Djúpivogur
A A

Tankurinn

Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslan á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými.


Umhverfi Tanksins er vinsælt fyrir margra hluta sakir, meðal annars vegna eftirtalinna atriða;

  • Þar er listaverk Sigurðar Guðmundssonar listamann, "Eggin í Gleðivík" og mikill fjöldi fólks sem kemur gagngert til Djúpavogs til að skoða verkið.
  • Í Bræðslunni hafa síðastliðin fjögur sumur verið haldnar samtímalistasýningarnar Rúllandi snjóbolti,Djúpivogur. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Chinese European Art Center (CEAC) og hefur vakið verðskuldaða athygli innan sem utan landsteinanna. Þar stendur nú skúlptúrinn "Upprif" eftir listamanninn Hrafnkel Sigurðsson, geysihár turn úr brotajárni.
Nú hafa listamenn í sveitarfélaginu tekið höndum saman um að Tankurinn verði nothæfur sem
allsherjar sýningarrými sem geti tekið á móti verkum bæði heimamanna og annarra listamanna. Um
er að ræða framúrstefnulegt frumkvöðlastarf sem býður upp á óteljandi mögueika í nafni menningar
og lista.

Með því að byggja upp aðstöðuna er verið að auka á tækifæri fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi snjóbolta hafa sýnt sýningarrýminu áhuga og listamaður úr hópi þeirrar sýningar nýtt sér Tankinn, hér er því um alþjóðlegt samstarf að ræða.
Verið er að breyta gagnslausum lýsistanki í áhugavert sýningarrými og mikilvægt aðdráttarafl í einu af minnstu bæjarfélögum Austurlands. Verkefnið er nýstárlegt og um er að ræða algert frumkvöðlastarf.

Afurðin er lifandi listastarfsemi í Tanknum: sýningar og viðburðir.Aðdráttarafl og skemmtileg viðbót við afþreyingu í boði á Djúpavogi. Árangurinn verður að veita ýmsum listamönnum bæði á svæðinu og utan þess rými til sköpunar og öðrum tækifæri til að upplifa listviðburði. Í framtíðinni sjáum við fram á að verkefnið sé atvinnuskapandi fyrir listamenn bæði innan og utan. Einnig styður Tankurinn við hugmyndafræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja.

Tankurinn er nýjung í menningarlífi á Austurlandi og má einnig segja að það sé nýjung á landsvísu því ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði. Það eitt og sér dregur að sér mikla athygli. Í framtíðinni sjáum við fram á að verkefnið sé atvinnuskapandi fyrir listamenn bæði innan og utan Djúpavogshrepps, auki athygli á Djúpavogshreppi og styðji við hugmyndafræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja.