynnt álit lögm. Samb. ísl. sveitarfélaga, sem leitað var eftir vegna málsins.
Tillaga að ályktun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps.
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af búfjárhaldi ábúenda að Stórhóli í Álftafirði sem nú sæta kæru Matvælastofnunar vegna illrar meðferðar á skepnum. Vegna langvarandi samskipta sveitarstjórnar og ábúenda vegna ítrekaðra brota ábúenda á 20. gr. dýraverndarlaga nr. 15/1994 sbr. 18. gr. laga um búfjárhald nr. 103/2002 og 3. gr. sbr. 18. gr. samþykktar fyrir búfjárhald í Djúpavogshreppi nr. 399/2006, sér sveitarstjórn sig knúna til þess að beita ákvæði lokamálsliðar 3. gr. samþykktar um búfjárhald í Djúpavogshreppi og svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds í sveitarfélaginu með þriggja mánaða fyrirvara talið frá með næstu mánaðamótum. Leyfi ábúenda til búfjárhalds í sveitarfélaginu fellur niður 31. október 2009.
Tillagan borin upp og samþ. samhljóða.
II) (liður g) hér að ofan) Erindi varðandi svonefnda Odda: Þar sem sveitarstjórn lítur svo á að forsendur til búfjárhalds á Stórhól séu áfram hinar sömu, sbr. mál það sem nú er upp vegna búfjárhalds á bænum ákveður hún að halda fast við fyrri ákvörðun sína í lið 2 b) á fundi 12. febrúar 2009 þar sem ábúendum á Stórhól var sagt upp afnotarétti á svonefndum Oddum og einnig sagt upp upprekstrarheimild í landi Djúpavogshrepps í Markúsarseli og Tunguhlíð. Samþykkt samhljóða að hafna erindinu.
III) Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að setja í gang ferli skv. 9. gr. samnings frá 29. des. 2006, sem miðar að því að innheimta eldri áfallinn kostnað við búfjáreftirlit, sem fram kemur í 8. gr. sama samnings.
5. Skýrsla sveitarstjóra:
a) Fundur með talsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands 30. júní. Oddviti og sveitarstjóri gerðu grein fyrir málinu. Einnig gerði oddviti grein fyrir fundi 1. júlí með fulltrúa Ferðamálastofu á Djúpavogi.
b) Undirskriftarlisti vegna of hraðs aksturs um íbúðargötuna Borgarland. Svohljóðandi texti, undirritaður af ríflega 30 íbúum sveitarfélagsins, lagður fram: „Við undirrituð skorum á sveitarstjórn Djúpavogshrepps í Borgarlandi verði lækkaður sem fyrst, en eins og allir vita er hann 50 km/klst. Við sjáum 2 kosti í stöðunni:
1. Lækkun á hámarkshraða.
2. Sett verði upp hraðahindrun.
Við þessa götu búa mörg börn, sem þar eru að leik og því miður erum við allt of oft vitni að því að margir aka hér ansi hratt um“.
Sveitarstjórn fagnar áhuga íbúa á málinu og er sammála um að Djúpavogshreppur beiti sér fyrir því að sett verði upp skilti með hámarkshraða 30 km við allar íbúagötur í þéttbýli Djúpavogs. Sveitarstjóra falið að setja málið í ferli.
Sveitarstjóri kynnti einnig ábendingu þess efnis að bílastæði vantaði fyrir rútur og að óeðlilegt væri að bílstjórar flutningabíla kæmust upp með að leggja þeim t.d. framan við Geysi, eins og nýlegt dæmi sannaði. Sveitarstjórn þakkar viðkomandi ábendinguna. Málinu vísað til skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar til umfjöllunar og eftir atvikum til frekari úrvinnslu.
Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.