Djúpivogur
A A

Ferða- og menningarmálanefnd

4. september 2017

Fundur ferða- og menningarmálanefndar

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd, mánudaginn 4. september 2017, kl. 15:00, að Bakka 1, Djúpavogi.
Fundinn sátu, Kristján Ingimarsson formaður, Þorbjörg Sandholt, Rán Freysdóttir og Erla Dóra Vogler ferða- og menningarmálafulltrúi.

Liður 1
Rætt var um upplýsingamiðstöð í Djúpavogshreppi og hvernig nýtt fyrirkomulag sl. sumar gekk, en Hótel Framtíð sá um reksturinn og Djúpavogshreppur greiddi ákveðið framlag með þeim rekstri. Svo virðist sem þetta fyrirkomulag hafi gengið vel og nefndin leggur til að þetta fyrirkomulag verði áfram. Einnig var rætt um samning milli Djúpavogshrepps og Hótel Framtíðar vegna afnota af salernisaðstöðu á tjaldstæðinu. Nefndin vísar frekari umræðu um samninginn til sveitarstjórnar.

Liður 2
Rætt var um Cittaslow sunnudaginn sem verður 24. september næstkomandi. Nefndin leggur til að þema sunnudagsins verði matur og menning úr héraði. Hópur fólks frá Orvieto á Ítalíu tekur þátt í sunnudeginum en hópurinn verður hér í Cittaslow skólaheimsókn. Einnig er von á Pier Giorgio Oliveti sem er í forsvari fyrir Cittaslow samtökin, en hann verður hér í þeim tilgangi að stofna Cittaslow Education sem er verkefni sem Djúpavogsskóli tekur þátt í. Stefnt er að því að gera sunnudaginn sem glæsilegastan og nefndin hvetur íbúa til að taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Liður 3
Erla gerði grein fyrir vinnu og viðburðum í Tankinum. Hún leggur áherslu á að uppbyggingu verði haldið áfram og að
sótt verði um styrki næstu árin til að ganga almennilega frá rafmagni, kaupa ljós, útvega ýmiskonar tækjabúnað o.fl. Ferða- og menningarmálanefnd er samþykk því að vera í forsvari fyrir Tankinn en að sá starfsmaður sem komi í stað Erlu haldi utan um verkefnið.

Liður 4
Rætt var um vegginn á gamla þvottaplaninu. Margar hugmyndir hafa komið fram um framtíð hans. Nefndin leggur til að gera innhlið veggsins snyrtilegri með því að fjarlægja rör, ljósastaura og mála.

Liður 5
Kristján gerði grein fyrir bók sem Alda Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum er að skrifa. Bókin er safn af þjóðsögum úr Djúpavogshreppi. Nefndin mælir með því að útgáfan verði styrkt og vísar því erindi til sveitarstjórnar.

Liður 6
Nefndin leggur til að stofnuð verði sér síða undir léninu visitdjúpivogur sem yrði hugsuð sérstaklega fyrir ferðamenn. Ferða- og menningarmálafulltrúa er falið að kalla eftir tilboðum í gerð vefsíðunnar.

Liður 7
Rætt var um tónleika og viðburðahald í kirkjunni. Nefndin leggur til að sveitarfélagið borgi þjónustugjald sem sóknarnefnd setur upp og hvetji þannig til menningarviðburða í kirkjunni. Fyrirhugaðir eru tónleikar í kirkjunni með Sveiflukvartettnum þann 7. október og þann 9. nóvember með Bertu Dröfn Ómarsdóttur sópransöngkonu frá Fáskrúðsfirði. Nefndin hvetur fólk til að mæta á þessa tónleika.

Liður 8
Kómedíuleikhúsið bauð sveitarfélaginu að kaupa hingað sýningu þeirra um Gísla á Uppsölum. Nefndin afþakkar
boðið þar sem sýningin fór um Austurland síðasta sumar og margir sáu sýninguna þá.

Liður 9
Önnur mál.
Erla gerði grein fyrir stöðu á uppsetningu selfie skilta og ósk Sigurðs Guðmundssonar að slíkt verði ekki sett við Eggin í Gleðivík. Einnig var rætt um gerð Artic Project á kynningarmyndbandi fyrir sveitarfélagið, en fyrirtækið hlaut til þess styrk úr Menningarráði Austurlands 2015. Ferða- og menningarmálafulltrúi segir að sjónrænt aðlaðandi kynningarmyndband, án tals, þar sem tökurnar segja allt sem segja þarf, myndi nýtast mjög vel. Nefndin vísar því erindi til sveitarstjórnar og leggur til að fundnir verði styrkir í það eða aukalegt fé. Rætt var um að kaupa mætti fleiri bekki/borð sem mætti dreifa víðar en á Kallabakkanum og leggur til að þar verði einnig ruslafötur. Erla gerði grein fyrir ýmsum verkefnum sem hún er að vinna að.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 16:10

18.12.2017