Djúpavogshreppur
A A

Fundargerðir

4. september 2017

Fundur ferða- og menningarmálanefndar

Fundur var haldinn í ferða- og menningarmálanefnd, mánudaginn 4. september 2017, kl. 15:00, að Bakka 1, Djúpavogi.
Fundinn sátu, Kristján Ingimarsson formaður, Þorbjörg Sandholt, Rán Freysdóttir og Erla Dóra Vogler ferða- og menningarmálafulltrúi.

Liður 1
Rætt var um upplýsingamiðstöð í Djúpavogshreppi og hvernig nýtt fyrirkomulag sl. sumar gekk, en Hótel Framtíð sá um reksturinn og Djúpavogshreppur greiddi ákveðið framlag með þeim rekstri. Svo virðist sem þetta fyrirkomulag hafi gengið vel og nefndin leggur til að þetta fyrirkomulag verði áfram. Einnig var rætt um samning milli Djúpavogshrepps og Hótel Framtíðar vegna afnota af salernisaðstöðu á tjaldstæðinu. Nefndin vísar frekari umræðu um samninginn til sveitarstjórnar.

Liður 2
Rætt var um Cittaslow sunnudaginn sem verður 24. september næstkomandi. Nefndin leggur til að þema sunnudagsins verði matur og menning úr héraði. Hópur fólks frá Orvieto á Ítalíu tekur þátt í sunnudeginum en hópurinn verður hér í Cittaslow skólaheimsókn. Einnig er von á Pier Giorgio Oliveti sem er í forsvari fyrir Cittaslow samtökin, en hann verður hér í þeim tilgangi að stofna Cittaslow Education sem er verkefni sem Djúpavogsskóli tekur þátt í. Stefnt er að því að gera sunnudaginn sem glæsilegastan og nefndin hvetur íbúa til að taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Liður 3
Erla gerði grein fyrir vinnu og viðburðum í Tankinum. Hún leggur áherslu á að uppbyggingu verði haldið áfram og að
sótt verði um styrki næstu árin til að ganga almennilega frá rafmagni, kaupa ljós, útvega ýmiskonar tækjabúnað o.fl. Ferða- og menningarmálanefnd er samþykk því að vera í forsvari fyrir Tankinn en að sá starfsmaður sem komi í stað Erlu haldi utan um verkefnið.

Liður 4
Rætt var um vegginn á gamla þvottaplaninu. Margar hugmyndir hafa komið fram um framtíð hans. Nefndin leggur til að gera innhlið veggsins snyrtilegri með því að fjarlægja rör, ljósastaura og mála.

Liður 5
Kristján gerði grein fyrir bók sem Alda Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum er að skrifa. Bókin er safn af þjóðsögum úr Djúpavogshreppi. Nefndin mælir með því að útgáfan verði styrkt og vísar því erindi til sveitarstjórnar.

Liður 6
Nefndin leggur til að stofnuð verði sér síða undir léninu visitdjúpivogur sem yrði hugsuð sérstaklega fyrir ferðamenn. Ferða- og menningarmálafulltrúa er falið að kalla eftir tilboðum í gerð vefsíðunnar.

Liður 7
Rætt var um tónleika og viðburðahald í kirkjunni. Nefndin leggur til að sveitarfélagið borgi þjónustugjald sem sóknarnefnd setur upp og hvetji þannig til menningarviðburða í kirkjunni. Fyrirhugaðir eru tónleikar í kirkjunni með Sveiflukvartettnum þann 7. október og þann 9. nóvember með Bertu Dröfn Ómarsdóttur sópransöngkonu frá Fáskrúðsfirði. Nefndin hvetur fólk til að mæta á þessa tónleika.

Liður 8
Kómedíuleikhúsið bauð sveitarfélaginu að kaupa hingað sýningu þeirra um Gísla á Uppsölum. Nefndin afþakkar
boðið þar sem sýningin fór um Austurland síðasta sumar og margir sáu sýninguna þá.

Liður 9
Önnur mál.
Erla gerði grein fyrir stöðu á uppsetningu selfie skilta og ósk Sigurðs Guðmundssonar að slíkt verði ekki sett við Eggin í Gleðivík. Einnig var rætt um gerð Artic Project á kynningarmyndbandi fyrir sveitarfélagið, en fyrirtækið hlaut til þess styrk úr Menningarráði Austurlands 2015. Ferða- og menningarmálafulltrúi segir að sjónrænt aðlaðandi kynningarmyndband, án tals, þar sem tökurnar segja allt sem segja þarf, myndi nýtast mjög vel. Nefndin vísar því erindi til sveitarstjórnar og leggur til að fundnir verði styrkir í það eða aukalegt fé. Rætt var um að kaupa mætti fleiri bekki/borð sem mætti dreifa víðar en á Kallabakkanum og leggur til að þar verði einnig ruslafötur. Erla gerði grein fyrir ýmsum verkefnum sem hún er að vinna að.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 16:10

18.12.2017

14. desember 2017

 

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.12.2017

40. fundur 2014-2018

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 14. desember 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Sóley Dögg Birgisdóttir, Kári Snær Valtingojer og Þorbjörg Sandholt. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a) Gjaldskrár 2018.
Vegna fasteignagjaldaálagningar 2018 gilda eftirtaldar ákvarðanir:
I. Fasteignaskattur A 0,625%
II. Fasteignaskattur B 1,32%
III. Fasteignaskattur C 1,65%
IV. Holræsagjald A 0,30%
V. Holræsagjald B 0,30%
VI. Holræsagj. dreifbýli 8.860 kr.
VII. Vatnsgjald A 0,35%
VIII. Vatnsgjald B 0,35%
IX. Aukavatnsskattur 37,50 kr./ m³.
X. Sorphirðugjald 17.472 kr. pr. íbúð
XI. Sorpeyðingargjald 15.600 kr. pr. íbúð
XII. Sorpgjöld, frístundahús 12.480 kr.
XIII. Lóðaleiga 1 % (af fasteignamati lóðar)
XIV. Fjöldi gjalddaga 6
Fyrirliggjandi tillögur bornar upp og samþykktar samhljóða.
Gjaldskrárákvarðanir í heild liggja fyrir í skjali, sem undirritað var á fundinum og birt verður á heimasíðu sveitarfélagsins.

b) Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2018. Reglurnar staðfestar og undirritaðar. Þær verða sendar til kynningar samhliða tilkynningu um álagningu fasteignagjalda og munu auk þess verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.

c) Erindi um samningbundnar greiðslur, styrki o.fl. til afgreiðslu. Fyrirliggjandi skjal borið upp og samþykkt samhljóða og undirritað af sveitarstjórn.

d) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021, síðari umræða,fyrirliggjandi gögn kynnt.

