Djúpivogur
A A

Fundargerðir

1. júní 2015

Fundur í ferða- og menningarmálanefnd

Fundargerð 1. júní 2015

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd mánudaginn 1. júní kl. 14:00 að Bakka 1, Djúpavogi. Fundinn sátu Erla Dóra Vogler, Rán Freysdóttir og Þorbjörg Sandholt.

Tvö mál voru á dagskrá.

Liður 1
Farið var yfir kort af Djúpavogshreppi og merktir inn þeir staðir þar sem þarf að setja niður skilti fyrir sumarið.

Liður 2
Farið yfir nýja bæklinginn áður en að hann fer í prentun.


Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 15:00 Ritari: Þorbjörg Sandholt

23.06.2015

18. maí 2015

Fundur í ferða- og menningarmálanefnd

Fundargerð 18. maí 2015

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd mánudaginn 18. maí kl. 14:00 að Bakka 1, Djúpavogi. Fundinn sátu Berglind Häsler, Erla Dóra Vogler, Rán Freysdóttir og Þorbjörg Sandholt.

Liður 1
Erla Dóra fer yfir skipulag í sambandi við skemmtiferðaskipin. Búið að ráða starfsmann með Erlu Dóru á upplýsingamiðstöðina í sumar. Fyrsta skipið er væntanlegt 27. maí. Nefndin sammála um að halda fund í lok sumars og fara vel yfir málin, hvað má gera betur.

Liður 2
Erla Dóra gerði grein fyrir því að Rúllandi snjóbolti fékk eina milljón í styrk frá Uppbyggingasjóð austurlands. Erla Dóra tekur við styrknum fyrir hönd sveitarfélagsins.
Rætt um að stór tankur við Bræðsluna verði notaður fyrir verk á Rúllandi snjóbolta/6. Ákveðið að skoða þetta frekar í samráði við listamanninn.

Liður 3
Hrafnkell Sigurðsson hefur sýnt áhuga á að halda einkasýningu á verkum sínum á meðan hann dvelur á Djúpavogi, í listamannadvöl í tengslum við Rúllandi snjóbolta/6. Ákveðið að skoða mögueika á húsnæði fyrir sýninguna.

Liður 4
Bannað að tjalda/gista í húsbílum nema á merktum tjaldstæðum í sveitarfélaginu. Mikið er um það að bílum sé lagt yfir nótt víðsvegar um þorpið. Úti á söndum, inn við kirkju, við eggin og víðar. Skoðað var hvernig önnur bæjarfélög hafa komið að þessu máli og hvernig best sé fyrir Djúpavogshrepp að finna lausn á þessu í samráði við sveitarstjórn og lögreglu.
Það eru til hjá Djúpavogshreppi “bannað að tjalda” skilti sem þarf að koma niður sem fyrst á ákveðnum svæðum.
Rætt um að merkingar allar þurfi að vera betri og leiða ókunnuga betur í gegnum bæinn okkar .

Liður 5
Nefndin leggur til að hafa hreinsunardaga í byrjun júní þar sem einstaklingar og fyrirtæki eru hvattir til að taka til í kring um sig, upplagt að grilla saman í lokin. Lagt er til að FM og Umhverfisnefnd vinni saman að þessum dögum.

Liður 6
Ákveðið að ganga í Samtök söguferðaþjónustu (SSF) og leggja áherslu á að kynna sögu Djúpavogshrepps fyrir ferðamönnum.

Liður 7
Farið yfir umsóknir um listamannadvöl á Djúpavogi í haust. Erlu Dóru falið að skoða málið betur.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 16:00 Ritari: Þorbjörg Sandholt.

23.06.2015

22. maí 2015

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 22.05.2015

6. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og tómstundanefnd Djúpavogshrepps föstudaginn 22. maí 2015 kl.16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir og Berta Björg Sæmundsdóttir. Fundargerð ritaði Sóley. Einnig sátu fundinn fulltrúar starfsfólks Djúpavogsskóla: Þorbjörg Sandholt og Guðrún Sigríður Sigurðardóttir.

