Djúpivogur
A A

Saga frá Má Karlssyni

Hjólreiðatúr frá Djúpavogi í Geithella sumarið 1948

Hér verður greint frá ferðalagi fjögurra ungra ferðalanga sem fóru á reiðhjólum frá Djúpavogi suður í Geithella í Álftafirði sumarið 1948. Erindi þessara ungu pilta var að heimsækja flokk vegagerðarmanna sem hélt til í tjöldum skammt austan við Geithella á stað sem heitir Kárastekkar. Áhugi okkar fyrir þessari ferð var búinn að vara nokkuð lengi, án þess að við létum til skara skríða. Foreldrum okkar fannst nokkuð mikið í lagt að hjóla 33 kílómetra leið í einni lotu. Skipulag ferðarinnar gekk útá að við legðum af stað á föstudagsmorgni og gist yrði í tjöldum vegagerðarmanna yfir nótt og við kæmum heim með þeim um miðjan dag á laugardegi. Það var því klukkan 10 á föstudagsmorgni um miðjan júlí að við mættum á Hótelshæðina tilbúnir í leggja af stað í umrætt ferðalag. Þeir sem fóru í þessa ferð voru þrír fermingarbræður sem áttu að fermast í Djúpavogskirkju í maímánuði 1949 af séra Kristni Hósesassyni presti í Heydölum í Breiðdal. Þeir voru Bragi Emilsson, Hlíðarhúsi á reiðhjóli sem hét Tildersley, Már Karlsson, Geysi á Armstrong hjóli og Ólafur Ágústsson, Sólhól á Herkúles hjóli, allir 13 ára gamlir. Fjórði félaginn var Hreinn Jónsson, Bjarka sem var á hjóli sem hét Eldsvik. Hreinn var elstur í hópnum, 15 ára gamall, og því sjálfskipaður farastjóri.
    Veður var ákjósanlegt, bjart og heiðskírt og hæfilegt hitastig fyrir langan hjólreiðatúr. Það var því létt yfir hópnum þegar stigið var á hjólin og hjólað sem leið liggur upp Kaupstaðaklif, inn með Olnboga, eftir Háaurunum, fram með Búrfellinu, upp Búlandsnesklifið og áfram sem leið liggur þjóðveginn inn með Hamarsfirði. Ekki var slegið af ferð fyrr en komið var að svokallaðri Djáknadys sem er utan undir ytri-Sandbrekku, en þar tókust þeir á upp á líf og dauða, djákninn á Hamri og presturinn á Hálsi og féllu báðir. Þarna stigum við af hjólunum og rifjðum upp þessa sögu sem fylgir þessum stað og fylgdum jafnframt hinni gömlu hefð ferðalanga sem þar fara hjá, að kasta steini á dysina.
    Næst stoppuðum við og svöluðum þorsta okkar við Vígðalæk sem er kaldavermsl sem Guðmundur hinn góði vígði árið 1200. Lækurinn aðskildi hreppamörk Geithella og Búlandshrepps frá árinu 1940. Eftir smá hvíld á hreppamörkunum, og að hafa svalað þorsta okkar úr læknum, héldum við ferðinni áfram fullir orku frá Guðmundi hinum góða. Áfram var hjólað inn í Geithellahrepp, með Búlandshrepp að baki. Urðin var framundan þar sem háir kletta slúttu yfir veginn sem var svo mjór að bílar gátu ekki mæst á löngum kafla. Þetta var einn af þeim fáu stöðum sem menn gátu orðið myrkfælnir um hábjartan dag ef þeir voru einir á ferð.
    Að urðinni slepptri tóku við Hamarsaurarnir. Beinn vegur fram undan bænum Hamri en grófur og erfiður yfirferðar á hjólum. Við hjóluðum yfir Hamarsárbrú og í áttina að bænum Bragðavöllum. Þegar við nálguðumst Bragðavelli sáum við að lækurinn sem rann rétt við túnfótinn var í töluverðum vexti. Eftir að hafa kannað aðstæður tókum við þá ákvörðun að fara úr skónum og sokkunum, bretta upp buxnaskálmarnar og vaða lækinn með vatnið vel í hné. Þetta gekk allt að óskum og komumst við klakklaust yfir hinum megin með góðum stuðningi við hjólin sem við teymdum yfir lækinn.
