Djúpivogur
A A

Skipulags-, framkvæmda- og umhverfismálanefnd

27. júlí 2016

Fundargerð - SFU

12. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 27.07. 2016 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Kári Snær Valtingojer, ( Óskar Ragnarsson og varamaður boðuðu fjarveru)


Dagskrá

1. Skýrsla byggingarfulltrúa

Form. SFU gerði grein fyrir í upphafi fundar að hann hefði óskað sérstaklega eftir skýrslu frá byggingarfulltrúa Þórhalli Pálssyni vegna byggingartengdra mála innan sveitarfélagsins svo nefndin væri vel upplýst og fengi heildstæða mynd að umfangi þeirra framkvæmda sem hafa verið í gangi og eru í vinnslu á borði byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi fór að því sögðu yfir margvísleg byggingartengd verkefni í sveitarfélaginu sem hafa verið á borði hans. Sérstaka athygli vekur sú uppbygging sem hefur verið í dreifbýlinu og er í burðarliðnum um þessar mundir. Landeigendur hafa í mjög auknum mæli farið í framkvæmdir bæði með áherslu á nýjar framleiðslugreinar og einnig og ekki síst fjölbreytta uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Þessum drifkrafti í sveitinni vill nefndin fagna sérstaklega á sama tíma og segja má að áhyggjuefni hafi verið að sjá hinar hefðbundnu greinar landbúnaðarins gefa eftir á undanförnum árum og áratugum.
Hefðbundin landbúnaður í bland við ferðaþjónustu sem áfram er til staðar er einnig til marks um að hægt er að tvinna ólíkar rekstareiningar saman. Vænta má að fjölbreyttari atvinnuuppbygging í dreifbýli geti eflt til muna mannlíf til sveita og tryggt verði í leiðinni að jörðum og fasteignum verði vel við haldið.

Þá fór byggingarfulltrúi yfir byggingartengd mál í þéttbýlinu á Djúpavogi, sömuleiðis fór hann yfir í máli og myndum lóðaumsóknir og uppmælingar lóða í þéttbýlinu á Djúpavogi og lagði að því tilefni mikla áherslu á að haldið yrði áfram að vinna jafnt og þétt að uppmælingum á lóðum og uppfæra eldri lóðasamninga sem margir hverjir þörfnuðust endurnýjunar og nákvæmari mælinga. Sömuleiðis væri mikil þörf í þessu samhengi að vinna jafnhliða að deiliskipulagi í íbúðahverfum, með þeim hætti væru hnitsetningar á lóðum jafnframt tryggðar.

Ljóst er á yfirferð byggingarfulltrúa að starf og eftirlit byggingarfulltrúa er býsna viðamikið í sveitarfélaginu og verkefni ekki alltaf fyrirséð. Djúpavogshreppur er auk þess víðfemt eftirlitssvæði og hafa framkvæmdir og byggingartengd verkefni víðsvegar um sveitarfélagið vaxið umtalsvert og verkefni byggingarfulltrúa samhliða því. Byggingarfulltrúa þakkað yfirgripsmikla og ítarlega yfirferð um framkvæmdaverkefni innan sveitarfélagsins og voru nefndarmenn sammála um að mikilvægi þess að fá yfirlit verkefna frá byggingarfulltrúa með þessum hætti þar sem hægt væri að spyrja út í ýmsa þætti máls.
Byggingarfulltrúi yfirgaf fundinn.kl 18.30.

2. Deiliskipulag miðsvæði

Form. fór yfir stöðu deiliskipulagsvinnu í þéttbýlinu á Djúpavogi með áherslu á deiliskipulag á miðbæjarsvæði sem er í vinnslu með Teiknistofu TGJ eftir að þrír íbúafundir hafa verið haldnir um málefnið. Ný uppfærður uppdráttur af miðsvæðinu við Bakka lagður fram. Um er að ræða hugmynd að lausn til að koma á skilvirkari umferðarstýringu á frá gatnamótum Vogalands að Löngubúð með áherslu á meiri aðskilnað akandi og gangandi. Hugmyndin gerir einnig ráð fyrir sérstökum sleppistæðum fyrir rútur með tímamörkum.
Þá er gert ráð fyrir torgi þar sem þvottaplanið var og útsýnisstað með bekkjum sitt hvoru megin við Bakkabúð. Hugmynd þessi að fyrirkomulagi miðar m.a. að gefa íbúum og gestum greiðari leið í öruggara umhverfi með göngusvæði milli umferðarþyngstu svæða í hjarta miðbæjarins, en álag á þetta svæði er m.a. mikið yfir hásumarið. Í þessari útfærslu er komið til móts við ábendingar sem komið hafa fram, bæði á íbúafundum og á síðari stigum í umræðum inn á vettvangi sveitarstjórnar og SFU. Um er að ræða hugmynd að útfærslu sem þegar er byrjað að láta reyna á til að sjá hvernig svæðið bregst við breytingum sem þessum. Ljóst er að þegar orðnar breytingar með lokun á þvottaplani hafa komið vel út og er því vilji nefndarinnar til að halda áfram að þróa breytingarnar til fulls í sumar ef við verður komið. Þegar á fyrirkomulagið hefur reynt að fullu er hægt að laga og bæta það sem betur mætti fara ef ástæða þykir til. Nefndin sammála um að vinna að fyrirliggjandi hugmyndum og hrinda af stað ef hægt verður að koma því við á verkefnalista það sem eftir lifir sumars.

