Djúpavogshreppur
A A

Fundargerðir

7. september 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 09.07.2015

15. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps mánudaginn 7. september 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Rán Freysdóttir, Þorbjörg Sandholt og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.
Andrés stjórnaði fundi.

Oddviti óskaði eftir að mál 2k, 3l og 3m yrðu tekið fyrir á fundinum þó þau væru ekki á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:


1. Drög að ályktunum fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

Björg Björnsdóttir, verkefnisstjóri sveitarstjórnarmál fylgdi úr hlaði drögum að ályktunum fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2.- og 3. október og fór yfir fyrirkomulag fundarins.

2. Fundargerðir

a) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 28. maí 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. júlí 2015. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 8. júlí 2015. Lögð fram til kynningar.
d) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 20. júlí 2015. Lögð fram til kynningar.
e) Landbúnaðarnefnd, dags. 20. ágúst 2015. Staðfest.
f) Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags 21. ágúst 2015. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 23.24. ágúst 2015. Lögð fram til kynningar.
h) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 24. ágúst 2015. Lögð fram til kynningar.
i) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 26. ágúst 2015. Lögð fram til kynningar.
j) Atvinnumálanefnd, dags. 4. september 2015. Lögð fram til kynningar.
k) Fundargerð hafnarnefndar, dags. 7. september 2015. Staðfest.

3. Erindi og bréf

a) Sóknarnefnd Djúpavogskirkju, ódags. Styrkbeiðni vegna kaupa á nýju orgeli fyrir Djúpavogskirkju. Samþykkt samhljóða að styrkja verkefnið um 400.000 kr.
b) Vegagerðin, Breyting á aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020: Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn – veglína Z, dags. 20. júlí 2015. Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.
c) Skipulagsstofnun, Berufjarðarbotn, breytt lega hringvegar, dags. 23. júlí 2015. Skipulagsstofnun gerir hvorki athugasemdir við lýsingu á skipulagsverkefninu né áherslur í umhverfismatinu.
d) Minjastofnun Íslands, Lýsing á breytingu aðalskipulags Djúpavogshrepps – veglína Z, dags. 28. júlí 2015. Minjastofnun gerir ekki frekari athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi en þegar hafa komið fram frá stofnuninni.
e) Umhverfisstofnun, Lýsing. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020. Breytt lega hringvegar um Berufjarðarbotn, dags. 10. ágúst 2015. Að mati Umhverfisstofnunnar er mikilvægt að fjallað verði um álit Skipulagsstofnunar frá 2011. Sömuleiðis verði fjallað um hvaða efnistökusvæði er áætlað að nýta og að brúarop verði nægilega stórt svo vatnsskipti verði næg fyrir lífríki innan brúar.
f) Mennta- og menningarmálaráðuneytið, framkvæmd laga um leikskóla nr. 90/2008, dags. 14. ágúst 2015. Lagt fram til kynningar.
g) Mennta- og menningarmálaráðuneytið, innleiðing laga um um grunnskóla nr. 91/2008, dags. 15. ágúst 2015. Lagt fram til kynningar.
h) UÍA, styrkbeiðni vegna ungmennaverkefnis í Ungverjalandi, dags. 19. ágúst 2015. Samþykkt að veita 25.000 kr. styrk.
i) Benedikt V Warén, styrkbeiðni vegna Flugsögu Austurlands, dags. 22. ágúst 2015. Styrkbeiðni hafnað.
j) UÍA, Hreyfivikan, dags. 28. ágúst 2015. Lagt fram til kynningar.
k) Velferðarráðuneytið, Móttaka flóttafólks og sveitarfélög, dags. 1. september 2015. Í erindinu kemur fram “Við val á sveitarfélagi, sbr. 1. mgr., skal taka mið af aðstæðum öllum, þar með talið félagsþjónustu,heilbrigðisþjónustu, atvinnuástandi, menntunarmöguleikum, möguleikum á húsnæði og öðru sem eftir atvikum skiptir máli hverju sinni.Samningar við sveitarfélög skulu taka til þjónustu og náms sem ætla má að flóttafólkið þarfnist og eru á hendi sveitarfélaga, svo sem útvegun húsnæðis, leikskóla, grunnskóla, félagsráðgjafar, fjárhagsaðstoðar og aðstoðar við atvinnuleit. Enn fremur skal flóttafólki tryggð heilbrigðisþjónusta, sbr. 22. og 23. gr., íslenskukennsla og samfélagsfræðsla, sbr. 17. og 19. gr. Sveitarstjóra falið að leita upplýsinga um hvernig sambærileg sveitarfélög á starfssvæðinu hyggjast fara yfir þessi mál með tilliti til þeirra skilmála sem settir eru.
l) Steinþór Björnsson, stofnun lóðar „Stekkur“ undir frístundahús á Hvannabrekku, dags. 15. júlí 2015. Samþykkt.
m) Kristín Hanna Hauksdóttir f.h. óstofnaðs einkahlutafélags, stofnun lóðar undir sumarhúsabyggð, dags. 1. september 2015. Samþykkt.