Dagskrá:

1. Skólastefna Djúpavogshrepps
Fórum yfir Skólastefnuna og kláruðum að afgreiða athugasemdir nefndarmanna

2. Djúpavogsskóli
Skólastjóri, Halldóra Dröfn kom og við fórum yfir breytingar á skólastefnunni með Dóru og ræddum. Þá lagði Dóra fyrir nefndina skóladagatal næsta skólaárs sem er 180 dagar. Dóra fór einnig yfir verkáætlun sem hún hefur unnið vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi í skólanum næsta skólaár og almenns viðhalds. Lagt er til við sveitarstjórn að þessari verkáætlun verði fylgt eftir. Dóra vék af fundi.
Eftir umræður um dagatalið var það lagt fram til samþykktar með þeim fyrirvara að unnið verið að því koma inná dagatalið sameiginlegum starfsdegi þar sem unnið er að sameiginlegri sýn og stefnu skólana. Dagatalið var því næst samþykkt samhljóð

3. Skólastefnan
Umræður um skólastefnuna kláraðar og lokabreytingar gerðar. Þá var stefnan lögð fram til samþykktar og samþykkt samhljóða.

4. Skólaakstur
Sóley og Guðrún kynntu fyrir nefndinni það sem þær voru búnar að kynna sér um lög um skólaakstur og reglur ýmissa sveitarfélaga varðandi skólaakstur. Nefndin sammála um að nauðsynlegt væri að sveitarfélagið setti sér reglur í þessum efnum. Sóley og Guðrún taka að sér að vinna tillögu að reglum og leggja fyrir nefndina sem fyrst.

5. Önnur mál
Guðrún lagði fram 2 mál frá starfsfólki. Þau voru rædd og unnið verður að úrlausnum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.19.00
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

23.06.2015

11. maí 2015

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 11.05.2015

5. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og tómstundanefnd Djúpavogshrepps fimmtudaginn 11. maí 2014 kl.16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir og Óðinn Sævar Gunnlaugsson. Fundargerð ritaði Sóley. Einnig sat fundinn fulltrúi starfsfólks Djúpavogsskóla: Þorbjörg Sandholt.

Dagskrá:

1. Skólastefna Djúpavogshrepps
Fundurinn var vinnufundur þar sem unnið var við endurskoðun Skólastefnu Djúpavogshrepps.
Fundarmenn voru búnir að kynna sér leiðbeiningar frá sambandinu varðandi gerð skólastefna, Hvítbók ráðherra og nýjar aðalnámsskrá ásamt því að lesa skólastefnur ýmissa sveitarfélaga.
Ýmsar lagfæringar voru gerðar á núverandi stefnu og stefnt að því að samþykkja endurskoðað Skólastefnu fyrir sveitarfélagið á næsta fundi nefndarinnar fyrir lok maí.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.18:45
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

23.06.2015

10. júní 2015

Fundargerð - SFU

6. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 10.06.2015
kl. 17:30. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson.

Dagskrá:

1. Skipulagsmál við botn Berufjarðar. Þar sem sýnt er að landeigendur við botn Berufjarðar hafa náð samkomulagi um veglínu fyrir botn Berufjarðar með sameiginlegu bréfi undirrituðu af öllum landeigendum, þá styðja fulltrúar í SFU hugmyndir sveitarstjórnar um færslu núverandi veglínu sem staðfest hefur verið í skipulagi út í veglínu Z. Þann 25. júní er því fyrirhugaður sérstakur íbúafundur þar sem fram fer lýsing á breytingu á skipulagi á veglínu við botn Berufjarðar sem fulltrúi Teiknistofu GJ mun leiða. Form. skýrði frá að þessa dagana væru veghönnuðir vegagerðarinnar við mælingar á framkvæmdasvæðinu og kann veglínaað hliðrast lítilsháttar með hliðsjón af frekari rannsóknum á fyrirliggjandi vegstæði.
Gera má ráð fyrir að skipulagsferli sem framundan er verði lokið um áramót ef engir hnökrar verði á ferlinu og því hægt að bjóða framkvæmdina út í upphafi næsta árs.

2. Miðbæjarskipulag
Form. kynnti að stefnt væri að íbúafundi á Djúpavogi varðandi miðbæjarskipulagið þann 25. júní og verður hann auglýstur með góðum fyrirvara og íbúar hvattir til þáttöku.
Stefnt að því að nefndin fundi sérstaklega með fulltrúa Teiknistofunnar fyrir íbúafund.

3. Samfélagsdagur Ákveðið hefur verið af sveitarfélaginu að efna til samfélagsdags í samráði við Neista þar íbúar verða hvattir til almennrar tiltektar í bænum og verður grillað á eftir. SFU hvetur íbúa til almennrar þáttöku í degi þessum.

