Djúpivogur
A A

Saga Geysis

Geysir – byggt árið 1898
Saga hússins

Hér verður í upphafi vitnað í úttektar og uppboðsbók Geithellahrepps frá árinu 1901 – 1909. Þar er eftirfarandi fært til bókar:

Virðing á húsi til skattafgjalds.

Árið 1902, 27. dag septembermánaðar, voru hreppstjórinn í Geithellahreppi, ásamt virðingar manni Sigurði Malmquist staddir á Djúpavogi til þess samkvæmt skriflegri beiðni sóknarprestsins til Hofs og Djúpavogar að virða til skattaafgjalds húseign veitingamannsins Lúðvíks Jónssonar “Hótel Geysir” sem er hús, 4 ára gamalt, að öllu leyti fullgjört og er að stærð: Á breidd 12 ál, á lengd 18 ál og hæð í mæni 11 ál. Hús þetta álítum við hæfilega virt á kr 5.500. Eptir bestu þekkingu undirritað af þeim Jóni P Hall og Sigurði Malmquist.

Hús það sem hér er greint frá, var byggt á grunni eldra húss sem þar stoð og hét “Lundur”. Það hús hafði Þórunn Eiríksdóttir ættuð frá Svínafelli í Nesjum ekkja Björns Gíslasonar hreppstjóra á Búlandsnesi látið byggja árið 1884. Í því húsi bjó hún ásamt fleirum og rak þar veitinga og gistiþjónustu til 12. júní árið 1896 að húsið brann. Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki tekist að hafa upp á neinum upplýsingum um ofangreint hús.

Það er nokkuð ljóst að Lúðvík Jónsson trésmiður hefur verið stórhuga maður með væntingar þegar hann hófst handa við að reisa nýtt og glæsilegt hótel á rústum gamla veitingahússins “Lundur”. Á manntali í Hálssókn, Suður-Múlasýslu frá 1. nóvember 1901, eru eftirfarandi skráðir til húsa í Geysi: Lúðvík Jón Jónsson 45 ára húsbóndi, trésmiður, gestgjafi, hafnsögumaður, Anna Kristrún Finnsdóttir 33 ára bústýra, Lúðvík Ágúst Lúðvíksson f. 18/1 1901 barn þeirra, Þórstína Björg Gunnarsdóttir 19 ára vinnukona (systir Jakobs í Fögruhlíð), Knútur Kristjánsson 23 ára leigjandi, sjómaður (bróðir Áka í Brekku), Sigurður Antoníusson 33 ára búfræðingur (föðurbróðir Bjargar Árnadóttur, aðkom frá Rangá, Kirkjubæjarsókn), Þórður Guðmundsson 36 ára sjómaður (frá Nesstekk, Skorrastaðarsókn), Guðjón Brynjólfsson 22 ára sjóróðrarmaður frá Starmýri, Stefán Bjarnason frá Borgum Bjarnanessókn, næturgestur á leið til Reykjavíkur, Sigurður Þórarinsson næturgestur á ferð til Reykjavíkur.

Þótt ekki sé kunnugt um afkomumöguleika á hótelrekstri Lúðvíks Jónssonar og Kristrúnar Finnsdóttur í Geysi meðan þeirra naut við, má ætla að hann hafi þjónað áframhaldandi hlutverki Lundar við gesti og gangandi sem komu á Djúpavog og ráku þar erindi til skemmri eða lengri tíma. Vitað er um, þegar gamla húsið á Búlandsnesi brann, að þá hafi Ólafur Thorlacius læknir flutt út í Geysi með fjölskyldu sína og dvalið þar á meðan verið var að byggja upp að nýju.

Árið 1908 hættir Lúðvík Jónsson snikkari og veitingamaður hótelrekstri í Geysi. Það sama ár skiptu þeir á húsum Lúðvík og Gustav Iversen kaupmaður. Lúðvík fékk íbúðarhúsið Sólhól sem hann byggði um 1880 fyrir Jóhann Malmquist sem var faðir Sigurbjargar, konu Gustavs Iversen. Í þess stað fékk Iversen Geysi og hefur trúlega þurft að greiða einhverja milligjöf, þar sem Sólhóll var minna og eldra hús. En athafnamaðurinn Gustav Iversen var ekki við eina fjölina felldur í húsamálum hér á Djúpavogi á þessum árum. Það vitnar um eftirfarandi virðingargjörð: Árið 1906, 2.dag aprílmánaðar er framkvæmd virðing á húsi kaupmannsins G Iversen af þeim Jóni P. Hall hreppstjóra og Lúðvíki Jónssyni virðingarmanni. Kemur þar m.a. fram í virðingargjörðinni að húsið sé nýtt og byggt á þessu ári og sundurhólfist í 15 herbergi, með kjallara undir allri húsastærðinni og er húsið virt á kr 10.000 - . Eftir daga Gustav Iversen hér á Djúpavogi hlaut þetta hús nafnið Framtíð eftir nafni á samnefndri verslun á Seyðisfirði sem eignaðist húsið og hóf þar verslunarrekstur. Í dag hefur húsið verið endurbyggt og stækkað með tveimur tengdum bjálkabyggingum þar sem nú er rekið hótel allt árið.

