Skipulags-, framkvæmda- og umhverfismálanefnd
27. júlí 2016
Fundargerð - SFU
12. fundur 2014 – 2018
Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 27.07. 2016 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Kári Snær Valtingojer, ( Óskar Ragnarsson og varamaður boðuðu fjarveru)
Dagskrá
1. Skýrsla byggingarfulltrúa
Form. SFU gerði grein fyrir í upphafi fundar að hann hefði óskað sérstaklega eftir skýrslu frá byggingarfulltrúa Þórhalli Pálssyni vegna byggingartengdra mála innan sveitarfélagsins svo nefndin væri vel upplýst og fengi heildstæða mynd að umfangi þeirra framkvæmda sem hafa verið í gangi og eru í vinnslu á borði byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi fór að því sögðu yfir margvísleg byggingartengd verkefni í sveitarfélaginu sem hafa verið á borði hans. Sérstaka athygli vekur sú uppbygging sem hefur verið í dreifbýlinu og er í burðarliðnum um þessar mundir. Landeigendur hafa í mjög auknum mæli farið í framkvæmdir bæði með áherslu á nýjar framleiðslugreinar og einnig og ekki síst fjölbreytta uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Þessum drifkrafti í sveitinni vill nefndin fagna sérstaklega á sama tíma og segja má að áhyggjuefni hafi verið að sjá hinar hefðbundnu greinar landbúnaðarins gefa eftir á undanförnum árum og áratugum.
Hefðbundin landbúnaður í bland við ferðaþjónustu sem áfram er til staðar er einnig til marks um að hægt er að tvinna ólíkar rekstareiningar saman. Vænta má að fjölbreyttari atvinnuuppbygging í dreifbýli geti eflt til muna mannlíf til sveita og tryggt verði í leiðinni að jörðum og fasteignum verði vel við haldið.
Þá fór byggingarfulltrúi yfir byggingartengd mál í þéttbýlinu á Djúpavogi, sömuleiðis fór hann yfir í máli og myndum lóðaumsóknir og uppmælingar lóða í þéttbýlinu á Djúpavogi og lagði að því tilefni mikla áherslu á að haldið yrði áfram að vinna jafnt og þétt að uppmælingum á lóðum og uppfæra eldri lóðasamninga sem margir hverjir þörfnuðust endurnýjunar og nákvæmari mælinga. Sömuleiðis væri mikil þörf í þessu samhengi að vinna jafnhliða að deiliskipulagi í íbúðahverfum, með þeim hætti væru hnitsetningar á lóðum jafnframt tryggðar.
Ljóst er á yfirferð byggingarfulltrúa að starf og eftirlit byggingarfulltrúa er býsna viðamikið í sveitarfélaginu og verkefni ekki alltaf fyrirséð. Djúpavogshreppur er auk þess víðfemt eftirlitssvæði og hafa framkvæmdir og byggingartengd verkefni víðsvegar um sveitarfélagið vaxið umtalsvert og verkefni byggingarfulltrúa samhliða því. Byggingarfulltrúa þakkað yfirgripsmikla og ítarlega yfirferð um framkvæmdaverkefni innan sveitarfélagsins og voru nefndarmenn sammála um að mikilvægi þess að fá yfirlit verkefna frá byggingarfulltrúa með þessum hætti þar sem hægt væri að spyrja út í ýmsa þætti máls.
Byggingarfulltrúi yfirgaf fundinn.kl 18.30.
2. Deiliskipulag miðsvæði
Form. fór yfir stöðu deiliskipulagsvinnu í þéttbýlinu á Djúpavogi með áherslu á deiliskipulag á miðbæjarsvæði sem er í vinnslu með Teiknistofu TGJ eftir að þrír íbúafundir hafa verið haldnir um málefnið. Ný uppfærður uppdráttur af miðsvæðinu við Bakka lagður fram. Um er að ræða hugmynd að lausn til að koma á skilvirkari umferðarstýringu á frá gatnamótum Vogalands að Löngubúð með áherslu á meiri aðskilnað akandi og gangandi. Hugmyndin gerir einnig ráð fyrir sérstökum sleppistæðum fyrir rútur með tímamörkum.