4. Staða skipulagsmála vegna sölu lóðar sem Rafstöð Djúpavogs stendur á.
Kári víkur af fundi. SFU hvetur sveitarstjórn til þess að kaupa viðkomandi fasteign í ljósi þess að viðkomandi lóð og starfsemi fellur ekki að gildandi Aðalskipulagi en svæðið er markað innan íbúðarsvæðis á þeim reit sem viðkomandi hús stendur á. Þá liggur fyrir að þau áform sem uppi voru um stækkun viðkomandi fasteignar samræmdist ekki nánasta umhverfi og lóðaskipulagi.
Kári mætir á fund.

Erindi og bréf
1. Lóðaumsóknir fyrir sumarhús við Vogaland dags. 20.05.2015.– umsókn frá Esther S Sigurðardóttur vegna byggingar á tveimur sumarhúsum við Vogaland. Um leið og viðkomandi er þakkaður sýndur áhugi með umsókn þá eru fulltrúar SFU því sammála um að höfðu samráði við skipulagsráðgjafa sveitarfélagins að beina viðkomandi til að sækja um lóðir vegna viðkomandi sumarhúsa á sérstöku svæði sem er ætlað er undir sumarhúsabyggð í jaðri þéttbýlisins nánar tiltekið á milli Steinstaða og Hvarfs sem er nú á vinnslustigi í tengslum við vinnu við skipulagsgerð í þéttbýlinu.

2. Stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Jón Hávarður form. FLH hefur hefur fallist á að funda ásamt stjórn sinni með fulltrúum SFU fljótlega vegna erindis sem að nefndin hafði sent stjórn FLH vegna utanvegaaksturs í sveitarfélaginu. SFU fagnar því að fá fund með stjórninni og óskar eftir að honum verði komið sem fyrst á.
Fundi slitið 19:00

23.06.2015

11. júní 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 11.06.2015

13. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 11. júní 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sigurjón Stefánsson, Þorbjörg Sandholt og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.
Andrés stjórnaði fundi. Oddviti óskaði eftir að liður 2l yrði tekinn fyrir á fundinum og var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:   


1.    Fjárhagsleg málefni
Sveitarstjóri gerði grein fyrir breytingum á afborgunum langtímalána í kjölfar endurfjármögnunar. Gert er ráð fyrir að afborganir lækki um sem nemur rúmum 26 millj. á ári 2015 og 2016, 8 millj. 2017 og 6 millj. 2018 og 2019 að öllu óbreyttu.

2.    Fundargerðir
a)    UÍA 65. sambandsþing, dags 11. apríl 2015. Lögð fram til kynningar.
Rán Freysdóttir mætir á fund.
b)    Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, dags 16. apríl 2015.  Lögð fram til kynningar.
c)    Aðalfundur Brunavarna á Austurlandi, dags. 29. apríl 2015.  Lögð fram til kynningar.
d)    Fræðslu og tómstundanefnd, dags. 11. maí 2015.  Lögð fram til kynningar.
e)    Ferða og menningarmálanefnd, dags 18. maí 2015.  Lögð fram til kynningar.
f)    Fræðslu og tómstundanefnd, dags 22. maí 2015.  Liður 2, skóladagatal, staðfestur.  Liður 3, skólastefna, staðfestur.  Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
g)    Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 22. maí 2015.  Lögð fram til kynningar.
h)    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags 29. maí.  Lögð fram til kynningar.
i)    Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 29. maí 2015.  Lögð fram til kynningar.
j)    Ferða og menningarmálanefnd, dags. 1. júní 2015.  Lögð fram til kynningar.
k)    Heilbrigðiseftirlit Austurlands, dags. 3. júní 2015.  Lögð fram til kynningar.
l)    Skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefnd, dags. 10. júní 2015. Kári vék af fundi undir lið 4 í fundargerðinni „Staða skipulagsmála vegna sölu lóðar sem rafstöð Djúpavogs stendur á“ og kom aftur á fund þegar umfjöllun um þann lið var lokið.  Liður 1 undir „Erindi og bréf“, „Lóðaumsóknir fyrir sumarhús við Vogaland dags. 20.05.2015“ staðfestur samhljóða.