Við sáum að Jón Sigfússon bóndi á Bragðavöllum var úti á túni í heyskap ásamt sonum sínum, þeim Fúsa og Guðjóni sem báðir voru daufdumbir. Þeir virtust fylgjast grannt með okkur ferðalöngunum þegar við vorum að brölta með hjólin okkar yfir Bragðavallalækinn. Það var ekki algengt í þá daga að sjá hjólreiðamenn á ferð á þessum slóðum. Nú var ákveðið að tylla sér niður og hafa stuttan stans og fá sér smá nestisbita sem við vorum með á bögglaberunum. Hér voru 13 kílómetrar af leiðinni að baki og miðað við áætlun okkar vorum við á góðum tíma við Bragðavelli. Við upphaf ferðarinnar höfðum við talað okkur saman um að hjóla hver á eftir öðrum með stuttu millibili og skiptast á um að leiða ferðina, þannig að eftir ákveðna vegalengd fór sá fremsti aftastur í röðina og svo koll af kolli, líkt og oddaflug hjá álftunum. Þetta gerðum við til þess að hver og einn fengi að stjórna hraðanum hverju sinni. Þessi hugmynd reyndist vel og stillti hópinn betur saman með jafnari hraða miðað við svona langa vegalengd. Eftir að hafa gætt okkur á nestinu og hvílt okkur smá tíma var haldið áfram.
    Erfiður áfangi af leiðinni var framundan; Bragðavallahólarnir með sínum bröttu brekkum og grófu malarvegum ásamt skorningum þvers og kruss. Við teymdum hjólin upp bröttustu brekkurnar og notuðum rennslið vel niður í móti. Þannig mjökuðumst við áfram hægt og bítandi yfir þennan versta torfærukafla ferðarinnar í áttina að bænum Melrakkanesi. Þegar við komum að ánni Stekká sem rennur rétt sunnan við Melrakkanes og er á landamærum Melrakkaness og Geithella, var ákveðið að taka góðan hvíldartíma fyrir lokaáfangann. Það leyndi sér ekki, þegar hér var komið, að töluverð þreyta var komin í alla, enda var búið að halda stíft áfram þrátt fyrir erfiða yfirferð síðustu kílómetrana. Í upphafi ferðar hafði verið ákveðið að fyrsti viðkomustaður yrði á bænum Geithellum, hjá hjónunum Guðnýju Jónsdóttur og Þorfinni Jóhanssyni. Gísli Guðmundsson, símstöðvarstjóri og vegaverkstjóri, hafði sagt þeim hjónum í síma frá ferðalagi okkar og þau í framhaldi af því boðist til að taka á móti okkur með viðurgerningi að ferðalokum. Ferðin frá Melrakkanesi í Geithella gekk vonum framar þrátt fyrir talsverðan lúa sem fylgdi okkur allan lokakafla ferðarinnar. Um klukkan hálf fjögur hjóluðum við í hlað á bænum Geithellum I eftir fimm og hálfs tíma ferð frá Djúpavogi. Hundarnir á báðum Geithellabæjunum, hjá bræðrunum Einari og Þorfinni, fögnuðu okkur ákaft þegar þeir komu geltandi á móti okkur niður heimtröðina með dillandi rófur og flaðrandi upp á okkur í kveðjuskini. Hátterni hundanna hafði gefið Guðnýju vísbengu um að gesti hefði borið að garði. Hún stóð því í dyragættinni og tók okkur opnum örmum og bauð okkur að ganga í bæinn.
    “Æ, ósköp held ég að þið séuð nú þreyttir og svangir greyin mín”, sagði Guðný á meðan við fórum úr skónum í forstofunni. “Ég ætla nú að byrja á því að hressa ykkur upp með að fá ykkur hér inn í litla baðherbergið mitt og þvo ykkur í framan og um hendurnar og greiða ykkur, svo þið verðið hressir og fínir þegar Þorfinnur kemur heim innan tíðar.” Það var ekki laust við að við værum feimnir og uppburðarlitlir fyrir fram þessa höfðinglegu og rausnarlegu konu. Við gegndum skipunum hennar möglunarlaust, en gáfum hver öðrum auga þegar við fórum hver á fætur öðrum inn í litla baðherbergið þar sem hún þvoði okkur í framan með þvottapoka og síðan um hendurnar. Að lokum bleytti hún hárið og greiddi okkur eftir sínum smekk, sem hún sagði. Svona athöfn höfðum við ekki upplifað í langan tíma, töldum okkur upp úr slíku vaxna. Við töluðum um það okkar í milli að geyma þennan þátt ferðalagsins með okkur og engum öðrum.
