Djúpavogshreppur
A A

Fundargerðir

4. september 2017

Fundur ferða- og menningarmálanefndar

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd, mánudaginn 4. september 2017, kl. 15:00, að Bakka 1, Djúpavogi.
Fundinn sátu, Kristján Ingimarsson formaður, Þorbjörg Sandholt, Rán Freysdóttir og Erla Dóra Vogler ferða- og menningarmálafulltrúi.

Liður 1
Rætt var um upplýsingamiðstöð í Djúpavogshreppi og hvernig nýtt fyrirkomulag sl. sumar gekk, en Hótel Framtíð sá um reksturinn og Djúpavogshreppur greiddi ákveðið framlag með þeim rekstri. Svo virðist sem þetta fyrirkomulag hafi gengið vel og nefndin leggur til að þetta fyrirkomulag verði áfram. Einnig var rætt um samning milli Djúpavogshrepps og Hótel Framtíðar vegna afnota af salernisaðstöðu á tjaldstæðinu. Nefndin vísar frekari umræðu um samninginn til sveitarstjórnar.

Liður 2
Rætt var um Cittaslow sunnudaginn sem verður 24. september næstkomandi. Nefndin leggur til að þema sunnudagsins verði matur og menning úr héraði. Hópur fólks frá Orvieto á Ítalíu tekur þátt í sunnudeginum en hópurinn verður hér í Cittaslow skólaheimsókn. Einnig er von á Pier Giorgio Oliveti sem er í forsvari fyrir Cittaslow samtökin, en hann verður hér í þeim tilgangi að stofna Cittaslow Education sem er verkefni sem Djúpavogsskóli tekur þátt í. Stefnt er að því að gera sunnudaginn sem glæsilegastan og nefndin hvetur íbúa til að taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Liður 3
Erla gerði grein fyrir vinnu og viðburðum í Tankinum. Hún leggur áherslu á að uppbyggingu verði haldið áfram og að
sótt verði um styrki næstu árin til að ganga almennilega frá rafmagni, kaupa ljós, útvega ýmiskonar tækjabúnað o.fl. Ferða- og menningarmálanefnd er samþykk því að vera í forsvari fyrir Tankinn en að sá starfsmaður sem komi í stað Erlu haldi utan um verkefnið.

Liður 4
Rætt var um vegginn á gamla þvottaplaninu. Margar hugmyndir hafa komið fram um framtíð hans. Nefndin leggur til að gera innhlið veggsins snyrtilegri með því að fjarlægja rör, ljósastaura og mála.

Liður 5
Kristján gerði grein fyrir bók sem Alda Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum er að skrifa. Bókin er safn af þjóðsögum úr Djúpavogshreppi. Nefndin mælir með því að útgáfan verði styrkt og vísar því erindi til sveitarstjórnar.

Liður 6
Nefndin leggur til að stofnuð verði sér síða undir léninu visitdjúpivogur sem yrði hugsuð sérstaklega fyrir ferðamenn. Ferða- og menningarmálafulltrúa er falið að kalla eftir tilboðum í gerð vefsíðunnar.

Liður 7
Rætt var um tónleika og viðburðahald í kirkjunni. Nefndin leggur til að sveitarfélagið borgi þjónustugjald sem sóknarnefnd setur upp og hvetji þannig til menningarviðburða í kirkjunni. Fyrirhugaðir eru tónleikar í kirkjunni með Sveiflukvartettnum þann 7. október og þann 9. nóvember með Bertu Dröfn Ómarsdóttur sópransöngkonu frá Fáskrúðsfirði. Nefndin hvetur fólk til að mæta á þessa tónleika.

Liður 8
Kómedíuleikhúsið bauð sveitarfélaginu að kaupa hingað sýningu þeirra um Gísla á Uppsölum. Nefndin afþakkar
boðið þar sem sýningin fór um Austurland síðasta sumar og margir sáu sýninguna þá.

Liður 9
Önnur mál.
Erla gerði grein fyrir stöðu á uppsetningu selfie skilta og ósk Sigurðs Guðmundssonar að slíkt verði ekki sett við Eggin í Gleðivík. Einnig var rætt um gerð Artic Project á kynningarmyndbandi fyrir sveitarfélagið, en fyrirtækið hlaut til þess styrk úr Menningarráði Austurlands 2015. Ferða- og menningarmálafulltrúi segir að sjónrænt aðlaðandi kynningarmyndband, án tals, þar sem tökurnar segja allt sem segja þarf, myndi nýtast mjög vel. Nefndin vísar því erindi til sveitarstjórnar og leggur til að fundnir verði styrkir í það eða aukalegt fé. Rætt var um að kaupa mætti fleiri bekki/borð sem mætti dreifa víðar en á Kallabakkanum og leggur til að þar verði einnig ruslafötur. Erla gerði grein fyrir ýmsum verkefnum sem hún er að vinna að.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 16:10

