Djúpivogur
A A

Fundargerðir

17. desember 2014 - aukafundur

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundargerð 17.12.2014

2. aukafundur 2014 – 2018

Aukafundur var haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikudaginn 17. desember 2014 kl. 16:30. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Rán Freysdóttir, Kári Snær Valtingojer, Þorbjörg Sandholt og Kristján Ingimarsson sem ritaði fundargerð. Einnig sat fundinn Gauti Jóhannesson sveitarstjóri.


Dagskrá:

1. Fjárhagsvandi Austurbrúar – Rekstraráætlun 2015

Málefni Austurbrúar tekin til umfjöllunar og staða stofnunarinnar rædd.
Gögn frá Austurbrú lögð fram og erindi með tillögum, fjárhagsáætlun 2015 ásamt aðgerðaráætlun. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkir eftirfarandi fyrir sitt leyti, að því gefnu að heildarfjármögnun verkefnis við endurskipulagningu reksturs liggi fyrir
með framlagi allra aðildarsveitarfélaga og annarra stofnaðila ásamt fjármagni ríkis og stofnana, með það að markmiði að fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 haldi.

a) að fjármagn úr Atvinnuþróunarsjóði Austurlands, sem nú er til ráðstöfunar, verði nýtt til fjárhagslegrar endurskipulagningar Austurbrúar u.þ.b. 11.000.000 kr.
b) að á árunum 2016, 2017 og 2018 verði framlag Djúpavogshrepps til Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands tvöfaldað frá því sem það er á árinu 2014 og það renni til fjárhagslegrar endurskipulagningar Austurbrúar.


Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:00.

18.12.2014

6. nóvember 2014

Fundur var haldinn í Landbúnaðarnefnd 6. nóvember. Kl. 14.30. Fundarstaður Geysir, Bakka 1. Djúpavogi.

Fundinn sátu: Steinþór Björnsson formaður, Guðný Gréta Eyþórsdóttir varaformaður og Guðmundur Eiríksson varamaður.

Dagskrá fundar.

1. Farið yfir gangnaboð 2014 með breytingar og endurbætur í huga.
2. Lesið yfir bréf sem barst frá gangnaforingja á Berufjarðarströnd.
3. Önnur mál.

Nefndin fór yfir gangnaboð 2014 og skrifaði niður athugasemdir sem borist hafa munnlega til nefndarmanna. Eins voru felld út dagsverk eða bætt við eftir því sem við á. Talið er að göngur hafi gengið nokkuð vel þetta haustið nema á tveimur svæðum. Samkomulag fjár/ og landeigenda í Flugustaðadal, Tungu og Hofsdal er engan vegin ásættanlegt og þar af leiðandi er ekki búið að klára löggöngur þar.

Bréf barst landbúnaðarnefnd frá Auðbergi Jónssyni gangnaforingja. Þar var einnig mikið ósamkomulag í haust og tók því formaður landbúnaðarnefndar að sér að tala við hvern og einn land/ og fjáreiganda frá Hvannabrekku og út í Núp um hugmyndir að breyttu skipulagi varðandi göngur á þessu svæði næsta haust.

Landbúnaðarnefnd er sammála um að ref hafi fjölgað gríðarlega í hreppnum síðustu ár og telur nefndin nauðsynlegt að herða sókn gegn ref og mink í sveitarfélaginu. Fjárveitingar til refa/ og minkaveiða þarf að auka og er sérstaklega óheppilegt þegar ekki næst að klára grenjatímabilið vegna fjárskorts. Sveitarstjórn þarf að hafa samráð við önnur nærliggjandi sveitarfélög hvernig má standa betur að refaveiðum, einnig má brýna fyrir íbúum að leggja ekki út æti fyrir tófu nema viðkomandi hafi tíma til að sinna veiðunum.

Landbúnaðarnefnd hefur áhyggjur af fjölgun ferðamanna á svæðinu. Sóðaleg umgengni ferðamanna er vaxandi vandamál, mannaskítur og pappír er allvíða, hvort sem er úti við sjó eða inn til dala og þetta ástand samrýmist ekki þeirri ímynd sem íslenskur landbúnaður hefur gefið sig út fyrir. Það þarf að upplýsa ferðamenn hvernig ganga skal um landið, fjölga salernum á helstu áningastöðum í samráði við vegagerð og setja upp skilti við hreppamörk þar sem fólk er beðið um að ganga vel um náttúruna.

