Djúpivogur
A A

2009

6. maí 2009


Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  06. 05. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 6. maí. 2009 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Sigurður Ágúst Jónsson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:  

1. Fjármál, málefni stofnana o. fl. 

a) Staða mála v/ ársreiknings 2008. Fyrir liggur að endurskoðendur KPMG munu hefja lokafrágang vegna ársreikningsins í viku nr. 20. Lokadrög eiga að vera tilbúin upp úr miðjum maí.
b) Fyrri umræða vegna endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009. Sveitarstjóri fór yfir helztu atriði í rekstri og fjárfestingum er varða verkefnið, sbr. einnig umfjöllun á fundi 15. apríl 2009.  (Sjá ennfr. lið 1 c). Að öðru leyti vísað til síðari umræðu á fundi í lok maí um þetta verkefni sérstaklega.
c) Framkvæmdir við höfnina og ákv. um nauðsynlegar lausnir varðandi fráveitu þar. Sveitarstjóri og oddviti kynntu málið. Unnið hefur verið við að bæta móttöku ferða-manna á skemmtiferðaskipum og m.a. hefur hluti af gömlu trébryggjunni verið rifinn, en þar á að koma fyrir flotbryggju og landgangi. Ennfremur verður bætt við fyllingu framan við Faktorshúsið og á hana sett snyrtiaðstaða og eftir atvikum upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn síðar. Ráða þarf bót á fráveitukerfi fyrir framan Faktorshúsið og hefur Verkfræðistofan Mannvit gert tillögu um, hvernig staðið skuli að því. Áætlaður kostnaður við verkið er kr. 4.950 þús, en lausnin í heild mun nýtast vegna þeirra endurbóta, sem sveitarfélögum hefur verið gert að láta framkvæma. Ekki er gert ráð fyrir verkinu, nema að hluta til í framkvæmdaáætlun 2009. Fram kom að styrkur að fjárhæð 2,5 millj. króna til endurbóta á aðstöðu fyrir ferðamenn fékkst nýlega. Samþykkt samhljóða að heimila sveitarstjóra að setja verkið í gang og vísa fjármögnun þess til síðari umræðu um endurskoðun á rekstrar- og framkvæmda-áætlun 2009.
d) Heimild til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sveitarstjóri hefur óskað eftir láni frá Lánasjóði sveitarfélaga, m.a. til endurfjármögnunar á núverandi lánum hjá sjóðnum. Sveitarstjórnin samþykkir samhljóða að tekið verði lán hjá sjóðnum, allt að 40 millj. króna.
e) Kynntur samningur um slægjulönd á Búlandsnestúnum (neðan við skógrækt), sbr. lið 3 m) á fundi 15. apríl 2009. Þar var sveitarstjóra falið (án bókunar) að leita leiða til að finna lausn því að mæta óskum Ragnars Elíssonar og Ómar Enokssonar, sem vantar slægjuland og land fyrir haustbeit. Vann sveitarstjóri málið í samráði við oddvita og LBN. Samningur þessu að lútandi lá fyrir fundinum og var hann staðfestur.

2. Erindi og bréf.

a) Lagðar fram til kynningar helztu áherzlur Sambands ísl. sveitarfél. í samskiptum þess við Alþingi og ríkisstjórn sbr. bréf, dags. 29. apríl 2009.
b) Austfjarðatröllið, styrkbeiðni apríl 2009. Afgreiðslu frestað.
c) Búnaðarfélag Beruneshrepss, dags. 17. apríl 2009. Svohljóðandi bókun aðalfundar BB lögð fram: „Aðalfundur Bf. Beruneshrepps, er haldinn var 17.04.2009, samþykkir eftirfarandi ályktun til sveitarstjórnar Djúpavogshrepps: Vegna búskaparloka í Gautavík er óhjákvæmilegt að komið verði upp fjárrétt / skilarétt í Gautavíkurlandi. Nánari staðsetning verði í samráði við hagsmunaaðila“. Eftir nokkra umfjöllun var ákveðið að vísa málinu til landbúnaðarnefndar.
d) Bændasamtök Íslands, dags. 15. apríl 2009. Varðar tilmæli til sveitarfélaga og héraðsnefnda að beita sér fyrir endurskoðun fjallskilasamþykkta, sérstaklega með tilliti til álagningar fjallskila og haustsmölunar heimalanda. Ákveðið að vísa málinu til landbúnaðarnefndar.
e) Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, apríl 2009. Ósk um að tekið verði undir ályktun bæjarstjórnarinnar v/ hreindýramála, svohljóðandi..
„Bæjarstjórn bendir á að hún telji eðlilegt að endurskoða reglur er lúta að úthlutun veiðileyfa meðal annars með það að markmiði að opnað verði fyrir þann möguleika að hluti leyfanna verði seldur til ferðaþjónustufyrirtækja á Austurlandi og þeim þannig gert kleift að markaðssetja hreindýraveiðiferðir. Einnig telur bæjarstjórn brýnt að úthlutun leyfa verði fyrr þ.e. ekki seinna en í desember ár hvert“.
Sveitarstjórnin samþ. samhlj. að taka undir ályktun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

