Djúpivogur
A A

Fundargerðir

3. febrúar 2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundargerð  03. 02. 2010

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 3. feb. 2010 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Sigurður Ágúst Jónsson, Guðmundur Valur Gunnarsson, Andrés Skúlason, Albert Jensson og  Klara Bjarnadóttir. Einnig sat fundinn Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri. Andrés stjórnaði fundi.


Í upphafi óskaði oddviti eftir að tekin yrðu á dagskrá tvö mál sem ekki voru í fundarboði. Annars vegar er um að ræða fundargerð hafnarnefndar frá 3. febrúar 2010 en hún hafði verið send sveitarstjórn í tölvupósti þegar hún lá fyrir. Hins vegar er um að ræða dagskrárlið, lífeyrismál sveitarstjóra sem yrði þá númer 5 c. Tillaga þar um borin upp og samþ. samhljóða.

Dagskrá:
1.    Fjárhagsáætlun 2010; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a)    Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
Svohljóðandi tillaga borin upp og samþykkt samhljóða: „Heimild til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 29.000.000 kr.  til 14 ára í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að fjármagna eldri framkvæmdir við gatnagerð og fleira sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Birni Hafþór Guðmundssyni, kt. 160147-3859, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Djúpavogshrepps að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari“.
b)    Þriggja ára áætlun 2011 – 2013. Fyrri umræða. Sveitarstjóri kynnti fyrirliggjandi drög. Að lokinni umfjöllun um áætlunina var samþykkt samhljóða að vísa henni til síðari umræðu.
c)    Breytingar á gjaldskrá v/ heimaþjónustu skv. ákv. félagsmálanefndar. Tillaga hafði verið send út með fundarboði. Hún borin upp og samþykkt samhljóða. Sveitarstjóra falið að tilkynna breytinguna fyrir þjónustuþegum og jafnframt á heimasíðu sveitarfélagsins.
d)    Upplýsingar v/ Faktorshússins; Uppbygging 2010. Önnur framkvæmdaáform:
Fyrir liggur áætlun um nauðsynlegan áfanga við verkið sem æskilegt er að vinna á þessu ári (ljúka við að klæða og verja húsið að utan). Framkvæmdakostnaður er hærri en gert var ráð fyrir í framkvæmdaáætlun ársins. Samþykkt að vísa málinu til endurskoðunar á framkvæmdaáætlun 2010 sem fara á fram eigi síðar en í mars n.k.
Undir þessum þessum lið mætti Guðlaugur Birgisson, fulltrúi Slökkviliðs Djúpavogs v/ áforma um að fyrrum húsnæði Áhaldahúss sveitarfélagsins að Búlandi 3 verði ráðstafað undir starfsemi Slökkviliðsins, sem þar er einnig til húsa. Guðlaugur fór yfir starfsemi slökkviliðsins og þarfir þess, m.a. kom fram að mjög þröngt er orðið um tækjakost, sem hefur vaxið stórum hjá slökkviliðinu á liðnum árum. (Hér vék Guðlaugur af fundi) Sveitarstjórn samþykkir að ráðstafa húsinu í framangreindu skyni til handa slökkviliðinu.
e)    Nordic Factory ehf. Sveitarstjóri gerði grein fyrir því að unnið væri að lokafrágangi gagna vegna kaupa Djúpavogshrepps á fyrirtækinu, en um það hafði orðið samkomulag milli hinna tveggja eiganda þegar fyrir lá að tekizt hefði að selja tæki og búnað árið 2008.