4. Þjóðarsáttmáli um læsi

Sveitarstjóri kynnti Þjóðarsáttmála um læsi sem hann undirritaði ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúa Heimilis og skóla 25. ágúst 2015.

5. Lögreglusamþykkt

Sveitarstjóri kynnti lög um lögreglusamþykktir og reglugerð um lögreglusamþykktir.
Sveitarstjórn sammála um að fresta ákvörðun um hvort setja beri sérstaka lögreglusamþykkt fyrir Djúpavogshrepp.

6. Viðmiðunarreglur kirkjugarðaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga um kirkjugarðsstæði og fleira.

Farið var yfir reglurnar. Sveitarstjórn sammála um að standa myndarlega að endurbótum á kirkjugarðinum í samræmi við þær og að gera ráð fyrir þeim framkvæmdum við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

7. Átak í meðferð heimilisofbeldismála

Sveitarstjóri gerði grein fyrir hugmyndum um átak í meðferð heimilisofbeldismála en honum var falið að kynna sér málið á fundi sveitarstjórnar 9. júlí 2015. Sveitarstjórn sammála um að fela sveitarstjóra að hafa samráð um frekari aðgerðir í málinu við aðra sveitarstjóra í sameiginlegri félagsmálanefnd.

8. Hraðahindrun

Sveitarstjóri kynnti framkvæmd við hraðahindrun við aðkomu í bæinn sem til stendur að koma fyrir mjög fljótlega. Sveitarfélagið hefur um langt skeið þrýst á úrbætur í þessum efnum og fagnar að lending sé komin í málið í samvinnu við Vegagerðina.

9. Gjaldskrá heimaþjónustu

Sveitarstjóri kynnti nýja gjaldskrá heimaþjónustu sem var samþykkt samhljóða.

10. Skýrsla sveitarstjóra

a) Ljósnet. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við ljósnet í byggðarlaginu. Að framkvæmdum loknum munu öll íbúahverfi á Djúpavogi hafa aðgang að ljósneti sem er mikilvægt skref í bættri þjónustu við íbúa.
b) Tryggvabúð. Sveitarstjóri gerði grein fyrir lagfæringum og endurbótum á Tryggvabúð sem hefur fengið mikla andlitslyftingu. Sveitarstjórn sammála um að gengið verði frá lóð og bílastæði næsta sumar og tekið verði tillit til þess við gerð fjárhagsáætlunar.

c) Skólamál. Sveitarstjóri gerði grein fyrir breytingum á starfsmannahaldi við grunn- og leikskólann, jafnframt breytingum innanhúss í grunnskólanum.

d) Flotbryggjur. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við flotbryggjur.
Gert er ráð fyrir að nýjar ytri flotbryggjur verði settar niður um miðjan september.
Að því loknu verði hafist handa við að rífa gömlu bryggjuna og nýjar innri bryggjur verði settar niður að því loknu.

e) Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi. Sveitarstjóri gerði grein fyrir ráðningu í starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa en William Óðinn Lefever og Gréta Mjöll Samúelsdóttir munu deila starfinu. Sveitarstjórn býður þau velkomin til starfa.

f) Gangstéttir við Hraun. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við gangstéttir við Hraun. Stefnt er að því að verkinu ljúki á næstu dögum.

g) Faktorshús. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum við Faktorshús. Stefnt er að því að vinnu við grjóthleðslu ljúki innan tíðar.

h) Teigarhorn. Sveitarstjóri gerði grein fyrir framkvæmdum á Teigarhorni. Miklar endurbætur hafa verið gerðar innanhúss og stefnt er að því að viðgerðir utanhúss hefjist fljótlega.

i) Viðgerðir á götum. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum viðgerðum á götum innanbæjar í næstu viku.

 

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:30.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

08.09.2015

28. ágúst 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 28.08.2015

5. aukafundur 2014 – 2018

Aukafundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps föstudaginn 28. ágúst 2015 kl. 10:00. Fundarstaður: Geysir.
Mætt voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt ásamt Gauta Jóhannessyni sveitarstjóra sem ritaði fundargerð. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Beiðni um breytingu á reglum um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir að óska eftir við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að þeim útgerðum á Djúpavogi sem var úthlutað byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2014/2015 verði heimilað að víkja frá því skilyrði að að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta fyrir 1. september 2015. Ástæða beiðninnar er að byggðakvóti Djúpavogshrepps kom til úthlutunar þegar yfirstandandi kvótaár var rúmlega hálfnað sem torveldaði að mögulegt væri að tvöfalda byggðakvótaúthlutun til vinnslu á tilskildum tíma. Í ljósi þess áfalls sem útgerð og fiskvinnsla á Djúpavogi varð fyrir í fyrra þegar Vísir hf. tilkynnti um áform sín um að hætta starfsemi á staðnum, sem svo varð um áramót og þeirrar stöðu sem komin er upp hjá fiskeldi á staðnum sem að stórum hluta hefur selt afurðir sínar til Rússlands er afar brýnt að þær aflaheimildir sem þó eru eftir á staðnum nýtist á næstu vikum og mánuðum.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 10:15.

Fundarerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Gauti Jóhannesson, fundarritari.

 

08.09.2015

14. júlí 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.07.2015

4. aukafundur 2014 – 2018

Aukafundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjudaginn 14. júlí 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.
Mætt voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir sem einnig ritaði fundargerð, Rán Freysdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða lýsingu á breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt lega Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglína Z. Lýsingin var kynnt fyrir skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps þann 24. júní sl. og á borgarafundi á Djúpavogi 25. júní sl. Ábendingarfrestur var veittur frá 1. júlí til 10. júlí 2015 og bárust engar ábendingar.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda lýsingu á breytingu á aðalskipulagi dags. 25. júní 2015 ásamt viðbótum dags. 14. júlí 2015 til umsagnar eftirfarandi stofnana: Skipulagsstofnunar, Minjastofnunar, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Óskað er eftir að athugasemdum ofangreindra stofnana ef einhverjar eru fyrir 12. ágúst 2015.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 15:30.

Fundarerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

15.07.2015

24. júní 2015

Fundargerð 24. júní 2015

7. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd 24.06. 2015
kl. 17:30. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Páll Líndal fulltrúi Teiknistofu GJ.