3. Skýrsla sveitarstjóra.

a) Áformaður fundur um byggðakvóta. Sveitarstjóri rifjaði upp að halda hefði átt fund um málið um miðjan des. 2008, en þá strax lá fyrir ákvörðun um að leita fulltingis úr ráðuneyti sjávarútvegsmála um framsögu á fundinum. Vegna anna í ráðuneytinu, sökum óáranar þeirrar, sem yfir dundi í þjóðfélaginu s.l. haust, var ákveðið að fresta fundinum fram yfir áramót. Vegna veikinda sérfræðings ráðuneytisins í þessum málaflokki varð síðan að fresta fundinum aftur. Nú er uppi óvissa um fyrirkomulag byggðakvóta í framtíðinni og telur sveitarstjórnin óhjákvæmilegt að fresta fundinum enn um sinn, enda átti hann ekki sízt að snúast um regluverk vegna byggðakvóta og fyrirkomulag úthutana skv. reglum þeim, er ráðuneytið hefur ætíð sett vegna úthlutunar hans til einstakra sveitarfélaga.
b) Ósk eins af íbúum Djúpavogshrepps um að birtur verði rökstuðningur á heimasíðu Djúpavogshrepps, vegna áforma um sameiningu sveitarfélagsins við Fljótsdalshérað. Fram kom hjá oddvita að samhliða ákvörðun núverandi samgönguráðherra um stórbættar samgöngur um Öxi, milli Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs, (Mið-Austurlands) árið 2007, hafi sveitarfélagið skuldbundið sig til að ganga til sameiningaviðræðna við Fljótsdalshérað væri til þess vilji hjá gagnaðilanum.  Í því fælust hvorki fyrirheit um neina ákveðna niðurstöðu, né heldur að á endanum yrði kosið um sameiningartillögu. Slík ákvörðun yrði að koma út úr sameiningar-viðræðum, sem nú standa yfir þar sem fjárhagslegur ávinningur, kostir og gallar eru metnir við sameiningu þessara sveitarfélaga.
c) Sveitarstjóra veitt heimild til að ganga frá jákvæðri umsögn til Sýslumannsins á Eskifirði vegna umsóknar rekstraraðila farfuglaheimilisins á Berunesi um endurnýjun rekstrarleyfis.
d) Flokkun og endurvinnsla. Samningur hefur verið undirritaður við Sagaplast ehf um þjónustu og ráðgjöf við Djúpavogshrepp vegna flokkunar og endurvinnslu á efnum sem falla til frá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Frá og með 1. júní næstk. verður svokölluð Safnstöð Djúpavogs formlega opnuð í Gleðivík innri. Málið hefur þegar verið kynnt á heimasíðu Djúpavogshrepps og nánara kynningarefni verður sent út á hvert heimili í sveitarfélaginu þegar líður á maí mánuð. 
e) Sveitarstjóri lagði fram til kynningar úrskurð samgönguráðuneytisins, sem einnig fer með sveitarstjórnarmál, dags. 30. apríl 2009 varðandi álagningu gatnagerðargjalda á Vörðu 18, Djúpavogi. Úrskurðurinn er ítarlegur (12 bls.) og í úrskurðarorði er felld úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins að leggja gatnagerðargjöld á Vörðu 18 frá júní 2008. Megin rök ráðuneytisins fyrir niðurfellingu álagningarinnar eru þau að láðst hafi að fá staðfestingu ráðherra á gjaldskrá sveitarfélagsins um B-gatnagerðargjald sem gefin var út árið 2005 (nr. 941/2005) og álagning  gjaldsins á Vörðu 18 var byggð á, en gjaldskráin sjálf og birting hennar hafi verið reglum samkvæmt.
Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að byggja beri álagningu B- gatnagerðargjalds á lögum nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld.  Þau lög voru numin úr gildi með nýjum lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996, en þá var hætt að leggja á sérstakt B- gjald, en í bráðabirgðaákvæði í þeim lögum var framlengd heimild sveitarfélaga  til þess að leggja á B- gatnagerðargjald skv. lögum nr. 51/1974 á þau hús sem byggð höfðu verið í þéttbýli fyrir gildistöku laga nr. 17/1996, en lagningu bundins slitlags væri ekki lokið á viðkomandi götu.  Ný lög um gatnagerðargjald voru enn samþykkt árið 2006, nr. 153/2006 og lífdagar bráðabirgðaákvæðisins framlengdir, svo nú gildir það með síðari breytingum til ársloka árið 2012.  Lögin um gatnagerðargjald nr. 51/1974 hafa allt frá árinu 1996 ekki verið talin með gildum lögum í lagasafni Íslands, en fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði hafi verið búnir lengri lífdagar.
Ráðuneytið staðfesti í úrskurði sínum að lagaheimild til álagningar B-gatnagerðargjalds sé enn til staðar.  Sveitarstjórn lítur svo á að málinu sem slíku sé ekki lokið, þrátt fyrir niðurstöðu ráðuneytisins, enda standi lagaheimildir til þess að B- gatnagerðargjald verði lagt á fasteignina Vörðu 18 á Djúpavogi á sama hátt og á aðrar fasteignir við þá götu.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra í samráði við lögmann Djúpavogshrepps að ganga frá og birta yfirlýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins vegna málsins.
Úrskurðurinn verður gefinn út af ráðuneytinu, en hann mun einnig verða aðgengilegur á heimasíðu Djúpavogshrepps.
f)     Kynnt vinna á vegum starfshóps SSA, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um endurskoðun á starfsemi sambandsins og samstarfi við stoðstofnanir á starfssvæði SSA. Fundað verður á Djúpavogi með sveitarstjórn 15. maí. kl. 09:30 á Hótel Framtíð.  Í starfshópnum eiga sæti Soffía Lárusdóttir, Smári Geirsson og Bj. Hafþór Guðmundsson. Með hópnum starfar Þorvaldur Jóhannsson, frkvstj. SSA.
g) Aðalfundur Þróunarfélags og aðalfundur Vaxtarsamnings á Breiðdalsvík 19. maí. Fulltrúi sveitarfélagsins á fundunum verður Andrés Skúlason.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:03.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.

07.05.2009

15. apríl 2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  15. 04. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 15. apr. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Í upphafi óskað sveitarstjóri eftir því að tekinn yrði á dagskrá liður nr. 1. h); „Drög að samningi við SAGA-PLAST“. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1.    Fjármál, málefni stofnana o. fl.