2.    Erindi og bréf.

a)    KPMG, fjárhagslegar upplýsingar vegna „tengdra aðila“. Ódagsett. Sveitarstjóri minnti á að lögð hefði verið fram gögn frá KPMG þar sem sveitarstjórnarmönnum væri ætlað að tilkynna hvort og þá hvernig þeir féllu undir hugtakið „tengdir aðilar“ sem sveitarstjórnarmenn.
b)    Jafnréttisstofa dags. 12. jan. 2010. (Sjá lið 6 a).
c)    Sigurrós Rósa Guðmundsdóttir, dags. 24. jan. 2010. Varðar gjaldtöku fyrir geymslu báts í eigu bréfritara. Sveitarstjóra falið að afgreiða erindið með hliðsjón af aðstæðum og málsatvikum.
d)    UST, veiðistjórnunarsvið, dags. 5. jan. 2010 og drög að samn. v/ minkaveiða. Í bréfi UST kemur fram að stjórnvöld hafi fallið frá fyrri ákvörðunum um að hætta að greiða sveitarfélögum framlag vegna veiða á ref. Einnig voru undir þessum lið lögð fram drög að samningi um minkaveiðar í Djúpavogshreppi, en í framhaldi af tillögu landbúnaðarnefndar fyrir skömmu var ákveðið að segja upp þágildandi samningum og auglýsa eftir verktökum að nýju.
e)    Náttúrustofa Vesturlands, dags. 10. des. 2009. Varðar hugmyndir um að umhverfisvotta Íslands með því að votta alla starfsemi sveitarfélaga landsins eins og þegar hefur verið gert á Snæfellsnesi. Samþykkt að vísa erindinu til SBU.
f)    U Í A. Ódagsett. Varðar fyrirspurn við stuðning sveitarfélaga við íþróttafélög. Óskað er eftir svörum við eftirtöldum spurningum:
I)    Hversu miklum styrkjum veitti sveitarfélagið til íþróttafélaga árin 2008, 2009 og í fjárhagsáætlun fyrir 2010. Vinsamlegast sundurliðið svarið eftir félögum.
II)    Hve stór hluti styrkjanna var í formi óbeinna framlaga s.s. afnota af íþróttamannvirkjum. Vinsamlegast tilgreinið einingaverð, tíma í mannvirkjum ef við á.
III)    Eru styrkir til íþróttafélaga háðir einhverjum sérstökum skilyrðum af hálfu sveitarfélagsin um ráðstöfun fjárins.
IV)    Hefur sveitarfélagið sett sér íþrótta og/eða forvarnastefnu.
Sveitarstjóra falið að svara erindinu.
g)    Bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupst. 25. jan. 2010  v/ Héraðsskjalasafns Austurlands. Fram kemur að bæjarráð Seyðisfjarðar hefur fyrir sitt leyti lýst ánægju með að í drögum að nýjum reglum fyrir bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur skuli vera komið á löngu tímabærri tengingu milli árlegra rekstrarframlaga sveitarfélaga og tekna bóksafnsins. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps tekur undir bókun bæjarráðs Seyðisfjarðar.
h)    SÍS dags. 30. des. 2009.  Varðar ábendingar um innheimtu fráveitugjalda og hvort nauðsynlegt sé að endurskoða samþykktir sveitarfélaga um gjaldskrár um fráveitu og meðhöndlun og jafnframt um meðhöndlun seyru. Samanber fyrirmynd sem send er með erindinu. Lagt fram til kynningar.  
i)    SSA dags. 27. jan. 2010. Í erindinu kemur fram bókun stjórnar SSA vegna ákvörðunar yfirstjórnar RÚV að leggja niður starfsstöðvar svæðisútvarpa m.a. á Austurlandi. Sveitarstjórn tekur undir bókun SSA.  
j)    Aðalfundur Landssamtaka landeiganda á Íslandi, dags. 11. feb. 2010. Ekki er reiknað með sveitarfélagið sendi fulltrúa á fundinn og var sveitarstjóra, komi til þess, falið að veita formanni samtakanna umboð sveitarfélagsins.

3.    Ákvörðun um borgarafund.

Ákveðið að halda borgarafund eigi síðar en 15.apríl.

4.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Aðalskipulag 2008 – 2020
Aðalskipulagið sem hefur verið til endanlegrar skoðunar hjá Skipulagsstofnun en verður sent í Umhverfisráðuneytið á morgun þann 4. feb. til staðfestingar.
Ráðuneytið mun að líkindum staðfesta skipulagið innan skamms.    
b)    Stýring á umferðarhraða í íbúðagötum á Djúpavogi sbr. ósk íbúa. Lögð fram svonefnd tillaga; „Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir að fara þess á leit við Lögreglustjórann á Eskifirði að veitt verði heimild til þess að færa niður umferðarhraða úr 50 km/klst. í 30 km/klst. í eftirtöldum íbúðagötum;
Borgarland, Hlíð, Hamrar, Hraun, Steinar, Hammersminni, Brekka, Markarland, Vogaland og Varða.     
Jafnframt verði til staðar heimild að koma fyrir hraðahindrunum ef markmiðum með lækkun umferðarhraða verður ekki náð“.  Tillagan borin upp og hún samþykkt samljóða.