Dagskrá

1. Íbúafundur um skipulagsmál.
Form. SFU gerði grein fyrir íbúafundi sem haldinn verður í Djúpinu á morgun fimmtudag 25. júní sem þegar hefur verið auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins sem og með sérstöku dreifibréfi á öll heimili í sveitarfélaginu.

a. Lýsing á breytingu á skipulagi við botn Berufjarðar.
Undir þessum lið gerði Páll Líndal nefndinni grein fyrir hvernig að kynningu yrði staðið. Jafnhliða kynnti form. tillögu vegagerðarinnar á þeirri veglínu sem fallist hefur verið á að fara þ.e. veglínu merkt Z í matsáætlun sem er veglína sem að allir landeigendur og sveitarstjórn hafa mælt með að farið verði. Veglína sú sem lögð var fram á fundinum barst form. frá starfstöð vegagerðar á Reyðarfirði 22.06.2015 og lítur nefndin svo á að veglínan sé í fullu samræmi við veglínu Z sem er ysta mögulega veglína sem að veghönnuðir vegagerðarinnar treysta sér til að leggja fram og gerir SFU engar athugasemdir við fyrirliggjandi veglinu.

b. Miðbæjarskipulag Djúpavogs
Páll Líndal gerði nefndinni grein fyrir hvernig að kynningu yrði staðið sem er í fullu samræmi við það sem nefndinni hafði áður verið kynnt nema hvað lagt er til að bæta inn fleiri svæðum til umræðu við deiliskipulagið.

2. Veglínur við Teigarhorn – tillögur frá vegagerðinni
Form. lagði fram nýjar tillögur frá vegagerðinni um tillögur að veglínum á þjóðvegi ofan við bæinn á Teigarhorni. Tillögur þessar eru gerðar í kjölfar rannsókna á svæðinu vegna deiliskipulags þar sem komið hefur í ljós að blindhæðir og beygjur á núverandi þjóðvegi eru óásættanlegar með tilliti til umferðar almennt og aðkeyrslu að bæjartorfunni á Teigarhorni. Auk þess er það mat vegagerðarinnar að núverandi vegstæði sé óásættanlegt með tilliti til umferðaröryggis. Heimreið að bænum Kápugili er sömuleiðis á blindhæð á sama svæði. Nefndin mælir með tillögu vegagerðar að veglínu 1u6-003 með lítilsháttar breytingum með það fyrir augum að lágmarka rask á hraunklettum ofan við Eyfreyjunesvík. Samþykkt að fela form.að koma erindinu á framfæri við vegagerðina.

3. Erindi frá Olíudreifingu 16.júní. 2015 með tölvupósti.
Erindi undirritað af Gesti Guðjónssyni lagt fyrir þar sem fram kemur að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóð félagsins á Djúpavogi. Bréfritari kallar eftir hvenær vænta megi að deiliskipulag verði unnið fyrir svæðið. Núverandi starfsleyfi Olíudreifingar rennur úr gildi 31.01.2018. SFU er sammála því að vísa erindinu til nánari vinnu við deiliskipulag á miðbæjarsvæði Djúpavogs sem vinna er þegar hafinn við, með þeim hætti verði tryggt að vinnu við deiliskipulag á viðkomandi svæði verði lokið fyrir tilskilinn tíma.

4. Fundur með FLH.
Form.stjórnar FLH (félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum) hefur lagt til að fyrirliggjandi fundur með SFU verði þann 30. júní næstk. Nánari tímasetning þann 30. júní verður send á alla fulltrúa SFU með fyrirvara.

Fundi slitið kl: 20.00 

10.07.2015

9. júlí 2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 09.07.2015

14. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 9. júlí 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Sóley Dögg Birgisdóttir, Rán Freysdóttir, Þorbjörg Sandholt og Kári Snær Valtingojer. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.
Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:


1. Fjárhagsleg málefni

a) Kaup á fasteigninni Hammersminni 2b
Kári vék af fundi. Á síðasta fundi sveitarstjórnar 11. júní 2015 var sveitarstjóra falið að ganga til samninga við Rafstöð Djúpavogs ehf varðandi kaup á fasteigninni Hammersminni 2b.
Fasteignamat er kr. 1.569.000, brunabótamat kr. 3.980.000 og verðmat fasteignasölunnar Inni dags. 9. mars 2015 er 2.500.000 - 3.000.000.
Sveitarstjóri kynnti að samkomulag hefði náðst um kaupverð kr. 2.000.000 miðað við afhendingu 1. september. Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga frá kaupsamningi. Stefnt er að því að rífa eignina enda er í aðalskipulagi ekki gert ráð fyrir athafna- eða iðnaðarstarfsemi á þessu svæði til framtíðar.

b) Viðauki við fjárhagsáætlun 2015 – Kaup á fasteigninni Hammersminni 2b
Fjárfest verður í fasteigninni að Hammersminni 2b sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2015. Áhrif: Fjárfestingaráætlun 2015 hækkar um 2.000.000 og kemur til lækkunar á handbæru fé.