a)    Undirbúningur að endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009. Eins og bókað var við afgreiðslu FJ-2009 á að endurskoða hana í maí 2009. Er sú vinna komin í gang, samhliða frágangi ársreiknings 2008. Innan skamms mun verða samráðsfundur með forstöðumönnum deilda og stofnana og í framhaldi af því mun liggja fyrir hvort og á hvern hátt verða teknir ákvarðanir um samdrátt í rekstri, en reynt að hafa að leiðarljósi að slíkt muni ekki leiða til beinnar skerðingar á þjónustu.
b)    3ja ára áætlun 2010 – 2012. Farið var yfir verkefnaáætlun 2009 – 2011, sem samþykkt var á seinasta ári. Eftir nokkra umfjöllun var málinu vísað til fundar / funda í maí.
c)    Greinargerð frá Djúpavogshreppi v/ fjárhagsætlunar 2009. Sveitarstjóri kynnti helztu áherzluatriði í greinargerðinni, en hún lá fyrir í fundargögnum.
d)    Lausafjárstaða sveitarfélagsins, heimild til yfirdráttar. Farið hefur verið fram á varanlega yfirdráttarheimild út árið 2009 hjá aðal  viðskiptabanka sveitarfélagsins, Sparisjóði Hornafjarðar. Sveitarstjórnin veitir sveitarstjóra heimild til að ganga frá yfirdráttarheimild að hámarki 25 milljónir króna. Heimildin gildir til loka árs 2009. Undir þessum lið var sveitarstjóra einnig veitt heimild til að ganga til samninga við Lánasjóð sveitarfélaga um lántöku allt að 30 milljónir króna, eða lánalengingu / skuldbreytingu upp á sömu fjárhæð.
e)    ParX, tilboð um þjónustu, dags. 27. marz 2009. (Hefur verið sent í tp.). Boðið er upp á svonefnda samanburðargreiningu fyrir íslenzk sveitarfélög. Um er að ræða ítarlega greiningu og samanburð á margvíslegum upplýsingum, bæði fjárhagslegum og lýðfræðilegum, er tengjast rekstri, þróun og stöðu sveitarfélaga. Afgreiðslu frestað. Verður tekið fyrir samhliða afgreiðslu endurskoðaðrar FJ-2009.
f)    Intrum Justitia, samningsdrög v/ innheimtuþjónustu. Sveitarstjóri kynnti drögin og honum veitt leyfi til að undirrita fyrirliggjandi samning.
g)    Staða mála v/ Dvalarheimilisins Helgafells. Oddviti gerði grein fyrir stöðu málsins. M.a. kom fram hjá honum að tekist hefði eftir umtalsverða baráttu að tryggja rekstur Dvalarheimilisins a.m.k. fram að næstu áramótum með aðkomu HSA.  Tíminn fram til áramóta verður nýttur til að vinna að varanlegri lausn á rekstrarformi Helgafells og þjónustu almennt við eldri borgara í samfélaginu hér í Djúpavogshreppi. Þegar hefur verið ákveðið, að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála, ásamt HSA og heimamönnum á Djúpavogi komi að því að þróa slíka lausn. Þáttur heimamanna mun vega þungt í þeirri vinnu þ.e. að svara því til, hvernig þjónustu við viljum nákvæmlega búa eldri borgurum til framtíðar og hvaða þjónustu eldri borgarar óska sjálfir eftir í ljósi þess svigrúms sem skapað verður í þessum efnum. Oddviti vildi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi var fyrir nokkrum vikum gagnvart starfsemi Helgafells, þakka heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni sérstakan skilning hans á málinu svo og Þuríði Bachman þingmanni sem hafði einnig aðkomu að málinu, sem leitt hefur til þeirrar lausnar sem uppi er í dag.
Jafnframt þessu vill sveitarstjórn skora á alla íbúa Djúpavogshrepps og aðra velunnara Helgafells að taka nú höndum saman um að styðja með einum eða öðrum hætti við samfélag eldri borgara á Djúpavogi, m.a. með því að  koma á fót sérstöku Hollvinafélagi Helgafells sbr. fyrirheit þar um á undirskriftalista sem afhentur var heilbrigðisráðherra á dögunum. Hollvinafélag sem þetta getur haft úrslitaáhrif á þjónustu við eldri borgara á Djúpavogi til framtíðar litið og verður því m.a. ætlað það hlutverk í viðræðum um framtíðarlausn í þessum mikilvæga málaflokki sem við viljum með öllum hætti tryggja hér í samfélaginu. Sveitarstjórn fagnar niðurstöðu málsins og bindur jafnframt vonir við að ásættanleg framtíðarlausn verði fundin.      
h)    Drög að samningi við SAGA-PLAST. Oddviti kynnti samninginn, en hann hefur verið í vinnslu í nokkra mánuði og hefur bæði nefndarmönnum í SBU og sveitarstjórn verið gerð grein fyrir stöðu mála í vinnuferlinu. Megin markmið samningsins er að draga verulega úr magni sorps til förgunar/urðunar eða allt að 80% og koma þess í stað á víðtækri flokkun og endurvinnslu, jafnframt því að spara umtalsverða fjármuni til lengri tíma litið. Samhliða er með verkefni þessu verið að stuðla að ábyrgri umgengni meðal íbúa gagnvart því hráefni sem til þessa dags hefur verið urðað. Síðast en ekki síst er með þessu fyrirkomulagi verið að skapa störf í heimabyggð þar sem umtalsverð vinna felst í flokkun sem þessari og sorphirðu.
Unnið er að því að koma upp sérstakri Safnstöð að Víkurlandi 6 (svonefnt Þróarhús við bræðsluna) þar sem byggja á upp góða og aðgengilega aðstöðu þar sem íbúar geta komið með flokkuð efni. Til lengri tíma litið verður aukið við mannafla á vegum sveitarfélagsins m.a. til að sinna sorphirðu og flokkun, en að sama skapi mun kostnaður við sorpurðun og -hirðu dragast saman eins og áður segir.
Mikilvægast af öllu til að verkefnið nái fram að ganga og tilætlaður árangur náist, er að íbúarnir taki þessari nýbreytni með opnum huga og tileinki sér strax frá upphafi nýja siði í þessum efnum.  Jafn mikilvægt er að kynning á verkefninu til íbúa verði sem best og mun sveitarfélagið vinna að því að svo verði með sem bestum hætti og verður sérstakt kynningarrit sent út til allra heimila í sveitarfélaginu að þessu tilefni, auk þess sem hægt verður að leita upplýsinga við starfsmenn áhaldahússins ef á þarf að halda.  Stefnt er á að byrja flokkun í næsta mánuði og verður sá tími auglýstur nánar og með fyrirvara þegar að kemur.  Sveitarstjóra falið að senda þeim aðilum sem hafa þjónustað Djúpavogshrepp í þessum efnum bréf til að kynna þær breytingar sem standa fyrir dyrum.  Samningur við Saga Plast ehf borinn upp og sveitarstjóra veitt heimild til að ganga frá honum.