Eftir mikil umsvif í verslunarrekstri og fjárfestingum þeim tengdum hér á Djúpavogi fór smám saman að harðna á dalnum í fjármálum hjá Iversen kaupmanni og jafnframt að styttast í veru hans og fjölskyldu hér á staðnum. Um áramótin 1909-1910 flytja hjónin Gustav og Sigurbjörg Iversen úr Geysi ásamt börnum sínum þeim Dagmar, Agnete, Gustav Johan, Ingólfi, Valdimar, Hjálmari og Þorvaldi. Fólk hér á Djúpavogi saknaði mikið þessarar fjölskyldu þegar hún kvaddi og flutti fyrst til Eskifjarðar, og það sama ár til Seyðisfjarðar, þar sem hún dvaldi í skjóli fóstursonar síns Jóhanns Hanssonar vélsmiðs frá Djúpavogi. Fjölskyldan flutti síðar til Kanada. Þar með lauk 23 ára kafla Iversen og fjölskyldu í sögu Djúpavogs. Sumarið 1958 heimsótti Valdimar Iversen æskustöðvarnar hér á Djúpavogi eftir 47 ára dvöl í Kanada. Það munu hafa verið miklir fagnaðarfundir hjá öllum sem til þekkt. Síðan hefur ekkert spurst frá þessu dugnaðarfólki.

Í framhaldi af þessum búferlaflutningum árið 1910, komu til skjalanna nýir eigendur að Geysi. Það voru bræðurnir Karl og Ingimundur Steingrímssynir ásamt mökum sem eignuðust húsið. Verður nú í framhaldi þessa yfirlits gerð grein fyrir ætt og uppruna nýrra eigenda og ábúenda í Geysi. Þeir bræður sem hér að ofan eru nefndir, voru synir hjónanna Steingríms Jakobssonar og Katrínar Sigurðardóttur sem síðast bjuggu í Hlíðarhúsi hér á Djúpavogi. Karl Steingrímsson var fæddur í Fossgerði á Berufjarðarströnd 9. september árið 1877. Eiginkona hans, Björg Árnadóttir, var fædd 24. október árið 1889. Hún var dóttir Árna Antoníussonar bónda í Hnaukum í Álftafirði og konu hans Sigríðar Mekkínar Björnsdóttur. Ingimundur Steingrímsson var fæddur á Teigarhorni 14. mars árið 1881. Sambýliskona hans, Steinunn Tómasdóttir var fædd í Hafnarfirði 4. febrúar árið 1890. Foreldrar hennar voru Tómas Finnsson og Margrét Guðmundsdóttir frá Miðengi í Grímsnesi. Árið 1910, þann 7. júní fæddist fyrsta barn þeirra Bjargar og Karls sem þá bjuggu á neðri hæðinni í Geysi. Þetta var drengur sem síðar var skírður Steingrímur. Ingimundur og Steinunn fluttu til að byrja með á efri hæðina ásamt syni sínum Óskari sem fæddur var 5. nóvember 1909. Það var ætlun nýrra eigenda í upphafi að skipta um nafn á húsum og nefna það Heklu. Þessi nafngift náði ekki eyrum samborgaranna sem héldu áfram að kalla húsið Hótel eða Geysi. Þó mun á þessu tímabili Heklu nafnið hafa ratað bæði inn á manntal í Hálssókn árið 1910 og einnig í kirkjubækur við nokkrar skírnarathafnir. Hótel nafnið var alltaf aðalnafnið í gegnum tíðina og íbúarnir tengdir því nafni. Einnig var talað um Hótelsbalann og Hótelshæðina sem var nánasta umhverfi hússins.

Húsið hefur í áranna rás haft mikið sögu og menningarlegt gildi fyrir Djúpavog. Árið 1916 tók þar til starfa fyrsta símstöð sem rekin var hér á Djúpavogi. Þessi símstöð var fyrst til húsa í herbergi á efri hæð í norðausturhorni Geysis. Samkvæmt heimildum úr hreppskjölum Geithellahrepps 15. mars árið 1919 er Ingimundur Steingrímsson skráður símastjóri á Djúpavogi. Á manntali árið 1920 er Gísli Guðmundsson í Hlíð á Djúpavogi hins vegar skráður símstöðvarstjóri. Símstöðin í Geysi mun hafa verið rekin þar til ársins 1928 að hún var flutt þaðan og í kjallarann í gamla barnaskólann á aurnum, og þaðan upp í Hraun til Gísla Guðmundssonar og Ingibjargar Eyjólfsdóttur. Ingimundur Steingrímsson var skipaður póstafgreiðslumaður á Djúpavogi 22. janúar árið 1910. Póstafgreiðslan var til húsa í herbergi á neðri hæð Geysis beint undir símaherberginu á efri hæðinni. Fljótlega munu þeir bræður hafa skipt á íbúðum í Geysi. Ingimundur flutti á neðri hæðina með starfsemi sína þar sem sér inngangur var á austurhlið hússins fyrir póstafgreiðsluna. Þegar hreppstjórinn í Geithellahreppi að nafni Jón Pétur Elís Abel nefndur í almennu tali Jón P. Hall lét af störfum árið 1923 tók Ingimundur við því starfi og sinnti því áfram eftir hreppaskiptinguna árið 1940 en þá varð hann hreppstjóri Búlandshrepps en Helgi Einarsson á Melrakkanesi varð hreppstjóri Geithellahrepps. En aðeins meira um gamla hreppstjórann Jón P Hall. Hann kom af Suðurlandi og settist að á Starmýri. Kona hans var Oddný Guðmundsdóttir, sem var dóttir Guðmundar Hjörleifssonar, sonar Hjörleifs sterka. Oddný og Jón P. Hall áttu ekki börn en þau tóku Stefaníu Brynjólfsdóttur í fóstur en hún var systir Jörundar Brynjólfssonar alþingismanns og móðir Elísar Þórarinssonar frá Starmýri.