Heildaráhrif viðauka
Samþykkt viðauka hefur í för með sér nettó hækkun fjárheimilda til fjárfestinga að fjárhæð 2.000.000 kr. sem mætt verður með nýtingu á því handbæra fé sem sveitarfélagið hefur til umráða. Breytingar afskrifta, verðbóta og annarra afleiddra liða sem tengjast ofangreindum breytingum færast á afkomu ársins. Viðauki við fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir árið 2015 er gerður í samræmi við 2. mgr., 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kári kemur aftur til fundar.

2. Fundargerðir

a) Stjórn Brunavarna á Austurlandi, dags 15. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
b) Almannavarnanefnd Múlaþings, dags 15. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 23. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
d) Skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefnd, dags. 24. júní 2015. Lögð fram til kynningar
e) Félagsmálanefnd, dags. 25. júní 2015. Lögð fram til kynningar.
f) Hafnarnefnd, dags. 30. júní. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Eðvald Smári Ragnarsson og Hólmfríður Haukdal, ósk um rétt til að kaupa Hammersminni 2b, dags. 11. júní 2015. Sveitarstjóri brást við erindinu 23. júní þar sem bréfriturum var bent á að það er ákvörðun eigenda Rafstöðvar Djúpavogs ehf að selja Djúpavogshreppi umrædda eign.
b) Lárus Einarsson, kaup á stáltönkum við bræðsluhúsið í Gleiðuvík, dags. 21. júní 2015. Sveitarstjórn sammála um að selja ekki tankana að svo stöddu.
c) Þjóðskrá Íslands, Fasteignamat 2016, dags. 24. júní. Lagt fram til kynningar.
d) Byggðastofnun, umsókn um þátttöku í verkefninu „Brothættar byggðir“, dags. 26. júní. Í bréfinu segir: „ Ekki er unnt að gefa loforð um að hægt verði að taka fleiri byggðarlög inn í verkefnið að svo stöddu. Framhaldið verður metið þegar líður á árið 2016 og fer þá eftir því hvort viðbótarfjármagn verður tryggt til verkefnisins svo hægt verði að taka inn fleiri byggðarlög.“
Sveitarstjórn furðar sig á ótrúlegum seinagangi stofnunarinnar við að svara erindinu en formleg umsókn var send Byggðastofnun í nóvember 2014. Í ljósi þess áfalls sem Djúpavogshreppur varð fyrir þegar Vísir hf hætti fiskvinnslu á staðnum á síðasta ári og flutti 90% af aflaheimildum byggðarlagsins með sér til Grindavíkur með tilheyrandi fólksflutningum er það ámælisvert að stofnunin telji sig ekki hafa átt þess kost að svara umsókn Djúpavogshrepps fyrr en nú. Samkvæmt 2. grein laga um Byggðastofnun segir að stofnunin skuli „vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.“ Það að stofnunin skuli hafa þurft 8 mánuði til að afgreiða málið með neikvæðri niðurstöðu og ekki sýnt minnsta frumkvæði á tímabilinu að því að koma byggðarlaginu til aðstoðar hlýtur að teljast með öllu óforsvaranlegt. Byggðastofnun sjálf hefur því aðeins afrekað það með framkomu sinni að tefja framgang ákveðina mála sem sveitarfélagið hugðist horfa til og þar með veikt stöðu þess með sinnuleysi sínu þvert á yfirlýstan tilgang stofnunarinnar.
Sveitarstjóra falið að koma óánægju sveitarstjórnar á framfæri.
e) Verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála, tilnefningar til Menningarverðlauna SSA, dags. 26. júní 2015. Lagt fram til kynningar.
f) Félagsmálanefnd, Átak í meðferð heimilisofbeldismála, dags. 29. júní. Sveitarstjóra falið að kynna sér málið frekar.