2.    Fundargerðir.

a)    SBU, 19. febrúar 2009.
Eftirtalin mál rædd / staðfest:
Ræddur tl. 5. Matsáætlun v/ Öxi, botns Berufjarðar og hringvegar um Skriðdal.
Staðfest byggingarleyfisskylt mál í tl. 6; Heimild til niðurrifs á gamla bænum á Skála, fastanr. 217-9213. Heimildin er veitt á grundvelli álits Húsafriðunarnefndar, sem hefur ákveðið að leggjast ekki gegn niðurrifi. Hins vegar áréttar sveitarstjórn álit SBU og Húsafriðunarnefndar að séð verði til þess að ummerki um hina öldnu byggingu, svo sem sökkulveggir fái að halda sér og ennfremur að Húsafriðunarnefnd í samráði við umhverfis- og menningarmálayfirvöld í byggðarlaginu fái að hirða nýtilegar minjar / byggingarefni úr húsinu.
b)    1. fundur samstarfsnefndar um samein. DPV. og Fljótsdalshéraðs 19. marz 2009. Fulltrúar Djúpavogshrepps í samstarfsnefndinni eru Andrés Skúlason og Guðmundur Valur Gunnarsson. Fundarg. lögð fram til kynningar.
c)    Skólaskrifstofa Austurlands, 5. marz 2009. Fundarg. lögð fram til kynningar.

3.    Erindi og bréf.

a)    Sjóvá, dags. 2. apríl 2009. Í erindinu er óskað eftir að fá tækifæri til að gera tilboð í vátryggingar fyrir næstu endurnýjun Djúpavogshrepps á „tryggingarpakka“.
b)    Sveitarstjóri kynnti sambærilegt erindi frá VÍS (upphaflega símtal ME við BHG í marz og ennfr. tp. frá ME, dags. 14. ap. v/ sama máls).
Vegna liðar a og b var samþykkt að fela sveitarstjóra að tilkynna að nýr samingur verði boðinn út m/v 1. jan. 2010 og óskað verði eftir tilboðum frá tryggingarfélögum sem hafa starfstöð á Djúpavogi.
c)    Fornleifafélag Íslands, styrkbeiðni v/ þýðingar skýrslu um fornleifarannsóknir í Gautavík frá árunum 1979-1980, dags. 26. marz 2009. Að höfðu samráði við eigendur jarðarinnar Gautavíkur í Berufirði var sveitarstjóra veitt heimild til að tilkynna styrkbeiðanda um sameiginlegan styrk að fjárhæð kr. 100 þús. Fjárhæðin skiptist jafnt milli Djúpavogshrepps og eigenda Gautavíkur, þannig að staðfestur styrkur sveitarfélagsins er kr. 50 þús. og verður til greiðslu, þegar þýðingu skýrslunnar er lokið.
d)    Daníel Arason, styrkb. v/ útgáfu á verkum Inga T. Lárussonar, marz 2009. Erindinu hafnað.
e)    KSÍ, ályktun frá ársþingi KSÍ, dags, 14. feb. 2009, en þar er skorað á sveitarfélög að efla enn frekar íþróttastarfsemi í landinu með það að leiðarljósi, að byggt verði upp samfélag þar sem íþróttir eru viðurkennd leið til heilbrigðra lífsgilda.
f)    UÍA, styrkbeiðni, dags. 10. feb. 2009. Umbeðin fjárhæð er kr. 200 pr. íbúa eða kr. 90.800.- Fyrir liggur að forsvarsmenn UMF Neista mæla með jákvæðri afgreiðslu, enda telja þeir mjög sýnilega breytingu til hins betra í starfi UÍA. Styrkbeiðnin staðfest með þeim fyrirvara að almenn samstaða náist um málið á vettvangi sveitarfélaga á starfssvæði UÍA.
g)    Menningarráð Austurlands, ný stefna um menningarmál á Austurlandi. Stefnan borin upp til staðfestingar og hún samþykkt samhljóða. Undir þessum lið var einnig kjörinn fulltrúi Djúpavogshrepps á aðalfund Menningarráðs Austurlands 7. maí.
Aðalmaður:    Bryndís Reynisdóttir
Varamaður: Kristján Ingimarsson
Jafnframt var samþykkt að tilnefna Kristján Ingimarsson í stjórn Menningarráðsins næstu 2 árin.
h)    Saman-hópurinn, dags. 30. marz 2009. Í erindinu er hvatt til þess að séð verði til þess að allir unglingar eigi kost á sumarstörfum og að börn og ungmenni hafi aðgang að íþrótta- tómstundastarfi við hæfi. Lagt fram til kynningar.
i)    Alcoa, kynningargögn, marz 2009.
j)    Umhverfisstofnun, dags. 16. marz 2009. Í erindinu er kynnt breyting á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, en skv. 14. gr. laganna skulu sveitarfélög koma upp aðstöðu fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Sveitarstjórnin telur að málið falli vel að áherzlum hennar í sorpmálum almennt séð, sbr. lið 1 h) hér að framan.
k)    Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi, dags. 13. marz 2009. Í erindinu eru kynntar áherzlur samtakanna og hvatt til þess að staðinn verði vörður um rekstur sundstaða m.t.t. núverandi ástands í samfélaginu. Einnig er hvatt til þess að markvisst verði unnið að því að koma í veg fyrir einelti o.fl. í búningsklefum.
l)    Ungmennafélag Íslands, dags. 13. marz 2009. Varðar auglýsingu um umsóknir um undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ, sem halda á um verzlunar-mannahelgina árið 2011. Lagt fram til kynningar.
m)    Úthlutun á hluta af slægjulandi neðan við skógrækt. Fyrirspurnir / umsóknir hafa borizt frá eftirtöldum (tímaröð):
Ragnar Elísson,
Baldur Gunnlaugsson,
Ómar Enoksson.
                Afgreiðslu frestað.
n)    SÍS / Vegagerðin v/ vegaskrá, dags. 3. ap. 2009. Lagt fram til kynningar.

4.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Skipulagsstofnun, 24. marz 2009. Tilkynning um frestun á afgreiðslu aðalskipulags Djúpavogshrepps. Lagt fram til kynningar.