3. Deiliskipulag íbúðabyggð.

a. Form. fór yfir aukna eftirspurn eftir íbúðahúsalóðum og almennt skort á nýbyggingum á íbúðarhúsnæði á Djúpavogi í því sambandi, en búast má við áframhaldandi aukinni eftirspurn á næstu misserum. Í þessu ljósi er mjög mikilvægt að leggja meiri kraft í vinnu við deiliskipulag á þegar afmörkuðum íbúðasvæðum í Aðalskipulagi fyrir þéttbýlið á Djúpavogi.
Það mat nefndarinnar að vegna aukinnar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði á Djúpavogi að áherslur og skyldur sveitarfélagsins til að mæta þeirri þörf eigi fyrst og síðast að liggja í að hafa til ráðstöfunar vel deiliskipulagðar íbúðabyggðir með fjölbreyttum kostum fyrir húsbyggjendur fremur en að sveitarfélagið sjálft fari í aukna skuldsetningu með beinum framkvæmdum við húsbyggingar. Sveitarfélagið hefur auk þess í boði ívilnanir til húsbyggjenda sem þegar hafa verið kynntar. Deiliskipulagðar íbúðabyggðir eru forsenda þess að hægt sé að afgreiða lóðaumsóknir og úthluta með skilvirkari hætti en verið hefur.
Nefndin fagnar jafnhliða þeim áhuga og eftirspurn sem er til staðar vegna nýbygginga íbúða á Djúpavogi.
b. SFU leggur til við sveitarstjórn að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun með það fyrir augum að leggja til aukna fjármuni til þess að hægt verði að setja meiri kraft í deiliskipulagsvinnu í íbúðabyggð þéttbýlisins á Djúpavogi og gerð verði áætlun í því sambandi. Nefndin vill með þessu leggja áherslu á að tryggja nægt og sýnilegt framboð lóða og skilmála vegna þeirra og hafa jafnframt til reiðu fjölbreytta valkosti fyrir áhugasama húsbyggjendur til að mæta aukinni eftirspurn.

4. Umhverfismál

a. Nefndin sammála því að hvetja fyrirtæki til bættrar umgengni, jafnframt væri þakkarvert þar sem vel er um gengið. Þá þarf sveitarfélagið sjálft að bæta úr umgengni á tilteknum svæðum sbr. innan girðingar á Háaurum. Huga þarf því að hvort ásættanlegt sé að hafa opið inn á það svæði allan sólarhringinn í ljósi slæmrar umgengni. Þá þarf sveitarfélagið sömuleiðis að hvetja þá sérstaklega sem nýta hafnarsvæðin, ekki síst við Gleðivík til að sómasamlegrar umgengni sem ekki hefur verið til staðar. SFU hvetur sveitarfélagið til þess að auglýst verði að hver sá sem óskar að geyma hluti á lóðum hafnarsvæða sveitarfélagsins beri að leita sérstaks leyfis vegna þess og hlutir fái aðeins að standa í tiltekin tíma. Íhuga þurfi jafnframt sérstaka gjaldtöku vegna þessa í ljósi þess að hafnarsvæði sveitarfélagsins eru ekki geymslusvæði til langframa fyrir einstaka aðila eða fyrirtæki, því er með öllu óforsvaranlegt að ýmiskonar óskyldir hlutir dagi uppi á þessum svæðum til lengri tíma eins og verið hefur. Þá var einnig rætt mikill óþrifnaður sem hefur komið til vegna löndunar á fiskeldisfóðri á hafnarsvæðinu í Gleðivík, slíkt verður að koma í veg fyrir að endurtaki sig.

