Djúpivogur
A A

Fundargerðir

8. mars 2016

Fundargerð - SFU

10. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 08.03. 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson.

Dagskrá

1. Auglýsingar utan þéttbýlis – bréf frá Umhverfisstofnun.
Óheimilar auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis. Lagt fram til kynningar

2. Svæðisskipulag Austurland
Lagt fram bréf dags. 9. feb. 2016 þar sem SSA óskar eftir tilnefningu fulltrúa í starfshóp fyrir 10. mars. Starfshópnum er ætlað gera drög að umfangi vinnu við Svæðisskipulag fyrir Austurland, nauðsynlega verþætti og forgangsröðun þeirra. Nefndin leggur til að tilnefna Andrés Skúlason í starfshópinn fyrir hönd Djúpavogshrepps.

3. Kerhamrar í landi Múla 1 – Ósk um breytingu á aðalskipulagi
Form. lagði fram erindi Vigfúsar Halldórssonar dags. 18. febrúar 2016 þar sem fram kemur ósk um breytingu á landnotkun á lóðinni Kerhömrum í landi Múla 1. Með erindinu fylgdi loftmynd og lýsing á fyrirhugaðri gistiaðstöðu sem eigendur hafa hug á að reisa. Um er að ræða áform um byggingu á 350 m2 gistirými á einni hæð. Skipulagráðgjafi hefur unnið að undirbúningi óverulegrar breytingar á aðalskipulagi. Þegar breytingin hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun þarf að deiliskipuleggja lóðina. Þegar skipulagsbreytingar hafa verið staðfestar getur umsækjandi lagt fram teikningar af viðkomandi byggingu og sótt um byggingarleyfi. Samþykkt samhljóða.

4. Fiskeldi Austfjarða – varðar umsókn um stöðuleyfi vegna fóðurstöðva í landi Urðarteigs við Berufjörð.
(Óskar Ragnarsson vék af fundi)
Lagt fyrir erindi frá Þórði Þórðarssyni fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða sem barst með tölvupósti 22.02.2016. Óskað er eftir stöðuleyfi til 12 mánaða fyrir fóðurstöðvar í landi Urðarteigs sem tilraunaverkefni.
Að höfðu samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps er það niðurstaða SFU að umfang þeirrar framkvæmdar sem lýst hefur verið í grófum dráttum af hálfu Fiskeldis Austfjarða sé af þeirri stærðargráðu að það kalli á breytingu á aðalskipulagi Djúpavogshrepps og gerð deiliskipulags á viðkomandi svæði. Skipulagsstofnun sker úr um hvort fyrirhugað framkvæmd krefjist meiri eða minniháttar aðalskipulagsbreytinga. Óskað er eftir Fiskeldi Austfjarða taki saman heildstæða lýsingu á framkvæmdunum, sem m.a. fæli í sér afmörkun og staðsetningu lóða, vegslóða og raflínutenginga, eðli fyrirhugaðrar starfsemi, byggingarmagn, hæð bygginga og annað sem kann að skipta máli. Samþykkt samhljóða
Óskar mætir inn á fund.

5. Önnur mál
Rætt um stöðu á húsnæðismarkaði og sumarvinnu

Fundi slitið kl: 19.00

11.03.2016

18. febrúar 2016

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 18.02.2016

10. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og tómstundanefnd Djúpavogshrepps fimmtudaginn 18. febrúar 2016 kl.16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir, Berta Björg Sæmundsdóttir, Elísabet Guðmundsdóttir og Óðinn Sævar Gunnlaugsson.
Fundargerð ritaði Sóley.
Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúar starfsfólks og foreldrafélags Djúpavogsskóla: Þorbjörg Sandholt, Þórdís Sigurðardóttir og Auður Ágústsdóttir

Dagskrá:

1. Sjálfsmat Djúpavogsskóla
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir skólastjóri Djúpavogsskóla kom til okkar og kynnti skýrslu um sjálfsmat Djúpavogsskóla veturinn 2014-2015 .

2. Undirbúningur opins fundar um skólamál í Djúpavogshreppi.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir Skólastjóri og Guðrún Sigríður Sigurðardóttir leikskólastjóri unnu með nefndinni að undirbúningi opins fundar um skólamál.

3. Guðrún fór stuttlega um ýmis málefni er snú að leikskólanum. S.s. starfsmannamál, kosning trúnaðarmanns fyrir afl-starfsfólk leikskólans o.fl.

Önnur mál voru engin.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.18:34
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

11.03.2016

9. mars 2016

Fundur ferða- og menningarmálanefndar

Fundargerð 9. mars 2016

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd  miðvikudaginn 9. febrúar kl. 17:00 að Bakka 1, Djúpavogi.