Á fyrstu búskaparárum fjölskyldunnar í Geysi var oft leyst úr húsnæðismálum þeirra sem voru að byrja sinn fyrsta búskap. Ég heyrði móður mína, Björgu Árnadóttur, segja frá ýmsu sambýlisfólki á efri hæðinni. Þar taldi hún upp m.a. Hlöðver og Rósu í Sunnuhvoli, Jón og Rögnu í Bjarka, Kristin Ívarsson og Sigurbjörgu frá Þiljuvöllum, Helgu Stefánsdóttur frá Hjalla, og fleiri sem ég er nú búinn að gleyma. Þetta hélt áfram eftir að börnin náðu sér í maka og á meðan þau voru að koma sér þaki yfir höfuðið hér á staðnum. Þar má nefna Steingrím og Þórhöllu í Vegamótum, Arnór og Kristborgu í Ekru, Kjartan og Kristínu í Borg og Ásgeir og Kristbjörgu á Steinsstöðum. Einnig voru þar til húsa á fimmta áratugnum Böðvar Sveinsson frá Hofi og sambýliskona hans sem hét Sigurrós Sveinsdóttir en hún var skyggn kona og var með 12 ára son sinn í Geysi.

Hjá þeim Steinunni og Ingimundi á neðri hæðinni var ekki eins mikil örtröð eða ágangur í húsnæðið eins og á efri hæðinni. Það gerði líka sú starfsemi sem þar var rekin og áður hefur verið getið um. Einnig voru flutt þangað Steingrímur og Katrín frá Hlíðarhúsum, foreldrar bræðranna, roskin og lasburða fólk sem ekki gat orðið séð um sig sjálft. Í framhaldi af fráfalli þeirra kom austur á Djúpavog, Margrét Guðmundsdóttir, móðir Steinunnar sem þá var orðin ekkja og roskin kona. Hún settist að hjá dóttur sinni og tengdasyni í Geysi þar sem hún endaði sína lífdaga árið 1943.

Það var alla tíð gott samkomulag hjá þessum tveimur barnmörgu fjölskyldum í Geysi. Til marks um það skal hér frá því sagt að árið 1930, þegar útvarpið tók til starfa, þá keyptu þeir Karl og Ingimundur saman útvarpstæki, með því fyrsta hér um slóðir og staðsettu það á efri hæðinni með tengdan hátalara á neðri hæðina. Karl þótti sjálfskipaður útvarpsstjóri í Geysi vegna góðrar tungumálakunnáttu sinnar sem hann hafði öðlast þegar hann, 19 ára gamall, hleypti heimdraganum og fór frá Djúpavogi með skipi til Siglufjarðar og komst þar um borð í norskan reknetabát, sem var á leið til Noregs með afla af Íslandsmiðum. Þar dvaldi hann næstu tíu árin við störf bæði á sjó og í landi án nokkurs sambands við fjölskyldu eða vini í heimahögum. Á fyrstu árum útvarpsins þóttu hlustunarskilyrði víða úti á landi mjög ábótavant. Erlendar útvarpsstöðvar voru svo sterkar að þær yfirgnæfðu íslenska útvarpið og heyrðist þá oft lítið annað heldur en brak og brestir. Þegar svo bar undir var brugðið á það ráð að svissa yfir á norska útvarpið og hlust á fréttaflutning þaðan. Það var því oft komið við í Geysi til það spyrja frétta af gangi heimsmálanna á stríðsárunum. Þar komu menn ekki að tómum kofum, þar sem Karl hafði á sínum tíma náð góðum tökum á að tala og skilja norsku, dönsku, ensku og smá hrafl í þýsku.

Fljótlega eftir að þeir bræður keyptu Geysi og fluttu þangað, stofnuðu þeir til landbúskapar eins og þá tíðkaðist á öllum heimilum. Þeir byggðu útihús bæði hlöður, fjós og fjárhús á svæðinu framan undir Hlíðarendaklettinum og fengu sér kýr, kindur, hesta og hænsni til að framfleyta sér og sínu fólki.

Ingimundur hafði öðlast afnotarétt af jörðinni Borgargarði eftir daga Stefáns Guðmundssonar faktors hér á Djúpavogi. Borgargarður var hjáleiga frá Búlandsnesi og talin góð hlunnindajörð en henni fylgdu m.a. varpeyjarnar Kálkur og Grunnasundsey. Í Borgargarði hafði hann grasnytjar fyrir bústofn sinn á móti Sigurgeir Stefánssyni frá Hamri sem bjó þar með fjölskyldu sinni.

Karl hafði hins vegar grasnytjar meðal annars út á túni austan við voginn sem hann hafði ræktað upp af aurlendi sem liggur í jaðri Bóndavörðunnar og nær í sjó fram. Þar hafði hann upphaflega áformað að byggja íbúðarhús neðst í hallanum og nefndi staðinn “Hallanda”. Þar standa nú tvö stálgrindahús RARIK og Þráins Sigurðssonar útgerðarmanns. Einnig heyjaði hann fyrir bústofni sínum ræktað tún á bakkanum framan við Geysi sem kallaður var í hans tíð Kallabakkinn. Í dag er það rekin verslunin Klörubúð ásamt bílaþvottaplani.

Afkoma Ingimundar Steingrímssonar og fjölskyldu hér á Djúpavogi byggðist á blönduðum landbúskap og hlunnindum tengdum honum, ásamt störfum við póstafgreiðslu og hreppstjórastarfi. Karl Steingrímsson var aftur á móti með minna landbú og þurfti því að leita á önnur mið varðandi afkomumöguleikana fyrir stórt heimili.