3.    Erindi og bréf
a)    Varasjóður húsnæðismála, lok verkefnis um framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar og leiguíbúða á almennum markaði, dags. 21. maí 2015.
Lagt fram til kynningar.
b)    Samband íslenskra sveitarfélaga, gróðursetning, dags. 3. júní 2015.  Sveitarstjórn samþykkir að gróðursetja  trjáplöntur laugardaginn 27. júní til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni þess að 35 ár verða liðin frá því að hún var kjörin í embætti forseta Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem þjóðkjörinn forseti.  
Sveitarstjóra falið að vinna að málinu í samvinnu við Skógræktarfélag Djúpavogs.
   
4.    Berufjarðarbotn
Með vísun til bréfs landeigenda Berufjarðar dags. 20. apríl 2015 er ljóst að allir landeigendur við botn Berufjarðar hafa nú, í fyrsta sinn, komist að sameiginlegri niðurstöðu er varðar veglínu um Berufjarðarbotn.
Í trausti þess að að undirritun og yfirlýsing landeigenda í áðurgreindu bréfi standi, fellst sveitarstjórn Djúpavogshrepps á breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 í þá veru að í stað núgildandi veglínu sem staðfest var af Skipulagsstofnun 5. febrúar 2014, muni veglína verða færð til þess sem merkt er Z í matsskýrslu Vegagerðarinnar frá mars 2011, þó með þeim fyrirvara að hnika gæti þurft veglínunni eitthvað lítilsháttar þegar niðurstöður rannsókna vegagerðarinnar sem nú fara fram á framkvæmdarsvæðinu, liggja fyrir.
Vinna við breytingu á aðalskipulaginu, í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er þegar hafin og verður lýsing breytingarinnar ásamt endanlegri veglínu kynnt á sérstökum íbúafundi sem haldinn verður 25. júní nk.
Sveitarstjórn leggur gríðarlega þunga áherslu á að það tímafreka og kostnaðarsama skipulagsbreytingaferli sem nú fer í hönd, geti gengið hindrunarlaust fyrir sig, og vænta má, ef ekki kemur neitt upp sem tefur framgang málsins, að breytingin á aðalskipulaginu verði staðfest í fyrsta lagi um næstu áramót. Gangi það eftir ætti því að vera mögulegt að bjóða framkvæmdir út strax í byrjun næsta árs.
Í tengslum við þessa umræðu hefur oddviti lagt áherslu á að fylgja málinu eftir af festu gagnvart umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, öllum þingmönnum kjördæmisins og vegamálastjóra, auk þess að senda inn sérstaka umsögn vegna framkvæmdarinnar til nefndarsviðs Alþingis þar sem hvatt er til þess í ljósi nýrrar stöðu, að framkvæmdum við Berufjarðarbotn verði lokið á tveimur árum í stað þriggja ára.
Eigi þessi áform að geta gengið eftir þarf sveitarstjórn að geta treyst því að vinnuferlið framundan gangi hnökralaust fyrir sig.    

5.    Ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Austurlands
Lagt fram til kynningar.

6.    Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019
Lögð fram til kynningar.  Sveitarstjóra og formanni atvinnumálanefndar falið að vinna umsögn og koma til skila.

7.    Samningur um sjúkraflutninga á Djúpavogi
Lagður fram til kynningar.  

8.    Skipulagsmál – Rafstöð
Kári vék af fundi.  Rafstöð Djúpavogs hefur lýst yfir áhuga á að selja fasteignina að Hammersminni 2b sem hýsir verkstæði fyrirtækisins þar sem komið hefur í ljós að það er takmörkunum háð hvað hægt er að stækka húsið á viðkomandi reit.  Í ljósi þess að fasteignin býður ekki upp á áformaða stækkun miðað við lóðaskipulag, gagnvart nánasta umhverfi og skipulagsgerð á miðsvæðinu er sveitarstjóra falið að ganga til samninga um kaup á fasteigninni. Í Aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir athafna- eða iðnaðarstarfsemi á þessu svæði til framtíðar. Stefnt er að gerð viðauka við fjárhagsáætlun á næsta fundi sveitarstjórnar ef samningur næst um kaupin.  
Samþykkt samhljóða. Kári mætir aftur til fundar.

