Djúpivogur
A A

Skipulags-, framkvæmda- og umhverfismálanefnd

24. júní 2015

Fundargerð 24. júní 2015

7. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 24.06. 2015
kl. 17:30. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Páll Líndal fulltrúi Teiknistofu GJ.

Dagskrá

1. Íbúafundur um skipulagsmál.
Form. SFU gerði grein fyrir íbúafundi sem haldinn verður í Djúpinu á morgun fimmtudag 25. júní sem þegar hefur verið auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins sem og með sérstöku dreifibréfi á öll heimili í sveitarfélaginu.

a. Lýsing á breytingu á skipulagi við botn Berufjarðar.
Undir þessum lið gerði Páll Líndal nefndinni grein fyrir hvernig að kynningu yrði staðið. Jafnhliða kynnti form. tillögu vegagerðarinnar á þeirri veglínu sem fallist hefur verið á að fara þ.e. veglínu merkt Z í matsáætlun sem er veglína sem að allir landeigendur og sveitarstjórn hafa mælt með að farið verði. Veglína sú sem lögð var fram á fundinum barst form. frá starfstöð vegagerðar á Reyðarfirði 22.06.2015 og lítur nefndin svo á að veglínan sé í fullu samræmi við veglínu Z sem er ysta mögulega veglína sem að veghönnuðir vegagerðarinnar treysta sér til að leggja fram og gerir SFU engar athugasemdir við fyrirliggjandi veglinu.

b. Miðbæjarskipulag Djúpavogs
Páll Líndal gerði nefndinni grein fyrir hvernig að kynningu yrði staðið sem er í fullu samræmi við það sem nefndinni hafði áður verið kynnt nema hvað lagt er til að bæta inn fleiri svæðum til umræðu við deiliskipulagið.

2. Veglínur við Teigarhorn – tillögur frá vegagerðinni
Form. lagði fram nýjar tillögur frá vegagerðinni um tillögur að veglínum á þjóðvegi ofan við bæinn á Teigarhorni. Tillögur þessar eru gerðar í kjölfar rannsókna á svæðinu vegna deiliskipulags þar sem komið hefur í ljós að blindhæðir og beygjur á núverandi þjóðvegi eru óásættanlegar með tilliti til umferðar almennt og aðkeyrslu að bæjartorfunni á Teigarhorni. Auk þess er það mat vegagerðarinnar að núverandi vegstæði sé óásættanlegt með tilliti til umferðaröryggis. Heimreið að bænum Kápugili er sömuleiðis á blindhæð á sama svæði. Nefndin mælir með tillögu vegagerðar að veglínu 1u6-003 með lítilsháttar breytingum með það fyrir augum að lágmarka rask á hraunklettum ofan við Eyfreyjunesvík. Samþykkt að fela form.að koma erindinu á framfæri við vegagerðina.

3. Erindi frá Olíudreifingu 16.júní. 2015 með tölvupósti.
Erindi undirritað af Gesti Guðjónssyni lagt fyrir þar sem fram kemur að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóð félagsins á Djúpavogi. Bréfritari kallar eftir hvenær vænta megi að deiliskipulag verði unnið fyrir svæðið. Núverandi starfsleyfi Olíudreifingar rennur úr gildi 31.01.2018. SFU er sammála því að vísa erindinu til nánari vinnu við deiliskipulag á miðbæjarsvæði Djúpavogs sem vinna er þegar hafinn við, með þeim hætti verði tryggt að vinnu við deiliskipulag á viðkomandi svæði verði lokið fyrir tilskilinn tíma.

4. Fundur með FLH.
Form.stjórnar FLH (félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum) hefur lagt til að fyrirliggjandi fundur með SFU verði þann 30. júní næstk. Nánari tímasetning þann 30. júní verður send á alla fulltrúa SFU með fyrirvara.

Fundi slitið kl: 20.00 

10.07.2015

10. júní 2015

Fundargerð - SFU

6. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 10.06.2015
kl. 17:30. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson.