5.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Samþykkt að leita eftir því við forsvarsmenn Vopnafjarðarhrepps að þeir standi að því með forsvarsmönnum Djúpavogshrepps að óska eftir opinberri rannsókn á málefum Eignarhaldsfélagsins GIFT (áður Samvinnutryggingar GT).
b)    Umsókn um byggðakvóta. (Umsóknin kynnt).
c)    Fjallað um atvinnumál. M.a. kom fram að stofnað var nýlega á Djúpavogi fyrirtæki um rafvirkjaþjónustu, nýtt fyrirtæki í ferðaþjónustu, nýr bátur er kominn í flotann, unnið er að breytingum á gömlu bryggjunni, mikil vinna hjá Vísi hf.
d)    Kjörskrá fyrir Alþingiskosningarnar. Sveitarstjóra falið að undirrita kjörskrána og leggja hana fram.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:00.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Bj. Hafþór Guðmundsson / Andrés Skúlason, fundarritarar.

16.04.2009

12. febrúar 2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  12. 02. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 12. feb. 2009 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Þórdís Sigurðardóttir, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.

Í upphafi fundar óskaði oddviti eftir að fallizt yrði á að taka fyrir á fundinum fundargerð landbúnaðarnefndar frá því fyrr þennan sama dag, enda hafði verið gert ráð fyrir því í fundarboði, en eðlilega ekki unnt að senda hana út með því. Samþ. samhljóða.


Dagskrá:

1.    Fjárhagsáætlun 2009; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a)    3ja ára áætlun 2010 – 2012. Undirbúningur. Sveitarstjóri lagði fram drög að 3ja ára áætlun. Málinu vísað til næsta fundar.
b)    Gjafagerningur Snorra Gíslasonar v/ Dvalarheimilisins Helgafells. Sveitarstjóri kynnti ákvörðun Snorra Gíslasonar úr Papey, vistmanns á Helgafelli að afhenda sveitarfélaginu peningafjárhæð, 2 milljónir króna, til endurbóta á húsnæðinu samkvæmt samningi þar um. Nú þegar er farið að vinna að undirbúningi verksins. Sveitarstjórn þakkar Snorra hina rausnarlegu gjöf.
c)    Jarðhitaleit á Búlandsnesi; Skýrsla Stapa, Jarðfræðistofu / ÓBS feb. 2009. Skýrslan hafði verið send sveitarstjórnarmönnum í tp. fyrir fundinn. Lögð fram til kynningar.
d)    Minnisp. frá fundi með Sigurði Guðmundssyni, listamanni, 9. feb.  2009. Oddviti, sveitarstjóri og ferða- og menningarmálafulltrúi sátu óformlegan fund með Sigurði, þar sem þokað var áfram hugmynd þess efnis að höfundarverki hans verði komið fyrir á stöplana 34, sem fyrrum löndunarbúnaður fyrir fiskimjölsverksmiðjuna í Gleðivík var festur á. Sveitarstjóra veitt heimild til að vinna að fjármögnun verksins, og gert verður ráð fyrir framlögum bæði úr hafnar- og sveitarsjóði, auk þess sem leitað verður eftir opinberu fjármagni. Honum einnig falið að leita til fyrirtækja og einstaklinga bæði heimamanna og brottfluttra í því skyni að ná endum saman vegna fyrirsjáanlegs kostnaður við verkið, sem er hið áhugaverðasta.
e)    Sorpflokkun. Oddviti kynnti stöðu mála og lagði fram  áfangaskipta verkáætlun sem unnin hefur verið í samráði við Sagaplast ehf um framkvæmd sorpflokkunar í sveitarfélaginu.  Stefnt er á að hefja flokkun á úrgangi 1. maí 2009, enda hafi þá farið fram fullnægjandi kynning á verkefninu meðal íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

2.    Fundargerðir.

a)    Hafnarnefnd; 6. feb. 2009. M.a. lágu fyrir á fundinum upplýsingar um nýja gjaldskrá Djúpavogshafnar, sem komin er á heimasíðu Djúpavogshrepps og tekur gildi 1. marz 2009. Ennfr. var farið yfir nýja skilgr. á hafnarsvæði, sem gengið var frá á fundi hafnarnefndarinnar. Auk þess var ákveðið að veita sveitarstjóra heimild til að ganga frá pöntun á sérstökum landtökubúnaði fyrir farþega skemmtiferðaskipa á grundvelli tilboðs frá fyrirtækinu KRÓLI ehf. Fjárheimild er að hluta til staðar í nýlega samþykktri framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Auk þess var sveitarstjóra falið að leita eftir sérstöku fjármagni á vegum iðnaðar- / byggðamálaráðuneytis, sem ætlað er til endurbóta á möguleikum hafna að taka á móti skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra og nýlega hefur verið auglýst. Fjármögnun að öðru leyti (ef með þarf) vísað til endurskoðunar á framkvæmdaáætlun, sem fara á fram eigi síðar en í maí 2009. Samþykkt samhljóða
b)    Landbúnaðarnefnd; 12. feb. 2009. Í fundargerðinni er m.a. fjallað um síðbúna smalamennsku undanfarna daga sunnarlega í Álftafirði, enda liggur fyrir að fjallskil s.l. haust voru ekki ásættanleg þar. Ekki er heldur ljóst hvernig aðbúnaði fjár á einum bæ í Álftafirði verður háttað, þar sem að undanfarna daga hafa komið af fjalli tæplega 70 kindur, sem tilheyra nánast allar sama býlinu og ekki var gert ráð fyrir á forðagæzluskýrslu. Enn er vitað um fé á fjalli, sem reynt verður að handsama. Nauðsynlegt er talið að búfjáreftirlitsmenn kanni aðstæður og veitir sveitarstjórn fyrir sitt leyti heimild til að nýtt verði þau úrræði, sem til þarf að tryggja viðurgjörning búfjárins á viðunandi hátt og eftir atvikum innheimt gjöld skv. fyrirliggjandi gjaldskrám til að mæta kostnaði við smölun, eftirlit og hugsanlega fóðrun fjárins. Auk þess var samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að segja tafarlaust upp afnotarétti á svonefndum Oddum til hvers konar nýtingar. Hið sama gildir um upprekstrarheimild í landi Djúpavogshrepps í Álftafirði þ.e. Markúsarseli og Tunguhlíð. Samþykkt samhljóða.