4. Kjör fulltrúa sveitarfélagsins

Til eins árs

Tveir aðalmenn og tveir til vara á aðalfund SSA
Andrés Skúlason Sóley Dögg Birgisdóttir
Rán Freysdóttir Kári Snær Valtingojer
Einn fulltrúi og annar til vara á aðalfund Skólaskrifstofu Austurlands
Gauti Jóhannesson Helga R Guðjónsdóttir

Einn fulltrúi og annar til vara á aðalfund Heilbrigðiseftirlits Austurlands
Þorbjörg Sandholt Birgir Th Ágústsson

5. Lögreglusamþykkt

Sveitarstjóri kynnti lögreglusamþykktir nokkurra sveitarfélaga. Sveitarstjórn sammála um nauðsyn þess að gengið verði frá lögreglusamþykkt í sveitarfélaginu fyrir sumarið 2016. Sveitarstjóra falið að koma með drög til kynningar á næsta fund sveitarstjórnar.

6. Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019

Endanleg Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019 lögð fram til kynningar.

7. Aðalfundur SSA 2.-3. október á Djúpavogi

Drög að dagskrá aðalfundar SSA 2.-3. október á Djúpavogi lögð fram til kynningar. Þess er farið á leit við sveitarstjórn að hún komi með tillögur um málefni sem taka ætti til umræðu og afgreiðslu í nefndum aðalfundar SSA fyrir 20. ágúst. Sveitarstjóra falið að koma tillögum sveitarstjórnar á framfæri innan tilskilins frests.

8. Búlandsdalur – Hreindýraveiði

Fulltrúar Djúpavogshrepps hafa að gefnu tilefni á undanförnum mánuðum og vikum átt í viðræðum og fundum við stjórn FLH (stjórn félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum) ásamt fulltrúa Umhverfisstofnunar á Austurlandi sem hefur málaflokk hreindýraveiða á sinni könnu. Ástæða funda þessara varðar m.a. alvarlegar umkvartanir og ábendingar sem fulltrúum sveitarfélagsins hafa borist vegna slæmrar umgengni vegna notkunar á ökutækjum inn á Búlandsdal sem rekja má að mestu leyti til hreindýraveiða og mögulegra annarra aðila að einhverju leyti. Stjórn FLH hefur sýnt málefni þessu fullan skilning og átelur slíka umgengni og háttsemi mjög m.a. í Búlandsdal, þessa sé þó víðar að gæta. Í ljósi þeirra náttúruspjalla sem þegar hafa verið unnin á landi og vegna endurtekinna kvartana, þá samþykkir sveitarstjórn að allur akstur vélknúinna ökutækja,einnig vegna hreindýraveiða verði bannaður innan við göngubrú sem liggur yfir Búlandsá og uppbyggður vegur liggur að. Þá er áréttað að umferð ökutækja um fólkvanginn á Teigarhorni utan þegar lagðra vega er með öllu óheimil nema umsjónaraðilum á afmörkuðum svæðum. sbr. reglugerð. Síðast en ekki síst er sveitarstjórn sammála um að ekki sé hægt að réttlæta umferð ökutækja á umræddu svæði þar sem að nokkuð stórum hluta er um vatnsverndarsvæði sveitarfélagsins að ræða sem liggur beggja vegna Búlandsár á dalnum.Bann þetta skal taka gildi frá og með 15 júlí næstkomandi og er sveitarstjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar á framfæri með skilmerkilegum hætti og senda stjórn FLH og UST afgreiðslu málsins. Að sama skapi vill sveitarstjórn óska ábendinga frá FLH um hvar megi bæta úr þegar mörkuðum vegslóðum á öðrum svæðum til að auðvelda veiðimönnum aðgengi að veiðslóð. Samþykkt samhljóða.

