2009
6. maí 2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 06. 05. 2009
Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 6. maí. 2009 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.
Mættir voru: Sigurður Ágúst Jónsson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.
Dagskrá:
1. Fjármál, málefni stofnana o. fl.
a) Staða mála v/ ársreiknings 2008. Fyrir liggur að endurskoðendur KPMG munu hefja lokafrágang vegna ársreikningsins í viku nr. 20. Lokadrög eiga að vera tilbúin upp úr miðjum maí.
b) Fyrri umræða vegna endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009. Sveitarstjóri fór yfir helztu atriði í rekstri og fjárfestingum er varða verkefnið, sbr. einnig umfjöllun á fundi 15. apríl 2009. (Sjá ennfr. lið 1 c). Að öðru leyti vísað til síðari umræðu á fundi í lok maí um þetta verkefni sérstaklega.
c) Framkvæmdir við höfnina og ákv. um nauðsynlegar lausnir varðandi fráveitu þar. Sveitarstjóri og oddviti kynntu málið. Unnið hefur verið við að bæta móttöku ferða-manna á skemmtiferðaskipum og m.a. hefur hluti af gömlu trébryggjunni verið rifinn, en þar á að koma fyrir flotbryggju og landgangi. Ennfremur verður bætt við fyllingu framan við Faktorshúsið og á hana sett snyrtiaðstaða og eftir atvikum upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn síðar. Ráða þarf bót á fráveitukerfi fyrir framan Faktorshúsið og hefur Verkfræðistofan Mannvit gert tillögu um, hvernig staðið skuli að því. Áætlaður kostnaður við verkið er kr. 4.950 þús, en lausnin í heild mun nýtast vegna þeirra endurbóta, sem sveitarfélögum hefur verið gert að láta framkvæma. Ekki er gert ráð fyrir verkinu, nema að hluta til í framkvæmdaáætlun 2009. Fram kom að styrkur að fjárhæð 2,5 millj. króna til endurbóta á aðstöðu fyrir ferðamenn fékkst nýlega. Samþykkt samhljóða að heimila sveitarstjóra að setja verkið í gang og vísa fjármögnun þess til síðari umræðu um endurskoðun á rekstrar- og framkvæmda-áætlun 2009.
d) Heimild til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sveitarstjóri hefur óskað eftir láni frá Lánasjóði sveitarfélaga, m.a. til endurfjármögnunar á núverandi lánum hjá sjóðnum. Sveitarstjórnin samþykkir samhljóða að tekið verði lán hjá sjóðnum, allt að 40 millj. króna.
e) Kynntur samningur um slægjulönd á Búlandsnestúnum (neðan við skógrækt), sbr. lið 3 m) á fundi 15. apríl 2009. Þar var sveitarstjóra falið (án bókunar) að leita leiða til að finna lausn því að mæta óskum Ragnars Elíssonar og Ómar Enokssonar, sem vantar slægjuland og land fyrir haustbeit. Vann sveitarstjóri málið í samráði við oddvita og LBN. Samningur þessu að lútandi lá fyrir fundinum og var hann staðfestur.
2. Erindi og bréf.
a) Lagðar fram til kynningar helztu áherzlur Sambands ísl. sveitarfél. í samskiptum þess við Alþingi og ríkisstjórn sbr. bréf, dags. 29. apríl 2009.
b) Austfjarðatröllið, styrkbeiðni apríl 2009. Afgreiðslu frestað.
c) Búnaðarfélag Beruneshrepss, dags. 17. apríl 2009. Svohljóðandi bókun aðalfundar BB lögð fram: „Aðalfundur Bf. Beruneshrepps, er haldinn var 17.04.2009, samþykkir eftirfarandi ályktun til sveitarstjórnar Djúpavogshrepps: Vegna búskaparloka í Gautavík er óhjákvæmilegt að komið verði upp fjárrétt / skilarétt í Gautavíkurlandi. Nánari staðsetning verði í samráði við hagsmunaaðila“. Eftir nokkra umfjöllun var ákveðið að vísa málinu til landbúnaðarnefndar.
d) Bændasamtök Íslands, dags. 15. apríl 2009. Varðar tilmæli til sveitarfélaga og héraðsnefnda að beita sér fyrir endurskoðun fjallskilasamþykkta, sérstaklega með tilliti til álagningar fjallskila og haustsmölunar heimalanda. Ákveðið að vísa málinu til landbúnaðarnefndar.
e) Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, apríl 2009. Ósk um að tekið verði undir ályktun bæjarstjórnarinnar v/ hreindýramála, svohljóðandi..
„Bæjarstjórn bendir á að hún telji eðlilegt að endurskoða reglur er lúta að úthlutun veiðileyfa meðal annars með það að markmiði að opnað verði fyrir þann möguleika að hluti leyfanna verði seldur til ferðaþjónustufyrirtækja á Austurlandi og þeim þannig gert kleift að markaðssetja hreindýraveiðiferðir. Einnig telur bæjarstjórn brýnt að úthlutun leyfa verði fyrr þ.e. ekki seinna en í desember ár hvert“.
Sveitarstjórnin samþ. samhlj. að taka undir ályktun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.