3.    Erindi og bréf.

a)    Fljótsdalshérað dags. 9. feb. 2009, varðandi áform um sameiningarviðræður.
Erindið varðar tilmæli um formlegar sameiningarviðræður milli fulltrúa Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps. Sveitarstjórn samþykkir að gengið verði til formlegra viðræðna við sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs í samráði við talsmenn ráðuneytis sveitarstjórnarmála, sem sett hafa sig í samband við forsvarsmenn Djúpavogshrepps vegna málsins.  
b)    Vinnumálastofnun. Í gögnum stofnunarinnar er kynnt staðan á vinnumarkaði á Austurlandi um þessar mundir. Þar kemur fram að atvinnuleysi í Djúpavogshreppi er óbreytt frá janúarmánuði, en engu að síður meira en undanfarin ár. Með vísan til bókunar 22. jan. 2009 vill sveitarstjórnin upplýsa að hún reynir að hafa vakandi auga með framvindu mála í byggðarlaginu og mun reyna að bregðast við eftir föngum, verði talin ástæða til.
c)    Félag íslenzkra „félagsliða“ (feb. 2009). Lagt fram til kynningar.
d)    Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi 20. feb. 2009. Sveitarstjóra veitt heimild til að fela formanni samtakanna að fara með umboð Djúpavogshrepps á fundinum, mæti ekki fulltrúi sveitarfélagsins á hann.
e)    Tilkynning um 23. landsþing Samb. ísl. sveitarfélaga 13. marz 2009. Oddviti var í upphafi kjörtímabils kjörinn aðalmaður á landsþing og sveitarstjóri varamaður hans.
f)    Austurglugginn (jan. 2009). Um er að ræða hvatningu m.a. til sveitarstjórnarmanna að þeir gerist áskrifendur að landsmálablaðinu og einnig að sveitarfélög íhugi þennan valkost vegna auglýsinga á þeirra vegum. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps telur mjög mikilvægt fyrir Austurland að gefið sé út frjálst og óháð blað í fjórðungnum eins og Austurglugginn er og því vill hún sjá veg og vanda slíks blaðs sem mestan.  Sveitarstjórnin hvetur því íbúa, sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir nær og fjær að styðja með einum eða öðrum hætti við útgáfu Austurgluggans.
g)    Veraldarvinir; mótt. 11. feb. 2009. Lagt fram til kynningar.

4.    Kosningar:

a)    Samstarfsnefnd v/ viðræðna um sameiningu Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps:
Kosningu hlutu: Andrés Skúlason og Guðmundur Valur Gunnarsson.
Varamenn Albert Jensson og Brynjólfur Einarsson.   Gert er ráð fyrir að sveitarstjóri vinni með nefndinni.
b)    Varamaður í ferða- og menningarmálanefnd í stað Kirsten Rühl, sem flutt er úr byggðarlaginu. Fram kom tillaga um Ágústu M. Arnardóttur og var hún samþykkt.

5.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 – 2020.  Fyrirliggjandi aðalskipulagstillaga var kynnt á almennum fundi á Hótel Framtíð 7. feb. 2009:
    Tekið fyrir til fyrri umræðu Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008-2020.
    Framlögð gögn frá TGJ, Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur, arkitekts FAÍ eru:
    *    Aðalskipulagsuppdráttur af Djúpavogshreppi m:1:50 000, dags. 7.2.2009.
    *    Þéttbýlisuppdráttur af Djúpavogi í m: 1:5000, dags. 7.2.2009.
    *    Skýringaruppdráttur af nágrenni þéttbýlisins í m: 1:20 000, dags. 7.2.2009.
    *    Greinargerð dags. 7.2.2009.
    *    Umhverfismat ASK. dags.7.2.2009.
    Samþykkt að fela TGJ að færa inn vissar breytingar á kort og í texta, sem formaður SBU kynnti efnislega fyrir sveitarstjórn.
    Samþykkt að svo búnu  að senda tillöguna til Skipulagsstofnunar til athugunar fyrir auglýsingu sbr. 2. mgr. 17. greinar Skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997.


6.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Árnaðaróskir til nýrrar ríkisstjórnar. Samþykkt að fela sveitarstjóra að færa forsætisráðherra árnaðaróskir frá sveitarstjórn til nýrrar ríkisstjórnar og óskir um velfarnað í störfum hennar, en jafnframt hvatningu um að í verkefnum hennar verði skýrt tekið á brýnum byggða-, samgöngu- og atvinnumálum.
b)    Kynnt uppgjör sveitarstjóra vegna útseldrar þjónustu Djúpavogshrepps til MAZ v/ niðurrifs bræðslu. Sveitarstjórnin lýsir ánægju með uppgjörið og fagnar jafnframt þeim jákvæðu áhrifum, sem verkefnið hafði í byggðarlaginu meðan á því stóð.
c)    Heimasíða, „höfuðlausnir“ v/ höfn o.fl. Tæknistjóri mætti á fundinn og skýrði málið og honum veitt heimild til að vinna að framgangi málsins.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:30.

Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.

 

13.02.2009

22. janúar 2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  22. 01. 2009

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 22. jan. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Sigurður Ágúst Jónsson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Brynjólfur Einarsson. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.