Fundinn sátu Erla Dóra Vogler, Hörður Þórbjörnsson, Þorbjörg Sandholt og Þór Vigfússon.

Liður 1
Erla Dóra gerir grein fyrir stöðu skiltamála. Flest skilti tilbúin og fara fljótlega á sinn stað.

Liður 2
Sunnudaginn 10. apríl verður haldið “hverfakaffi” í Íþróttamiðstöð Djúpavogshrepps. Nánar auglýst síðar.

Liður 3
Erla Dóra gerir grein fyrir vinnu við menningarstefnu Djúpavogshrepps sem er í vinnslu. Stefnt er að klára hana fyrir vorið.

Liður 4
Erla Dóra fór yfir stöðuna á PocketGuide verkefninu. Vinnan við það gengur loksins vel og vonandi verður það tilbúið fyrir vorið.

Liður 5
Fundur verður haldinn um utandagskrá Hammondhátíðar, mánudaginn 14. mars kl. 17:00 í Geysi og hvetur nefndin áhugasama um að mæta.

Liður 5
Erla Dóra lagði áherslu á mikilvægi þess að koma munum sem gefnir hafa verið á söfn í Djúpavogshreppi í örugga geymslu á meðan verið er að finna þeim endanlega staðsetningu.

Liður 6
Rætt var um innleiðingu Cittaslow hugmyndafræðinnar í Djúpavogsskóla. Sú vinna er ágætlega á veg komin undir stjórn Bryndísar Skúladóttur.

Liður 7
Ársfundur norðurlandsnets Cittaslow verður haldin á Djúpavogi í lok maí. Unnið er að skipulagðri dagskrá fyrir fundinn.

Liður 8
Rætt var um verkefnið Áfangastaðinn Austurland. Ánægja var með kynningarfundinn sem haldinn var um verkefnið í Löngubúð þriðjudaginn 8. mars s.l. á vegum Austurbrúar. 

Liður 9
Erla Dóra fór fyrir stöðuna á vinnu við endurbætt gönguleiðakort sem gengur vel. Erla Dóra og nefndin þakkar þeim aðilum sem lagt hafa fram vinnu sína við endurbætur á kortinu.

Liður 10
Heimasíða Ríkarðssafns er ekki lengur á internetinu. Vinna við endurgerð á heimasíðunni er á byrjunarstigi.

Liður 11
Listamenn í heimabyggð í samvinnu við Djúpavogshrepp fengu styrk úr Uppbyggingasjóði Austurlands til að vinna að því að gera tankinn inn við Bræslu að sýningarrými. Grunnvinna við tankinn hefst fljótlega og til stendur hann verði nothæfur í sumar. Á næstu vikum verður boðað til fundar þangað sem allir eru velkomnir sem áhuga hafa.

Liður 12
Skógræktarfélag Djúpavogs mun sjá um Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands sem haldinn verður hér á Djúpavogi í haust. Undirbúningur er hafin og gengur vel.

Liður 13
Bóndavarðan kemur út í byrjun apríl. Erla Dóra hefur óskað eftir auglýsingum og greinum sem fyrst.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 18:40
Ritari: Þorbjörg Sandholt

11.03.2016

3. mars 2016

LANDBÚNAÐARNEFND DJÚPAVOGSHREPPS

FUNDARGERÐ

Fundur var haldinn í landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, fimmtudaginn 3. mars 2016 kl. 14:00. Fundinn sátu Steinþór Björnsson formaður, Guðný Gréta Eyþórsdóttir varaformaður og Gautur Svavarsson. Einnig Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. SB stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Refa- og minkaveiði
2. Upprekstur í Búlandsdal
3. Önnur mál
_____________________________________________________________________

1. Refa- og minkaveiði
Landbúnaðarnefnd leggur til að auknu fé verði varið til minkaveiða enda fyrirséð að
það fjármagn sem ætlað er til málaflokksins dugar ekki til að fara yfir allan
Djúpavogshrepp. Lögð verði áhersla á að finna veiðimenn til að verksins svo veiðar
falli ekki niður. Landbúnaðarnefnd leggur jafnframt áherslu á að meira fé verði veitt
til refaveiða. Samþykktar breytingar á samningi og reglum um grenjaleit og
refaveiðar með meiri áherslu á grenjavinnslu en verið hefur.

2. Upprekstur í Búlandsdal
Landbúnaðarnefnd leggst ekki gegn því að Lindarbrekku verði veitt beitarafnot fyrir
allt að 60 ær með lömbum á Búlandsdal austan ár til þriggja ára.

3. Önnur mál
Engin önnur mál.

Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest og prentuð út.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 15:10.