Helstu niðurstöðutölur eru (þús. kr.):
* Skatttekjur A-hluta ................................................ 262.090
* Fjármagnsgjöld A-hluta......................................... 7.325
* Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs, neikvæð.................. 4.127
* Rekstrarniðurstaða A-hluta, neikvæð .................... 6.131
* Samantekinn rekstur A- og B- hluti, jákvæð ......... 30.394
* Fjármagnsliðir samtals A og B hluti (nettó) ....... 5.176
* Afskriftir A og B hluti .................................... 24.063
* Eignir ............................................................. 831.340
* Langtímaskuldir og skuldbindingar.................... 318.842
* Skammtímaskuldir og næsta árs afborganir....... 122.764
* Skuldir og skuldbindingar samtals.................... 441.606
* Eigið fé í árslok 2017 ..................................... 389.734
* Veltufé frá rekstri áætlað ................................ 34.817
* Fjárfestingar varanl. rekstrarfjárm. (nettó) ........ 9.100

e) Áætluð rekstarniðurstaða A – og B hluta er skv. framanrituðu jákvæð um 30 millj.
Sveitarstjórn er sammála um að áfram verði lögð megináhersla á að standa vörð um grunnþjónustu í sveitarfélaginu. Unnið verður áfram að uppbyggingu við Faktorshús og gömlu kirkju sem og verkefnum á Teigarhorni. Þá verður unnið að gerð deiliskipulags fyrir miðsvæði þéttbýlisins á Djúpavogi auk byggingarlóða á árinu 2018 ásamt framkvæmdum við fráveitu og hönnun viðbyggingar/endurbóta grunnskólans. Gert er ráð fyrir að haldið verði áfram við jarðhitaleit á svæðinu. Sveitarstjórn leggur áfram ríka áherslu á að unnið verði að öllum framkvæmdum í sveitarfélaginu í sátt við umhverfið og að nú sem fyrr verði lagður metnaður í að hafa þéttbýlið og sveitarfélagið allt sem snyrtilegast.
Áætlunin borin undir atkvæði. samþ. samhlj. Að því búnu var áætlunin undirrituð af sveitarstjórn og sveitarstjóra.

2. Fundargerðir

a) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 4. september 2017. Liður 1, upplýsingamiðstöð. Sveitarstjóra falið að leiða málið til lykta í samráði við ferða- og menningarmálanefnd.
Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 30. október 2017. Lögð fram til kynningar.
c) Félagsmálanefnd, dags. 14. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 24. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
e) Aðalfundur Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 27. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
f) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 1. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 6. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
h) Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 6. desember 2017. Lögð fram til kynningar.
i) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 6. desember 2017. (Þorbjörg víkur af fundi.) Sveitarstjóra falið að bregðast við lið 4 í samráði við skólastjóra og formann fræðslu- og tómstundanefndar. Liður 2, skólareglur, staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar. (Þorbjörg kemur aftur til fundar).
j) Stjórn SvAust, dags. 6. desember 2017. Sveitarstjórn staðfestir þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu SvAust miðað við þær forsendur sem tilgreindar eru.
k) Opnun tilboða vegna Löngubúðar, dags. 11. desember 2017. Eitt tilboð barst í rekstur veitingaaðstöðu í Löngubúð. Sveitarstjóra í samráði við ferða- og menningarmálanefnd og stjórn Ríkarðshúss falið að ganga til samninga við tilboðsgjafa.
l) Stofnfundur Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf., dags. 11. desember 2017. Sveitarstjórn staðfestir fyrir sitt leyti stofnun Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf. og fagnar því framfaraspori sem stigið er með stofnun veitunnar.

3. Erindi og bréf

a) Minjastofnun, göngustígur, svör við athugasemdum, dags. 14. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
b) Björgunarsveitinn Bára, styrkbeiðni, dags. 14. nóvember 2017. Samþykkt.
c) Berunes Strandlíf ehf., kynningarbréf, dags. 16. nóvember 2017. Sveitarstjórn fagnar áformum Beruness Strandlífs ehf. Lagt fram til kynningar.
d) Berunes Strandlíf ehf., Frummatsskýrsla FA og starfsemi ferðaþjónustunnar Berunes Strandlífs ehf. Rétt er að árétta að sveitarstjórn hefur þegar sent umsögn vegna frummatsskýrslu FA. Lagt fram til kynningar.
e) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, umsögn um deiliskipulag í Hamarsseli, dags. 17. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
f) Snorraverkefnið, styrkbeiðni, dags. 20. nóvember 2017. Styrkbeiðni hafnað.
g) Aflið, styrkbeiðni, dags. 20. nóvember 2017. Styrkbeiðni hafnað.
h) Atvinnuvegaráðuneytið, byggðakvóti, dags. 21. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
i) Hótel Framtíð, fyrirspurn v. upplýsingamiðstöðvar, dags. 27. nóvember 2017. Sveitarstjóra falið að leiða málið til lykta sbr. bókun v. liðar 2a).
j) Umhverfisstofnun, v. Hamarssels, dags. 27. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
k) Öryrkjabandalagið, málefni fatlaðra, dags. 29. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
l) Samband ísl. sveitarf., málefni miðhálendisins, dags. 30. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
m) Samband ísl. sveitarf., Í skugga valdsins, dags. 30. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
n) Minjastofnun, v. Hamarssels, dags. 4. desember 2017. Lagt fram til kynningar.
o) Samband ísl. sveitarf., endurheimt votlendis, dags. 4. desember 2017. Lagt fram til kynningar.
p) Katrin Mathis, v. íþróttaskóla, ódags. Sveitarstjóra falið að bregðast við erindinu.