b. Bættir slóðar vegna hreindýraveiða

Sveitarfélagið Djúpavogshreppur hefur nú í fyrsta sinn eitt sveitarfélaga beitt sér sérstaklega fyrir því í góðu samstarfi við stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum að bæta úr aðgengi veiðimanna með lagfæringum á viðurkenndum slóðum inn til dala hér í sveitarfélaginu. Þegar hefur verið ráðist í sérstakar aðgerðir vegna þessa með úrbótum á vegslóðum í Hamarsdal. Um er að ræða viðleitni sveitarfélagsins til að koma í veg fyrir utanvegaakstur vegna meiri umferðar veiðimanna vegna aukins veiðikvóta á svæðinu undanfarinn ár. Þá má gera ráð fyrir að þessar úrbætir á vegslóðum hugnist einnig öðrum en þessum sérstaka markhópi með hreindýraveiðum. Markmiðið er að halda áfram úrbótum á næstu árum í góðu samráði og samkomulagi við landeigendur/bændur og stjórn félags hreindýraleiðsögumanna og eftirlitsmanna á svæðinu um forgangsröðun verkefna í þessum efnum. SFU hvetur stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum að ganga til samtals og góðrar samvinnu við fleiri sveitarfélög en Djúpavogshrepp um slíkar úrbætur með það að markmiði að vinna gegn utanvegaakstri, slíkt væri ábyrg stefna af hálfu félagsins. Þá er full ástæða til að brýna almennt þá sem ferðast um landið að hlífa landinu við utanvegaakstri.
c. Stígakerfi við skólastofnanir
Form. skýrði frá framkvæmdum við göngustíg sem kallað hefur verið eftir um árabil til að auka m.a. öryggi skólabarna milli grunnskóla og hótelsins, auk þess sem að stígur þessi er ætlaður almennt gangandi umferð eins og aðrir stígar sem lagðir hafa verið. Ætlunin er síðan að halda áfram framkvæmdum þegar færi gefst við samfellda stígagerð frá íþróttahúsi alla leið að Leikskólanum Bjarkatúni sem jafnhliða hefur verið talin mikil þörf á. Segja má að þessar framkvæmdir séu liður í parti af mun viðameira stígakerfi sem verið er að móta hugmyndir að í deiliskipulagi miðsvæðisins. Framkvæmd þessa stígakerfis við og kringum stofnanir Djúpavogsskóla með tengingar á milli stofnanna og svæða hefur hinsvegar verið í deiglunni um árabil og þótti því tímabært að ráðast í úrbætur ekki síst með öryggi barnanna að leiðarljósi og því ber að fagna.

Annað ekki tekið fyrir

Fundi slitið kl: 20:10

21.11.2016

12. september 2016

Fundargerð - SFU

13. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 12.09. 2016 kl. 18:00. Fundarstaður: Geysir.
Mættir: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson og Óskar Ragnarsson. Fjarverandi. Kári Valtingojer og Ingibjörg B Gunnlaugsdóttir. Form. ritaði fundargerð.

Dagskrá
1. Deiliskipulagsverkefni

a. Miðbæjarsvæði. Farið yfir stöðu deiliskipulags á miðbæjarsvæði. Stefnt að íbúafundi í nóvember þar sem fyrstu tillögur verði lagðar fram með tilliti rannsókna sem gerðar hafa verið á svæðinu svo og með hliðsjón af úrvinnslu gagna frá íbúafundum. Fyrirspurnir hafa komið fram vegna nýrra lóða fyrir atvinnustarfsemi á miðbæjarsvæði. Úthlutanir á nýjum lóðum á miðbæjarsvæði geta ekki átt sér stað fyrr en staðfest deiliskipulag liggur fyrir. SFU telur mikilvægt að vinda miðbæjardeiliskipulaginu áfram eins og lögbundið ferli leyfir svo hægt sé að horfa til nánustu framtíðar með nýtingu miðbæjarsvæðisins í huga og mæta um leið m.a. þörf fyrir þéttingu byggðar og aukna og fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

b. Íbúðabyggð
Fjöldi umsókna og fyrirspurna um lóðir til íbúðabygginga hefur vaxið umtalsvert á liðnum mánuðum. Verulegt óhagræði og kostnaður fellst í að afgreiða einstök mál þegar a) deiliskipulag liggur ekki fyrir á einstökum íbúðarsvæðum og b) liggja fyrir eldri deiliskipulög sem þarfnast endurskoðunar og uppfærslu. SFU mælir því með að gengið verði markvisst í deiliskipulagsgerð á íbúðarsvæðum með hliðsjón að aukinni eftirspurn.

