Djúpivogur
A A

Fundargerðir

7. desember 2016

Fundargerð – SFU

14. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í Geysi 07.12.2016 kl 18:00 í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd.

Mætt: Andrés Skúlason form, Ingibjörg B Gunnlaugsdóttir – Magnús Kristjánsson og Kári Valtingojer.

Dagskrá
1. Grenndarkynningar – form. fór yfir verkefni sem eru í grenndarkynningarferli.

2. Skipulagsverkefni í vinnslu.
Form. kynnti þau deiliskipulagsverkefni sem eru í vinnslu í sveitarfélaginu um þessar mundir en óvenju mörg mál hafa komið inn á borð sveitarfélagsins á mjög skömmum tíma. Í ljósi þessa hafa verið mikil samskipti milli form. SFU skipulagsskrifstofu og byggingarfulltrúa á síðustu vikum þar sem megináhersla hefur verið lögð á að leiðbeina viðkomandi aðilum til að auðvelda framgang mála eftir þeim skipulagsferlum sem viðkomandi verkefni þurfa að fara í. Jafnhliða í ljósi fjölda mála og að reynst, nauðsynlegt að skerpa á verklagi vegna uppbyggingaráforma sem kalla á deiliskipulag og eftir atvikum aðalskipulagsbreytingu, allt eftir umfangi framkvæmda. Í þessu sambandi er áríðandi að hafa grundvallarviðmið í Aðalskipulagi að leiðarljósi sbr. að uppbygging allt að þriggja sumarhúsa í dreifbýli er deiliskipulagsskyld framkvæmd, slíkt er sérstaklega áríðandi þar sem uppi eru áætlanir um atvinnustarfsemi sbr. ferðaþjónustu. Umfram þrjú hús þarf hinsvegar auk þess að vinna að breytingu á Aðalskipulagi sem er tímafrekara og umfangsmeira ferli. Byggingarleyfi eru gefin út á grunni deiliskipulags sem hafa farið í gegnum lögbundið umsagnar og auglýsingarferli. Í þessum efnum er fullreynt að það gengur ekki að fara í framkvæmdir við uppbyggingu samhliða skipulagsvinnu.
Í öllum atriðum þarf því að vinna deiliskipulag og staðfesta fyrst áður en gefin eru út byggingarleyfi, enda segir þá samþykkt skipulag til um hvernig framkvæmdum skuli háttað innan afmarkaðs skipulagssvæðis.

Unnið er um þessar mundir að átta aðgreindum deiliskipulagsverkefnum og eru fleiri verkefni í farvatninu. Við slíkar aðstæður reynir auðvitað töluvert á stjórnsýslu sveitarfélagsins sem þarf að bregðast við fjölda erinda á skömmum vegna mis stórra uppbyggingaráforma. Flest eru verkefnin í dreifbýlinu og varða í nær öllum tilvikum uppbyggingu í ferðaþjónustu og þessum áformum öllum ber auðvitað að fagna sérstaklega, þó áhyggjuefni sé í leiðinni hve hefðbundin landbúnaður hefur gefið eftir. Deiliskipulagsverkefni sem nú eru á misjöfnum stigum í ferli eru á eftirtalin.
Á Teigarhorni - miðbæjarsvæði Djúpivogur - íbúðabyggð í þéttbýli Djúpavogs - Bragðavellir – Kerhamrar - Blábjörg - Starmýri og Fossárdalur. Í skipulagsvinnu er varðar bæði Teigarhorn - þéttbýlið á Djúpavogi - Bragðavelli og Kerhamra og e.t.v. fleiri þarf til að koma bæði deiliskipulag og breyting á Aðalskipulagi. Að þessu sögðu lagði form.fram þær áætlanir og skipulagslýsingar sem liggja frammi á misjöfnu vinnslustigi á einstökum svæðum.
SFU gerir ekki athugasemdir við framlögð gögn sem eru í ferli og felur sveitarstjórn að vinna áfram að afgreiðslu á viðkomandi málum sem eru í lögbundnu ferli.

3. Deiliskipulag í þéttbýli - íbúafundur
Íbúafundi um deiliskipulag á miðbæjarsvæði og íbúðabyggð í þéttbýli hefur verið frestað þangað til í byrjun febrúar.