4. Húsreglur vegna íbúða í eigu Djúpavogshrepps
Sveitarstjóri kynnti nýjar reglur vegna íbúða í eigu Djúpavogshrepps. Eftir nokkrar umræður staðfesti sveitarstjórn reglurnar sem taka gildi frá og með næstu áramótum. Sveitarstjóra falið að kynna þær leigjendum.

5. Skipulags- og byggingamál - Íbúðir á athafnasvæðum
Á fundi sveitarstjórnar þann 14. sept. sl. var formanni SFU falið að kanna grundvöll þess að breyta aðalskipulagi með það fyrir augum að blanda saman athafnasvæði og íbúðasvæði innan þéttbýlis á Djúpavogi þannig að heimilt verði að breyta húsnæði á athafnasvæði í íbúðarhúsnæði, en slík landnotkun er ekki heimil samkvæmt gildandi aðalskipulagi Djúpavogshrepps. Í áliti Skipulagsstofnunar og skipulagsskrifstofu sveitarfélagsins kemur fram að þessir tveir ólíku landnotkunarflokkar falla ekki vel saman. Form. hefur í framhaldi kynnt málið innan SFU og í ljósi viðbragða nefndarmanna auk yfirferðar málsins með fulltrúum sveitarstjórnar, er það niðurstaða sveitarstjórnar að heimila ekki breytingu á aðalskipulagi í þessum efnum.

6. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri kynnti úthlutun hreindýraarðs til sveitarfélagsins fyrir árið 2017 sem áætluð er u.þ.b. 1,5 millj.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:00. Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

15.12.2017

16. nóvember 2017

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 16.11.2017

39. fundur 2010-2014

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 16. nóvember 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Sigurjón Stefánsson og Sóley Dögg Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð. Andrés stjórnaði fundi.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Ákvörðun um útsvarsprósentu 2018. Heimild til hámarksútsvars er 14,52%. Samþykkt samhljóða að nýta hámarksheimild vegna ársins 2018.
b) Gjaldskrár 2018 til fyrri umræðu. Gjaldskrá grunn-, leik- og tónskóla vísað til fræðslu- og tómstundanefndar. Eftir umfjöllun var endanlegum frágangi allra gjaldskráa vísað til síðari umræðu.
c) Eignabreytingar og framkvæmdir 2018. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um áformaðar framkvæmdir 2018. Vísað til síðari umræðu.
d) Styrkbeiðnir, samningsbundnar greiðslur o.fl. v. ársins 2018. Vísað til afgreiðslu við síðari umræðu.
e) Drög að rekstrarútkomu Djúpavogshrepps 2017. Sveitarstjóri kynnti skjal unnið af KPMG í samráði við starfshóp um fjárhagsleg málefni og með hliðsjón af fyrirliggjandi uppl. í bókhaldi sveitarfélagsins.
f) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2018. Fyrri umræða. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er gert ráð fyrir að rekstarniðurstaða verði jákvæð sem nemur liðlega 30 millj. Áformaður er vinnufundur með forstöðumönnum stofnana og starfshópi um fjárhagsleg málefni milli umræðna í sveitarstjórn. Leitað verður leiða til frekari hagræðingar og farið yfir tekjuspá og útgjöld 2018. Að lokinni umfjöllun var samþykkt að vísa áætluninni til síðari umræðu 14. desember kl. 16:00.

2. Fundargerðir

a) Félagsmálanefnd, dags. 17. október 2017. Lögð fram til kynningar.
b) Fræðslunefnd, skólastjórar og sveitarstjórn, dags. 18. október 2017. Lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Hafnasambands íslands, dags. 25. október 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 27. október 2017. Lögð fram til kynningar.
e) Hafnarnefnd, dags. 31. október 2017. Lögð fram til kynningar.
f) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 2. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Brunavarna Austurlands, dags. 10. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
h) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 13. nóvember 2017. Lögð fram til kynningar.
i) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 14. nóvember 2017. Sveitarstjóra falið að kanna möguleika á kaupum á lausum kennslustofum í samráði við formann nefndarinnar, jafnframt er þeim falið að kynna sér með hvaða hætti megi koma á dreifnámi í samráði við m.a. Austurbrú. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Stígamót, styrkbeiðni, dags. 15. október 2017. Styrkbeiðni hafnað.
b) Skipulagsstofnun, vegna Borgargarður, dags. 20. október 2017. Lagt fram til kynningar.
c) Ungt Austurland, styrkbeiðni, dags. 25. október 2017. Samþykkt að veita 30.000 kr. styrk til ráðstefnuhalds.
d) Ríkiseignir, vegna Hamarssels, dags. 31. október 2017. Lagt fram til kynningar.
e) Skógræktarfélag Djúpavogs, styrkbeiðni, dags. 1. nóvember 2017. Þegar hefur verið samþykkt að styrkja félagið.
f) Hólmfríður Haukdal og Eðvald Smári Ragnarsson, kaup eða leiga á Hammersminni 2b, dags. 1. nóvember 2017. Samþykkt að fela sveitarstjóra að ganga frá leigusamningi til eins árs.
g) Skipulagsstofnun, vegna Hamarssels, dags. 9. nóvember 2017. Lagt fram til kynningar.
h) Fiskeldi Austfjarða, vegna athugasemda frá Urðarteigi, dags. 14. nóvember 2017.
Lagt fram til kynningar.

4. Hitaveita Djúpavogshrepps
Oddviti lagði til á grunni ráðgjafar þar um að Djúpavogshreppur stofni sérstakt félag undir heitinu Hitaveita Djúpavogshrepps ehf. Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra og oddvita að annast endanlegan frágang við drög að stofnsamningi og samþykktum Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf. sem kynnt var á fundinum. Sveitarstjórn sammála um að sveitarstjórn skipi stjórn Hitaveitu Djúpavogshrepps ehf. Oddviti lagði jafnhliða fram tilboð vegna áforma um næstu skref við frekari jarðhitaleit. Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. fyrir hönd óstofnaðs félags í borholu allt að 800 m. að dýpt með fyrirvara um fjármögnun.