Dagskrá:

1.    Fjárhagsáætlun 2009; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a)    Samgönguráðuneytið, 30. des. 2008; heimild til frestun á afgr. FJ-2009. Lagt fram til kynningar.
b)    Gjaldskrár 2009. Borið undir atkvæði fyrirliggjandi skjal, sem hlotið hefur ítarlega umfjöllun, bæði á vinnuf. og við fyrri umr. Það samþ. samhljóða og undirritað.
c)    Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega. Reglurnar staðfestar og undirritaðar.
d)    Drög að samningi við Golfklúbb Djúpavogs. Sveitarstjóri og oddviti kynntu málið. Meginmarkmið samningsins er annars vegar að stuðla áfram að vexti og viðgangi íþróttarinnar í byggðarlaginu og bjóða upp á aðstöðu fyrir ferðamenn, sem stunda vilja þessa íþrótt. Hins vegar hefur samningurinn þau áhrif að bein fjárframlög minnka m/v undanfarin ár, en á móti kemur að sveitarfélagið yfirtekur núverandi golfskála og leggur hann fram til notkunar fyrir iðkendur og félaga í Golfklúbbi Djúpavogs. Samningsdrögin borin undir atkvæði og samþykkt með þremur atkvæðum. Tveir sátu hjá. (GVG, BE)
e)    Eignabreytingar og framkvæmdir 2009. Fyrirliggjandi skjal borið undir atkvæði. Það samþ. samhljóða og undirritað á fundinum.
f)    Viðhaldsáætlun Eignasjóðs og stofnana lögð fram og samþ. samhljóða.
g)    Erindi um styrki o.fl. til afgreiðslu. Fyrirliggjandi skjal borið upp, lið fyrir lið. Það síðan undirritað af sveitarstjórn
h)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2009. Síðari umræða. Fyrirliggjandi gögn kynnt. Helztu niðurstöðutölur eru (þús. kr.):    
*    Skatttekjur A-hluta .........................................        232.500
*    Fjármagnsliðir A-hluta....................................            18.768
*    Rekstrarniðurstaða A-hluta  ............................             3.139
*    Rekstrarniðurst. m. öðrum sjóðum, A-hluta ....             -13.059
*    Samantekinn rekstur A- og B- hluti ................            -19.224
*    Fjármagnsliðir samtals A og B hluti (nettó) .......            71.466
*    Afskriftir A og B hluti ....................................             29.732
*    Eignir .............................................................        679.036
*    Skuldir og skuldbindingar...............................           519.170
*    Eigið fé í árslok 2009 .....................................          159.866
*    Veltufé frá rekstri áætlað ................................           63.333
*    Fjárfestingar varanl. rekstrarfjárm. (nettó) ........           16.500
Áætlaður hallarekstur er skv. framanrituðu rúmlega 19 millj. króna. Stafar það ekki sízt af fjármagnsliðum, sem eru áætlaðir um 71 millj. króna.
Áætlunin borin undir atkvæði. Samþ. samhlj. Að því búnu var áætlunin undirrituð af sveitarstjórn og sveitarstjóra.
i)    Tilboð í félagslega íbúð að Borgarlandi 42. Fyrir liggur í málinu:
I)    Tilboðsfjárhæð er sambærileg og nýleg söluverð félagslegra eigna á vegum Djúpavogshrepps.
II)    Sveitarstjórn hefur áður ákveðið á grundvelli tillögu frá húsnæðisnefnd að selja skuli ofangreinda íbúð.
III)    Sýnilegt hefur verið á heimasíðu sveitarfélagins í fundargerð að íbúðin væri föl.
IV)    Borgarland 42 og 44 er parhús og íb. nr. 44 hefur nýlega verið seld. Eðlilegt er að parhúsið í heild hverfi úr eigu sveitarfélagsins, þegar upp kemur sú staða að hægt er að selja hina íbúðina.
V)    Íbúðin að Borgarlandi 40 hefur nýlega verið auglýst laus til leigu. Engin umsókn barst. Fyrir liggur að núverandi leigjandi í Borgarlandi 42, sem er starfsmaður sveitarfélagsins, er fús að flytja yfir í Borgarland 40, þegar sinnt hefur verið nauðsynlegu viðhaldi á henni.
VI)    Fyrir liggur að Varasjóður húsnæðismála mun bæta sölutap íbúðarinnar á sama hátt og gert hefur verið vegna undangenginnar sölu á félagslegum íbúðum.
Borið undir atkvæði, hvort taka skuli umræddu tilboði, með þeim fyrirvörum, sem í því eru gerðir. Samþ. samhljóða að taka tilboðinu.
j)    Starfsmannabreytingar á skrifstofu Djúpavogshrepps. Elísabet Guðmundsdóttir, launafulltrúi o.fl. hefur óskað eftir að láta af störfum, en er reiðubúin að sinna ákv. verkþáttum áfram eftir því sem þörf krefur. Fjallað var um á hvern hátt manna eigi skrifstofuna í náinni framtíð og til lengri tíma litið og hvort gera eigi ákv. breytingar á fyrirkomulagi starfa samhliða því. Sveitarstjórn er sammála um að veita sveitarstjóra heimild til að auglýsa 100 % stöðu fjármálastjóra hjá Djúpavogshreppi. Launakostnaður skrifstofu myndi aukast við þessa ákvörðun, en að sama skapi myndi minnka aðkeypt  þjónusta m.a. er nauðsynlegt að efla þennan þátt í starfseminni, t.d. í ljósi aukinna krafna um upplýsingagjöf frá sveitarfélögum vegna „kreppunnar“. Þá hefði fjármálastjóri það á verksviði sínu að vera sveitarstjórn og forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins til ráðgjafar, gera tillögur til úrbóta í hagræðingarskyni og jafnframt gera spár og reiknilíkön um stöðu sveitarfélagsins til lengri og skemmri tíma.
k)    Ríki Vatnajökuls.  Fram kom tillaga um að veita ferða- og menningarmálafulltrúa heimild í samráði við formann F og M og sveitarstjóra að kanna möguleika á að Djúpavogshreppur fái inngöngu í Ríki Vatnajökuls.  
l)    Samantekt ferða- og menningarmálafulltrúa v/ Sea Trade í Feneyjum, des. 2008. Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með störf Bryndísar Reynisdóttur sem ferða- og menningarmálafulltrúa, en verkefni hennar eru að mjög stórum hluta kostuð með opinberu fjármagni úr svonefndum vaxtarsamningi, úr sjóði vegna „mótvægisaðgerða“ og nú síðast liggur fyrir fjárveiting í gegnum „NA-verkefnið“.