Dagskrá:

1. Skipulagsmál við botn Berufjarðar. Þar sem sýnt er að landeigendur við botn Berufjarðar hafa náð samkomulagi um veglínu fyrir botn Berufjarðar með sameiginlegu bréfi undirrituðu af öllum landeigendum, þá styðja fulltrúar í SFU hugmyndir sveitarstjórnar um færslu núverandi veglínu sem staðfest hefur verið í skipulagi út í veglínu Z. Þann 25. júní er því fyrirhugaður sérstakur íbúafundur þar sem fram fer lýsing á breytingu á skipulagi á veglínu við botn Berufjarðar sem fulltrúi Teiknistofu GJ mun leiða. Form. skýrði frá að þessa dagana væru veghönnuðir vegagerðarinnar við mælingar á framkvæmdasvæðinu og kann veglínaað hliðrast lítilsháttar með hliðsjón af frekari rannsóknum á fyrirliggjandi vegstæði.
Gera má ráð fyrir að skipulagsferli sem framundan er verði lokið um áramót ef engir hnökrar verði á ferlinu og því hægt að bjóða framkvæmdina út í upphafi næsta árs.

2. Miðbæjarskipulag
Form. kynnti að stefnt væri að íbúafundi á Djúpavogi varðandi miðbæjarskipulagið þann 25. júní og verður hann auglýstur með góðum fyrirvara og íbúar hvattir til þáttöku.
Stefnt að því að nefndin fundi sérstaklega með fulltrúa Teiknistofunnar fyrir íbúafund.

3. Samfélagsdagur Ákveðið hefur verið af sveitarfélaginu að efna til samfélagsdags í samráði við Neista þar íbúar verða hvattir til almennrar tiltektar í bænum og verður grillað á eftir. SFU hvetur íbúa til almennrar þáttöku í degi þessum.

4. Staða skipulagsmála vegna sölu lóðar sem Rafstöð Djúpavogs stendur á.
Kári víkur af fundi. SFU hvetur sveitarstjórn til þess að kaupa viðkomandi fasteign í ljósi þess að viðkomandi lóð og starfsemi fellur ekki að gildandi Aðalskipulagi en svæðið er markað innan íbúðarsvæðis á þeim reit sem viðkomandi hús stendur á. Þá liggur fyrir að þau áform sem uppi voru um stækkun viðkomandi fasteignar samræmdist ekki nánasta umhverfi og lóðaskipulagi.
Kári mætir á fund.

Erindi og bréf
1. Lóðaumsóknir fyrir sumarhús við Vogaland dags. 20.05.2015.– umsókn frá Esther S Sigurðardóttur vegna byggingar á tveimur sumarhúsum við Vogaland. Um leið og viðkomandi er þakkaður sýndur áhugi með umsókn þá eru fulltrúar SFU því sammála um að höfðu samráði við skipulagsráðgjafa sveitarfélagins að beina viðkomandi til að sækja um lóðir vegna viðkomandi sumarhúsa á sérstöku svæði sem er ætlað er undir sumarhúsabyggð í jaðri þéttbýlisins nánar tiltekið á milli Steinstaða og Hvarfs sem er nú á vinnslustigi í tengslum við vinnu við skipulagsgerð í þéttbýlinu.

2. Stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Jón Hávarður form. FLH hefur hefur fallist á að funda ásamt stjórn sinni með fulltrúum SFU fljótlega vegna erindis sem að nefndin hafði sent stjórn FLH vegna utanvegaaksturs í sveitarfélaginu. SFU fagnar því að fá fund með stjórninni og óskar eftir að honum verði komið sem fyrst á.
Fundi slitið 19:00

23.06.2015

11. mars 2015

Fundargerð - SFU
5. fundur 2014 – 2018

Fundur í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd miðvikudaginn 11.03.2015 kl. 17:00.
Fundarstaður Geysir. Mættir Andrés Skúlason, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Magnús Kristjánsson, Óskar Ragnarsson og Rán Freysdóttir. Andrés ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Teigarhorn
a. Umsagnir stofanana vegna lýsingar á breytingu á aðal- og deiliskipulagi á Teigarhorni.
Umsagnir frá Haust, Skógrækt ríkisins, Minjastofnun og Skipulagsstofnun. Í athugasemdum Minjastofnunar kemur m.a. fram að vinna þarf að fornleifaskráningu á Teigarhorni. Fornleifaskráning verði að vera undanfari deiliskipulags á svæðum í opinberri eigu og telur því nefndin ljóst að ráðast þurfi í vinnu við fornleifaskráningu hið fyrsta, enda nokkuð víða merkar minjar að finna á jörðinni.