11.03.2016

10. mars 2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 10.03.2016

21. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 10. mars 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Þorbjörg Sandholt, Kári Snær Valtingojer og Sóley Dögg Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitarsstjóri, sem ritaði fundargerð. Andrés stjórnaði fundi.
Fundarstjóri óskaði eftir að liður 1 o), fundargerð ferða- og menningarmálanefndar, dags. 9. mars yrði tekinn á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:


1. Fundargerðir

a) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. janúar 2016. Lögð fram til kynningar
b) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 10. febrúar 2016. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn SSA, dags. 11. febrúar 2016. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 12. febrúar 2016.
Lögð fram til kynningar.
e) Stjórn SSA, dags. 16. febrúar 2016. Lögð fram til kynningar.
f) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 18. febrúar 2016. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 18. febrúar 2016. Farið er fram á hækkun framlaga frá aðildarsveitarfélögum safnsins þar sem launahækkanir hafi verið vanáætlaðar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016. Ný fjárhagsáætlun fyrir árið gerir ráð fyrir því að laun og launatengd gjöld hækki um 1,5 millj. Rekstarframlög þurfi því að hækka úr 20 milljónum í 22 milljónir að teknu tillit til forsendna framlaganna. Sveitarstjórn samþykkir að verða við erindinu með fyrirvara um að önnur aðildarsveitarfélög samþykki að verða við því fyrir sitt leyti fyrir 1. apríl n.k. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
h) Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, dags. 19. febrúar 2016.
Lögð fram til kynningar.
i) Framkvæmdastjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 24. febrúar 2016.
Lögð fram til kynningar.
j) Fundur sveitarstjóra um ljósleiðaravæðingu, dags. 24. febrúar.
Lögð fram til kynningar.
k) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 24. febrúar 2016. Lögð fram til kynningar.
l) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. febrúar 2016.
Lögð fram til kynningar.
m) Landbúnaðarnefnd, dags. 3. mars 2016.
Ekki er gert ráð fyrir að veita meira fjármagni til refa- og minkaveiða en tilgreint er í fjárhagsáætlun. Liður 1, Refa og minkaveiði, breytingar á samningi og reglum um grenjaleit og refaveiðar með meiri áherslu á grenjavinnslu, staðfestur.
Liður 2, upprekstur á Búlandsdal, staðfestur. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningi þess efnis. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
n) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 8. mars 2016.
Liður 2, Svæðisskipulag Austurland, tilnefning Andrésar Skúlasonar sem fulltrúa í starfshóp fyrir hönd Djúpavogshrepps, staðfestur.
Liður 3, Kerhamrar í landi Múla 1 – ósk um breytingu á aðalskipulagi, staðfestur.
Liður 4, Fiskeldi Austfjarða – varðar umsókn um stöðuleyfi vegna fóðurstöðva í landi Urðarteigs við Berufjörð, staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
o) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 9. mars 2016. Lögð fram til kynningar.

2. Erindi og bréf

a) Austurbrú, þjónustusamningur við sveitarfélög vegna 2016, dags. 8. febrúar 2016. Lagt fram til kynningar.
b) Heimili og skóli, ályktun um niðurskurð í leik- og grunnskólum, dags. 11. febrúar 2016. Lagt fram til kynningar.
c) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, svæðisáætlanir um meðferð úrgangs, dags. 12. febrúar 2016. Lagt fram til kynningar.
d) Félagsmálanefnd, gjaldskrá heimaþjónustu, dags. 16. febrúar 2016. Lagt fram til kynningar.
e) Skólastjóri Djúpavogsskóla, Læsisstefna Djúpavogsskóla, dags. 17. febrúar 2016. Lagt fram til kynningar.
f) Stjórn SSA, tilnefning fulltrúa í starfshóp um svæðisskipulag á Austurlandi. Þegar staðfest að Andrés Skúlason verður fulltrúi sveitarfélagsins í starfshópnum.
g) Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, fjárhagsáætlun 2016-2019, dags. 29. febrúar 2016. Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samráði við endurskoðendur sveitarfélagsins.

3. Innkaupareglur
Innkaupareglur sveitarfélagsins frá 2011 teknar til yfirferðar og endurskoðunar.
Nýjar innnkaupareglur sem taka gildi 10. mars 2016 samþykktar.