Á fyrstu búskaparárum sínum stundaði hann jafnframt sjó á árabát sem hann hafði keypt og hét Langur og var sexæringur með seglum. Árið 1916 keypti hann vélbátinn Síðu-Hall SU-508, í félagi við Elís Jónsson kaupmann í Framtíðinni og Gísla Þorvarðarson bónda í Papey. Síðu-Hallur var 14 tonna eikarbátur smíðaður í Reykjavík og kom nýr til Djúpavogs og var þá stærsti þilfarsbátur sem gerður var út frá austfjörðum. Framan af gekk útgerð m/s Síðu-Halls áfallalaust en þegar að líða tók á, varð taprekstur á útgerðinni. Þann 15. maí árið 1920 var báturinn seldur frá Djúpavogi til Eskifjarðar. Árið 1920 aflaði Karl sér 30 tonna skipstjórnarréttinda. Í framhaldi af því réði hann sig í skipsrúm ýmist sem skipstjóri eða háseti á báta sem komu austan af fjörðum til vetrarvertíðar á Djúpavog. Eftir að Karl hætti sjómennsku vann hann ýmis störf sem til féllu í landi. Hann var skipaður fiskmatsmaður ásamt því að vera löggiltur vigtarmaður í áratugi hér á Djúpavogi Einnig sinnti hann ýmsum trúnaðarstörfum hér í hreppnum og var m.a. aðalendurskoðandi ársreikninga Kaupfélags Berufjarðar og Búlandstinds h/f.

Antonía Steingrímsdóttir sem bjó í Hlíðarhúsi ásamt manni sínum, Emil Eyjólfssyni frá Hlíð á Djúpavogi, var systir þeirra Karls og Ingimundar. Þau hjón eignuðust 8 börn og var alla tíð mikill samgangur milli systkinanna og þeirra barnmörgu fjölskyldna. Ingimundur og Steinunn eignuðust 10 börn sem voru: Óskar, Margrét, Fanney, Svava, Aðalheiður, María, Steingrímur, Eggert, Valgeir og Jens.

Árið 1941 þann 10. mars misstu þau son sinn Óskar Ingimundarson 32 ára gamlan í því hörmulega slysi þegar togarinn Reykjaborg var skotin niður af þýskum kafbáti 140 sjómílur norður af Skotlandi þegar hann var á leið til Bretlands með ísaðan fisk. Reykjaborgin var þá stærsti íslenski togarinn, 685 smálestir að stærð, byggður í Frakklandi árið 1927. Með skipinu fórust 13 manns. Óskar lét eftir sig ungan son að nafni Ingimundur Óskarsson sem er fæddur 4. desmeber árið 1934. Móðir hans hét Unnur Sigurðardóttir og var hún ættuð frá Urðarteigi við Djúpavog. Þegar slysið átti sér stað var Ingimundur Óskarsson til heimilis hjá Ömmu sinni og afa, þeim Steinunni og Ingimundi í Geysi sem síðan gengu honum í foreldrastað.

Árið 1947, þann 22 apríl, seldi Ingimundur Steingrímsson neðri hæðina í Geysi ásamt útihúsum, eftir 37 ára búskap þar. Hann keypti þess í stað húsið Framtíð af verslunarmanninum Carli Bender. Kaupandi að Geysi var Kristinn Friðriksson sem ættaður var frá Borgarfirði eystri og Héraði, fæddur 25. ágúst árið 1907. Kona hans var Ágústa Gústafsdóttir frá Lögbergi á Djúpavogi, fædd 11 ágúst árið 1913. Þau höfðu komið til Djúpavogs frá Seyðisfirði árið 1945 og búið í Lögbergi hjá foreldrum Ágústu, þeim Gústaf Kristjánssyni og Jónínu Hjörleifsdóttur þar til þau fluttu í Geysi.

Það sama ár fluttu einnig í Geysi sem leigjendur hjá Kristni og Ágústu, Antoníus Jónsson frá Bjarka á Djúpavogi og Anna Sveinsdóttir frá Vopnafirði. Þau eignuðust þar sitt fyrsta barn árið 1947, stúlku sem hlaut nafnið Ragnhildur Antoníusdóttir í höfuðið á ömmu sinni í Bjarka. Þau bjuggu í Geysi til ársins 1952 að þau fluttu þaðan út í Ásbyrgi og þar dvöldu þau í tvö ár og fluttu síðan til Vopnafjarðar.

Í byrjuðum febrúarmánuði árið 1949 fjölgaði íbúum á neðri hæðinni í Geysi hjá þeim Ágústu og Kristni. Þangað komu til skemmri dvalar frá Seyðisfirði, hjónin Sigríður, systir Ágústu ásamt eiginmanni Ingimundi Guðmundssyni og börnum þeirra þeim Erlu, Jónínu Valdísi og Guðnýju. Þau dvöldu þar fram í maí mánuð það sama ár og fluttu þá aftur til Seyðisfjarðar. Á þessu tímabili eins og svo oft áður í sögu Geysis hefur verið þröngt setinn bekkurinn án þess að nokkur einasta sála kvartaði yfir plássleysi.

Aðalatvinna Kristins Friðrikssonar eftir að hann flutti til Djúpavogs var af útgerð og fiskveiðum á eigin bát. Hann keypti fljótlega eftir að hann kom hingað mótorbátinn Sleipni SU-382 sem var 15 tonna eikarbátur og var áður í eigu svila hans, Sigurjóns Ólafssonar í Vestmannaeyjum sem var giftur Þórunni Gústafsdóttur frá Lögbergi. Þennan bát gerði hann ýmist út á handfæri, línu og netaveiðar ásamt snurpinót.