5. Starfsmannamál
Sveitarstjóri gerði grein fyrir ráðningu nýs atvinnu- og menningarmálafulltrúa. Umsækjendur um stöðuna voru sjö en einn dró umsókn sína til baka. Að höfðu samráði við formenn atvinnumála- og ferða- og menningarmálanefndar var ákveðið að ráða Grétu Mjöll Samúelsdóttur í starfið frá og með 1. maí. Fram að þeim tíma mun Bryndís Reynisdóttir sinna ferða- og menningarmálum í sveitarfélaginu í hlutastarfi. Bryndís hefur áður sinnt starfi ferða- og menningarmálafulltrúa og þekkir því vel til málaflokksins. Rúnar Matthíasson hefur einnig verið ráðinn sem landvörður á Teigarhorni (70%) og úttektaraðili byggingarfulltrúa / eftirlitsaðili með viðhaldi fasteigna Djúpavogshrepps (30%), samtals 100% starf. Sveitarstjórn býður þau velkomin til starfa og hlakkar til góðs samstarfs við þau.

6. Ályktanir aðalfundar SSA 2017
Lagðar fram til kynningar.

7. Bygginga- og skipulagsmál

a) Bragðavellir - uppbygging ferðaþjónustu - breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi dags. 15. nóvember 2017 lögð fram til samþykktar. Sveitarstjóra falið að kynna tillöguna og senda hana til umsagnaraðila.
b) Bragðavellir - uppbygging ferðaþjónustu á og nærri bæjarstæði - deiliskipulagstillaga. Tillaga að deiliskipulagi dags. 15. nóvember 2017 lögð fram til samþykktar. Sveitarstjóra falið að kynna tillöguna og senda hana til umsagnaraðila.
c) Teigarhorn - breytt landnotkun og færsla Hringvegar - breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 -2020. Breyting á aðalskipulagi var auglýst í sl. sumar og bárust tvær athugasemdir. Þann 8. september 2017 óskaði Djúpavogshreppur eftir að Vegagerðin skoðaði tillögu að breyttri veglínu, sem samræmis stefnu sveitarfélagsins, um Eyfreyjunes og við Framnes. Vegagerðin sendi 15. nóvember 2017 frumhönnun á breyttri veglínu. Sveitarstjórn samþykkir framlagða veglínu Vegagerðarinnar frá 15. nóvember 2017 og felur sveitarstjóra að svara framkomnum athugasemdum og senda uppfærð gögn til staðfestingar Skipulagsstofnunar.
d) Teigarhorn - fólkvangur og náttúruvætti - deiliskipulagstillaga.
Tillaga að deiliskipulagi dags. 15. nóvember 2017 lögð fram til samþykktar. Sveitarstjóra falið að kynna tillöguna og senda hana á umsagnaraðila.
e) Borgargarður 1 (Borgargerði) – hverfisvernd – breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020. Brugðist hefur verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar dags. 20. október 2017 við tillögu dags. 13. september 2017. Sveitarstjórn samþykkir uppfærslu á tillögu dags. 16. nóvember 2017. Sveitarstjóra falið að senda uppfærða tillögu til staðfestingar Skipulagsstofnunar.

8. Samantekt samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara vegna bókunar 1 í kjarasamningi aðila
Lögð fram til kynningar.

9. Ljósleiðaravæðing í dreifbýli Djúpavogshrepps
Sveitarstjóri fór yfir minnisblað um stöðu málsins.

10. Málefni Djúpavogsskóla
Þorbjörg víkur af fundi. Sveitarstjóri kynnti minnisblað sveitarstjóra sem hann hafði tekið saman vegna samreksturs leik-, grunn- og tónskóla á Djúpavogi. Að höfðu samráði við fræðslu- og tómstundanefnd og stjórnendur leik- og grunnskóla samþykkir sveitarstjórn að frá og með áramótum verði reknir tveir skólar á Djúpavogi, Leikskólinn Bjarkatún og Djúpavogsskóli sem hvort tveggja verður grunn- og tónlistarskóli. Þorbjörg kemur aftur til fundar.

11. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála vegna aukinna ökuréttinda fyrir slökkviliðsmenn. Sveitarstjórn sammála um að fela sveitarstjóra að vinna að lausn málsins í samráði við Brunavarnir Austurlands.
b) Sveitarstjóri gerði grein fyrir viðræðum sem staðið hafa yfir við Íslenska gámafélagið vegna sorphirðu í sveitum.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir félagsstarfi í Tryggvabúð og fyrirhuguðum breytingum á opnunartíma en gert er ráð fyrir að frá og með áramótum verði opnað kl. 11:00 en mögulega opið lengur einhverja daga eftir hádegið ef þurfa þykir.
d) Sveitarstjóri gerði grein fyrir drögum að nýjum reglum vegna leiguhúsnæðis í eigu sveitarfélagsins sem stefnt er að því að taki gildi frá og með næstu áramótum.
e) Sveitarstjóri gerði grein fyrir staðsetningu nytjamarkaðar í bræðslunni. Gert er ráð fyrir að nytjamarkaðurinn verði settur upp í sýningarrýminu sem „Rúllandi snjóbolti“ hefur verið í fram til þessa, til reynslu fram til vors, í samstarfi við Foreldrafélag Djúpavogsskóla.
f) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann átti með stjórnendum og fulltrúum kennara úr grunnskólanum varðandi Vegvísi – bókun 1. Fram kom að vel hefur gengið að koma ýmsum umbótum á í skólanum og lýstu fundarmenn ánægju með hvernig til hefur tekist.
g) Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum við siglingasvið Vegagerðarinnar vegna skástífa sem enn á eftir að setja á nýju trébryggjuna. Stefnt er að því að ljúka því verki hið fyrsta.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 19:00

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

20.11.2017

19. október 2017

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 19.10.2017

38. fundur 2014-2018

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 19. október 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Júlía Hrönn Rafnsdóttir, Þorbjörg Sandholt, Kári Snær Valtingojer og Sóley Dögg Birgisdóttir.
Andrés stjórnaði fundi og Sóley ritaði fundargerð.
Oddviti óskaði eftir að liður 3n) yrði tekinn á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni – Fjárhagsáætlun 2018
Unnið hefur verið að fjárhagsáætlun 2018 undanfarið í samráði við KPMG og starfshóp um fjárhagsleg málefni. Gerð fjárhagsáætlunar tekin til frekari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.

