Djúpivogur
A A

Landbúnaðarnefnd

6. nóvember 2014

Fundur var haldinn í Landbúnaðarnefnd 6. nóvember. Kl. 14.30. Fundarstaður Geysir, Bakka 1. Djúpavogi.

Fundinn sátu: Steinþór Björnsson formaður, Guðný Gréta Eyþórsdóttir varaformaður og Guðmundur Eiríksson varamaður.

Dagskrá fundar.

1. Farið yfir gangnaboð 2014 með breytingar og endurbætur í huga.
2. Lesið yfir bréf sem barst frá gangnaforingja á Berufjarðarströnd.
3. Önnur mál.

Nefndin fór yfir gangnaboð 2014 og skrifaði niður athugasemdir sem borist hafa munnlega til nefndarmanna. Eins voru felld út dagsverk eða bætt við eftir því sem við á. Talið er að göngur hafi gengið nokkuð vel þetta haustið nema á tveimur svæðum. Samkomulag fjár/ og landeigenda í Flugustaðadal, Tungu og Hofsdal er engan vegin ásættanlegt og þar af leiðandi er ekki búið að klára löggöngur þar.

Bréf barst landbúnaðarnefnd frá Auðbergi Jónssyni gangnaforingja. Þar var einnig mikið ósamkomulag í haust og tók því formaður landbúnaðarnefndar að sér að tala við hvern og einn land/ og fjáreiganda frá Hvannabrekku og út í Núp um hugmyndir að breyttu skipulagi varðandi göngur á þessu svæði næsta haust.

Landbúnaðarnefnd er sammála um að ref hafi fjölgað gríðarlega í hreppnum síðustu ár og telur nefndin nauðsynlegt að herða sókn gegn ref og mink í sveitarfélaginu. Fjárveitingar til refa/ og minkaveiða þarf að auka og er sérstaklega óheppilegt þegar ekki næst að klára grenjatímabilið vegna fjárskorts. Sveitarstjórn þarf að hafa samráð við önnur nærliggjandi sveitarfélög hvernig má standa betur að refaveiðum, einnig má brýna fyrir íbúum að leggja ekki út æti fyrir tófu nema viðkomandi hafi tíma til að sinna veiðunum.

Landbúnaðarnefnd hefur áhyggjur af fjölgun ferðamanna á svæðinu. Sóðaleg umgengni ferðamanna er vaxandi vandamál, mannaskítur og pappír er allvíða, hvort sem er úti við sjó eða inn til dala og þetta ástand samrýmist ekki þeirri ímynd sem íslenskur landbúnaður hefur gefið sig út fyrir. Það þarf að upplýsa ferðamenn hvernig ganga skal um landið, fjölga salernum á helstu áningastöðum í samráði við vegagerð og setja upp skilti við hreppamörk þar sem fólk er beðið um að ganga vel um náttúruna.

Lítillega var rætt um utanvegaakstur sem virðist vera að aukast og sérstaklega má rekja til hreindýraveiðimanna hvort sem þeir eru á bílum eða fjórhjólum. Margar ljótar slóðir hafa litið dagsins ljós síðustu ár.
Fleira ekki tekið fyrir fundi slitið kl. 17.15.

Guðný Gréta Eyþórsdóttir fundarritari

15.12.2014