    Það stóðst á endum að þegar Guðný var nýbúin að þvo öllum og gera fína, þá kom Þorfinnur heim. Hann heilsaði gestunum með handabandi og bauð þá velkomna í Geithella. Því næst spurði hann út í ferðalagið og hrósaði okkur á hvert reipi fyrir það að hjóla alla þessa vegalengd á svo skömmum tíma. Nú var boðið til stofu og okkur vísað til sætis. Hjónin settust við sinn hvorn endan borðsins en við tveir sitt hvoru megin borðs. Hér var ekki í kot vísað. Stofuborðið var þakið bakkelsi eins og að jól væru komin. Guðný hellti mjólk í glösin og sagði okkur að gjöra svo vel og borða eins og við gætum. Þau hjón voru bæði mjög ræðin yfir borðum, þannig að feimnin var á undanhaldi hjá okkur eftir því sem tíminn leið. Þorfinnur spurði m.a. út í fiskirí á bátum á Djúpavogi og hvort ekki væri næg vinna í Frystihúsinu. Við svöruðum eftir okkar bestu getu, en vissum að sá sem spurði var stjórnarformaður nýstofnaðs fiskvinnslufyrirtækis Búlandstinds h/f á Djúpavogi og oddviti Geithellahrepps.
    Eftir góðar trakteringar og ánægjulegt spjall stóðum við upp frá borðum og þökkuðum fyrir góðar móttökur og kvöddum. Guðný og Þorfinnur fylgdu okkur út á hlað og veifuðu til okkar í kveðjuskyni þegar við brunuðum á hjólunum okkar niður hlaðvarpann og tókum stefnu á Kárastekka. Klukkan var langt gengin í sex þegar við mættum að tjalbúðunum. Þar framan við stóð kokkurinn, Jón í Bjarka, svona þá ekki sallafínn, í hvítri skyrtu með ermar uppbrettar að olnboga og handklæði slegið yfir öxl sér. “Ég var nú farinn að horfa eftir ykkur, strákar mínir,” sagði Jón kokkur um leið og hann seildist ofan í vasa sinn og tók upp tóbakshorn og skellti slurki af snússi ofan á vinstra handarbakið sem hann bar upp að nösum sér og sogaði þvi upp i sitthvora nös og dæsti hljóðlega um leið og hann þurrkaði sér vandlega um nebbann með rauðum tóbaksklút. Eftir stuttar umræður um ferðalagið frá Djúpavogi, tilkynnti Jón að búið væri að undirbúa næturgistingu okkar og raða okkur niður á tjöldin. “Nú ætla ég að sýna ykkur hvar hver gistir og með hverjum,” sagði Jón og hóf göngu með okkur milli tjaldanna. “Hér sef ég,” sagði hann þegar við komum að fyrsta tjaldinu í röðinni. “Hér ætla ég að leyfa þér að gista, Hreinn minn” sagði Jón og beindi orðum sínum að Hreini, syni sínum. Áfram var haldið fram með tjaldaröðinni og málin útskýrð. “Í þessu tjaldi býr Ragnar Eyjólfsson á Hlíð og hann vill fá bróðurson sinn, Braga Emilsson, í tjaldið til sín. Már, þú mátt gista í þessu tjaldi hérna, hjá Sigurgeir Stefánssyni í Borgargarði og Óli í Sólhól hjá Jóni Guðmundssyni á Melum. Nú bíðum við eftir að vinnuflokkurinn komi heim í kvöldmatinn og borði saltfisk og kartöflur, með hamsatólg út á,” sagði Jón. “Þeir eru núna að keyra ofaníburð úr grús ofan í veginn á Gribbaldanum, sem er rétt hér sunnan Geithellaárbrúar,” bætti Jón við áður en hann hvarf inn í kokkstjaldið til þess að huga að kvöldmatnum. Við fórum í smá göngutúr á meðan um svæðið við tjaldbúðirnar og fylgdumst með þegar vinnuhópurinn nálgaðist þar á þremur vörubílum. Fyrstur í hlað kom Þórður Snjólfsson frá Veturhúsum á Chevrolet bíl, árgerð 1947 og næstur Sigurður Kristófersson í Holti á Ford bíl, árgerð 1942. Jón Antoníusson frá Bjarka rak lestina á gamla Fordinum sínum, frá árinu 1938.
    Þegar allir höfðu farið út að læk og skolað af sér ryki dagsins var gengið til kvöldverðar. Hver og einn kom með disk að tjaldskörinni, þar sem kokkurinn stóð sveittur við pottana með stóran fiskispaða í hendi og veiddi fiskistykki og kartöflur eins og hver vildi á diskana og skellti svo vænni ausu af skræðum út á í lokin. Þetta þótti nú aldeilis ljúffengur matur sem var vel þeginn eftir erfiði dagsins. Að máltíð lokinni fengu menn sér góðan kaffisopa og kveiktu sér í pípu eða tóku í nefið og spjölluðu saman drykklanga stund framan við tjaldbúðirnar. Það var létt yfir mannskapnum sem spígsporaði fram og til baka og gerði óspart að gamni sínu hver við annan, vitandi það að ákveðin var heimferð strax eftir hádegi næsta dag, laugardag. Vegagerðarflokkurinn á Kárastekkum hafði tekið okkur ferðalöngunum fagnandi og leið okkur vel í návist þeirra. Þessi umræddi föstudagur sem nú var að kvöldi kominn var búinn að vera okkur fjórmenningunum ævintýri líkastur.
    Það virtist vera þegjandi samkomulag í vinnuhópnum að upp úr klukkan tíu um kvöldið fóru menn að týnast hver af öðrum inn í tjöldin og reima þau aftur. Ég fylgdi tjaldfélaga mínum, Geira í Borgargarði eftir inn í tjaldið. Þegar þangað var komið spjölluðum við saman smá tíma áður en gengið var til hvílu. Í tjaldinu voru tveir beddar til að sofa á, ásamt koddum og ábreiðum. Eftir að við vorum háttaðir og lagstir fyrir a beddunum, seildist Geiri undir koddann hjá sér og tók þaðan tvær sögubækur. Hann rétt mér aðra bókina með þeim orðum að hann væri vanur því að líta í bók áður en hann færi að sofa. Hann spurði hvort ég hefði ekki gaman af að lesa, sér til samlætis smá stund. Ég tók við bókinni fegins hendi og lásum við tjaldfélagarnir í rúman klukkutíma eða þar til Geiri lagði frá sér bókina og bauð góða nótt. Ég lá lengi andvaka og bylti mér og brölti fram og til baka á koddanum. Ég heyrði á andadrætti Geira að hann hafði fljótt farið inn í draumalandið eftir lesturinn. Ein og ein hrota á stangli barst mér til eyrna frá tjöldunum. Ég huggaði mig við þá tilhugsun að það væri ekki auðvelt fyrir byrjendur í útilegu að ná góðum svefni fyrstu nóttina og allra síst undir kringumstæðum sem þessum.
    Um klukkan sjö um morguninn hringdi vekjaraklukka í einu tjaldinu. Það var kominn tími til að vakna, klæða sig og mæta í hafragrautinn hjá kokknum. Það upphófst mikið skraf og skvaldur fyrir framan tjöldin á meðan menn voru að koma sér af staði í morgunmatinn. Áður en Geiri yfirgaf tjaldið spurði hann mig að því hvernig ég hefði sofið um nóttina. Ég sagði honum að það hefði verið frekar losaralegur svefn framan af nóttu. Hann tók ábreiðuna ofan af beddanum sínum, breiddi yfir mig og sagði að ég skyldi reyna að sofna aftur þegar flokkurinn væri farinn til vinnu. Þetta gekk eftir því ég sofnaði værum blundi og vaknaði ekki aftur fyrr en rúmlega tíu þegar Jón kokkur rak hausinn inn um tjalddyrnar og bauð mér að mæta í morgunverð. Félagar mínir, þeir Hreinn, Bragi og Óli voru á sama róli og ég að mæta í morgunmatinn. Við vorum allir fremur stjarkir og með miklar harðsperrur eftir áreynslu gærdagsins. Þegar við bárum saman bækur okkur um svefn næturinnar kom öllum saman um að það væri ekki hægt að hrópa húrra fyrir honum. Jón hvatti okkur til þess að borða vel af hafragrautnum og slátrinu sem hann var með í morgunmat. Hann sagði að nú styttist óðum tíminn fram að heimferð, því það væri áætlað að leggja af stað frá tjöldunum um tólfleytið. Það stóðst því að suttu seinna voru bílarnir þrír mættir framan við tjöldin tilbúnir til heimferðar.