5.    Starfsmannamál og -stefnur

a)    Jafnréttisáætlun Djúpavogshrepps 2010 – 2014 (drög). Varðar jafnréttisáætlun og er gerð krafa um að sveitarfélagið vinni annars vegar jafnréttisáætlun og hins vegar sérstaka framkvæmdaráætlun. Nú liggja fyrir drög að jafnréttisáætlun sem send var út með fundarboði. Borin upp tillaga um að sveitarstjórn staðfesti áætlunina. Hún samþykkt með  5  atkvæðum.  Í framhaldi af því verður unnið að framkvæmdaáætlun svo sem kveðið er á um í bréfi Jafnréttisstofu.
b)     Starfsmannastefna Djúpavogshrepps, endurskoðun. Lögð fram til kynningar, en um er að ræða nokkuð óbreytta stefnu sem gert var ráð fyrir að endurskoða fyrir lok þessa kjörtímabil. Hún borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. Sveitarstjóra falið að sjá til þess að hún verði aðgengileg fyrir alla starfsmenn sveitarfélagsins og m.a. verði hana að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.
c)     Lífeyrismál sveitarstjóra.
Staða mála vegna lífeyrisréttinda Björns Hafþórs Guðmundssonar sveitarstjóra. (BHG vék af fundi meðan þessi liður var ræddur og afgreiddur. AJ tók þátt í umfjöllun um dagskrárliðinn, en vék af fundi við afgreiðslu hans).
Á sínum tíma var gerð grein fyrir málinu í sveitarstjórn þegar kom í ljós sá vandi að aðild sveitarfélagsins að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) var hafnað á grundvelli þess að ekki hafði verið sótt formlega um hana á sínum tíma. Þar með var hafnað lífeyrisgreiðslum v/ núverandi sveitarstjóra í B-deild LSR eftir að hann hóf störf frá Djúpavogshreppi haustið 2002.  Björn Hafþór hafði greitt til sjóðsins allt frá því hann varð kennari á Stöðvarfirði haustið 1968 og síðar sveitarstjóri Stöðvarhrepps 1982-1991. Hélt hann því áfram meðan hann gegndi framkvæmdastjórastöðu hjá SSA til 1998 og bæjarstjórastöðu hjá Austur Héraði til haustsins 2002. Þegar sjóðnum var breytt í A-deild og B-deild, valdi hann B-deildina eins og flestir, sem lengi höfðu verið aðilar að LSR.
Litið var svo á af forsvarsmönnum sveitarfélagsins, að þar sem ákveðnir starfsmenn Djúpavogshrepps voru að greiða  í B-deild LSR, mætti álykta að hið sama myndi gilda  um nýráðinn sveitarstjóra og kveðið skýrt á um það við ráðninguna haustið 2002. Síðar kom í ljós að sérstök regla gilti um kennara og taldi því stjórn LSR að synja yrði greiðslum v/ BHG í B-deildina, þegar fyrstu greiðslur vegna hans voru sendar sjóðnum.
Á þetta reyndi í sérstökum málaferlum, fyrst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðar í Hæstarétti, en þar var endanlega lokað á þann möguleika að sveitarfélagið gæti átt beina aðild að B-deild sjóðsins, þar sem ekki hafði verið sótt formlega um hana mörgum árum áður.
Fyrir liggur mat Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingafræðings hjá Talnakönnun frá 14. júní 2006 á réttindatapi sveitarstjóra m/v 31. des. 2005. Ljóst er, að sveitarfélaginu tókst ekki að standa við ákvæði ráðningarsamnings og ætti því sveitarstjóri kröfurétt á sveitarsjóð.
Í ljósi þess að núverandi kjörtímabil er  senn á enda og sveitarstjórn telur sveitarfélagið eðlilega bundið af upphaflegu samkomulagi við sveitarstjóra, bar oddviti upp tillögu þess efnis honum verði falið að leita eftir því að fá þar sérfræðing(a)  til reikna út réttindatapið m/v 31. des. 2009. Tekið verði mið af því að sveitarstjóri hefði getað farið að nýta sér svonefnda 95 ára reglu haustið 2005 (þegar samanlagður líf- og starfsaldur hans var 95 ár). Jafnframt verði oddvita falið að óska eftir því við sveitarstjóra að málið verði leyst á sem ásættanlegastan hátt fyrir báða aðila. Niðurstaða útreikninga verði kynnt fyrir sveitarstjórn þegar þeir liggja fyrir.
Tillagan borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
AJ og BHG mættu nú á fundinn. Eftir kynningu á niðurstöðu sveitarstjórnar óskaði BHG eftir að bókað yrði, að í hans huga hefði aldrei komið til greina að gera sveitarfélagið að fullu ábyrgt fyrir réttindatapi sínu. Hann væri því fullur vilja að taka þátt í að leysa málið í samræmi við framangreinda bókun.

6.    Fundargerðir.

a)    Landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps 12. jan. 2010. Lögð fram til kynningar.
b)    Landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps 27. jan. 2010. Lögð fram til kynningar.
c)    Hafnarnefnd Djúpavogshrepps 3. febrúar 2010. Varðar m.a. hugmyndir um skipulag á hafnarsvæðinu við Gleðivík. Formaður. hafnarnefndar og SBU gerðu grein fyrir málinu. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.

7.    Skýrsla sveitarstjóra.

a)    Endanlegur samningur við Golfklúbb Djúpavogs. Sveitarstjóri kynnti málið sem unnið var í samræmi við ákvarðarnir sveitarstjórnar í aðdraganda fjárhagsáætlana 2009 og 2010.
b)    Öxi – opnun fjallvegarins. Oddviti og sveitarstjóri gerðu grein fyrir því að í annað skipti á stuttum tíma hefði sveitarfélagið opnað fjallveginn um Öxi á kostnað þess.
Í báðum tilvikum var kostnaður óverulegur en ávinningurinn mikill.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:50.
Fundargerðin, sem færð var í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.

Bj. Hafþór Guðmundsson, fundarritari.

04.02.2010