2. Umsóknir um lóðir.
a. Umsókn um lóð við Vörðu 9. Emil Karlsson dags. 15.ágúst 2016

SFU mælir með úthlutun. Grenndarkynning skal fara fram þegar byggingaráform liggja fyrir.
Samþykkt samhljóða.

b. Umsókn um lóð (nr. ótilgreint.) við Hlíð. Kolbeinn Einarsson og Íris Birgisdóttir dags. 29. ágúst 2016.

Sótt er um lóð og stöðu fyrir 120 m2 íbúðarhúsi á einni hæð auk 30 m2 bílskúrs.
SFU mælir ekki með frekari úthlutun lóða við Hlíð fyrr en nánari útfærsla og endurskoðun á deiliskipulagi liggur fyrir. SFU telur ástæðu til að fara í þá vinnu sem fyrst. Litið er jafnframt svo á að umrætt svæði sem sótt er um þarfnist nokkuð ítarlegrar skoðunar með tilliti til staðhátta.
Samþykkt samhljóða.

3. Umferðarstýring á skólatorfu – gangandi og akandi.
Form. kynnti framkvæmdir og fyrirkomulag sem unnið hefur verið að við skólatorfuna með það að markmiði að auka sérstaklega öryggi barna á svæðinu, en þegar hefur verið komið á umferðarstýringu fyrir bæði gangandi og akandi sem hefur nú þegar skilað góðum árangri. Í framhaldi kynnti form. tillögu við stígagerð milli íþróttamiðstöðvar/grunnskóla og leikskóla. Breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu tillögu og hefur stígur m.a. verið færður fjær heilsugæslustöðinni. Tillagan var send skólastofnunum og viðkomandi lóðahöfum og hafa jákvæðar umsagnir þegar borist frá lóðahöfum og jafnhliða verið tekið tillit til ábendinga frá skólasamfélaginu.
Samþykkt samhljóða að hvetja sveitarstjórn að ráðast í gerð göngustígsins um leið og aðstæður eru fyrir hendi.

4. Umhverfismál
Rætt um slæma umgengni á gömlu vegagerðarlóðinni (Háaurum) og mælst til þess við sveitarstjórn að skoðað verði alvarlega að koma upp rampi sem hægt væri að keyra upp á með t.d. kerrur svo auðveldara sé að losa þyngri hluti. Við rampana verði settir stórir gámar eftir þörfum á hvora hlið m.a. til að flokka brotajárn, timbur og fl.
Ljóst má vera að fullu er reynt á núverandi skipulag innan lóðarinnar.
SFU leggur því til að gert verði ráð fyrir breytingum í þessa veru við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár .
Samþykkt samhljóða.

5. Skipulagsráðgjafi Djúpavogshrepps - Guðrún Jónsdóttir FAÍ
SFU vill undir þessum lið minnast Guðrúnar Jónsdóttur FAÍ sem féll frá þann 2.sept. síðast liðinn, en Guðrún og Teiknistofa hennar að Tjarnargötu 4 í Reykjavík hefur unnið mjög mikilsvert starf í þágu skipulagsmála bæði í fyrrum Búlandshreppi og síðar Djúpavogshreppi og ber þar hæst vinna við Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 – 2020. Auk þess vann Guðrún ómetanlegt starf í þágu húsverndarmála í Djúpavogshreppi um langt árabil og stuðlaði að uppbyggingu þeim efnum. Þá stóð Teiknistofan einnig undir handleiðslu Guðrúnar að útgáfu viðamikillar húsakönnunar bæði í þéttbýli og dreifbýli í Djúpavogshreppi sem hefur fengið mikið lof.

Störf Guðrúnar og alúð hennar fyrir þeim verkefnum sem hún sinnti fyrir sveitarfélagið hafa hvarvetna vakið athygli meðal þeirra sem kynnt hafa sér mál. Um langt árabil og allt fram að dánardægri naut Guðrún mikils liðstyrks frá syni sínum dr. Páli Líndal, en saman hafa þau átt drjúgan þátt með íbúum og stjórnsýslu sveitarfélagsins að marka þá stefnu sem að Djúpavogshreppur státar af í dag og hefur eflt byggð og samfélag í heild með fjölbreyttum hætti. Megi Guðrún Jónsóttir FAÍ og Teiknistofa hennar hafa ævarandi þakkir fyrir einstakt og heillaríkt samstarf við sveitarfélagið á fjórða áratug. Teiknistofan mun eftir sem áður starfa óbreytt áfram að verkefnum í tengslum við skipulagsmál fyrir Djúpavogshrepp.