4. Önnur skipulagsmál.
a.Tillögur að hnitsettum nýjum byggingarreitum með skilmálum í Hammersminni og Markarlandi lagt fram til frekari skoðunar inn í umræðu um deiliskipulag í íbúðabyggð. Um er að ræða tvo nýja byggingarreiti við Hammarsminni og þrjá nýja byggingarreiti við Markarland. Ákveðið að rýna þessar tillögur nánar á næsta fundi SFU.
b. Fara þarf yfir hvort nánari skráning og skipulagsgerð sé ekki þörf á svæðum innan sveitarfélagsins þar sem hægfara uppbygging hefur átt sér stað í dreifbýli gegnum árin, þar sem verkefni, kunna í tilfellum vera komin út fyrir þau viðmiðunarmörk sem getið er um í Aðalskipulagi sveitarfélagsins og kunna því að vera deiliskipulagsskyld og eftir atvikum með þörf á breytingu á Aðalskipulagi.

5. Vatnsveita
SFU telur mikilvægt að farið verði sérstaklega yfir innra eftirlit með vatnsveitu Djúpavogs og skerpt á verklagi. Mjög mikilvægt er að eftirlit með búnaði við vatnsveitu sé í föstum skorðum og skráningar og gæðahandbók sé til staðar svo hámarka megi gæði vatns fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Áætlanir eru uppi um að fjölgað verði verulega sýnatökum eftirlitsaðila á næstu misserum.

6. Fráveita í þéttbýlinu
SFU leggur áherslu á við sveitarstjórn að marka tilhlýðilega fjármuni við fráveitu við þéttbýlið á Djúpavogi við gerð fjárhagsáætlunar sem nú stendur yfir. Fulltrúi Mannvits verði fengin að borðinu og gerð verði tímasett verk- og kostnaðaráætlun til næstu 3-4 ára og stefnt verði jafnframt að því að hefjast handa við annan áfanga framkvæmda við fráveituna á næsta ári og jafnhliða leitað allra leiða til að fá niðurfellingu vsk. og leita annars opinbers stuðnings við verkefnið.

Fundi slitið kl: 20:00

27.02.2017

9. febrúar 2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 09.02.2017
31. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 9. febrúar 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Kristján Ingimarsson, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Andrés stjórnaði fundi.

Fundarstjóri fór fram á að liðum 3 k), 3 l) og 7 d) yrði bætt við dagskrána. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni
Sveitarstjóri kynnti gögn varðandi kostnaðarhlutdeild Djúpavogshrepps við ljósleiðaravæðingu á Berufjarðarströnd í tenglsum við verkefnið „Ísland ljóstengt 2017“ en þann 1. febrúar úthlutaði Fjarskiptasjóður Djúpavogshreppi kr. 8.474.661 til verksins. Sveitarfélaginu hafði áður verið úthlutaður sérstakur byggðastyrkur kr. 5.100.000. Sveitarstjóra falið að staðfesta að Djúpavogshreppur muni þiggja þann styrk sem í boði er. Sveitarstjóra jafnframt falið að hefja undirbúning að gerð viðauka við fjárhagsáætlun 2017 þegar endanleg kostnaðaráætlun liggur fyrir í kjölfar útboðs eða verðkönnunar.