Árið 1962 þann 31. október kaupir Kristinn Friðriksson einnig efri hæðina af Karli Steingrímssyni sem hafði búið þar, ásamt Björgu Árnadóttur konu sinn og börnum í 52 ár eða rúmlega hálfa öld. Á því sambúðartímabili höfðu þau Björg og Karl eignast 14 börn. Þrjú af þeim dóu mjög ung, það voru Gunnar, Sigríður og Hákon. Þau sem upp komust voru: Steingrímur, Kjartan, Arnór, Ásbjörn, Sigríður Mekkín, Ásgeir, Egill, Hjálmar, Hörður Rögnvaldur, Katrín og Már. Sigríður bjó í sambúð með foreldrum sínum frá árinu 1944 ásamt tveimur börnum sínum, þeim Karli Einarssyni og Ernu Einarsdóttur og var hún alla tíð traustasta stoð heimilisins í þeirri sambúð í Geysi. Í framhaldi af þessari húsasölu fluttu hjónin Karl og Björg, ásamt Sigríði og börnum í íbúðarhúsið Dali sem Már var nýbúinn að kaupa.

Á efri hæðina í Geysi fluttu Friðrik Kristinsson og Þórný Elísdóttir frá Starmýri í Álftafirði en þau voru að stofna sína fyrstu sambúð. Þarna bjuggu þau til ársins 1967 að þau fluttu búferlum frá Djúpavogi suður á Akranes. Það sama ár kaupa þær mæðgur Sigríður Karlsdóttir og Björg Árnadóttir efri hæðina af Kristni Friðrikssyni og fluttu þangað að nýju ásamt börnum Sigríðar, þeim Karli og Ernu. Þann 15. ágúst árið 1969 seldi Kristinn Friðriksson, þá til heimilis að Bakkatúni 22 á Akranesi, Guðnýju Kristrúnu Óskarsdóttur frá Höfn í Hornafirði neðri hæð Geysis. Áður en Guðný Kristrún keypti hæðina af Kristni hafði hún verið búin að leigja hana nokkurn tíma og stofna þar til verslunar og sjoppurekstrar. Þar bjó hún í nokkur ár ásamt ungum syni sínum Óskari Má Guðmundssyni.

Með undirritun á afsali af efri hæð Geysis þann 28. október árið 1977 eru kaupendur Heimir Einarsson Grund á Djúpavogi og sambýliskona hans Ólöf Helgadóttir frá Hornafirði, þá til heimilis að Bjarka Djúpavogi. Seljendur voru handhafar erfingja dánarbúa Sigríðar Karlsdóttur og Bjargar Árnadóttur frá Geysi. Þar bjuggu þau Ólöf og Heimir til ársins 1983 og störfuðu allan þann tíma hjá Búlandstindi h/f við fiskvinnu í frystihúsinu. Það sama ár, þann 21. ágúst seldu þau eignina til Sigurðar Pálssonar, Álftamýri 44, Reykjavík. Hann flutti aldrei inn í íbúðina, né kom austur á Djúpavog til að skoða hana. Hins vegar leigði hann hana út meðan hún var í hans eigu. Endalok þess urðu þau, að íbúðin var seld á nauðungaruppboði þann 23. nóvember árið 1988. Hæstbjóðandi var Búlandshreppur sem bauð kr 50.000 og var það tilboð samþykkt.

Þann 13. nóvember 1984 seldi Kristrún Óskarsdóttir eignarhlut sinn í Geysi en í millitíðinni hafði Bríet Pétursdóttir verslunarkona rekið þar verslun og kvöldsölu frá árinu 1981 til ársins 1982. Kaupandi var Emil Björnsson til heimilis í Kápugili Djúpavogi. Emil hélt áfram verslunarrekstri þeim sem áður hafði verið stofnað til eða þangað til hann seldi eignina þann 14. september árið 1987 Ingvari Snjólfssyni, þá til heimilis í Ásgarði Djúpavogi. Þessa eign átti Ingvar í 4 ár og seldi hana þá Búlandshreppi þann 11. ágúst árið 1991, þá um áttrætt og kominn á öldrunarheimili í Hveragerði.

Með þessum kaupum var Búlandshreppur orðinn eigandi að allri húseigninni Geysi. Frá árinu 1965 voru margir hér á Djúpavogi sem fengu tímabundið húsaskjól í Geysi, bæði til lengri og skemmri dvalar. Hér verða nafngreindir íbúar Geysis á umræddu tímabili án þess að nefna ártöl hvers og eins. Hefst nú upptalningin: Jens Ingimundarson og kona hans Karitas Geirsdóttir ásamt syni þeirra Sigurði Jenssyni. Óli Björgvinsson og Ólöf Óskarsdóttir og sonur þeirra Erlendur Ólason. Emil Ásgeirsson frá Neskaupstað og sambýliskona hans Stefanía Stefánsdóttir frá Vestmannaeyjum. Arnar Már Ingólfsson og Ingibjörg Helga Stefánsdóttir ásamt ungum syni hennar, Gunnari Sigurðssyni. Jón Kr. Antoníusson og Björg Stefa Sigurðardóttir ásamt börnunum Grétu, Karli og Guðnýju Björgu. Svanhildur Karlsdóttir frá Fagrahvammi og sambýlismaður hennar Grettir Ingi Guðmundsson frá Vestmannaeyjum. Björn Jónsson frá Múla í Álftafirði. Eyjólfur Konráðsson frá Kópavogi. Bjarni E Björnsson og Erna Einarsdóttir og dóttir þeirra Sigríður Björg Bjarnadóttir. Karl Jónsson frá Múla og Björg Baldursdóttir frá Hvammi og börn þeirra Sigurborg og Sigurður. Hugrún Svavarsdóttir og Sigrún E Svavarsdóttir Borgarholti. Andrés Skúlason og Gréta Jónsdóttir. Ríkarður Örn Jónsson og Margrét Sigurðardóttir frá Dagsbrún og börn þeirra Guðmundur Theodór, Jóhanna og Kristjana Þórarinsdóttir, dóttir Margrétar. Reynir Gunnarsson frá Hnaukum og Helga Stefánsdóttir ásamt börnunum, Stefáni Þór Kjartanssyni og Ingólfi Reynissyni. Freyr Steingrímsson og Drífa Ragnarsdóttir og dóttir þeirra, Rán Freysdóttir. Harpa Ásgeirsdóttir frá Sætúni og Jónas Guðmundsson frá Reykjavík. Unnþór Snæbjörnsson frá Þiljuvöllum. Ástþór Elís Jónsson frá Svalbarði og Viktoría Una Georgsdóttir móðir hans frá Vestmannaeyjum. Guðbjörg Bára Ólafsdóttir frá Brekku og Einar Ásgeirsson frá Breiðdalsvík. Hallgrímur Marinósson og Arndís Kristín Sigurbjörnsdóttir frá Reykjavík og börn þeirra Margrét Hallgrímsdóttir, núverandi þjóðminjavörður, Kristín Hallgrímsdóttir og Katrín Kristín Hallgrímsdóttir.