4. Kerhamrar – Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 er tekur til breyttrar landnotkunar á lóðinni Kerhömrum í landi Múla.
Breytingin felst í að lóðinni Kerhömrum er breytt úr íbúðarhúsalóð í lóð fyrir verslun og þjónustu. Jafnframt er afmörkun lóðarinnar breytt til samræmis við hnitasetningu frá mars 2016.
Í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 segir að stefnt sé að eflingu ferðaþjónustu á svæðinu, svo sem með samvinnu sveitarfélags, ferðaþjónustuaðila og íbúa. Að mati sveitarstjórnar Djúpavogshrepps er þessi tillaga að breytingu á aðalskipulagi til þess fallin að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á svæðinu og byggð í fámennri sveit. Þar sem svæðið hefur í áratugi verið nýtt til samkomuhalds eru tilteknir innviðir fyrir hendi t.d. rúmt bílastæði og gott aðgengi og að mati sveitarstjórnar hentar lóðin Kerhamrar því vel til þeirrar uppbyggingar sem fyrirhuguð er.
Til að sporna við neikvæðum umhverfisáhrifum leggur sveitarstjórn á það ríka áherslu að fyrirhuguð uppbygging ferðaþjónustu fari fram í eins mikilli sátt við umhverfið og frekast er unnt og frágangur sé í fullu samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps telur ekki ástæðu til að ætla að breytt landnotkun muni hafa eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á umhverfi og samfélag. Sveitarstjórn telur því að hér sé um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020 að ræða sbr. 2 mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020 dags. 10. mars 2016 til staðfestingar Skipulagsstofnunar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er sveitarstjóra falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 32. gr. sömu laga.

5. Staðan á húsnæðismarkaði á Djúpavogi
Ljóst er að mikill skortur er á hvort tveggja íbúðar- og skrifstofuhúsnæði á Djúpavogi. Sveitarstjórn er sammála um að miklu skipti að leita allra leiða til að bregðast við stöðunni. Samþykkt að stofna 3 manna starfshóp til að kortleggja ástandið og koma með tillögur til úrbóta eigi síðar en 1. júní. Í starfshópnum sitja Kári Snær Valtingojer, Þorbjörg Sandholt auk Andrésar Skúlasonar oddvita.

6. Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu
Lögð fram til kynningar.

7. Flutningur þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga
Skýrsla unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands lögð fram til kynningar.

8. Húsnæðismál Djúpavogsskóla
Þorbjörg Sandholt vék af fundi. Sigurjón Stefánsson kom til fundar. Undir þessum lið voru lögð fram gögn sem starfshópur um húsnæðismál Djúpavogssskóla hefur tekið saman auk fundargerða hópsins frá 25. febrúar og 3. mars. Sóley Dögg Birgisdóttir formaður gerði grein fyrir tillögum hópsins sem mælir með eftirfarandi:
1. Horfið verði frá því að flytja 5 ára börnin í grunnskólann í haust.
2. Aldrei verði fleiri en 37 börn í leikskólanum og allt kapp lagt á að fá dagforeldra til starfa sem lausn fyrir þá sem ekki fá leikskólapláss.
3. Heildstæð áætlun, sem byggir á þarfagreiningu hópsins, um framtíðarlausn í húsnæðismálum Djúpavogsskóla verði klár í lok árs, þar sem öll starfsemi skólans verði komin í eigið húsnæði og gert ráð fyrir 3. deild leikskólans.
4. Þarfagreiningin verði send til fagaðila til úrvinnslu.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðar tillögur hópsins. Sveitarstjóra falið að leita tilboða í úrvinnslu á þeim með það að markmiði að í lok árs liggi fyrir endanleg áætlun um framtíðarskipan húsnæðismála Djúpavogssskóla sem hægt verður að taka tillit til við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Við úrvinnsluna verði þess gætt að hvort tveggja, það húsnæði sem nú þegar hýsir skólastarfið og/eða nýbygging geti verið hluti af lausn á húsnæðisvanda skólans til framtíðar. Þorbjörg mætir aftur til fundar. Sigurjón Stefánsson vék af fundi.

9. Samþykkt um byggingarleyfisgjöld
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

10. Ljósleiðaravæðing Djúpavogshrepps
Sveitarstjóri lagði fram tilboð sem borist hafa í vinnu við gerð útboðsgagna vegna lagnar ljósleiðara í dreifbýli við Berufjörð. Samþykkt að fela Mannviti að vinna útboðsgögn samkvæmt tilboði. Samþykkt jafnframt að fresta frekari ákvörðunum um framkvæmdina þar til endanlegar reglur um úthlutun 2016 liggja fyrir frá hendi fjárveitingavaldsins.

11. Skýrsla sveitarstjóra
a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum breytingum innanhús í Geysi. Stefnt er að því að Minjavörður Austurlands og starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar verði í fundarherbergi á annari hæð og að skrifstofa sveitarstjóra flytji aftur niður.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann átti með Petur Petersen sendiherra Færeyja á Íslandi 2. mars.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda við nýjar flotbryggjur í Djúpavogshöfn. Hafist hefur verið handa við rif á gömlu bryggjunni og gerir verkáætlun ráð fyrir að þeirri vinnu ásamd dýpkun verði lokið eigi síðar en 6. apríl. Nýjum flotbryggjum verður þá komið fyrir.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

11.03.2016