Þá er gert ráð fyrir torgi þar sem þvottaplanið var og útsýnisstað með bekkjum sitt hvoru megin við Bakkabúð. Hugmynd þessi að fyrirkomulagi miðar m.a. að gefa íbúum og gestum greiðari leið í öruggara umhverfi með göngusvæði milli umferðarþyngstu svæða í hjarta miðbæjarins, en álag á þetta svæði er m.a. mikið yfir hásumarið. Í þessari útfærslu er komið til móts við ábendingar sem komið hafa fram, bæði á íbúafundum og á síðari stigum í umræðum inn á vettvangi sveitarstjórnar og SFU. Um er að ræða hugmynd að útfærslu sem þegar er byrjað að láta reyna á til að sjá hvernig svæðið bregst við breytingum sem þessum. Ljóst er að þegar orðnar breytingar með lokun á þvottaplani hafa komið vel út og er því vilji nefndarinnar til að halda áfram að þróa breytingarnar til fulls í sumar ef við verður komið. Þegar á fyrirkomulagið hefur reynt að fullu er hægt að laga og bæta það sem betur mætti fara ef ástæða þykir til. Nefndin sammála um að vinna að fyrirliggjandi hugmyndum og hrinda af stað ef hægt verður að koma því við á verkefnalista það sem eftir lifir sumars.
3. Deiliskipulag íbúðabyggð.
a. Form. fór yfir aukna eftirspurn eftir íbúðahúsalóðum og almennt skort á nýbyggingum á íbúðarhúsnæði á Djúpavogi í því sambandi, en búast má við áframhaldandi aukinni eftirspurn á næstu misserum. Í þessu ljósi er mjög mikilvægt að leggja meiri kraft í vinnu við deiliskipulag á þegar afmörkuðum íbúðasvæðum í Aðalskipulagi fyrir þéttbýlið á Djúpavogi.
Það mat nefndarinnar að vegna aukinnar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði á Djúpavogi að áherslur og skyldur sveitarfélagsins til að mæta þeirri þörf eigi fyrst og síðast að liggja í að hafa til ráðstöfunar vel deiliskipulagðar íbúðabyggðir með fjölbreyttum kostum fyrir húsbyggjendur fremur en að sveitarfélagið sjálft fari í aukna skuldsetningu með beinum framkvæmdum við húsbyggingar. Sveitarfélagið hefur auk þess í boði ívilnanir til húsbyggjenda sem þegar hafa verið kynntar. Deiliskipulagðar íbúðabyggðir eru forsenda þess að hægt sé að afgreiða lóðaumsóknir og úthluta með skilvirkari hætti en verið hefur.
Nefndin fagnar jafnhliða þeim áhuga og eftirspurn sem er til staðar vegna nýbygginga íbúða á Djúpavogi.
b. SFU leggur til við sveitarstjórn að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun með það fyrir augum að leggja til aukna fjármuni til þess að hægt verði að setja meiri kraft í deiliskipulagsvinnu í íbúðabyggð þéttbýlisins á Djúpavogi og gerð verði áætlun í því sambandi. Nefndin vill með þessu leggja áherslu á að tryggja nægt og sýnilegt framboð lóða og skilmála vegna þeirra og hafa jafnframt til reiðu fjölbreytta valkosti fyrir áhugasama húsbyggjendur til að mæta aukinni eftirspurn.