b. Færsla vegar ofan við bæinn á Teigarhorni og við Búlandsá. Form. kynnti hugmyndir um færslu þjóðvegar ofan við bæinn á Teigarhorni sem og við Búlandsá. Unnið er um þessar mundir að tillögum af hálfu veghönnuða vegagerðarinnar að nýju vegstæði og mun tillaga liggja fyrir fljótlega. Mikil áhersla er lögð á það af hálfu stjórnar fólkvangsins og þeirra aðila er vinna við deiliskipulagsgerðina að færsla á þjóðveginum gangi eftir þar sem að öllum fagaðilum ber saman, m.a. vegagerðinni um að núverandi vegstæði mun ekki mæta þeim kröfum sem þarf til er varðar framtíðaruppbyggingu á Teigarhorni.

c. Framlag Framkvæmasjóðs Ferðamannastaða til Teigarhorns 2015.
Form. kynnti bréf sem hann sendi stjórn framkvæmdasjóðsins í des. síðastl. og afgreiðslu þeirra í framhaldi þar sem framkvæmdasjóður fellst á sjónarmið Djúpavogshrepps og gerir því tillögu um endurúthlutun 9. milljónir kr. til Teigarhorns sem að stærstum hluta er ætlað til skipulagsmála innan jarðarinnar.

d. Framkvæmdir við íbúðarhúsið á Teigarhorni 2015.
SFU mælir með því að ráðist verði í framkvæmdir til lagfæringar á íbúðarhúsinu á Teigarhorni sumarið 2015 svo það verði varið fyrir frekari skemmdum m.a. vegna leka, mest liggur við að skipta um járn á þaki og lagfæra útveggi og mála húsið.

2. Lóðasamningar
Endurnýjaðir og breyttir lóðasamningar til umsagnar hjá nefndinni, unnið af byggingarfulltrúa Þórhalli Pálssyni. SFU gerir ekki athugasemdir við framlagða lóðasamninga enda séu þeir gerðir með samþykki viðkomandi lóðahafa.

3. Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga
Tölvubréf frá vegagerðinni lagt fram ásamt umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar og frekari skoðunar. Nefndin leggur jafnframt mikla áherslu á að fylgt verði úr hlaði endurteknum athugasemdum sem gerðar hafa verið m.a. er varðar að tryggja öryggi með hraðahindrunum við innkomuleið í bæinn með tilliti til umferðar barna.

4. Garðyrkjustefna - svæði í fóstur - Bréf frá áhugahópi um málefnið.
SFU fagnar áhuga viðkomandi aðila á að koma að vinnu með nefndinni og íbúum að móta sérstaka garðyrkjustefnu hér í þéttbýlinu sem og tillögur um nánari nýtingu opinna svæða hér í þéttbýlinu.
Þá hefur hópurinn áhuga á að fylgja úr hlaði hugmyndum um að íbúar taki sérstök svæði í fóstur og einnig koma að tillögugerð er varðar mótun stígagerðar í þéttbýlinu og milli hverfa.
Segja má að bréf þetta komi fram á góðum tíma þar sem stefna þessi og vinna sem áhugahópurinn getur um, liggur fyrir í því formlega vinnuferli sem framundan er á næstu vikum og mánuðum er varðar deiliskipulag hér í þéttbýlinu. Í deiliskipulagsvinnunni mun SFU marka framtíðarstefnu með vonandi virkri þáttöku íbúa m.a. um opin svæði og nánari nýtingu þeirra. Nefndin hvetur því áhugahópinn til að leggja tillögur fyrir nefndina um nánari nýtingu einstakra opinna svæða sem hægt verður að leggja til grundvallar við deiliskipulagsvinnuna. Nefndin býður einnig áhugahópnum til næsta fundar um þau málefni sem þau vilja leggja áherslu á.

4. Skotvöllur – bréf sent samhliða á sveitarstjórn.
Erindi frá stjórn skotmannafélagsins um að sveitarfélagið hlutist til um að finna land til frambúðar fyrir starfsemi félagsins. Magnús vék af fundi.