Lítillega var rætt um utanvegaakstur sem virðist vera að aukast og sérstaklega má rekja til hreindýraveiðimanna hvort sem þeir eru á bílum eða fjórhjólum. Margar ljótar slóðir hafa litið dagsins ljós síðustu ár.
Fleira ekki tekið fyrir fundi slitið kl. 17.15.

Guðný Gréta Eyþórsdóttir fundarritari

15.12.2014

13. nóvember 2014

Starfshópur um fjárhagsleg málefni – Fundargerð 13. nóvember 2014

Fundur var haldinn í starfshópi um fjármál Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, fimmtudaginn 13.nóvember 2014 kl. 09:00. Fundinn sátu Sóley Dögg Birgisdóttir, Kári Snær Valtingojer og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Djúpavogshreppur – Fjárhagsáætlun – fyrri umræða1. Djúpavogshreppur – Fjárhagsáætlun – fyrri umræða

Farið yfir tillögur sveitarstjóra að bókunum vegna fyrri umræðu fjárhagsáætlunar fyrir Djúpavogshrepp 2015-2018. Samþykkt að þær yrðu lagðar fram sem slíkar til fyrri umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.

Samþykkt að hópurinn fundi a.m.k. einu sinni enn vegna undirbúnings síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2015-2018 11. desember 2014.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 09:30.

Gauti Jóhannesson, fundarritari

15.12.2014

26. nóvember 2014

Atvinnumálanefnd Djúpavogshrepps: Fundargerð 26.11.2014

3. fundur

Fundur var haldinn í Atvinnumálanefnd Djúpavogshrepps miðvikudaginn 26. nóvember 2014 kl. 09:00.
Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru:, Rán Freysdóttir, Júlía Hrönn Rafnsdóttir, Guðbjört Einarsdóttir, Svavar Pétur Eysteinsson og Kristján Ingimarsson sem ritaði fundargerð.


Dagskrá:

1. Sérreglur um úthlutun byggðarkvóta.
Fyrir liggur að sótt hefur verið um frest til 15. des til þess að semja sérreglur um úthlutun Byggðakvóta fyrir Djúpavogshrepp. Ákveðið var að halda fund með útgerðum á Djúpavogi þar sem farið verður yfir almennar reglur um úthlutun byggðakvóta og gefa viðkomandi aðilum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

2. Staða Atvinnumála á Djúpavogi
Staða atvinnumála rædd. Rætt var um ný atvinnutækifæri og þá vinnu sem hefur verið í gangi til að ná nýjum störfum inn á svæðið.

Þörf er á að uppfæra fyrirtækjalista á heimasíðu Djúpavogshrepps, bæta við upplýsingum fyrir hvert og eitt fyrirtæki og þjónustuaðila og bæta inn nýjum á listann. Ákveðið að auglýsa eftir skráningum og ábendingum um þá þjónustu sem er til staðar.


Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 10:30
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Kristján Ingimarsson, fundarritari.

15.12.2014

20. nóvember 2014

Fræðslu-og tómstundanefnd: Fundargerð 20.11.2014
2. fundur 2014 – 2018

Fundur var haldinn í fræðslu-og jafnréttisnefnd Djúpavogshrepps fimmtudaginn 20. nóvember 2014 kl. 16:30. Fundarstaður: Geysir.

Mætt voru: Sóley Dögg Birgisdóttir sem stjórnaði fundi, Helga Rún Guðjónsdóttir, Pálmi Fannar Smárason, Óðinn Sævar Gunnlausson og Berta Björg Sæmundsdóttir. Einnig sátu fundinn fulltrúar starfsfólks Djúpavogsskóla þær, Þorbjörg Sandholt og Guðrún Sigríður Sigurðardóttir.

Dagskrá:

1. Zion
Jóhanna Reykjalín mætti á fundinn kynnti vetrarstarfið í Zion. Jóhanna kynnti styrk sem Zion fékk úr samfélagssjóði Alcoa til tækjakaupa, stefnt er að þvi að kaupa inn tæki og mála húsnæðið eftir áramótin.