4. Umhverfismál
a. Nefndin sammála því að hvetja fyrirtæki til bættrar umgengni, jafnframt væri þakkarvert þar sem vel er um gengið. Þá þarf sveitarfélagið sjálft að bæta úr umgengni á tilteknum svæðum sbr. innan girðingar á Háaurum. Huga þarf því að hvort ásættanlegt sé að hafa opið inn á það svæði allan sólarhringinn í ljósi slæmrar umgengni. Þá þarf sveitarfélagið sömuleiðis að hvetja þá sérstaklega sem nýta hafnarsvæðin, ekki síst við Gleðivík til að sómasamlegrar umgengni sem ekki hefur verið til staðar. SFU hvetur sveitarfélagið til þess að auglýst verði að hver sá sem óskar að geyma hluti á lóðum hafnarsvæða sveitarfélagsins beri að leita sérstaks leyfis vegna þess og hlutir fái aðeins að standa í tiltekin tíma. Íhuga þurfi jafnframt sérstaka gjaldtöku vegna þessa í ljósi þess að hafnarsvæði sveitarfélagsins eru ekki geymslusvæði til langframa fyrir einstaka aðila eða fyrirtæki, því er með öllu óforsvaranlegt að ýmiskonar óskyldir hlutir dagi uppi á þessum svæðum til lengri tíma eins og verið hefur. Þá var einnig rætt mikill óþrifnaður sem hefur komið til vegna löndunar á fiskeldisfóðri á hafnarsvæðinu í Gleðivík, slíkt verður að koma í veg fyrir að endurtaki sig.
b. Bættir slóðar vegna hreindýraveiða
Sveitarfélagið Djúpavogshreppur hefur nú í fyrsta sinn eitt sveitarfélaga beitt sér sérstaklega fyrir því í góðu samstarfi við stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum að bæta úr aðgengi veiðimanna með lagfæringum á viðurkenndum slóðum inn til dala hér í sveitarfélaginu. Þegar hefur verið ráðist í sérstakar aðgerðir vegna þessa með úrbótum á vegslóðum í Hamarsdal. Um er að ræða viðleitni sveitarfélagsins til að koma í veg fyrir utanvegaakstur vegna meiri umferðar veiðimanna vegna aukins veiðikvóta á svæðinu undanfarinn ár. Þá má gera ráð fyrir að þessar úrbætir á vegslóðum hugnist einnig öðrum en þessum sérstaka markhópi með hreindýraveiðum. Markmiðið er að halda áfram úrbótum á næstu árum í góðu samráði og samkomulagi við landeigendur/bændur og stjórn félags hreindýraleiðsögumanna og eftirlitsmanna á svæðinu um forgangsröðun verkefna í þessum efnum. SFU hvetur stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum að ganga til samtals og góðrar samvinnu við fleiri sveitarfélög en Djúpavogshrepp um slíkar úrbætur með það að markmiði að vinna gegn utanvegaakstri, slíkt væri ábyrg stefna af hálfu félagsins. Þá er full ástæða til að brýna almennt þá sem ferðast um landið að hlífa landinu við utanvegaakstri.
c. Stígakerfi við skólastofnanir
Form. skýrði frá framkvæmdum við göngustíg sem kallað hefur verið eftir um árabil til að auka m.a. öryggi skólabarna milli grunnskóla og hótelsins, auk þess sem að stígur þessi er ætlaður almennt gangandi umferð eins og aðrir stígar sem lagðir hafa verið. Ætlunin er síðan að halda áfram framkvæmdum þegar færi gefst við samfellda stígagerð frá íþróttahúsi alla leið að Leikskólanum Bjarkatúni sem jafnhliða hefur verið talin mikil þörf á. Segja má að þessar framkvæmdir séu liður í parti af mun viðameira stígakerfi sem verið er að móta hugmyndir að í deiliskipulagi miðsvæðisins. Framkvæmd þessa stígakerfis við og kringum stofnanir Djúpavogsskóla með tengingar á milli stofnanna og svæða hefur hinsvegar verið í deiglunni um árabil og þótti því tímabært að ráðast í úrbætur ekki síst með öryggi barnanna að leiðarljósi og því ber að fagna.
Annað ekki tekið fyrir
Fundi slitið kl: 20:10