18.12.2017

14. desember 2017

 

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.12.2017

40. fundur 2014-2018

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 14. desember 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Sóley Dögg Birgisdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a) Gjaldskrár 2018.
Vegna fasteignagjaldaálagningar 2018 gilda eftirtaldar ákvarðanir:
I. Fasteignaskattur A 0,625%
II. Fasteignaskattur B 1,32%
III. Fasteignaskattur C 1,65%
IV. Holræsagjald A 0,30%
V. Holræsagjald B 0,30%
VI. Holræsagj. dreifbýli 8.860 kr.
VII. Vatnsgjald A 0,35%
VIII. Vatnsgjald B 0,35%
IX. Aukavatnsskattur 37,50 kr./ m³.
X. Sorphirðugjald 17.472 kr. pr. íbúð
XI. Sorpeyðingargjald 15.600 kr. pr. íbúð
XII. Sorpgjöld, frístundahús 12.480 kr.
XIII. Lóðaleiga 1 % (af fasteignamati lóðar)
XIV. Fjöldi gjalddaga 6
Fyrirliggjandi tillögur bornar upp og samþykktar samhljóða.
Gjaldskrárákvarðanir í heild liggja fyrir í skjali, sem undirritað var á fundinum og birt verður á heimasíðu sveitarfélagsins.

b) Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2018. Reglurnar staðfestar og undirritaðar. Þær verða sendar til kynningar samhliða tilkynningu um álagningu fasteignagjalda og munu auk þess verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.

c) Erindi um samningbundnar greiðslur, styrki o.fl. til afgreiðslu. Fyrirliggjandi skjal borið upp og samþykkt samhljóða og undirritað af sveitarstjórn.

d) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021, síðari umræða,fyrirliggjandi gögn kynnt.

Helstu niðurstöðutölur eru (þús. kr.):
* Skatttekjur A-hluta ................................................ 262.090
* Fjármagnsgjöld A-hluta......................................... 7.325
* Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs, neikvæð.................. 4.127
* Rekstrarniðurstaða A-hluta, neikvæð .................... 6.131
* Samantekinn rekstur A- og B- hluti, jákvæð ......... 30.394
* Fjármagnsliðir samtals A og B hluti (nettó) ....... 5.176
* Afskriftir A og B hluti .................................... 24.063
* Eignir ............................................................. 831.340
* Langtímaskuldir og skuldbindingar.................... 318.842
* Skammtímaskuldir og næsta árs afborganir....... 122.764
* Skuldir og skuldbindingar samtals.................... 441.606
* Eigið fé í árslok 2017 ..................................... 389.734
* Veltufé frá rekstri áætlað ................................ 34.817
* Fjárfestingar varanl. rekstrarfjárm. (nettó) ........ 9.100

e) Áætluð rekstarniðurstaða A – og B hluta er skv. framanrituðu jákvæð um 30 millj.
Sveitarstjórn er sammála um að áfram verði lögð megináhersla á að standa vörð um grunnþjónustu í sveitarfélaginu. Unnið verður áfram að uppbyggingu við Faktorshús og gömlu kirkju sem og verkefnum á Teigarhorni. Þá verður unnið að gerð deiliskipulags fyrir miðsvæði þéttbýlisins á Djúpavogi auk byggingarlóða á árinu 2018 ásamt framkvæmdum við fráveitu og hönnun viðbyggingar/endurbóta grunnskólans. Gert er ráð fyrir að haldið verði áfram við jarðhitaleit á svæðinu. Sveitarstjórn leggur áfram ríka áherslu á að unnið verði að öllum framkvæmdum í sveitarfélaginu í sátt við umhverfið og að nú sem fyrr verði lagður metnaður í að hafa þéttbýlið og sveitarfélagið allt sem snyrtilegast.
Áætlunin borin undir atkvæði. samþ. samhlj. Að því búnu var áætlunin undirrituð af sveitarstjórn og sveitarstjóra.