2. Djúpavogsskóli
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir kynnti starfsmannahald og almennt starf í Djúpvogsskóla eins og veturinn liggur fyrir.
Nýjar skólareglur voru lagðar fyrir nefndina. Reglur um tónskóla og leikskóla voru samþykktar samhljóða en afgreiðslu á reglum grunnskólans var frestað. Halldóru var falið að setja sig í samband við umboðsmann barna vegna reglnanna áður en þær verða teknar aftur fyrir. Jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun Djúpavogsskóla var lögð fyrir nefndina tilkynningar.
Halldóra kynnti lauslega niðurstöður úr Skólapúlsinum og fór yfir tillögur að gjaldskrárbreytingum Djúpavogsskóla.
Halldóra fór yfir sameiningu skólanna frá hennar bæjardyrum séð. Nefndin mælir með því við sveitarstjórn að fenginn verið hlutlaus aðili til að taka út sameiningu skólanna.
Nefndin vill koma á framfæri áhyggjum sínum af verkfalli Tónlistakennara og vill hvetja sveitarstjórn til að þrýsta á að þetta leysist sem fyrst.

3. Tillögur að gjaldskrá Djúpavogsskóla
Farið yfir tillögur að nýrri gjaldskrá Djúpavogsskóla. Nefndinn telur tillögur að nýrri gjaldskrá vera óásættanlega og leggur það til við sveitarstjórn að tryggt verði að gjaldskrá leikskóla Djúpavogs verði áfram sambærileg við nálæg sveitarfélög.

4. Dreifnám
Skýrsla um dreifnám sem fyrirhugað er á Vopnafirði og upplýsingar sem fengust frá foreldrafélaginu Vopnafjarðarskóla og fjölbrautarskólanum á grundafirði var kynnt. Ákveðið að kanna áhuga foreldrafélagsins á þessu málefni og fá þau með okkur í þetta verkefni.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl.20:00
Fundargerðin færð í tölvu, lesin upp, staðfest, prentuð út og síðan undirrituð.
Sóley Dögg Birgisdóttir, fundarritari.

15.12.2014

24. september 2014

Fundur haldinn í Ferða og menningarmálanefnd, miðvikudaginn 24. september 2014 kl 15:00 í Geysi. Mætt á fundinn Þorbjörg Sandholt, Þór Vigfússon og Kristján Ingimarsson sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:
1. Umsóknir um starf Ferða og menningarmálafulltrúa.
2. Hans Jónatan.
3. Önnur mál.

1. Fjallað var um umsóknir um starf Ferða og menningarmálafulltrúa. Alls bárust 14 umsóknir um starfið en umsóknarfrestur rann út 15. september s.l. Sex umsóknir voru valdar úr til frekari úrvinnslu.

2. Farið var yfir útgáfuhóf vegna bókarinnar Maðurinn sem stal sjálfum sér eftir Gísla Pálsson en hún verður gefin út af Forlaginu 11. október n.k.

3.

a)Fundarmenn hvattir til þátttöku í Cittaslow Sunday sem verður næstkomandi sunnudag.
b)Kvikmyndahátíðin Riff hefur boðað komu sína til Djúpavogs og fundarmenn taka hátíðinni fagnandi.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl 17:10.

Kristján Ingimarsson, fundarritari.

15.12.2014

4. desember 2014

Fundargerð - SFU

2. fundur 2014 – 2018

Fundur haldinn í skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefnd þriðjudaginn 4. des. 2014 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir. Mætt voru: Andrés Skúlason form, Magnús Kristjánsson, Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir, Kári Snær Valtingojer og Óskar Ragnarsson. Andrés stjórnaði fundi og ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Skipulagsmál

Form. kynnti skipulagsvinnu á Teigarhorni sem er í vinnslu hjá Teiknistofu GJ. Unnið er að breytingu á aðalskipulagi á Teigarhorni og deiliskipulagi sem styrkt er af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða gegn mótframlagi. Skipulagsvinnan var kynnt á síðasta fundi ráðgjafarnefndar stjórnar fólkvangsins á Teigarhorni á fundi þann 29.ágúst síðastliðinn og aftur á fundi þann 24. nóv. án athugasemda. Form, fór yfir stöðu skipulagsvinnunar á Teigarhorni á glærum, stígagerð kynnt og fl. Stefnt er á að skipulagsvinna á Teigarhorni verði lögð fram á sérstakri íbúakynningu á Djúpavogi þann 8. janúar næstk. og sama dag mun fulltrúi TGJ einnig kynna drög að skipulagi á miðsvæði Djúpavogs á fundi með stjórn SFU og leggja grunn að áfangaskiptingu og tímaáætlun við þá vinnu sem mun síðan fara í gegnum lögbundið skipulagsferli.