Fundi slitið kl: 20:00

06.10.2016

19. maí 2016

Fundargerð - SFU

11. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 19.05 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson og Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, fjarverandi Kári Valtingojer og Óskar Ragnarsson. Andrés ritaði fundargerð.

Gestir fundarins Páll J Líndal og samstarfsaðilar TGJ - Ydda arkitektar Hjördís Sigurðardóttir og Hildur Ottósdóttir.

Dagskrá

1. Miðbæjarskipulag – íbúafundur nr. 3
Form. bauð gesti velkomna og að því loknu fór Páll J Líndal yfir stöðu mála er varðar vinnu við miðbæjarskipulag á Djúpavogi. Í meginatriðum fór Páll yfir úrvinnslu gagna frá tveimur síðustu íbúafundum sem haldnir hafa verið á Djúpavogi og lagði upp í framhaldi samantekt þar sem dregnar voru saman helstu niðurstöður og jafnframt kynntar fyrstu tillögur á korti hvernig svæðið gæti í grófum dráttum litið út miðað við umræðuna sem átt hefur sér stað ásamt rannsóknum á svæðinu.
Þessar fyrstu tillögur taka sömuleiðis mið af forsendum og leiðarljósi aðalskipulagsins.

2. Önnur skipulagsmál
Farið var yfir deiliskiplögð íbúðasvæði í þéttbýlinu sem þarfnast uppfærslu og önnur íbúðasvæði sem skilgreind eru í aðalskipulagi. Þá var lögð sérstök áhersla á að setja sérstaka vinnu af stað við deiliskipulag á skilgreindu íbúðasvæði á nærsvæði Steinstaða og Mela fyrir svokallaða „Smáheimilabyggð“ að sama skapi verði unnið jafnhliða að deiliskipulagi á frístundasvæði neðan við fyrirhugaða „Smáheimilabyggð“ ofan við Hvarf og Víkurland. Ljóst er að verkefni þetta kallar á umtalsverða vinnu. Að sama skapi leggur nefndin mikla áherslu á að sveitarfélagið þurfi að hafa á að skipa deiliskipulögðum svæðum fyrir húsbyggjendur þegar kemur að umsóknum til nánustu framtíðar það er forsenda þess að hraða megi öllum umsóknarferlum og uppbyggingu íbúðabyggðar þegar eftir því er leitað. Fundarmenn SFU ánægðir með það upplegg sem kynnt verður á íbúafundi á Djúpavogi í Djúpinu kl. 18:00 síðar í dag þar sem farið verður yfir bæði stöðu á miðbæjarskipulagi sem og önnur skipulagsmál sem eru í vinnslu í þéttbýlinu.

Fundi slitið kl: 17.30

06.10.2016

8. mars 2016

Fundargerð - SFU

10. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 08.03. 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson.

Dagskrá

1. Auglýsingar utan þéttbýlis – bréf frá Umhverfisstofnun.
Óheimilar auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis. Lagt fram til kynningar

2. Svæðisskipulag Austurland
Lagt fram bréf dags. 9. feb. 2016 þar sem SSA óskar eftir tilnefningu fulltrúa í starfshóp fyrir 10. mars. Starfshópnum er ætlað gera drög að umfangi vinnu við Svæðisskipulag fyrir Austurland, nauðsynlega verþætti og forgangsröðun þeirra. Nefndin leggur til að tilnefna Andrés Skúlason í starfshópinn fyrir hönd Djúpavogshrepps.

3. Kerhamrar í landi Múla 1 – Ósk um breytingu á aðalskipulagi
Form. lagði fram erindi Vigfúsar Halldórssonar dags. 18. febrúar 2016 þar sem fram kemur ósk um breytingu á landnotkun á lóðinni Kerhömrum í landi Múla 1. Með erindinu fylgdi loftmynd og lýsing á fyrirhugaðri gistiaðstöðu sem eigendur hafa hug á að reisa. Um er að ræða áform um byggingu á 350 m2 gistirými á einni hæð. Skipulagráðgjafi hefur unnið að undirbúningi óverulegrar breytingar á aðalskipulagi. Þegar breytingin hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun þarf að deiliskipuleggja lóðina. Þegar skipulagsbreytingar hafa verið staðfestar getur umsækjandi lagt fram teikningar af viðkomandi byggingu og sótt um byggingarleyfi. Samþykkt samhljóða.