SFU hefur fullan skilning á því að finna þarf starfsemi þessari svæði til frambúðar. Sveitarfélagið er því fullt vilja til þess að leiðbeina félaginu sem best verður á kosið með tilliti til þess umfangs sem þarf að koma til samhliða uppbyggingu og óhjákvæmilegra skipulagsþátta sem þurfa að fara fram í aðdragenda slíkar uppbyggingar. Form. SFU hefur kynnt sér vegna þessa erindis skotmannafélagsins hvernig staðið er að sambærilegum málum í öðrum sveitarfélögum þar sem verið er að vinna að skipulagi skotsvæða um þessar mundir. Formaður hefur einnig verið í sambandi við eftirlitsaðila/stofnanir sem hafa einnig komið með ábendingar varðandi uppbyggingu skotvalla. Skotvellir falla því ekki aðeins undir meðferð skipulagsmála heldur eru skotvellir starfsleyfisskyld starfsemi með reglubundnu eftirliti. Það er mat SFU með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til skotvalla í dag, ekki síst með tilliti til stærðar og umhverfisþátta að ljóst er að sveitarfélagið sem slíkt hefur ekki yfir ákjósanlegu landi að ráða sem hentar til að úthluta fyrir starfsemina. Starfsemin fellur við nánari athugun illa að nærsvæði þéttbýlisins á Djúpavogi og eða við önnur útivistarsvæði hér í nágrenninu þar sem þegar önnur skipulögð landnýting er til staðar. 

SFU mælir því við skotmannafélagið að fundin verði því ákjósanlegri staður en á nærsvæði við þéttbýlið og gert verði í staðinn samkomulag við landeigendur sem hafa á mun stærri landsvæðum að skipa sem gefur starfseminni nægt svigrúm og án hættu á að hún trufli aðra nærliggjandi starfsemi eða landnýtingu. Með þessum hætti liggur samhliða fyrir að hægt væri að vinna hraðar að undirbúningi og skipulagsþáttum sem þarf að vinna að sem og annarri uppbyggingu starfseminni til heilla til frambúðar litið. Magnús kom inn á fund.

5. Samskipti við stjórn FLH (félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum)
Á fundi SFU 4. des. síðastliðnum var form. SFU falið að vinna að málum er varðar utanvegaakstur í sveitarfélaginu eftir að ábendingar um það höfðu borist og var sú fundargerð staðfest af sveitarstjórn þann 11. des.2014 Form. SFU hafði í kjölfarið samband við FLH og einnig starfsmann Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum og sendi síðan formlegt bréf ásamt myndum af náttúruspjöllum vegna utanvegasksturs. Í bréfinu var óskað viðbragða af hálfu viðkomandi aðila.
Í svarbréfi FLH kemur fram að stjórn harmar umgengni félagsmanna FLH á tilteknum svæðum í sveitarfélaginu sem stríðir gegn þeirri viðleitni félagsmanna að ganga vel um hvar sem þeir fara.
Stjórn FLH hyggst brýna fyrir félagsmönnum sínum enn frekar að fara þannig um land að ekki hljótist spjöll af þannig að noktunarmöguleikar sexhjóla við veiðar verði því ekki settir í frekara uppnám en orðið er með slæmri umgengni. Að öðru leyti telur stjórn FLH sig hafa fátækleg úrræði.
Í ljósi svars FLH er það er mat SFU að ef að stjórn FLH telji sig ekki hafa næg úrræði þá þurfi stjórnin að afla sér frekari heimildar til að grípa inn í mál gagnvart félagsmönnum sem staðnir eru að því brjóta þær reglur sem sannarlega eru þó til staðar sbr. „5 gr.reglugerðar nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru íslands“ Það er fyrst og síðast hreindýraveiðimenn sjálfir og leiðsögumenn á viðkomandi svæðum eiga allt undir að ímynd þessarar mikilvægu atvinnugreinar á svæðinu bíði ekki frekar tjón af en þegar er orðið og því lýsir SFU og Djúpavogshreppur sig reiðubúið til að eiga í áframhaldandi og góðum samskiptum við stjórn FLH til að vinna að lausnum til úrbóta. SFU þakkar því stjórn FLH fyrir svarið og auðsýnilegan vilja og áhuga stjórnar á að vinna að úrbótum í þessum málum.