2. Fundargerðir

a) Félagsmálanefnd, dags. 19. september 2017. Lögð fram til kynningar.
b) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 20. september 2017. Lögð fram til kynningar.
c) Fundur um húsnæðisáætlun Austurlands, dags. 3. október 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Landbúnaðarnefnd, dags. 10. október 2017. Liður 1, yfirlýsing v. Blábjarga staðfestur.
e) Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd, dags. 10. október 2017. Lögð fram til kynningar
f) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, dags. 11. október 2017. Lögð fram til kynningar.
g) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 16. október 2017. Lögð fram til kynningar.
h) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd 17. október 2017. Liður 2, Umsókn Bílaklúbbs Djúpavogs um fyrir lóð undir mótókrossbraut staðfestur. Liður 3, skipulagslýsing fyrir Hamarssel staðfestur. Liður 7, umhverfisstofnun-tilnefning eftirlitsaðila vegna vegagerðarframkvæmda við botn Berufjarðar staðfestur. Að öðru leiti lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Þórir Stefánsson, ábending vegna malbikunarframkvæmda, dags. 14. september 2017. Lagt fram til kynningar.
b) Matvælastofnun, athugasemdir vegna umgengni, dags. 17. september 2017. Lagt fram til kynningar. Sóley og Júlía viku af fundi. Ekki hefur borist svar frá Fiskeldi Austfjarða vegna athugasemda, sveitarstjóra falið að ítreka erindið.
c) Eldvarnabandalagið, eldvarnir, dags. 28. september 2017. Lagt fram til kynningar.
d) ÚÍA, fjárstuðningur, dags. 2. október 2017. Samþykkt að veita umbeðinn stuðning.
e) NAUST, stefna varðandi plastnotkun, dags. 4. október 2017. Lagt fram til kynningar.
f) Alda Snæbjörnsdóttir, þakkarbréf, dags. 6. október 2017. Lagt fram til kynningar.
g) Kvenfélagið Vaka, uppsetning leiktækis, dags. 7. október 2017. Sveitarstjórn þakkar kvenfélaginu Vöku kærlega fyrir framtakið. Sveitarstjórn samþykkir að Djúpavogshreppur taki að sér uppsetningu og viðhald leiktækis.
h) Umhverfisstofnun, ársfundur náttúruverndarnefnda, dags. 9. október. lagt fram til kynningar.
i) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, aðalfundarboð, dags. 11. október 2017. Samþykkt að fulltrúi Djúpavogshrepps á fundinum verði Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir til vara.
j) Björn Ingimarsson, fulltrúi í starfshóp, dags. 12. október 2017. Andrés Skúlason tilnefndur af sveitarstjórn sem fulltrúi sveitarfélagsins í starfshóp um samstarfsverkefni.
k) Ferðamálastofa, opinber upplýsingaveita, dags. 12. október 2017. Lagt fram til kynningar.
l) Minjastofnun, vegna Stórsteina, dags. 13. október 2017. Lagt fram til kynningar.
m) Minjastofnun, auglýsing, dags. 16. október 2017. Lagt fram til kynningar
n) Umhverfisstofnun, fyrirspurn vegna umhverfisáhrifa við Glímeyri, dags. 18. október 2017. Sóley og Júlía viku af fundi. Lagt fram til kynningar.

4. Bygginga- og skipulagsmál

a) Hamarssel - Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða skipulagslýsingu á deiliskipulagi vegna uppbyggingar smáhýsa sem ætluð eru til útleigu til ferðamanna í landi Hamarssels í Djúpavogshreppi dags. 13. október 2017. Lýsingin verður kynnt með dreifibréfi sem sent verður til eigenda/ábúenda nærliggjandi jarða næstu daga. Auk þess verður tilkynning hengd upp í Samkaupum og Við Voginn. Ábendingafrestur er veittur til og með 7. nóvember 2017. Sveitarstjórn telur að deiliskipulagið falli vel að markmiðum og sé í samræmi við Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020. Sveitarstjóra verður falið að senda lýsinguna til umsagnar eftirfarandi stofnana: Skipulagsstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar. Óskað verður eftir athugasemdum ofangreindra aðila ef einhverjar eru fyrir 21. nóvember 2017.
b) Varða 9, Emil Karlsson umsókn um byggingarleyfi 4.okt.2017-Sveitarstjórn samþykkir byggingarleyfisumsókn með fyrirvara um samþykki byggingarfulltrúa.
c) Blábjörg, Stefán Gunnarsson umsókn um byggingarleyfi 10.okt.2017.Sveitarstjórn samþykkir byggingarleyfisumsókn.

5. Fiskeldi Austfjarða – Beiðni um umsögn vegna allt að 21.000 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði

Sóley og Júlía viku af fundi. Farið yfir beiðni Skipulagsstofnunar um umsögn á allt að 21.000 tonna framleiðslu Fiskeldis Austfjarða á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði, dags. 28. september 2017. Sveitarstjórn treystir sem áður að viðkomandi stofnanir leggi faglegt mat á þá þætti máls sem liggja til grundvallar fiskeldi í Berufirði og sveitarstjórn hefur ekki forsendur til að meta. Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þess að vinna að uppbyggingu fiskeldis í Berufirði sé unnin í sátt við umhverfi og samfélag sbr. smábátasjómenn, landeigendur og fleiri hagsmunaaðila og að gætt sé að hagsmunum þeirra sem fyrir eru með starfsemi í firðinum. Sóley og Júlía komu aftur til fundar.

6. Ljósleiðaravæðing í Djúpavogshreppi

Djúpavogshreppi hefur verið úthlutað 10.900.000 kr. byggðastyrk vegna ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu 2018. Markmið byggðastyrksins er að bæta samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum þeirra í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Áfram er unnið að fyrirhugaðri ljósleiðaravæðingu 2017 í samstarfi við Orkufjarskipti og verkfræðistofuna Mannvit og er vonast til að framkvæmdir hefjist fyrir árslok.

7. Starfsmannamál

Gerð var grein fyrir stöðu mála varðandi ráðningu menningar- og atvinnumálafulltrúa. Umsóknarfrestur var til 10. október og bárust 7 umsóknir um starfið. Verið er að vinna úr umsóknum í samráði við F.M.

8. Skýrsla oddvita

a) Oddviti gerði grein fyrir fundi sem haldinn var á Egilsstöðum 11. október á Egilsstöðum vegna Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
b) Oddviti gerði grein fyrir stöðu jarðhitaleitar á Búlandsnesi.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.

Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

30.10.2017

14. september 2017

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 14.09.2017

37. fundur 2014-2018

Fundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 14. september 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Mættir voru: Andrés Skúlason, Rán Freysdóttir, Þorbjörg Sandholt, Kári Snær Valtingojer og Sóley Dögg Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.
Andrés stjórnaði fundi.
Fundarstjóri óskaði eftir að liður 2b) yrði tekinn á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni – Fjárhagsáætlun 2018

Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2018.
Stefnt er að því að hún verði tekin til fyrri umræðu á nóvemberfundi sveitarstjórnar.

2. Fundargerðir

a) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 15. ágúst. 2017. Lögð fram til kynningar.
b) Landbúnaðarnefnd, dags. 21. ágúst 2017. Liður 1, Skipan fjallskilastjóra, niðurröðun dagsverka og dagsetninga staðfestur. Að öðru leyti lögð fram til kynningar.
c) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 25. ágúst 2017. Lögð fram til kynningar.
d) Hafnarnefnd, dags. 29. ágúst 2017. Lögð fram til kynningar.
e) Stjórn SSA, dags. 29. ágúst 2017. Lögð fram til kynningar.
f) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 1. september 2017. Lögð fram til kynningar.
g) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 6. september 2017. Lögð fram til kynningar.
h) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 6. september 2017. Lögð fram til kynningar.
i) Fundur um gerð sameiginlegrar húsnæðisáætlunar f. Austurland, dags. 7. september 2017. Lögð fram til kynningar.
j) Aðalfundur Kvennasmiðjunnar ehf., dags. 11. september 2017. Lögð fram til kynningar.
k) Stjórn Samtaka sjávarútvegsveitarfélaga, dags. 11. september 2017. Lögð fram til kynningar.

3. Erindi og bréf

a) Þjóðskrá Íslands, Tilkynning um fasteignamat 2018, dags. 12. júlí 2017. Lagt fram til kynningar.
b) Vegagerðin, úthlutun úr styrkvegasjóði, dags. 24. júlí 2017. Sveitarfélaginu var úthlutað 1.200.000 kr. úr styrkvegasjóði 2017. Styrknum hefur m.a. verið varið til framkvæmda í Bragðavalladal með það fyrir augum að létta undir með gangna- og hreindýraveiðimönnum.
c) Þór Vigfússon, athugasemd v. Verndarsvæði í byggð, dags. 31. júlí 2017. Sveitarstjórn þakkar góðar ábendingar og athugasemdir sem brugðist hefur verið við.
d) Ágústa Arnardóttir, nytjamarkaður, dags. 2. ágúst 2017. Sveitarstjórn lýst vel á hugmyndina um að stuðla að því að komið verði upp nytjamarkaði e.t.v. í samvinnu við t.d. Rauða krossinn, Neista, grunnskólanemendur eða aðra. Ferða- og menningarmálafulltrúa falið að fylgja málinu eftir.
e) Skipulagsstofnun, deiliskipulag í landi Blábjarga, dags. 3. ágúst 2017. Lagt fram til kynningar.
f) Alda Snæbjörnsdóttir, styrkbeiðni, dags. 6. ágúst 2017. Sveitarstjórn samþykkir að styrkja útgáfu bókarinnar: “Djúpavogshreppur, þjóðsögur og sagnir” um 500.000 kr.
g) Svavar Eysteinsson, veggirðing í landi Karlsstaða, dags. 14. ágúst 2017.
Sveitarstjóra falið að bregðast við erindinu í samráði við Vegagerðina.
h) Samband ísl. sveitarfélaga, kostnaðarþátttaka vegna kjaramálavinnu, dags. 18. ágúst 2017. Lagt fram til kynningar.
i) Vegagerðin, svör Vegagerðarinnar vegna athugasemda við breytingu á aðalskipulagi, dags. 1. september 2017. Sveitarstjórn tekur undir athugasemdir er fram hafa komið er varðar veglínu ofan þjóðvegar við Eyfreyjunes og hefur nú þegar sett fram óskir til Vegagerðarinnar um að kanna nýjan veglínukost frá Eyfreyjunesvík í beinni línu að þjóðvegi í austur, sem var meðal valkosta á fyrri stigum. Jafnhliða verði leitast við í nánari deiliskipulagsgerð að mæta athugasemdum sem fram hafa komið vegna stærðar áningastaðar í landi Djúpavogshrepps við Eyfreyjunesvík.
j) Ásdís H. Benediktsdóttir, vargfugl í námunda við fiskeldi, dags. 10. september 2017. (Sóley vék af fundi.) Sveitarstjórn tekur undir áhyggjur vegna þeirra athugasemda sem koma fram í bréfinu sem er skrifað fyrir hönd landeigenda að Urðarteigi. Þau neikvæðu umhverfisáhrif af máffuglum sem sækja í miklu magni inn á athafnasvæði fiskeldisins við Glímeyri og nærsvæði, auk annarra athugasemda sem fram koma í bréfi landeigenda ber að taka alvarlega. Sveitarstjóra falið að kalla eftir viðbrögðum frá Fiskeldi Austfjarða þar sem fulltrúum fyrirtækisins verði gert að svara með skriflegum hætti þeim athugasemdum og spurningum sem fram koma í bréfi landeigenda að Urðarteigi. Svör liggi fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar. Sömuleiðis verði kallað eftir viðbrögðum frá viðeigandi eftirlitsstofnunum vegna þeirra athugasemda sem fram koma í bréfinu. Framtíð fiskeldis við Berufjörð á allt undir að lífríki og umhverfi sé sýnd tilhlýðileg virðing. (Sóley kemur aftur til fundar.)
k) Íbúar við Hamra, Vigdísarlundur, 11. september 2017. Sveitarstjórn fagnar frumkvæði íbúa við Hamra að því að endurbæta umhverfið í Vigdísarlundi. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir í samráði við íbúa.
l) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, auglýsing umsóknar um byggðakvóta, dags. 11. september 2017. Sveitarstjóra falið að bregðast við erindinu.
m) Hrafnhildur Kristjánsdóttir, meðmæli, dags. 12. september 2017. Vísað til landbúnaðarnefndar.