2. Fundargerðir

a) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 4. september 2017. Liður 1, upplýsingamiðstöð. Sveitarstjóra falið að leiða málið til lykta í samráði við ferða- og menningarmálanefnd.
Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 30. október 2017. Lögð fram til kynningar.
c) Félagsmálanefnd, dags. 14. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 24. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
e) Aðalfundur Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 27. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
f) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 1. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 6. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
h) Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 6. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
i) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 6. desember 2017. (Þorbjörg víkur af fundi.) Sveitarstjóra falið að bregðast við lið 4 í samráði við skólastjóra og formann fræðslu- og tómstundanefndar. Liður 2, skólareglur, staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar. (Þorbjörg kemur aftur til fundar).
j) Stjórn SvAust, dags. 6. desember 2017. Sveitarstjórn staðfestir þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu SvAust miðað við þær forsendur sem tilgreindar eru.
k) Opnun tilboða vegna Löngubúðar, dags. 11. desember 2017. Eitt tilboð barst í rekstur veitingaaðstöðu í Löngubúð. Sveitarstjóra í samráði við ferða- og menningarmálanefnd og stjórn Ríkarðshúss falið að ganga til samninga við tilboðsgjafa.
l) Stofnfundur Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf., dags. 11. desember 2017. Sveitarstjórn staðfestir fyrir sitt leyti stofnun Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf. og fagnar því framfaraspori sem stigið er með stofnun veitunnar.

3. Erindi og bréf

a) Minjastofnun, göngustígur, svör við athugasemdum, dags. 14. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
b) Björgunarsveitinn Bára, styrkbeiðni, dags. 14. nóvember 2017. Samþykkt.
c) Berunes Strandlíf ehf., kynningarbréf, dags. 16. nóvember 2017. Sveitarstjórn fagnar áformum Beruness Strandlífs ehf. Lagt fram til kynningar.
d) Berunes Strandlíf ehf., Frummatsskýrsla FA og starfsemi ferðaþjónustunnar Berunes Strandlífs ehf. Rétt er að árétta að sveitarstjórn hefur þegar sent umsögn vegna frummatsskýrslu FA. Lagt fram til kynningar.
e) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, umsögn um deiliskipulag í Hamarsseli, dags. 17. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
f) Snorraverkefnið, styrkbeiðni, dags. 20. nóvember 2017. Styrkbeiðni hafnað.
g) Aflið, styrkbeiðni, dags. 20. nóvember 2017. Styrkbeiðni hafnað.
h) Atvinnuvegaráðuneytið, byggðakvóti, dags. 21. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
i) Hótel Framtíð, fyrirspurn v. upplýsingamiðstöðvar, dags. 27. nóvember 2017. Sveitarstjóra falið að leiða málið til lykta sbr. bókun v. liðar 2a).
j) Umhverfisstofnun, v. Hamarssels, dags. 27. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
k) Öryrkjabandalagið, málefni fatlaðra, dags. 29. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
l) Samband ísl. sveitarf., málefni miðhálendisins, dags. 30. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
m) Samband ísl. sveitarf., Í skugga valdsins, dags. 30. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
n) Minjastofnun, v. Hamarssels, dags. 4. desember 2017. Lagt fram til kynningar.
o) Samband ísl. sveitarf., endurheimt votlendis, dags. 4. desember 2017. Lagt fram til kynningar.
p) Katrin Mathis, v. íþróttaskóla, ódags. Sveitarstjóra falið að bregðast við erindinu.

4. Húsreglur vegna íbúða í eigu Djúpavogshrepps
Sveitarstjóri kynnti nýjar reglur vegna íbúða í eigu Djúpavogshrepps. Eftir nokkrar umræður staðfesti sveitarstjórn reglurnar sem taka gildi frá og með næstu áramótum. Sveitarstjóra falið að kynna þær leigjendum.

5. Skipulags- og byggingamál - Íbúðir á athafnasvæðum
Á fundi sveitarstjórnar þann 14. sept. sl. var formanni SFU falið að kanna grundvöll þess að breyta aðalskipulagi með það fyrir augum að blanda saman athafnasvæði og íbúðasvæði innan þéttbýlis á Djúpavogi þannig að heimilt verði að breyta húsnæði á athafnasvæði í íbúðarhúsnæði, en slík landnotkun er ekki heimil samkvæmt gildandi aðalskipulagi Djúpavogshrepps. Í áliti Skipulagsstofnunar og skipulagsskrifstofu sveitarfélagsins kemur fram að þessir tveir ólíku landnotkunarflokkar falla ekki vel saman. Form. hefur í framhaldi kynnt málið innan SFU og í ljósi viðbragða nefndarmanna auk yfirferðar málsins með fulltrúum sveitarstjórnar, er það niðurstaða sveitarstjórnar að heimila ekki breytingu á aðalskipulagi í þessum efnum.

6. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri kynnti úthlutun hreindýraarðs til sveitarfélagsins fyrir árið 2017 sem áætluð er u.þ.b. 1,5 millj.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:00. Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

15.12.2017