Stjórn FLH og SFU hafa þegar í góðri samvinnu ákveðið að hittast á sérstökum fundi nú á vordögum til að ræða frekar um stöðu mála með það að markmiði að leita lausna svo sporna megi við frekari náttúruspjöllum af veiðiskap þessum sem öllum aðilum máls er mjög mikilvægur ekki síst fyrir Djúpavogshrepp og þá fjölmörgu leiðsögumenn á svæðinu sem hafa starfa af þessum veiðum.
SFU fagnar því að stjórn FLH vilji efna til frekara samtals í þessum mikilvægu málum.

Að öðru leyti mun SFU að óbreyttu leggja til við sveitarstjórn, þó að undangenginni frekari umræðu að frá og með 1 júní 2015 verði alfarið lagt bann við umferð vélknúinna ökutækja á Búlandal utan uppbyggðs akvegar sem þangað liggur.

7. Endurvinnslukortið - http://www.djupivogur.is/adalvefur/?id=42121
Form. kynnti endurvinnslukortið sem er sett fram með áberandi hætti á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem ítarupplýsingar er að finna fyrir íbúa og gesti varðandi flokkun og endurvinnslu. SFU vonast til þess að þessi mjög svo upplýsandi vefur verði til þess að hvetja íbúa til virkar þátttöku í flokkun og endurvinnslu.

8. Hænsnfuglar í þéttbýli.
Form. kynnti að um nokkurt skeið hafi verið til umræðu að skoða hvort leyfa eigi hænsfugla í þéttbýlinu t.d. allt að fimm hænur en ekki hana. Nokkuð algengt er orðið að sveitarfélög veiti leyfi sem þessi gegn ákvæðum. Form. leggur til að leyfi verði veitt fyrir hænsfugla í þéttbýlinu á Djúpavogi enda verði tryggt að settar séu viðhlítandi reglur til grundvallar er varðar aðbúnað og útlit húsa og fl. Einnig að ákvæði verði sett um að sveitarfélagið áskilji sér rétt til að afturkalla megi leyfi berist ábendingar og kvartanir ef reglum er ekki hlítt. Þeim sem sæki um leyfi til að halda hænur verði jafnframt gert skylt að leita samþykkis næstu nágranna. Smáhýsi yfir hænsnin verði að vera snyrtileg og falla vel að lóðum og sækja þurfi því sérstaklega um byggingarleyfi fyrir slíkum smáhýsum. Setja þarf ákvæði um málið inn í samþykkt sveitarfélagsins um dýrahald. Mjög góðar umræður urðu á fundinum um málið og voru fundarmenn þó með nokkuð misjafna sýn á málið svona við fyrstu skoðun. Ekki var gengið til atkvæðagreiðlsu um málið en SFU leggur það fyrir sveitarstjórn að taka afstöðu til málsins og afgreiða það. Ef fallist verður á tillöguna þá er mælst til þess að unnið verði skipulaga að því að móta skýrar reglur um málið í sátt og gefa síðan leyfi á grunni þeirra.
Rán Freysdóttir fór af fundi að lokinni afgreiðslu.

9. Botn Berufjarðar staða verkefnisins
Form. kynnti samskipti við Svein Sveinsson á starfstöð vegagerðar á Reyðarfirði sem og regluleg samskipti við vegamálastjóra vegna stöðu samgöngumála í sveitarfélaginu. Bréf form. SFU til Innanríksráðherra/ samgönguráðherra sömuleiðis einnig lagt fram til kynningar þar sem ráðherra er m.a. hvattur sérstaklega til að beita sér fyrir framgangi mála vegna framkvæmda við botn Berufjarðar. Form. fór í stuttu máli yfir stöðu mála og kynnti fyrirhugaðan fund með ráðherra samgöngumála síðar í marsmánuði. Vegamálastjóri hefur lýst áhyggjum af miklum niðurskurði til nýframkvæmda og viðhalds almennt á vegum. SFU ítrekar mikilvægi þess að staðið verði við að hefjast handa við gerð vegar við botn Berufjarðar strax á þessu ári, enda séu forsendur til staðar að nýta þær 200 milljónir sem áætlaðar voru til framkvæmda fyrir árið 2015 í þessu brýnasta verkefni á okkar svæði nú um stundir. Fyrir liggur ef vilji er til að ráðast í vegframkvæmdir strax á þessu ári frá og með slitlagi við Lindarbrekku og inn að botni fyrir þá upphæð sem liggur til grundvallar í samgönguáætlun fyrir árið 2015.