2. Orkufjarskipti – 04.12. 2014 - ósk um framkvæmdaleyfi

Erindi frá Orkufjarskiptum lagt fram, en um er að ræða ósk um framkvæmdaleyfi vegna langningu ljósleiðara frá tengivirki í landi Teigarhorns, yfir Hálsa og út á Djúpavog sunnan megin Hálsa, um land Kambshjáleigu, Stekkjarhjáleigu, Hlauphóla og þaðan í línu ofan við Búlandshöfn og sem leið liggur að nýju kirkju þar sem ljósleiðarinn fer inn á lögn Mílu og þaðan út í símstöð. Nefndir samþykkir samhljóða framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti og leggur áherslu á að frágangur við framkvæmd verði í samræmi við kröfur þar um og menningarminjum hlíft, enda hafi framkvæmdaðilar kynnt sér fyrirliggjandi ath. í þeim efnum.

3. Umhverfismál Form. skýrði frá ábendingum og kvörtunum sem borist hafa vegna mikils utanvegaaksturs í sveitarfélaginu vegna vélknúinna ökutækja, sérstaklega sex –eða fjórhjóla en veruleg náttúruspjöll hafa meðal annars verið unninn inn á Búlandsdal í þessum efnum sem nefndin er sammála um að brýnt sé að taka á. Að þessu tilefni sýndi form. myndir sem teknar hafa verið á vettvangi eftir að athugasemdir höfðu borist. Form. falið að hafa samband við Umhverfisstofnun um hvaða leiðir eru færar svo sporna megi við frekari náttúruspjöllum af þessu tagi.

Annað ekki tekið til umræðu

Fundi slitið 17:50

15.12.2014

4. desember 2014

Starfshópur um fjárhagsleg málefni – Fundargerð 4. desember 2014

Fundur var haldinn í starfshópi um fjármál Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, fimmtudaginn 4. desember 2014 kl. 08:30. Fundinn sátu Sóley Dögg Birgisdóttir, Kári Snær Valtingojer og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi. Dagskrá var eftirfarandi:

1. Djúpavogshreppur – Hagræðingartillögur í rekstri sveitarfélagsins / gjaldskrár

1. Djúpavogshreppur – Hagræðingartillögur í rekstri sveitarfélagsins / gjaldskrár /fjárfestingar

Farið yfir endanlegar tillögur að gjaldskrám vegna 2015. Farið var yfir tillögurnar og fjallað um einstaka liði þeirra og þær samþykktar. Sveitarstjóra falið að ganga frá endanlegum tillögum starfshópsins varðandi gjaldskrár fyrir síðari umræðu í sveitarstjórn 11. desember. Farið yfir fyrirhugaðar fjárfestingar samkvæmt yfirliti sem sveitarstjóri hafði áður sent. Samþykkt að leggja hann fyrir sem tillögu hópsins við síðari umræðu. Farið yfir fjárhagsáætlun frá Garðari Jónssyni R3. Samþykkt að leggja hana fyrir til síðari umræðu hjá sveitarstjórn 11. desember.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 09:20

Gauti Jóhannesson, fundarritari

15.12.2014

4. nóvember 2014

Starfshópur um fjárhagsleg málefni – Fundargerð 4. nóvember 2014

Fundur var haldinn í starfshópi um fjármál Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, þriðjudaginn 4. nóvember 2014 kl. 09:00. Fundinn sátu Sóley Dögg Birgisdóttir, Kári Snær Valtingojer og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð og stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Djúpavogshreppur – Hagræðingartillögur í rekstri sveitarfélagsins / fjárhagsáætlun

1. Djúpavogshreppur – Hagræðingartillögur í rekstri sveitarfélagsins / fjárhagsáætlun

Sveitarstjóri hafði sent drög að fjögurra ára fjárhagsáætlun fyrir Djúpavogshrepps dags. 24. október unnar af Garðari Jónssyni hjá R3-Ráðgjöf ehf. til fundarmanna. Farið var yfir tillögurnar og fjallað um einstaka liði þeirra. Sveitarstjóra falið að gera tillögur að minni háttar breytingum í fjárfestingarhluta. Samþykkt að þær yrðu grunnur að fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2015-2018 og að þær yrðu lagðar fram sem slíkar til fyrri umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar ásamt greinargerð

Samþykkt að hópurinn fundi einu sinni enn vegna undirbúnings fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2015.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 10:00 Gauti Jóhannesson, fundarritari

15.12.2014