4. Bygginga- og skipulagsmál

a) Verndarsvæði í byggð – Verndarsvæðið við Voginn
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða tillögu að verndarsvæði í byggð dags. 13. júlí 2017 og uppfærða 14. september 2017 ásamt greinargerð og uppdráttum.Verndarsvæðið er 7,5 ha landspilda og myndar megin kjarnann í miðsvæði kauptúnsins, sem nýtur hverfisverndar skv. Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020. Með tillögu um Verndarsvæðið við Voginn verður verndargildi svæðisins fest í sessi. Tillagan ásamt fylgigögnum var auglýst sbr. 5. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 og 2. gr. reglugerðar um verndarsvæði í byggð nr. 575/2016.Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda tillögu ásamt fylgigögnum til staðfestingar ráðherra hið fyrsta, sbr. 7. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.
b) Hverfisvernd - Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir framlagða breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 er tekur til hverfisverndar á lóðinni Borgargarði 1 og nágrennis. Breytingin felst í að lóðin Borgargarður 1 er afmörkuð í samræmi við hnitsetningu á lóðarleigusamningi dags. 12. september 2017. Við það minnkar skilgreint íbúðarsvæði til austurs og vesturs og er lit landnotkunarflokks utan lóðar breytt til samræmis við það, úr íbúðarsvæði í óbyggt svæði. Allt svæðið nýtur nú hverfisverndar.
Um er að ræða stærsta óraskaða búsetulandslag innan þéttbýlismarka Djúpavogs og telur sveitarstjórn að tillaga að breytingu sé til þess fallin að styrkja þá heildsteyptu verndarstefnu sem kemur fram í gildandi aðalskipulagi. Sveitarstjórn telur því að hér sé um að ræða óverulega breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020, sbr. 2 mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að senda tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020 dags. 13. september 2017 til staðfestingar Skipulagsstofnunar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er sveitarstjóra falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 32. gr. sömu laga.

5. Starfsmannamál

Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúi, hefur sagt upp störfum. Stefnt er að því að starf atvinnu- og menningarfulltrúa verði auglýst hið fyrsta. Einnig hefur Sævar Þór Halldórsson, staðarhaldari á Teigarhorni sagt upp starfi sínu. Dröfn Freysdóttir hefur verið ráðin í 20% starf í Tryggvabúð þar sem hún mun skipuleggja og stjórna tómstundastarfi í samráði við heldri borgara. Dröfn er með próf í tómstunda- og félagsmálafræði með áherslu á félags- og tómstundastarf eldri borgara. Maciej Pietruńko hefur verið ráðinn tímabundið til að leysa af sem þjálfari hjá Neista vegna fæðingarorlofs. Maciej hefur lokið mastersprófi í ferðamála- og tómstundafræði frá íþróttaháskólanum í Poznan og hefur mikla reynslu af störfum með börnum og unglingum.

6. Málefni Löngubúðar

Leigusamningur við núverandi rekstaraðila Löngubúðar rennur út í árslok. Sveitarstjóra falið að endurskoða skilmála sem í gildi hafa verið og auglýsa í framhaldinu reksturinn til leigu í samráði við formann ferða- og menningarmálanefndar og stjórn Ríkarðshúss.

7. Skýrsla sveitarstjóra

a) Sveitarstjóri gerði grein fyrir breytingum sem orðið hafa á sorphirðu og flokkun í kjölfar m.a. stóraukinna umsvifa í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Ljóst er að taka þarf gjaldtöku og fyrirkomulag til endurskoðunar. Sveitarstjóra, formanni skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefndar ásamt forstöðumanni áhaldahúss falið að vinna að málinu með það fyrir augum að ný gjaldskrá og endurbætt skipulag taki gildi frá og með næstu áramótum. Jafnhliða verði óskað eftir sérstökum fundi með fulltrúum Gámaþjónustunnar um heildstæða framtíðarlausn varðandi málaflokkinn.
b) Sveitarstjóri fór yfir vinnu sem staðið hefur yfir vegna sameiningarviðræðna Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Næsti fundur sameiningarnefndar með fulltrúum allra sveitarfélaganna verður haldinn 18. september.
c) Sveitarstjóri gerði grein fyrir mögulegum malbikunarframkvæmdum ofan við Löngubúð. Ekki var gert ráð fyrir umræddum framkvæmdum í fjárhagsáætlun. Sveitarstjórn sammála um nauðsyn þess að grípa tækifærið nú þegar malbikunarflokkur er á ferðinni. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði rúmar 5 millj. Sveitarstjóra falið að ganga frá viðauka vegna framkvæmdarinnar sem lagður verður fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
d) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann sat og boðað var til af félögum sauðfjárbænda á Austurlandi á Arnhólsstöðum í Skriðdal þriðjudaginn 29. ágúst sl.
Gestir fundarins voru m.a. fulltrúar frá Landssamtökum sauðfjárbænda, Bændasamtökum Íslands og einnig fulltrúar afurðastöðva sem taka við sláturfé af svæðinu. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps vill af þessu tilefni lýsa áhyggjum af þeirri óljósu stöðu sem nú er uppi í sauðfjárrækt í landinu. Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd falið að vinna sameiginlega að greiningu á mögulegum áhrifum á dreifbýli Djúpavogshrepps vegna þeirra breytingum sem boðaðar hafa verið af hálfu stjórnvalda og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund.
e) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirspurn vegna skráningu íbúða inn á athafnasvæðum.
Form. SFU falið að kanna möguleika á breytingu á skipulagi hvað þetta varðar í samráði við skipulagsskrifstofu sveitarfélagsins.
f) Sveitarstjóri gerði grein fyrir viðræðum sem átt hafa sér stað vegna mögulegra breytinga á rekstri Djúpavogsskóla. Skólastjórnendur hafa óskað eftir fundi með sveitarstjórn. Samþykkt að sveitarstjóri boði til fundarins við fyrstu hentugleika.
g) Sveitarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum fundi með fulltrúum frá Mannvit m.a. vegna stöðu byggingarfulltrúa og hönnunar viðbyggingar/endurbóta á Grunnskóla Djúpavogs.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Gauti Jóhannesson, fundarritari.