10. Húsverndarmál – framkvæmdir og framlög
Form. fór yfir stöðu framkvæmda við Faktorshús og gömlu kirkju og kynnti fyrirhuguð framlög til verkefna í þeim efnum. Afgreiðsla umsókna í húsafriðun til þessara verkefna munu liggja fyrir um miðjan marsmánuð. Jafnhliða kynnti form. umtalsverðar framkvæmdir við gamla Weyvadtshús á Teigarhorni sem standa fyrir dyrum í sumar en þar liggur fyrir að hefjast handa við uppbyggingu ljósmyndahúss Nicolínu Weyvatd sem fyrst kvenna gerðist atvinnuljósmyndari á Íslandi.

11. Starfstöð Minjavarðar Austurlands á Djúpavogi
Minjavörður Austurlands Rúnar Leifsson er tekin formlega til starfa með starfstöð á Djúpavogi með aðsetur í ráðhúsinu Geysi eins og kynnt hefur verið. Starfsvæði minjarvarðar nær frá Vopnafirði til Öræfasveitar. SFU telur starfstöð þessa mjög mikilvæga og viðeigandi hér á svæðinu vegna stefnu sveitarfélagins í þeim málaflokki sem minjavörður vinnur að m.a. húsverndarmálum og hér liggja einmitt nokkur slík verkefni á borðinu í sveitarfélaginu. Þá liggja einnig fyrir spennandi fornleifarannsóknir á svæðinu sem eru sömuleiðis mikill ávinningur fyrir sveitarfélagið að unnið verði frekar að á næstu árum. SFU telur mikilvægt að starfstöð minjavarðar verði kynnt með sérstökum hætti og að íbúar sjálfir leiti einnig upplýsinga og ráðgjafar til minjarvarðar ef þeir hafa verkefni tengd starfstöðinni á sínum snærum.

11. Önnur mál
a. Skipulagsmál – deiliskipulag miðsvæði – unnið að undirbúningi næsta fundar um deiliskipulagið á miðsvæðinu.
b. Plastpokalaust samfélag – málið er í skoðun hvernig best megi nálgast verkefnið í samvinnu við íbúa og fyrirtæki.
c. Lífrænn úrgangur / moltugerð – rætt um mikilvægi þess að halda áfram að leita lausna í þessu sambandi, mörg og misjöfn úrræði eru til staðar en flestum ber saman um að í smærri samfélögum sé árangursvænlegast að hver og einn stundi sína moltugerð í eigin garði, en þannig sparast kostnaður og vinna bæði fyrir bæði sveitarfélag og íbúa. Mikilvægt er sem áfram að vinna að því að lágmarka það magn sem fer til urðunar og þar vegur úrgangur frá heimilum sem hæfir til moltugerðar þungt í pokanum.


Fundi slitið kl. 19.30

13.03.2015

23. janúar 2015

Fundargerð - SFU
4. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd mánudaginn 23.01. 2014 kl. 18:30. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson. Auk þess sat fundinn Páll J. Líndal fulltrúi TGJ. Andrés stjórnaði fundi og ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Deiliskipulag Teigarhorn
Fulltrúi Teiknistofu GJ. Páll J. Líndal kynnti fyrir nefndinni lýsingu á breytingu á Aðalskipulagi ásamt lýsingu á deiliskipulagi á Teigarhorni sem verður til kynningar á auglýstum íbúafundi í Löngubúð á morgun laugardag 24. jan. Almenn ánægja var meðal fulltrúa í SFU með kynningu Páls á þeirri stefnu og framtíðarsýn sem verið er að vinna að á Teigarhorni m.a. í nánu samstarfi við stjórn ráðgjafarnefndar fólkvangsins. Að lokinni íbúakynningu verður lýsing á Aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagi á Teigarhorni auglýst formlega á heimasíðu Djúpavogshrepps. Hægt verður að skila inn skriflegum ábendingum við lýsingarnar til 5.feb.