3. Skýrsla sveitarstjóra.
a) Áformaður fundur um byggðakvóta. Sveitarstjóri rifjaði upp að halda hefði átt fund um málið um miðjan des. 2008, en þá strax lá fyrir ákvörðun um að leita fulltingis úr ráðuneyti sjávarútvegsmála um framsögu á fundinum. Vegna anna í ráðuneytinu, sökum óáranar þeirrar, sem yfir dundi í þjóðfélaginu s.l. haust, var ákveðið að fresta fundinum fram yfir áramót. Vegna veikinda sérfræðings ráðuneytisins í þessum málaflokki varð síðan að fresta fundinum aftur. Nú er uppi óvissa um fyrirkomulag byggðakvóta í framtíðinni og telur sveitarstjórnin óhjákvæmilegt að fresta fundinum enn um sinn, enda átti hann ekki sízt að snúast um regluverk vegna byggðakvóta og fyrirkomulag úthutana skv. reglum þeim, er ráðuneytið hefur ætíð sett vegna úthlutunar hans til einstakra sveitarfélaga.
b) Ósk eins af íbúum Djúpavogshrepps um að birtur verði rökstuðningur á heimasíðu Djúpavogshrepps, vegna áforma um sameiningu sveitarfélagsins við Fljótsdalshérað. Fram kom hjá oddvita að samhliða ákvörðun núverandi samgönguráðherra um stórbættar samgöngur um Öxi, milli Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs, (Mið-Austurlands) árið 2007, hafi sveitarfélagið skuldbundið sig til að ganga til sameiningaviðræðna við Fljótsdalshérað væri til þess vilji hjá gagnaðilanum. Í því fælust hvorki fyrirheit um neina ákveðna niðurstöðu, né heldur að á endanum yrði kosið um sameiningartillögu. Slík ákvörðun yrði að koma út úr sameiningar-viðræðum, sem nú standa yfir þar sem fjárhagslegur ávinningur, kostir og gallar eru metnir við sameiningu þessara sveitarfélaga.
c) Sveitarstjóra veitt heimild til að ganga frá jákvæðri umsögn til Sýslumannsins á Eskifirði vegna umsóknar rekstraraðila farfuglaheimilisins á Berunesi um endurnýjun rekstrarleyfis.
d) Flokkun og endurvinnsla. Samningur hefur verið undirritaður við Sagaplast ehf um þjónustu og ráðgjöf við Djúpavogshrepp vegna flokkunar og endurvinnslu á efnum sem falla til frá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Frá og með 1. júní næstk. verður svokölluð Safnstöð Djúpavogs formlega opnuð í Gleðivík innri. Málið hefur þegar verið kynnt á heimasíðu Djúpavogshrepps og nánara kynningarefni verður sent út á hvert heimili í sveitarfélaginu þegar líður á maí mánuð.
e) Sveitarstjóri lagði fram til kynningar úrskurð samgönguráðuneytisins, sem einnig fer með sveitarstjórnarmál, dags. 30. apríl 2009 varðandi álagningu gatnagerðargjalda á Vörðu 18, Djúpavogi. Úrskurðurinn er ítarlegur (12 bls.) og í úrskurðarorði er felld úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins að leggja gatnagerðargjöld á Vörðu 18 frá júní 2008. Megin rök ráðuneytisins fyrir niðurfellingu álagningarinnar eru þau að láðst hafi að fá staðfestingu ráðherra á gjaldskrá sveitarfélagsins um B-gatnagerðargjald sem gefin var út árið 2005 (nr. 941/2005) og álagning gjaldsins á Vörðu 18 var byggð á, en gjaldskráin sjálf og birting hennar hafi verið reglum samkvæmt.
Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að byggja beri álagningu B- gatnagerðargjalds á lögum nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld. Þau lög voru numin úr gildi með nýjum lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996, en þá var hætt að leggja á sérstakt B- gjald, en í bráðabirgðaákvæði í þeim lögum var framlengd heimild sveitarfélaga til þess að leggja á B- gatnagerðargjald skv. lögum nr. 51/1974 á þau hús sem byggð höfðu verið í þéttbýli fyrir gildistöku laga nr. 17/1996, en lagningu bundins slitlags væri ekki lokið á viðkomandi götu. Ný lög um gatnagerðargjald voru enn samþykkt árið 2006, nr. 153/2006 og lífdagar bráðabirgðaákvæðisins framlengdir, svo nú gildir það með síðari breytingum til ársloka árið 2012. Lögin um gatnagerðargjald nr. 51/1974 hafa allt frá árinu 1996 ekki verið talin með gildum lögum í lagasafni Íslands, en fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði hafi verið búnir lengri lífdagar.
Ráðuneytið staðfesti í úrskurði sínum að lagaheimild til álagningar B-gatnagerðargjalds sé enn til staðar. Sveitarstjórn lítur svo á að málinu sem slíku sé ekki lokið, þrátt fyrir niðurstöðu ráðuneytisins, enda standi lagaheimildir til þess að B- gatnagerðargjald verði lagt á fasteignina Vörðu 18 á Djúpavogi á sama hátt og á aðrar fasteignir við þá götu.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra í samráði við lögmann Djúpavogshrepps að ganga frá og birta yfirlýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins vegna málsins.
Úrskurðurinn verður gefinn út af ráðuneytinu, en hann mun einnig verða aðgengilegur á heimasíðu Djúpavogshrepps.
f) Kynnt vinna á vegum starfshóps SSA, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um endurskoðun á starfsemi sambandsins og samstarfi við stoðstofnanir á starfssvæði SSA. Fundað verður á Djúpavogi með sveitarstjórn 15. maí. kl. 09:30 á Hótel Framtíð. Í starfshópnum eiga sæti Soffía Lárusdóttir, Smári Geirsson og Bj. Hafþór Guðmundsson. Með hópnum starfar Þorvaldur Jóhannsson, frkvstj. SSA.
g) Aðalfundur Þróunarfélags og aðalfundur Vaxtarsamnings á Breiðdalsvík 19. maí. Fulltrúi sveitarfélagsins á fundunum verður Andrés Skúlason.
Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:03.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.