9. Sumarleyfi sveitarstjórnar 2015

Sumarleyfi ákveðið frá 15. júlí til 30. ágúst. Þó verður boðað til aukafunda ef þörf krefur á tímabilinu.

10. Skýrsla sveitarstjóra

a) Rúllandi snjóbolti. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning sýningarinnar Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur sem opnar í Bræðslunni 11. júlí.
b) Fundarferð verkefnisstjóra sveitarstjórnarmála. Sveitarstjóri kynnti fyrirhugaða fundarferð verkefnisstjóra sveitarstjórnarmála 7.-18. september. Tilgangur heimsóknanna er að fylgja úr hlaði drögum að ályktunum fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2.- og 3. október, fara yfir fyrirkomulag fundarins auk annarra mála er sveitarstjórnarmenn kunna að vilja ræða. Sveitarstjóra falið að finna hentugan fundartíma.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum heimsóknum umhverfisráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra á næstu dögum og vikum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 17:00.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

10.07.2015

1. júní 2015

Fundur í ferða- og menningarmálanefnd

Fundargerð 1. júní 2015

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd mánudaginn 1. júní kl. 14:00 að Bakka 1, Djúpavogi. Fundinn sátu Erla Dóra Vogler, Rán Freysdóttir og Þorbjörg Sandholt.

Tvö mál voru á dagskrá.

Liður 1
Farið var yfir kort af Djúpavogshreppi og merktir inn þeir staðir þar sem þarf að setja niður skilti fyrir sumarið.

Liður 2
Farið yfir nýja bæklinginn áður en að hann fer í prentun.


Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 15:00 Ritari: Þorbjörg Sandholt

23.06.2015

18. maí 2015

Fundur í ferða- og menningarmálanefnd

Fundargerð 18. maí 2015

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd mánudaginn 18. maí kl. 14:00 að Bakka 1, Djúpavogi. Fundinn sátu Berglind Häsler, Erla Dóra Vogler, Rán Freysdóttir og Þorbjörg Sandholt.

Liður 1
Erla Dóra fer yfir skipulag í sambandi við skemmtiferðaskipin. Búið að ráða starfsmann með Erlu Dóru á upplýsingamiðstöðina í sumar. Fyrsta skipið er væntanlegt 27. maí. Nefndin sammála um að halda fund í lok sumars og fara vel yfir málin, hvað má gera betur.

Liður 2
Erla Dóra gerði grein fyrir því að Rúllandi snjóbolti fékk eina milljón í styrk frá Uppbyggingasjóð austurlands. Erla Dóra tekur við styrknum fyrir hönd sveitarfélagsins.
Rætt um að stór tankur við Bræðsluna verði notaður fyrir verk á Rúllandi snjóbolta/6. Ákveðið að skoða þetta frekar í samráði við listamanninn.

Liður 3
Hrafnkell Sigurðsson hefur sýnt áhuga á að halda einkasýningu á verkum sínum á meðan hann dvelur á Djúpavogi, í listamannadvöl í tengslum við Rúllandi snjóbolta/6. Ákveðið að skoða mögueika á húsnæði fyrir sýninguna.

Liður 4
Bannað að tjalda/gista í húsbílum nema á merktum tjaldstæðum í sveitarfélaginu. Mikið er um það að bílum sé lagt yfir nótt víðsvegar um þorpið. Úti á söndum, inn við kirkju, við eggin og víðar. Skoðað var hvernig önnur bæjarfélög hafa komið að þessu máli og hvernig best sé fyrir Djúpavogshrepp að finna lausn á þessu í samráði við sveitarstjórn og lögreglu.
Það eru til hjá Djúpavogshreppi “bannað að tjalda” skilti sem þarf að koma niður sem fyrst á ákveðnum svæðum.
Rætt um að merkingar allar þurfi að vera betri og leiða ókunnuga betur í gegnum bæinn okkar .

