Skipulags-, framkvæmda- og umhverfismálanefnd
12. september 2016
Fundargerð - SFU
13. fundur 2014 – 2018
Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 12.09. 2016 kl. 18:00. Fundarstaður: Geysir.
Mættir: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson og Óskar Ragnarsson. Fjarverandi. Kári Valtingojer og Ingibjörg B Gunnlaugsdóttir. Form. ritaði fundargerð.
Dagskrá
1. Deiliskipulagsverkefni
a. Miðbæjarsvæði. Farið yfir stöðu deiliskipulags á miðbæjarsvæði. Stefnt að íbúafundi í nóvember þar sem fyrstu tillögur verði lagðar fram með tilliti rannsókna sem gerðar hafa verið á svæðinu svo og með hliðsjón af úrvinnslu gagna frá íbúafundum. Fyrirspurnir hafa komið fram vegna nýrra lóða fyrir atvinnustarfsemi á miðbæjarsvæði. Úthlutanir á nýjum lóðum á miðbæjarsvæði geta ekki átt sér stað fyrr en staðfest deiliskipulag liggur fyrir. SFU telur mikilvægt að vinda miðbæjardeiliskipulaginu áfram eins og lögbundið ferli leyfir svo hægt sé að horfa til nánustu framtíðar með nýtingu miðbæjarsvæðisins í huga og mæta um leið m.a. þörf fyrir þéttingu byggðar og aukna og fjölbreyttari atvinnustarfsemi.
b. Íbúðabyggð
Fjöldi umsókna og fyrirspurna um lóðir til íbúðabygginga hefur vaxið umtalsvert á liðnum mánuðum. Verulegt óhagræði og kostnaður fellst í að afgreiða einstök mál þegar a) deiliskipulag liggur ekki fyrir á einstökum íbúðarsvæðum og b) liggja fyrir eldri deiliskipulög sem þarfnast endurskoðunar og uppfærslu. SFU mælir því með að gengið verði markvisst í deiliskipulagsgerð á íbúðarsvæðum með hliðsjón að aukinni eftirspurn.
2. Umsóknir um lóðir.
a. Umsókn um lóð við Vörðu 9. Emil Karlsson dags. 15.ágúst 2016
SFU mælir með úthlutun. Grenndarkynning skal fara fram þegar byggingaráform liggja fyrir.
Samþykkt samhljóða.
b. Umsókn um lóð (nr. ótilgreint.) við Hlíð. Kolbeinn Einarsson og Íris Birgisdóttir dags. 29. ágúst 2016.
Sótt er um lóð og stöðu fyrir 120 m2 íbúðarhúsi á einni hæð auk 30 m2 bílskúrs.
SFU mælir ekki með frekari úthlutun lóða við Hlíð fyrr en nánari útfærsla og endurskoðun á deiliskipulagi liggur fyrir. SFU telur ástæðu til að fara í þá vinnu sem fyrst. Litið er jafnframt svo á að umrætt svæði sem sótt er um þarfnist nokkuð ítarlegrar skoðunar með tilliti til staðhátta.
Samþykkt samhljóða.
3. Umferðarstýring á skólatorfu – gangandi og akandi.
Form. kynnti framkvæmdir og fyrirkomulag sem unnið hefur verið að við skólatorfuna með það að markmiði að auka sérstaklega öryggi barna á svæðinu, en þegar hefur verið komið á umferðarstýringu fyrir bæði gangandi og akandi sem hefur nú þegar skilað góðum árangri. Í framhaldi kynnti form. tillögu við stígagerð milli íþróttamiðstöðvar/grunnskóla og leikskóla. Breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu tillögu og hefur stígur m.a. verið færður fjær heilsugæslustöðinni. Tillagan var send skólastofnunum og viðkomandi lóðahöfum og hafa jákvæðar umsagnir þegar borist frá lóðahöfum og jafnhliða verið tekið tillit til ábendinga frá skólasamfélaginu.
Samþykkt samhljóða að hvetja sveitarstjórn að ráðast í gerð göngustígsins um leið og aðstæður eru fyrir hendi.
4. Umhverfismál
Rætt um slæma umgengni á gömlu vegagerðarlóðinni (Háaurum) og mælst til þess við sveitarstjórn að skoðað verði alvarlega að koma upp rampi sem hægt væri að keyra upp á með t.d. kerrur svo auðveldara sé að losa þyngri hluti. Við rampana verði settir stórir gámar eftir þörfum á hvora hlið m.a. til að flokka brotajárn, timbur og fl.
Ljóst má vera að fullu er reynt á núverandi skipulag innan lóðarinnar.
SFU leggur því til að gert verði ráð fyrir breytingum í þessa veru við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár .
Samþykkt samhljóða.
5. Skipulagsráðgjafi Djúpavogshrepps - Guðrún Jónsdóttir FAÍ
SFU vill undir þessum lið minnast Guðrúnar Jónsdóttur FAÍ sem féll frá þann 2.sept. síðast liðinn, en Guðrún og Teiknistofa hennar að Tjarnargötu 4 í Reykjavík hefur unnið mjög mikilsvert starf í þágu skipulagsmála bæði í fyrrum Búlandshreppi og síðar Djúpavogshreppi og ber þar hæst vinna við Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 – 2020. Auk þess vann Guðrún ómetanlegt starf í þágu húsverndarmála í Djúpavogshreppi um langt árabil og stuðlaði að uppbyggingu þeim efnum. Þá stóð Teiknistofan einnig undir handleiðslu Guðrúnar að útgáfu viðamikillar húsakönnunar bæði í þéttbýli og dreifbýli í Djúpavogshreppi sem hefur fengið mikið lof.
Störf Guðrúnar og alúð hennar fyrir þeim verkefnum sem hún sinnti fyrir sveitarfélagið hafa hvarvetna vakið athygli meðal þeirra sem kynnt hafa sér mál. Um langt árabil og allt fram að dánardægri naut Guðrún mikils liðstyrks frá syni sínum dr. Páli Líndal, en saman hafa þau átt drjúgan þátt með íbúum og stjórnsýslu sveitarfélagsins að marka þá stefnu sem að Djúpavogshreppur státar af í dag og hefur eflt byggð og samfélag í heild með fjölbreyttum hætti. Megi Guðrún Jónsóttir FAÍ og Teiknistofa hennar hafa ævarandi þakkir fyrir einstakt og heillaríkt samstarf við sveitarfélagið á fjórða áratug. Teiknistofan mun eftir sem áður starfa óbreytt áfram að verkefnum í tengslum við skipulagsmál fyrir Djúpavogshrepp.
Fundi slitið kl: 20:00
19. maí 2016
Fundargerð - SFU
11. fundur 2014 – 2018
Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 19.05 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson og Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, fjarverandi Kári Valtingojer og Óskar Ragnarsson. Andrés ritaði fundargerð.
Gestir fundarins Páll J Líndal og samstarfsaðilar TGJ - Ydda arkitektar Hjördís Sigurðardóttir og Hildur Ottósdóttir.
Dagskrá
1. Miðbæjarskipulag – íbúafundur nr. 3
Form. bauð gesti velkomna og að því loknu fór Páll J Líndal yfir stöðu mála er varðar vinnu við miðbæjarskipulag á Djúpavogi. Í meginatriðum fór Páll yfir úrvinnslu gagna frá tveimur síðustu íbúafundum sem haldnir hafa verið á Djúpavogi og lagði upp í framhaldi samantekt þar sem dregnar voru saman helstu niðurstöður og jafnframt kynntar fyrstu tillögur á korti hvernig svæðið gæti í grófum dráttum litið út miðað við umræðuna sem átt hefur sér stað ásamt rannsóknum á svæðinu.
Þessar fyrstu tillögur taka sömuleiðis mið af forsendum og leiðarljósi aðalskipulagsins.
2. Önnur skipulagsmál
Farið var yfir deiliskiplögð íbúðasvæði í þéttbýlinu sem þarfnast uppfærslu og önnur íbúðasvæði sem skilgreind eru í aðalskipulagi. Þá var lögð sérstök áhersla á að setja sérstaka vinnu af stað við deiliskipulag á skilgreindu íbúðasvæði á nærsvæði Steinstaða og Mela fyrir svokallaða „Smáheimilabyggð“ að sama skapi verði unnið jafnhliða að deiliskipulagi á frístundasvæði neðan við fyrirhugaða „Smáheimilabyggð“ ofan við Hvarf og Víkurland. Ljóst er að verkefni þetta kallar á umtalsverða vinnu. Að sama skapi leggur nefndin mikla áherslu á að sveitarfélagið þurfi að hafa á að skipa deiliskipulögðum svæðum fyrir húsbyggjendur þegar kemur að umsóknum til nánustu framtíðar það er forsenda þess að hraða megi öllum umsóknarferlum og uppbyggingu íbúðabyggðar þegar eftir því er leitað. Fundarmenn SFU ánægðir með það upplegg sem kynnt verður á íbúafundi á Djúpavogi í Djúpinu kl. 18:00 síðar í dag þar sem farið verður yfir bæði stöðu á miðbæjarskipulagi sem og önnur skipulagsmál sem eru í vinnslu í þéttbýlinu.
Fundi slitið kl: 17.30