9.    Teigarhorn
Hið opinbera hefur nýlega veitt myndarlegan styrk til uppbyggingar á Teigarhorni m.a. til endurbóta á íbúðarhúsi þar sem sveitarfélagið leggur áhersla á að verði heilsársbúseta í framtíðinni.  Í því ljósi og með það fyrir augum að treysta stöðu Teigarhorns enn frekar í sessi er sveitarstjóra og oddvita falið að ganga til samninga við Erlu Dóru Vogler ferða og menningarmálafulltrúa og Sævar Þór Halldórsson landfræðing og landvörð um búsetu og leigukjör þeirra á Teigarhorni frá og með ágúst á þessu ári til tveggja ára með endurskoðunarákvæði að þeim tíma liðnum enda falla störf þeirra og menntun fullkomlega að hugmyndum um framtíðaruppbyggingu á svæðinu.  Jafnframt verði Sævar ráðinn sem landvörður á svæðinu, sú ráðning taki þó ekki gildi fyrr en í febrúarbyrjun 2016.  Samþykkt samhljóða.

10.    Skýrsla sveitarstjóra
a)    Útboð skólaakstur.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi útboð á    skólaakstri en núgildandi samningur er runninn út.  Gert er ráð fyrir að útboð fari fram fljótlega.
b)    Gangstéttir.  Sveitarstjóri fjallaði um stöðuna varðandi gangstéttir við Hraun.  Stefnt er að því að steypa þær sem fyrst.
c)    Salernismál.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir samkomulagi sem náðst hefur við Hótel Framtíð varðandi aðgengi ferðamanna að salernisaðstöðunni á tjaldstæðinu.
d)    Starfsmannamál.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu starfsmannamála í sumar
e)    Golfskálinn á Hamri.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum við stjórn Neista vegna vegna golfskálans á Hamri.  Sveitarstjóra falið að hefja undirbúning að flutningi hússins í Blánna í samráði við landeigendur á Hamri, stjórn Neista og formann skipulags og umhverfisnefndar.
f)    Styrkvegasjóður.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir úthlutun 1,5 millj. styrks til vegagerðar af liðnum Styrkvegir í vegaáætlun 2015.  Stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi á veginum um Búlandsdal.
g)    Sveitarstjóri gerði grein fyrir minnisblaði starfshóps um ljósleiðaravæðingu frá 8. júní 2015.
h)    Sveitarstjóri kynnti hugmyndir um birtingu gagna vegna sveitarstjórnarfunda á heimasíðu sveitarfélagsins.  Stefnt er að því að fylgiskjöl vegna einstakra mála verði aðgengileg samhliða því að ný heimasíða sveitarfélagsins verður kynnt sem verður fljótlega.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:30.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

15.06.2015

16. apríl 2015

Fundur settur í landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps 16. apríl 2015 kl. 20.00

Fundinn sátu, Gudný Gréta Eyþórsdóttir, Guðmundur Eiríksson og Guðmundur Valur Gunnarsson sem
ritaði fundargerð.

Tekinn fyrir upprekstur Torfa Sigurðssonar á land sveitarfélagsins á Tungu.

Málið rætt talsvert og nidurstaðan varð sú að nefndin samþykkir ad leyfa upprekstur til eins árs með þeim skilyrðum ad fénu verði sleppt á Tungunni og að viðkomandi sjái um fjallskil samkvæmt gangnaseðli,og samskipti vid land/ og fjáreigendur sem hlut eiga að máli verði í lagi. Enn fremur að vel verði staðið að eftirleitum eftir löggöngur og þvi verki verði lokið svo fljótt sem mögulegt er.
Ef ekki verður staðið vid þau skilyrði sem að framan greinir má reikna með að ekki verði um frekari samninga að ræda.

Fundi slitið kl. 21.

09.06.2015

12. maí 2015

Hafnarnefnd: Fundargerð 05.05.2015

Fundur var haldinn í hafnarnefnd Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, þriðjudaginn 5. maí 2015 kl. 14:00. Fundinn sátu Sigurjón Stefánsson formaður, Óskar Ragnarsson og Óðinn Gunnlaugsson. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitar- og hafnarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.


Dagskrá var eftirfarandi:

1. Uppsátur í Djúpavogshöfn
2. Framkvæmdir við flotbryggjur
3. Strandveiðar
4. Vigtarmenn
5. Vinnusvæði og umhverfi hafnar
6. Önnur mál


1. Uppsátur í Djúpavogshöfn
Nefndin sammála um að hefja undirbúningsvinnu að nýju uppsátri fyrir smábáta í Djúpavogshöfn. Það uppsátur sem nú er notað er óhentugt fyrir stærri báta og í ljósi framkvæmda við Faktorshús er aðgengi of þröngt.