19.09.2017

12. júlí 2017


Fundur var haldinn í hafnarnefnd Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, miðvikudaginn 12. júlí 2017 kl. 11:00. Fundinn sátu Sigurjón Stefánsson formaður og Sigurður Ágúst Jónsson.

Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitar- og hafnarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Niðurlagning Ketilboðaflesjarvita
2. Bann við notkun svartolíu
3. Fjögurra ára samgönguáætlun
4. Tillögur starfshóps um endurskoðun á byggðakvótakerfinu

 

1. Niðurlagning Ketilboðaflesjarvita
Hafnarnefnd Djúpavogshafnar leggst eindregið gegn niðurlagningu Ketilboðaflesjarvita. Vitinn gegnir öryggishlutverki fyrir sjófarendur á siglingaleiðum í nágrenni Djúpavogs og því mjög mikilvægt að hann verði ekki lagður niður og afskráður úr Vitaskrá.

2. Bann við notkun svartolíu
Bréf frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og aðgerðarhópi í loftslagsmálum lagt fram til kynningar.

3. Fjögurra ára samgönguáætlun
Fjallað um nauðsynlegar framkvæmdir við Djúpavogshöfn í tengslum við gerð fjögurra ára samgönguáætlunar. Hafnarstjóra falið að undirbúa umsókn í samráði við formann hafnarnefndar.

4. Tillögur starfshóps um endurskoðun á byggðakvótakerfinu
Hafnarstjóri kynnti tillögur starfshóps um endurskoðun á byggðakvótakerfinu. Tillögurnar fela í sér að byggðakvóti Djúpavogs verður skertur um tæp 300 tonn frá því sem nú er. Hafnarnefnd gerir alvarlegar athugasemdir við að samkvæmt tillögunum er í engu tekið tillit til skerðinga undanfarin ár og lýsir yfir furðu sinni á því að sveitarfélag sem missti frá sér 90% aflaheimilda 2015 skuli samkvæmt tillögunum verða skert um sem nemur öllum núverandi almennum byggðakvóta.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 11:00

Gauti Jóhannesson, fundarritari

18.07.2017

29. desember 2016

Fundur var haldinn í hafnarnefnd Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, fimmtudaginn 29. desember 2016 kl. 15:00. Fundinn sátu Sigurjón Stefánsson formaður, Óskar og Sigurður Ágúst Jónsson. Einnig sátu fundinn Stefán Guðmundsson hafnarvörður og Gauti Jóhannesson sveitar- og hafnarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Gjaldskrá 2017
2. Fjárframlög til hafnarframkvæmda 2017
3. Umhverfisstefna
4. Landanir í Djúpavogshöfn 2016
5. Skemmtiferðaskip
6. Önnur mál

 

1. Gjaldskrá 2017
Farið var yfir gildandi gjaldskrá og gerðar á henni minniháttar breytingar. Breytt gjaldskrá er taki gildi við birtingu borin upp og samþykkt samhljóða.

2. Fjárframlög til hafnarframkvæmda 2017
Hafnarnefnd tekur undir með stjórn Hafnasambands Íslands varðandi fjárframlög til hafnarframkvæmda 2017 sbr. bréf stjórnarinnar til þingmanna dags. 12. des. 2016.

3. Umhverfisstefna
Ályktun 40. hafnasambandsþings um umhverfismál lagt fram til kynningar.

4. Landanir í Djúpavogshöfn 2016
Hafnarvörður gerði grein fyrir löndunum í Djúpavogshöfn 2016.

5. Skemmtiferðaskip
Hafnarvörður gerði grein fyrir áætluðum fjölda skemmtiferðaskipa í Djúpavogshöfn 2017. Gert er ráð fyrir 24 skipakomum. Tekjur af skemmtiferðaskipum eru áætlaðar u.þ.b. 10 millj.

6. Önnur mál
a) Áætlun Djúpavogshafnar um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa úr skipum lögð fram til kynningar en hún var staðfest af Umhverfisstofnun 19. desember 2016.
b) Hafnarstjóri kynnti tilmæli frá siglingasviði Vegagerðarinnar um að stórir bátar skuli ekki liggja utan á nýju trébryggjunni í vondum veðrum sé þess nokkur kostur. Bryggjan er ekki hönnuð fyrir slíkt. Hafnarverði falið að fylgja málinu eftir.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:30

Gauti Jóhannesson, fundarritari

18.07.2017

11. apríl 2017

Starfshópur um fjárhagsleg málefni

Fundargerð 11. apríl 2017

Fundur var haldinn í starfshópi um fjármál Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, kl. 11:00 þriðjudaginn 11. apríl 2017. Fundinn sátu Kári Snær Valtingojer, Sóley Dögg Birgisdóttir og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.  

Dagskrá var eftirfarandi:

 

1.Ársreikningur 2016 

Farið yfir ársreikning 2016 sem fundarmenn fengu sendan með fundarboði 6. apríl.

Ekki eru gerðar athugasemdir við ársreikninginn.  Starfshópurinn lýsir yfir ánægju sinni með tekist hafi að halda áætlun í stærstu rekstrarþáttum sveitarfélagsins og þeim jákvæða viðsnúningi sem átt hefur sér stað varðandi rekstarniðurstöðu frá síðasta ári.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:00

 

Gauti Jóhannesson, fundarritari

 

Starfshópur um fjárhagsleg málefni – Fundargerð 11. apríl 2017
Fundur var haldinn í starfshópi um fjármál Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, kl. 11:00 þriðjudaginn 11. apríl 2017. Fundinn sátu Kári Snær Valtingojer, Sóley Dögg Birgisdóttir og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.  
Dagskrá var eftirfarandi:
1.Ársreikningur 20161.Ársreikningur 2016 Farið yfir ársreikning 2016 sem fundarmenn fengu sendan með fundarboði 6. apríl.Ekki eru gerðar athugasemdir við ársreikninginn.  Starfshópurinn lýsir yfir ánægju sinni með tekist hafi að halda áætlun í stærstu rekstrarþáttum sveitarfélagsins og þeim jákvæða viðsnúningi sem átt hefur sér stað varðandi rekstarniðurstöðu frá síðasta ári.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:00
Gauti Jóhannesson, fundarritari

 

18.07.2017

4. maí 2017


Smellið hér
 til að skoða fundargerð Landbúnaðarnefndar frá 4. maí 2017.

18.07.2017