4. Fiskeldi Austfjarða – varðar umsókn um stöðuleyfi vegna fóðurstöðva í landi Urðarteigs við Berufjörð.
(Óskar Ragnarsson vék af fundi)
Lagt fyrir erindi frá Þórði Þórðarssyni fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða sem barst með tölvupósti 22.02.2016. Óskað er eftir stöðuleyfi til 12 mánaða fyrir fóðurstöðvar í landi Urðarteigs sem tilraunaverkefni.
Að höfðu samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps er það niðurstaða SFU að umfang þeirrar framkvæmdar sem lýst hefur verið í grófum dráttum af hálfu Fiskeldis Austfjarða sé af þeirri stærðargráðu að það kalli á breytingu á aðalskipulagi Djúpavogshrepps og gerð deiliskipulags á viðkomandi svæði. Skipulagsstofnun sker úr um hvort fyrirhugað framkvæmd krefjist meiri eða minniháttar aðalskipulagsbreytinga. Óskað er eftir Fiskeldi Austfjarða taki saman heildstæða lýsingu á framkvæmdunum, sem m.a. fæli í sér afmörkun og staðsetningu lóða, vegslóða og raflínutenginga, eðli fyrirhugaðrar starfsemi, byggingarmagn, hæð bygginga og annað sem kann að skipta máli. Samþykkt samhljóða
Óskar mætir inn á fund.

5. Önnur mál
Rætt um stöðu á húsnæðismarkaði og sumarvinnu

Fundi slitið kl: 19.00

11.03.2016

15. október 2015

Fundargerð - SFU
8. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd mánudaginn 15.10.2015 kl. 16:00. Fundarstaður: Langabúð.

Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson. Auk þess sat fundinn Páll J. Líndal fulltrúi TGJ. Andrés stjórnaði fundi og ritaði fundargerð.

Páll J Líndal mætti á fundinn 16:35 vegna seinkunar á flugi, þannig að lítill tími var fyrir ítarlega kynningu fyrir nefndina að hans hálfu áður en íbúafundur hófst formlega.

Dagskrá:

1. Deiliskipulag - miðsvæði þéttbýlisins á Djúpavogi – Íbúafundur
Páll Líndal kynnti á hraðbergi upplegg við vinnu við kynningu á deiliskipulagi á miðbæjarsvæði Djúpavogs í aðdragenda íbúafundar nr. 2 sem haldinn verður strax að loknum fundi í SFU í Löngubúð kl 17:00 í dag.

Fyrsti íbúafundur vegna miðbæjarskipulags var haldinn þann 25. júní síðastliðinn og á þessum síðari kynningarfundi í aðdragenda vinnu við miðbæjarskipulag mun verða fjallað um þau afmörkuðu svæði sem eftir stóðu frá fyrri fundi og jafnframt birtar lauslegar niðurstöður frá fyrri fundi. Stefnt er síðan á að taka saman allar niðurstöður af fundunum tveimur og halda næsta íbúafund í apríl eða maí 2016. Þá mun jafnframt liggja fyrir gróf drög að greinargerð og frekari hugmyndir að útfærslu miðbæjarskipulags byggða meðal annars á niðurstöðum íbúafunda og þeim forsendum sem unnið hefur verið með samkvæmt stefnu Aðalskipulags Djúpavogshrepps.

Annað ekki tekið til umræðu

Fundi í SFU slitið kl 17:00 og íbúafundur settur.

15.02.2016

22. janúar 2016

Fundargerð - SFU
9. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 22.01. 2016
kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Páll Líndal fulltrúi Teiknistofu GJ.

Dagskrá
1. Deiliskipulag miðbæjarsvæði
Páll Líndal gerði nefndinni grein fyrir helstu niðurstöðum af íbúafundum sem að haldnir hafa verið í tengslum við fyrirhugað deiliskipulag á miðbæjarsvæði. Jafnframt gerði Páll grein fyrir næstu skrefum og áætlunum um tímalengd við vinnu við skipulagsferlinn. Jafnframt ákveðið að hafa næsta íbúafund í apríl og þá verði jafnframt lögð fram lýst lýsing á deiliskipulagi.

Fundi slitið kl: 16.50

12.02.2016