2. Framkvæmdir við flotbryggjur
Fjármagn vegna framkvæmda við nýjar flotbryggjur frá ríkinu er tryggt fyrir sumarið 2015 og hefur Vegagerðin fyrir hönd Vesturbyggðar, Árneshrepps, Strandabyggðar og Djúpavogshrepps óskað eftir tilboðum í verkið.
Helstu verkþættir eru:
Útvegun og uppsetning á steinsteyptum flotbryggjum með landgangi, botnfestum og tilheyrandi búnaði fyrir fimm hafnir. Verkið er áfangaskipt og skal fyrri áfanga lokið 1. júlí 2015 og þeim síðari lokið eigi síðar en 1. september 2015. Útboðsgögn voru seld hjá Vegagerðinni Borgartúni 7 í Reykjavík frá og með þriðjudeginum 21. apríl 2015. Skila skal tilboðum á sama stað fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 12. maí 2015 og verða þau opnuð þar kl. 14:15 þann dag.

3. Strandveiðar
Útlit er fyrir að u.þ.b. 20 bátar muni stunda strandveiðar frá Djúpavogi sumarið 2015.

4. Vigtarmenn
Nefndin sammála um að nauðsynlegt sé að fjölga vigtarmönnum með réttindi á staðnum. Ingi Ragnarsson og Óðinn Gunnlaugsson munu fara á námskeið fljótlega til að afla sér tilskilinna réttinda.

5. Vinnusvæði og umhverfi hafnar
Hafnarnefnd sammála um að bæta þurfi aðgengi og aðstöðu við höfnina. Hafnarverði og formanni hafnarnefndar falið að gera tillögur að úrbótum.

6. Önnur mál

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 14:30

Gauti Jóhannesson, fundarritari

 

09.06.2015

6. maí 2015

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 06.05.2015

4. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og jafnréttisnefnd Djúpavogshrepps fimmtudaginn 6. Maí 2014 kl.16:15.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir, Elísabet Guðmundsdóttir og Óðinn Sævar Gunnlausson. Fundargerð ritaði Sóley. Einnig sátu fundinn fulltrúar starfsfólks Djúpavogsskóla og foreldra þær, Þorbjörg Sandholt, Guðrún Sigríður Sigurðardóttir og Ólöf Rún Stefánsdóttir.

Dagskrá:

1. Djúpavogsskóli
Skólastjóri Djúpavogsskóla Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir kom til okkar og fór yfir ýmislegt, t.d. dagatal komandi skólaárs, lengd skólaársins (170 eða 180 dagar). Rætt var um lokun leikskóla milli jóla og nýárs og dimbilviku. Engin nýting var milli jóla og nýárs, 3 voru skráðir en mættu ekki, það þarf að koma skýrt fram frá sveitarstjórn hvernig fyrirkomulagið á að vera og launakjör starfsmanna. Eðlilegt væri að miða við að lágmarksfjöldi barna væri 8 til að hafa leikskólann opinn.
Fram kom í máli Dóru að álag á starfsfólk er mikið og mikið um forföll. FTN vill að skoðað verði með álagsgreiðslur til starfsfólks sem er að taka á sig aukna vinnu.
Fram kom í máli Dóru að aukafjárveitingu þarf til skólans vegna nýs vinnumats grunnskólakennara.

2. Tillögur um framtíðarskipulag skólahalds á Djúpavogi frá Skólastofunni - Ingvari Sigurgeirssyni
Farið yfir tillögurnar og þær ræddar.
Fræðslunefnd sammála um að mæla með því við sveitarstjórn að unnið verði áfram með tillögur Skólastofunnar í skólasamfélaginu. Dóra lagði fram grunn að verkáætlun vegna breytinga sem þyrti að fara í við grunnskólann, mælt er með því að það plagg verði unnið áfram með starfsfólki Djúpavogsskóla. Einnig var rætt um að skoða það hvor hvort hægt væri að bíða með að færa 5 ára börnin í grunnskólann eftir 1 ár en undirbúningur hefjist strax. Mælt er með þvi að auglýst verði eftir Leikskólastjóra í opinberum miðlum.
FTN vill að farið verði í það strax að hanna og ákveða með viðbyggingu við grunnskólann og telur að aðstaðan í grunnskólanum sé óástættanleg. Setja þarf fjármagn í endurbætur og endurnýjun á húsgögnum og fl.
Ákveðið að funda aftur með Dóru fyrir lok maí þar sem mótaðari hugmyndir verða lagðar fram.

3. Fundargerð frá fundir FTN og sveitarstjórn með starfsfólki leikskólans.
Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.20:15
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

09.06.2015