Liður 5
Nefndin leggur til að hafa hreinsunardaga í byrjun júní þar sem einstaklingar og fyrirtæki eru hvattir til að taka til í kring um sig, upplagt að grilla saman í lokin. Lagt er til að FM og Umhverfisnefnd vinni saman að þessum dögum.

Liður 6
Ákveðið að ganga í Samtök söguferðaþjónustu (SSF) og leggja áherslu á að kynna sögu Djúpavogshrepps fyrir ferðamönnum.

Liður 7
Farið yfir umsóknir um listamannadvöl á Djúpavogi í haust. Erlu Dóru falið að skoða málið betur.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 16:00 Ritari: Þorbjörg Sandholt.

23.06.2015

22. maí 2015

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 22.05.2015

6. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og tómstundanefnd Djúpavogshrepps föstudaginn 22. maí 2015 kl.16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir og Berta Björg Sæmundsdóttir. Fundargerð ritaði Sóley. Einnig sátu fundinn fulltrúar starfsfólks Djúpavogsskóla: Þorbjörg Sandholt og Guðrún Sigríður Sigurðardóttir.

Dagskrá:

1. Skólastefna Djúpavogshrepps
Fórum yfir Skólastefnuna og kláruðum að afgreiða athugasemdir nefndarmanna

2. Djúpavogsskóli
Skólastjóri, Halldóra Dröfn kom og við fórum yfir breytingar á skólastefnunni með Dóru og ræddum. Þá lagði Dóra fyrir nefndina skóladagatal næsta skólaárs sem er 180 dagar. Dóra fór einnig yfir verkáætlun sem hún hefur unnið vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi í skólanum næsta skólaár og almenns viðhalds. Lagt er til við sveitarstjórn að þessari verkáætlun verði fylgt eftir. Dóra vék af fundi.
Eftir umræður um dagatalið var það lagt fram til samþykktar með þeim fyrirvara að unnið verið að því koma inná dagatalið sameiginlegum starfsdegi þar sem unnið er að sameiginlegri sýn og stefnu skólana. Dagatalið var því næst samþykkt samhljóð

3. Skólastefnan
Umræður um skólastefnuna kláraðar og lokabreytingar gerðar. Þá var stefnan lögð fram til samþykktar og samþykkt samhljóða.

4. Skólaakstur
Sóley og Guðrún kynntu fyrir nefndinni það sem þær voru búnar að kynna sér um lög um skólaakstur og reglur ýmissa sveitarfélaga varðandi skólaakstur. Nefndin sammála um að nauðsynlegt væri að sveitarfélagið setti sér reglur í þessum efnum. Sóley og Guðrún taka að sér að vinna tillögu að reglum og leggja fyrir nefndina sem fyrst.

5. Önnur mál
Guðrún lagði fram 2 mál frá starfsfólki. Þau voru rædd og unnið verður að úrlausnum.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.19.00
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

23.06.2015

11. maí 2015

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 11.05.2015

5. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og tómstundanefnd Djúpavogshrepps fimmtudaginn 11. maí 2014 kl.16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir og Óðinn Sævar Gunnlaugsson. Fundargerð ritaði Sóley. Einnig sat fundinn fulltrúi starfsfólks Djúpavogsskóla: Þorbjörg Sandholt.

Dagskrá:

1. Skólastefna Djúpavogshrepps
Fundurinn var vinnufundur þar sem unnið var við endurskoðun Skólastefnu Djúpavogshrepps.
Fundarmenn voru búnir að kynna sér leiðbeiningar frá sambandinu varðandi gerð skólastefna, Hvítbók ráðherra og nýjar aðalnámsskrá ásamt því að lesa skólastefnur ýmissa sveitarfélaga.
Ýmsar lagfæringar voru gerðar á núverandi stefnu og stefnt að því að samþykkja endurskoðað Skólastefnu fyrir sveitarfélagið á næsta fundi nefndarinnar fyrir lok maí.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.18:45
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

23.06.2015