2. Deiliskipulag - miðsvæði þéttbýlisins á Djúpavogi
Páll Líndal kynnti fyrstu drög að vinnu við deiliskipulag á miðsvæði Djúpavogs og var fundurinn sammála um að halda áfram með þá aðferðarfræði sem lögð hefur verið til grundvallar í þessari vinnu. Fundurinn lagði nokkuð endanlegar línur um mörk skipulagssvæðisins sem og uppskiptingu svæðisins í því vinnuferli sem framundan er.
Samþykkt að stefna á sérstakan fund um deiliskipulag á miðsvæðinu í maí næstkomandi ásamt fyrsta opna íbúakynningarfundinum í framhaldi. Form. kom inn á mikilvægi þess að nefndin hvetji íbúa þegar þar að kemur til þátttöku og aðkomu strax á fyrsta íbúafundi um deiliskipulagið á miðsvæðinu.

Annað ekki tekið til umræðu

Fundi slitið 21:45

13.03.2015

12. janúar 2015

Fundargerð - SFU
3. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd mánudaginn 12.01. 2015 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Óskar Ragnarsson. Andrés stjórnaði fundi og ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Skipulagsmál
Form. kynnti að fundi með Teiknistofunni vegna skipulagsmála hefði verið frestað til 23. jan. næstk. Íbúakynning vegna deiliskipulags á Teigarhorni verður laugardaginn 24. janúar næstk.

2. Heilbrigðiseftirlit Austurlands. dags. 29. desember 2014
Starfsleyfi fyrir fráveitu í þéttbýlinu við Djúpavog. Vísað frá sveitarstjórn til umsagnar.
Drög að starfsleyfi, unnin skv. ákvörðun Heilbrigðisnefndar Austurlandssvæðis fyrir fráveitu lögð fram á fundinum. SFU gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög. SFU leggur til að Djúpavogshreppur láti vinna áætlanagerð er varðar framgang fráveituframkvæmda við þéttbýlið með það fyrir augum að hægt verði að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í þessum efnum.

3. Grenndarkynning vegna byggingaráforma við Hammersminni 2b
Vísað frá sveitarstjórn til umsagnar. Lagt fram bréf og afstöðumynd frá byggingarfulltrúa DPV. sem sent var íbúum á nærliggjandi svæði vegna áforma um stækkun á húsnæði Rafsstöðvar Djúpavogs ehf. Áformað er að lengja húsið sem fyrir er um 7,9 m. til austurs.
Á auglýstum tíma komu fram athugasemdir frá eigendum að Hammersminni 4 vegna fyrirliggjandi áforma þar sem byggingaráform þessi eru talin þrengja að aðgengi að Hammersminni 4 og geti skapað slysahættu vegna umferðar að fyrirtækinu. Bent er á í bréfinu að Hammersminni 4 sé leigt út til orlofsdvalar.
Nefndin er sammála um að vísa málinu til skipulagsfulltrúa Guðrúnar Jónsdóttur til frekari skoðunar og umsagnar þar sem byggingaráform verða vegin og metin með tilliti til athugasemda og annarra þátta er varðar umhverfi og framtíðarskipulag. Nefndin leggur því til að ekkert verði aðhafst í málinu fyrr en umsögn skipulagsfulltrúa og frekari umræða í nefndinni fari fram um málið.

4. Endurvinnslukortið
Lögð fram kynning á verkefninu Endurvinnslukortið. Um er að ræða samstarf Náttúru ehf við sveitarfélög um miðlun upplýsinga og fræðslu um endurvinnslu og meðferð úrgangs. Umhverfisnefnd mælir með því að Djúpavogshreppur gerist formlegur aðili að verkefninu og að linkur með endurvinnslukortinu með upplýsingum um tilhögun endurvinnslu og úrgangsmála í Djúpavogshreppi verði settur með áberandi hætti á heimasíðu sveitarfélagsins.

Önnur mál
Rætt um að stefna á að gera Djúpavogshrepp að plastpokalausu sveitarfélagi.

Annað ekki tekið til umræðu
Fundi slitið kl 18:00

13.03.2015