2. Fundargerðir

a) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 23. janúar 2017. Lögð fram til kynningar.
b) Félagsmálanefnd, dags. 25. janúar 2017. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. janúar 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 3. febrúar 2017. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Mannvit, breytingar á útihúsum, Bragðavellir 2, dags. 12. desember 2016. Sveitarstjóra og formanni framkvæmda-, skipulags- og umhverfisnefndar falið að óska eftir fundi með framkvæmdaaðila og fara nánar yfir málið.
b) Minjastofnun, skráning menningarminja, dags. 10. janúar 2017. Brugðist hefur verið við erindinu. Lagt fram til kynningar.
c) Skipulagsstofnun, Lýsing, Bragðavellir, ferðaþjónusta, dags. 11. janúar 2017. Lagt fram til kynningar.
d) Sýslumaðurinn á Austurlandi, umsögn vegna umsóknar um rekstarleyfi, dags. 11. janúar 2017. Með vísan til bréfs sýslumannsins á Austurlandi dags. 11. janúar 2017 og reglugerðar nr. 1277/2016 er afgreiðslu frestað þar til lokaúttekt hefur farið fram en verklok eru samkvæmt verksamningi áætluð í lok apríl.
e) Minjastofnun, Starmýri II, Djúpavogshreppur – deiliskipulagslýsing, dags. 17. janúar 2017. Lagt fram til kynningar.
f) Strympa, Ósk um samþykki fyrir stofnun lóðar úr landi Þvottár í Djúpavogshreppi og skipulagslýsing vegna væntanlegrar deiliskipulagstillögu á lóðinni, dags. 20. janúar 2017.
Skipulagslýsingu skortir mikilvægar upplýsingar s.s. hvað varðar umfang uppbyggingar, svo sveitarstjórn geti tekið afstöðu til hennar. Sveitarstjórn mun ekki afgreiða stofnun lóðar á svæðinu fyrr en staðfest deiliskipulag liggur fyrir. Erindinu verður svarað með formlegum hætti af hálfu Djúpavogshrepps þar sem kallað verður eftir þeim gögnum frá aðilum máls.
g) Skúli Benediktsson, athugasemdir við deiliskipulagsuppdrátt að Kerhömrum, dags. 1. febrúar 2017. Brugðist hefur verið við athugasemdum.
h) Þórunnborg og Steinunn Jónsdætur, ósk um samþykki sveitarstjórnar fyrir stofnun 3ja lóða út úr Bragðavöllum 2, dags. 1. febrúar 2017. Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Bragðavöllum er nú í vinnslu. Jafnframt liggja fyrir drög að deiliskipulagi ferðaþjónustusvæðis á svæðinu dags. 28. nóvember 2016. Sveitarstjórn mun ekki afgreiða stofnun lóðar á svæðinu fyrr en staðfest deiliskipulag liggur fyrir. Samþykkt samhljóða.
i) Einn blár strengur, styrkbeiðni, ódagsett. Styrkbeiðni hafnað.
j) Breiðdalshreppur, Aðalskipulag Breiðdalshrepps 2016-2036 – skipulagslýsing. Djúpavogshreppur gerir ekki athugasemdir við framlagða skipulagslýsingu.
k) Minjastofnun, Umsögn vegna tillögu að deiliskipulagi að Kerhömrum, dags. 6. febrúar 2017. Í bréfinu kemur fram að óskráðar minjar hafi komið fram við vettvangskönnun og fornleifaskráning þurfi að fara fram innan skipulagssvæðisins og þarf hún að liggja fyrir áður en hægt verður að staðfesta deiliskipulag. Lagt fram til kynningar.
(Rán víkur af fundi)
l) Við Voginn ehf., umsókn um byggingarleyfi ásamt meðfylgjandi gögnum vegna útlitsbreytinga á fasteigninni Vogalandi 2, dags. 12. nóvember 2016.
Um er að ræða ísetningu 4 nýrra glugga í sama stíl og stærð og aðrir gluggar á framhlið hússins. Byggingarleyfi staðfest. (Rán mætir aftur til fundar).

4. Starfsreglur svæðisskipulagsnefndar
Starfsreglur svæðisskipulagsnefndar lagðar fram samkvæmt 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykktar samhljóða.

5. Ljósleiðaravæðing í Djúpavogshreppi
Sveitarstjóri kynnti framlögð gögn frá Mannviti varðandi mögulegar lagnaleiðir ljósleiðara í Djúpavogshreppi.

6. Samþykkt um fiðurfé í Djúpavogshreppi utan skipulagðra landbúnaðarsvæða
Samþykkt um fiðurfé í Djúpavogshreppi utan skipulagðra landbúnaðarsvæða staðfest með 3 atkvæðum gegn 2.