    Það þurfti að ganga frá ýmsu lauslegu áður en lagt var af stað. Antoníus bílstjóri hjálpaði okkur við að koma hjólunum upp á gamla Fordinn sinn og binda þau föst þar. Vinnuflokkurinn deildi sér svo nokkuð jafnt á milli bíla. Ég fylgdi tjaldfélaga minum fast eftir þegar hann klifraði upp á pallinn á bíl Þórðar. Auk okkar voru þar fyrir Jón á Melum, Mundi á Steinsstöðum og Jón í Bjarka hafði komið sér notalega fyrir við hlið Þórðar bílstjóra. Þórður lagði fyrstur af stað frá tjaldbúðunum og nokkru seinna þeir Siggi í Holti og Antoníus í Bjarka. Það var lítið skeggrætt uppi á bílpallinum þar sem við stóðum hlið við hlið og héldum okkur í slá fremst á pallinum aftan við stýrishúsið. Vegurinn var holóttur og þungur yfirferðar og gekk því ferðin austur hægt og bítandi. Þegar við nálguðumst Hamarsárbrú fór að bera á all miklum kvíða hjá þeim Munda á Steinsstöðum og Jóni á Melum sem ræddu sín a milli um það að beygjan til hægri inn á brúna væri svo kröpp að hæpið væri að Þórður næði henni á þessum bíl. Hann gæti því hæglega lent út af og hafnað niðri í ánni. Geiri hafði ekkert lagt til málanna fram að þessu. Ég var farinn að verða ansi smeykur yfir tali tvímenninganna og kvíðinn yfir því sem framundan var.
    Nú nálguðumst við brúna hægt og sígandi. Það var mikill óróleiki í þeim Munda og Jóni og þegar nokkrir metrar voru eftir að beygjunni kvað Mundi upp um það að við skyldum allir vera í startholunum út við vinstra skjólborðið og stökkva út af pallinum þegar hann gæfi um það merki. Bíllinn mjakaðist lúshægt að beygjunni og eins utarlega á vegkantinum og aðstæður leyfðu. Mundi og Jón voru búnir að stilla sér upp við skjólborðið og hafði Mundi auga með hvað framhjól bílsins væri tæpt á vegkantinum. Allt í einu kallaði hann hátt og snjallt; “stökkvum!”. Geiri greip í handlegg mér og sagði um leið, “við förum bara út af pallinum að aftan.” Það var mjög auðvelt þar sem bílllinn var næstum stopp. Þeir félagar stukku báðir út af skjólborðinu vinstra megin, en þar neðan vegar var hallandi land. Mundi kom standandi niður í hallann en Jóni fipaðist stökkið með þeim afleiðingum að hann tók nokkrar veltur í brekkunni án þess þó að meiða sig.
Þórður hafði fylgst grannt með því í baksýnisspeglinum hvað um var að vera uppi á palli bílsins. Hann stöðvaði því bílinn eftir að hann var kominn austur yfir brúna. Við komum allir labbandi á eftir honum, fremur niðurlútir og skömmustulegir á svip. Mér er nær að halda að Þórður hafi haft lúmskt gaman af þessu uppátæki gömlu vinnufélaganna frá Kárastekkum. Eftir þessa uppákomu við Hamarsárbrú gekk ferðin heim á Djúpavog eins og í sögu.

-------

Már Karlsson
Djúpavogi

Var efnið hjálplegt?