Eftir að Búlandshreppur eignaðist allt húsið árið 1991 voru uppi áform um að endurbyggja það frá grunni. Húsið var orðið mjög lélegt og hrörlegt og ekki íbúðarhæft. Málið var sett í hendur Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts sem var falið að endurteikna húsið með þau áform í huga að nýta það sem ráðhús fyrir hinn nýja Djúpavogshrepp og þar verði til húsa auk almennrar skrifstofu, skrifstofa sveitarstjóra og aðstaða fyrir tæknideild sveitarfélagsins og fundaraðstaða fyrir hinn nýja Djúpavogshrepp. Um viðgerðir á húsinu og ástand þess segir Guðrún Jónsdóttir m.a. í greinargerð: Húsið er eins og áður er fram komið tvílyft timburhús með mæniþaki. Upprunalega hefur húsið verið timburklætt en síðar hefur bárujárni verið bætt utan á. Gluggum og hurðum hefur verið breytt í áranna rás. Enn má þó sjá upprunalega gluggagerð á húsinu og sjálf trégrind hússins er heilleg. Geysir stendur á steyptum grunni. Óhjákvæmilegt er að steypa nýjan grunn undir húsið, m.a. vegna þess að rétt þykir að færa það smávegis frá gatnamótum þeim sem það stendur nú við, þannig að það njóti sín betur.
Enn fremur segir hún um viðgerðir á húsinu: Eins og áður er fram komið þarf að steypa nýjan grunn undir húsið. Síðan er áformað að gera við grindina þar sem hún þarfnast viðgerðar, einangra hana og klæða með standandi timburklæðningu af upprunalegri gerð. Ekki er fullkannað hversu mikið af timburklæðningunni er heilt undir bárujárninu, en ætlunin er að nýta það sem heilt er og bæta borðum við eftir þörfum. Á þeim uppdrætti sem fylgir og hér er sýndur, hefur verið reynt að taka mið af gömlum ljósmyndum (eftir Hansínu Björnsdóttur) hvað snertir gluggasetningu. Alla glugga þarf að endurgera og færa í upprunalegt horf. Settur verður trépallur fyrir framan austurhlið hússins, en slíkur pallur mun að sögn hafa verið framan við húsið í eina tíð og hurð út á hann sést á gömlum ljósmyndum. Nýr inngangur er fyrirhugaður á suðurgafli hússins og fjölgað hefur verið gluggum.

Í framhaldi af úttekt Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts á húsinu og teikningum af endurbyggingu þess, hófust framkvæmdir árið 1997 við að byggja nýjan grunn undir húsið. Um þær framkvæmdir sáu trésmíðameistararnir Sigvaldi H Jónsson og Tumi Hafþór Helgason ásamt Ágústi Guðjónssyni frá Trésmiðju Djúpavogs. Nýji grunnurinn var hafður um breidd sína ofan við staðsetningu hússins í áttina að Grýtu og um hálfa lengd sína nær húsinu Sætúni. Árið 1998 var svo húsið híft af gamla grunninum þar sem það hafði staðið í eina öld og yfir á nýja grunninn. Um það verk sáu þeir Trésmiðjumenn, auk þeirra Sigurðar Bjarna Gíslasonar kranamanns og Stefáns Gunnarssonar sem lagði til beltagröfu og kranabíl ásamt Kristjáni Karlssyni.

Um næsta þátt framkvæmdanna sá Ágúst Bogason pípulagningameistari á Djúpavogi en það var að endurbæta allt burðarvirki hússins og klæða það að utan ásamt frágangi á gluggum og hurðum. Auk Ágústar Bogasonar unnu að þessum framkvæmdum trésmíðameistararnir Egill Egilsson og Unnþór Snæbjörnsson ásamt Snjólfi Gunnarssyni. Árið 2000 var svo loka áfangi að verkinu boðinn út. Þann áfanga fengu þeir Egill Egilsson og Snjólfur Gunnarsson sem luku honum að fullu það sama ár. Fyrsti fundur sveitarstjórnar Djúpavogshrepps var haldinn 7. september 2000 í nýjum fundarsal að Bakka 1. Húsið var síðan vígt við hátíðlega athöfn þann 17. júní árið 2001. Í dag heldur þetta sögumerka hús fullri reisn sinni í orðsins fyllstu merkingu. Hótel Geysir hefur fengið nýtt hlutverk á nýrri öld. Þar er nú til húsa að Bakka 1 ráðhús Djúpavogshrepps. Vonandi geymist sagan um fólkið sem þar bjó í sátt og samlyndi í upphafi 21. aldar.