2.    Erindi og bréf.

a)    Sameiningarmál. Farið var yfir fyrri óformlegar viðræður forsvarsmanna Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps v/ hugmynda um hugsanlega sameiningu þessara sveitarfélaga. Auk þess var tekin staðan á áformum ráðherra sveitarstjórnarmála þessu að lútandi og rifjaðar upp þær áherzlur, sem fram komu hjá honum á fundi á Djúpavogi fyrir skömmu.
b)    Bændasamtök Íslands, dags. 16. jan. 2009 (afrit bréfs til SÍS). Sjónarmiðum BÍ á bótarétti v/ framkvæmda í almennaþágu og framkvæmd eignarnáms. Lagt fram til kynningar.
c)    Sveitarstjóri Breiðdalshrepps, dags. 2. jan. 2009. Um er að ræða „föðurlega áminningu“ v/ bókunar sveitarstjórnar Djúpavogshrepps 29. des. 2008 (sjá lið 3 a) í þeirri fundargerð) varðandi snjómokstur á Öxi og hvatt til þess að sveitarstjórnin endurskoði afstöðu sína og berjist fyrir aukinni þjónustu á eigin forsendum en ekki á kostnað annarra. Lagt fram til kynningar. Einnig kynnti oddviti svarbréf sín sbr. þennan lið og lið 2 d). Sveitarstjórn tekur undir svarbréf oddvita.
d)    Lárus Sigurðsson, Gilsá, Breiðdal, dags. 2. jan. 2009. Bréf LS er svipaðs efnis og bréf skv. lið 2 c) hér að framan. Lagt fram til kynningar.
e)    Seyðisfjarðarkaupstaður, dags. 17. jan. 2009. Um er að ræða bókun bæjarráðs frá 15. jan. 2009, er þar er lýst stuðningi við áherzlur sveitarstjórnar Djúpavogshrepps um snjóruðning á Öxi. Einnig er ítrekuð nauðsyn þess að veginum um Breiðdalsheiði sé haldið opnum.
f)    Erindi oddvita til samgöngunefndar SSA varðandi snjóruðning á Öxi. Lagt fram til kynningar.
g)    ASÍ, dags. 15. jan. 2009. Í bréfinu er hvatt til þess að sveitarfélög bjóði atvinnulausu fólki upp á ókeypis aðgang að sundstöðum, án endurgjalds. Lagt fram til kynningar.
h)    Samgönguráðuneytið, dags. 7. jan. 2009. Varðar reglur um afslætti á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega. Lagt fram til kynningar.
i)    Vegagerðin, dags. 7. jan. 2009. Kynnt gildistaka nýrrar vegaskrár 1. jan. 2009. Einnig farið fram á að fyrri samningur um veghald þjóðvega í þéttbýli á Djúpavogi verði óbr. til 1. júní 2009. Samþ. samhljóða.
j)    Samband íslenskra sveitarfélaga (vegaskrá), dags. 8. jan. 2009. Minnisblað v/ fundar með fulltr. samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um vegaskrá. Lagt fram til kynningar.
k)    Sigurrós R. Guðmundsdóttir, dags. 29. des. 2008. Sveitarstjóri sér ástæðu til að þakka fyrir umslagið. Erindið varðar búfjárhald í Löngulág og hefur sveitarstjóri komið tilmælum til Þjónustumiðstöðvar Djúpavogshrepps að leita leiða til úrbóta á kvörtunarefninu. Að öðru leyti lagt fram til kynningar.

3.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Aðalskipulag. Fyrir liggur ákvörðun um kynningu á drögum að Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 fyrir íbúa sveitarfélagsins þann 7. febrúar næstkomandi. Sérstök auglýsing verður send á öll heimili vegna málsins.
b)    Tímabundin verkkaup v/ ýmissa atriða er tengjast skipulags- og byggingarmálefnum. Sveitarstjóri kynnti hugmyndir sínar, sem miða að því að leiðrétta skráningu eigna í sveitarfélaginu, vinna að endurmati þar sem það kann að eiga við, skrá inn áður óskráðar eignir, endurnýja skráningu þar sem það á við og/eða ganga frá og leiðrétta lóðarleigusamninga og afmarka lóðir / lóðastærðir á uppdráttum. Fyrir liggur samantekt unnin sumarið 2008 á stöðu mála varðandi lóðarleigusamninga o.fl. og ljóst að umtalsverðra leiðréttinga er þörf.

4.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    „Við Voginn“; eigendaskipti. Sveitarstjóri gerði grein fyrir aðkomu sveitarfélagins að málinu, sem unnið var í samráði við sveitarstjórn. Nýir eigendur taka einnig við fyrirtækinu í góðu samráði við fyrri eigendur þess. Auk sveitastjóra vann ferða- og menningarmálafulltrúi að lyktum málsins, enda var litið svo á að nauðsyn bæri til þess að sveitarfélagið stuðlaði að því að tryggja áfram dugmikla þjónustu gagnvart íbúunum svo og ferðamönnum. Sveitarstjórnin óskar nýjum eigendum velfarnaðar í rekstrinum um leið og hún þakkar fyrri eigendum framlag þeirra á þessu sviði í Djúpavogshreppi í næstum 20 ár. Sveitarstjórn vill að þessu tilefni þakka sveitarstjóra sérstaklega aðkomu hans að málinu.
b)    Fyrirhugaður fundur um byggðakvóta. Af óviðráðanlegum ástæðum var ákv. að fresta fundinum, sem upphaflega átti að vera um miðjan. des. 2008. Lagt var upp með að fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis og jafnvel form. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis hefðu framsögu á fundinum. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og ráðuneytinu er talið óhjákvæmilegt að fresta fundinum enn um sinn og verður hann auglýstur þegar mál hafa skýrzt.
c)    Atvinnuástand í Djúpavogshreppi í ársbyrjun 2009. Oddviti kynnti málið. Samkvæmt upplýsingum frá Svæðisvinnumiðlun Austurlands voru ellefu manns skráðir atvinnulausir nú í janúar í Djúpavogshreppi. Þrír af þeim eru þó í hlutastarfi. Hér er engu að síður um nokkra fjölgun að ræða frá fyrra ári og því er sveitarstjórn sammála um að það sé  mikilvægt að halda áfram að fylgjast með þróun mála á vinnumarkaði á svæðinu og eftir atvikum leita leiða til að bregðast við og auka atvinnuöryggið í byggðarlaginu, enda eru atvinnu- og velferðarmál eitt af skilgreindum hlutverkum sveitarfélaga skv. sveitarstjórnarlögum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:15.

Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

 
Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.

 

23.01.2009