7. Skipulags og byggingamál

a) Teigarhorn - Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti á fundi 15. desember 2016 framlagða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Breytt landnotkun í landi Teigarhorns dags. 12. desember 2016 (uppfærð 3. febrúar 2017) ásamt uppdrætti dags. 14. desember 2016. Lýsing á aðalskipulagsbreytingu var kynnt á borgarafundi á Djúpavogi 24. janúar 2015. Ábendingarfrestur var frá 27. janúar til 5. febrúar 2015 og bárust engar ábendingar. Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að senda lýsingu á breytingu á aðalskipulagi dags. 27. janúar 2015 ásamt viðbótum dags. 12. febrúar 2015 til umsagnar Skipulagsstofnunar (umsögn dags. 25. febrúar 2015), Ferðamálastofu (umsögn barst ekki), Heilbrigðiseftirlits Austurlands (umsögn dags. 3. mars 2015), Minjastofnunar (umsögn dags. 6. mars 2015), Skógræktar ríkisins (umsögn barst ekki), Vegagerðarinnar (umsögn dags. 1. apríl 2015) og Veiðimálastofnunar (umsögn barst ekki). Miklar tafir hafa orðið á gerð skipulags á Teigarhorni vegna viðræðna við Vegagerðina um færslu Hringvegar nærri bæjarstæði á Teigarhorni og fyrir Eyfreyjunesvík en endanleg staðfesting Vegagerðinnar á framlagðri veglínu barst 22. júlí 2016.Sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var tillaga að breytingunni kynnt eigendum/ábúendum nærliggjandi jarða sem og hagmunaaðilum í sveitarfélaginu með bréfi dags. 19. desember 2016. Jafnframt var tilkynning hengd upp í Samkaupum á Djúpavogi og Við Voginn á Djúpavogi. Þá var breytingin aðgengileg á vef Djúpavogshrepps (www.djupivogur.is) og á skrifstofu sveitarfélagsins. Frestur til ábendinga rann út 4. janúar 2017. Ein ábending barst. Á fyrrgreindum fundi 15. desember, fól sveitarstjórn sveitarstjóra að senda tillöguna til umsagnar Minjastofnunar (umsögn barst 6. janúar 2017), Ferðamálastofu (umsögn barst ekki), atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (umsögn barst 28. desember 2016), Skógræktar ríkisins (umsögn barst 3. janúar 2017), Hafrannsóknarstofnunarinnar (umsögn barst 29. desember 2016) og Heilbrigðiseftirlits Austurlands (umsögn barst ekki).
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að óska eftir umsögn Skipulagsstofnunar og eftir heimild stofnunarinnar til auglýsingar á breytingunni sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
b) Starmýri - Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða á tillögu að deiliskipulagi vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á jörðinni Starmýri II í Djúpavogshreppi dags. 3. febrúar 2017. Sveitarstjórn telur að deiliskipulagið falli vel að markmiðum og sé í samræmi við Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020 og samþykkti sveitarstjórn lýsingu að deiliskipulaginu á fundi 15. desember 2016. Lýsingin var kynnt með dreifibréfi sem sent var til eigenda/ábúenda nærliggjandi jarða 19. desember 2016. Auk þess var tilkynning hengd upp í Samkaupum og Við Voginn. Ábendingafrestur var veittur til og með 4. janúar 2016. Engin ábending barst.
Þá var sveitarstjóra falið að senda lýsinguna til umsagnar eftirfarandi stofnana: Skipulagsstofnunar (umsögn barst 5. janúar 2017), Heilbrigðiseftirlits Austurlands (umsögn barst ekki), Minjastofnunar (umsögn barst 17. janúar 2017), sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis (umsögn barst 28. desember 2016) og Umhverfisstofnunar (umsögn barst 1. febrúar 2017). Framlögð tillaga verður kynnt með dreifibréfi sem sent verður til eigenda/ábúenda nærliggjandi jarða 10. febrúar 2017. Auk þess verður tilkynning hengd upp í Samkaupum og Við Voginn. Ábendingafrestur er veittur til og með 20. febrúar 2017. Að því gefnu að engar eða minniháttar ábendingar verði gerðar við tillöguna á kynningartíma, samþykkir sveitarstjórn að setja framlagða tillögu í auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir að ábendingafresti lýkur og tekið hefur verið fullnægjandi tillit þeirra ábendinga sem kunna að berast. Undir sömu formerkjum, felur sveitarstjórn sveitarstjóra jafnframt að senda tillöguna til umsagnar eftirfarandi stofnana á auglýsingatíma: Skipulagsstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Umhverfisstofnunar.
c) Varða 19 – Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að kamína verði sett upp í Vörðu 19 en áréttar að fulltrúi eldvarnaeftirlits taki út umbúnað eldstæðis og reykháfs þegar framkvæmdum er lokið.
d) Breyting í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu. Í ljósi ábendinga sem borist hafa frá Skipulagsstofnun vegna verulegra áforma í uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli Djúpavogshrepps felur sveitarstjórn formanni skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefndar að vinna að breytingum í texta aðalskipulags 2008 – 2020 til samræmis við ábendingar Skipulagsstofnunar.

8. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi jarðhitaleit á Búlandsnesi.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum fundum með fulltrúum kennara vegna Bókunar 1 í kjarasamningi.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:15.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

13.02.2017