Í nábýli við skyggna konu.

Hér verða rifjaðir upp atburðir frá árunum 1943 og 1944 sem mér eru minnisstæðir frá æskuárum mínum. Það er 14. dagur júnímánaðar árið 1943 og degi tekið að halla. Strandferðaskipið Esja hefur varpað akkerum á skipalegunni fram undan Háuklettum á Innri-Gleiðuvík. Uppskipunarbáturinn Alpa er á fullu stími út að skipinu til að ferja í land farþega, póst og vörur. Litlu seinna er knúið dyra á heimili foreldra minna í Geysi á Djúpavogi. Úti fyrir standa maður og kona á miðjum aldri ásamt 12 ára dreng. Þarna voru komnir farþegar úr Esjunni, sem var að koma frá Reykjavík. Eftir að hafa heilsað, bera þau upp erindi sitt, sem var það að falast eftir húsnæði um óákveðinn tíma, eða þar til að úr rættist í þeim málum á annan hátt. Þetta var óvænt uppákoma án nokkurs fyrirvara eða skilaboða. Eftir að hafa hlustað á skýringar ferðalanganna og vandræði þeirra var ákveðið, þrátt fyrir þröngan húsakost, að verða við beiðni þeirra fyrst um sinn.

Tildrög þessara búferlaflutninga austur á Djúpavog voru að sögn þeirra þau að karlmaðurinn, sem ættaður var að austan, hafði flust til Reykjavíkur fyrir mörgum árum og gerst þá, ásamt fleiri vinnufélögum, kostgangari hjá konunni og eiginmanni hennar. Skyndilega höfðu ósættir blossað upp milli hjónanna og allt farið í bál og brand, með þeim endi að eiginmaðurinn vísaði konunni á dyr ásamt syninum. Kostgangarinn, sem var gæðablóð hafði líkað vistin vel hjá hjónunum vildir nú launa eldið og hlaupa undir bagga með konunni í þessum raunum hennar. Án þess að hugsa málið ofan í kjölinn eða gera viðeigandi ráðstafanir bauð hann konunni og syni hennar með sér austur á Djúpavog, þar sem þau myndu hefja sambúð. Framhald þessa máls var á þann veg að sambýlismaðurinn hófst strax handa við að byggja lítið timburhús í þorpinu og rækta í kringum það smá túnblett. Um vorið 1944 var húsið að verða tilbúið til afnota og áform höfð uppi um dagsetningu á flutningi frá Geysi í nýja húsið. En áður en af því varð kom heldur en ekki babb í bátinn. Einn góðan veðurdag birtist allt í einu eiginmaður konunnar, kominn alla leið frá Reykjavík, öllum að óvörum og tilkynnti í heyranda hljóði án þess að blikna, að hann væri kominn til þess að sækja sína lögmætu eign og fara með til Reykjavíkur. Endalok málsins urðu þau, eftir töluvert þref og vandræði, en án mikils hávaða, að húsbyggjandinn gaf sig og flutti inn í nýja húsið, en konan, maðurinn og sonurinn biðu í Geysi eftir fyrstu ferð Esjunnar suður.

Kona sú sem um er getið hér að framan er mér mjög minnisstæð vegna mikilla dulrænna hæfileika og skyggnigáfu. Hún lét í fyrst lítið á þessum hæfileikum vera og var mjög umgengnisgóð og hógvær. Hún kynntist ekki mörgum hér í þorpinu þennan tíma, en þeir sem hún umgekkst voru vinir hennar. Hún þurfti stundum að spyrja spurninga um fólk sem varð á vegi hennar og hún sá, en aðrir ekki. Lýsti hún því fólki á nákvæman hátt þannig að ekki varð um villst, hjá þeim sem til þekktu, hver var á ferð.

Eitt sinn voru þeir faðir minn, Karl Steingrímsson og Gústaf Kristjánsson í Lögbergi að drekka kaffi og spjalla saman í eldhúsinu heima. Aðrir viðstaddir voru móðir mín, Björg Árnadóttir, og sá sem þetta ritar. Allt í einu stendur skyggna konan í eldhúsdyrunum vegna smá erindis sem hún átti við móður mína. Hún hafði stuttan stans, en horfði viðstöðulaust á auðan stól sem stóð skammt frá kolaeldavélinni gegnt þeim sem kaffið drukku. Áður en hún yfirgaf eldhúsið spurði hún viðstadda um hvaða aldraði maður sæti á stólnum við eldavélina. Því næst lýsti hún manninum mjög nákvæmlega. Ég starði á auða stólinn meðan þessu fór fram og það fór hrollur um mig og ég varð smeykur. Foreldrar mínir voru farnir að venjast slíkum lýsingum konunnar, en Gústaf brá mjög í brún, því þarna fór fram lifandi lýsing á föður hans sem látist hafði fyrir allmörgum árum.

Það leið þó nokkuð langur tími þar til ég vogaði mér að setjast í þennan umrædda stól, sem ég taldi að væri fyrir þá ósýnilegu sem kæmu í heimsókn. Andalækningar stundaði konan lítilsháttar á meðan hún dvaldi á Djúpavogi. Fólk mætti til hennar á kvöldin og dvaldi þar í um eina klukkustund. Breitt var fyrir glugga með þykkri ábreiðu og hljótt þurfti að fara í íbúðinni meðan athöfnin fór fram, því ekkert mátti trufla samband milli hennar og læknisins að handan. Þeir sem reyndu þennan lækningarmáta voru sterktrúaðir og töldu sig fá bót meina sinna eftir nokkrar mætingar. Ekki voru peningar í spilum hjá henni við þessi lækningastörf, það sagði hún sjálf að væri stranglega bannað af þeim sem veitti sér andlega styrkinn.

Einnig hafði þessi skyggna kona þá dulrænu hæfileika að geta spáð fyrir um hrakninga, slysfarir og dauðsföll. Þessum hæfileikum flíkaði hún lítt á meðal manna, en var dul á svip ef eitthvað óvænt var í aðsigi. Eitt sinn sagði hún móður minni frá því að ýmislegt ætti eftir að ganga á hér í þorpinu og m.a. að synir hennar ættu eftir að komast í hann krappann ásamt fleirum. Hún bað hana jafnframt að halda ró sinni, því þetta ætti eftir að fara vel að lokum. Meira vildi hún ekki tjá sig um máliðþótt eftir því væri gengið. Þessi frásögn fór ekki vel í menn og þótti nokkuð djörf framsetning hjá jafn orðvarri konu. En það leið þó ekki mjög langur tími þar til þessir spádómar rættust, og það á eftirminnilegan hátt. Hér verður nú greint frá atburðum.

Þann 25. janúar árið 1944 gekk aftakaveður með hríðarbyl yfir sunnanverða Austfirði. Þann dag, snemma morguns, höfðu níu trillubátar róið til handfæraveiða í góðu veðri inn á Berufjörð. Á þessum bátum voru 29 sjómenn. Dagana þar á undan hafði verið mokafli á handfæri og mikil fiskigengd í Berufirði. Stutt stím var á miðin, og héldu bátarnir sig yfirleitt miðfjarðar á svæðinu frá Teigartanga austur undir Tittlingshólma. Þegar svo hagaði til var fyrirhyggjan oft minni heldur en þegar lengra var sótt á mið. Áhafnir þessara litlu báta samanstóðu yfirleitt af miklum skyldleika, og ekki síður ef fiskurinn veiddist við bæjardyrnar. Upp úr miðjum degi skellti yfir aftaka norðan hvell með koldimmum byl og töluverðu frosti, svo að ekki sást á milli húsa. Allir bátarnir sem voru á veiðum inni á firðinum þegar veðrið skall á lentu í margs konar hremmingum, að einum undanskildum, sem náði til hafnar á Djúpavogi. Einn bátur náði landi í botni Berufjarðar og var settur þar upp á land. Þrír bátar náðu landi í Eyfreyjunesvíkinni og brotnuðu tveir þeirra. Bátur sigldi upp í sand austan við Búlandsá. Einn fékk brotsjó á sig úti á firðinum og fékk færi í skrúfu og rak að landi. Búið var að fella mastrið til að freista gæfunnar að bjarga sér á því í land. Á síðustu stundu fór vélin í gang og báturinn komst til hafnar með áhöfnina sem voru fjórir feðgar og einn að auki, heila á húfi.

Seint um kvöldið fór veðrið að ganga niður, og hraktir sjómenn að skila sér heim. Um klukkan tvö um nóttina höfðu menn fréttir af því að allar áhafnir bátanna höfðu skilað sér heilu og höldnu heim, en tveggja báta var saknað. Á öðrum bátnum voru fjórir bræður mínir ásamt fimmta manni. Það var ekki mikið sofið í Geysi þá nóttina, heldur gengið um gólf. Um morguninn mætti ég syni skyggnu konunnar á ganginum. Hann sagði mér þá frétt að bræður mínir væru allir á lífi og myndu fljótlega koma heim innan úr firði. Hann sagði jafnframt að móðir sín hefði séð öll sjóstígvél þeirra í hrúgu á neðri gangi um morguninn. Þetta gekk eftir, því báturinn hafði legið fyrir föstu á sæstreng sem liggur yfir fjörðinn. Vélarbilun hafði orðið um kvöldið og akkeri verið varpað. Upp úr klukkan níu um morguninn lagðist báturinn að bryggju í góðu veðri.

En ekki var allt afstaðið. Fjórum dögum seinna, eða þann 29. janúar skeði sá hörmulegi atburður að bát hvolfdi inn á vognum þegar hann átti skammt eftir inn að bryggju. Áhorfendur að þessum harmleik voru margir íbúar í þorpinu. Báturinn var að koma frá því að sækja póst og annan varning út í skip sem lá á skipalegunni. Um borð í bátnum voru tíu menn. Níu manns var bjargað, en einn maður drukknaði. Báturinn var dreginn á hvolfi upp að hlið á skipi sem lá þar við bryggju að taka fisk til útflutnings. Bóma skipsins var notuð til að hífa bátinn upp og brjóta gat á lúkar en þar var einn unglingspiltur á lífi mjög aðframkominn. Sá piltur var fimmti bróðirinn sem á stuttum tíma hafði lent í hremmingum sem spáð hafði verið fyrir um og bjó í nábýli skyggnu konunnar í Geysi.

--
Djúpavogi í nóvember 2007
Már Karlsson

Heimildir:
Héraðssafn Austfirðinga
Sýsluskrifstofan Eskifirði
Fasteignamat Ríkisins Egilsstöðum
Teiknistofan Tjarnargötu 4 Reykjavík
Bókin: Undir Búlandstindi
Bókin: 400 ár við voginn
Bókin: Virkið í Norðri, III bindi

Var efnið hjálplegt?