Djúpivogur
A A

Ingþór og Hammond

FERÐIN LANGA


Forsaga málsins er sú að í janúar á þessu ári ákvað ég að skella mér á Hammondhátíð á Djúpavogi. Ég átti inni nokkra frídaga frá fyrra ári og ákvað að nota þá í þessa heimsókn. Ég var tímanlega í því og pantaði flug og skráði mig í frí, Ólafía konan mín ákvað að koma með þar sem það hentaði vel út af hennar námi. Flugmiðinn var klár og fríið skrásett.

Eftir því sem tíminn leið bættust fleiri fjölskyldumeðlimir í hópinn sem ætluðu á Hammond og var svo komið að við öll systkinin, foreldrar og góð gusa af ættmennum og vinum ætluðu að koma á hátíðina. Við Olla vorum búin að fá far með Gísla bróður og Tobbu til Djúpavogs, við vildum vera snemma í því og keyra á miðvikudeginum svo að við gætum slappað af og hitt vini og ættingja.

Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér upp á síðkastið, það kemur fyrir að verklok og verkefni breytast án fyrirvara og það gerðist einmitt núna rétt fyrir Hammondhátíðina. Ég þurfti að fara á olíuborpall og vinna í nokkra daga. Þessi framkvæmd átti ekki að taka langan tíma og ef allt stæðist kæmi ég heim tveimur dögum fyrir brottför til Íslands. Ef að verkið myndi dragast á langinn yrði ég leystur af og nýr maður sendur út.

Daginn eftir að ég kem út á pallinn les ég það í fréttum að það sé byrjað að gjósa í Eyjafjallajökli, og að öllum líkindum yrði flug í Evrópu fyrir einhverri röskun. Það var ekki fyrr en sólahring seinna sem það kom í ljós hversu slæmt ástandið var, það var lokað fyrir allt þyrluflug í Norðursjóinn auk þess sem það var lokað fyrir stóran part af millilandaflugi í Evrópu. Ég hugsaði með mér að þetta myndi nú reddast og ég kæmist heim áður en Hammond myndi byrja.
Dagarnir líða og fréttir um opnun og lokun koma á víxl en þó aðallega lokanir. Ég sit fastur úti í Norðursjó og fæ að heyra það regulega um frá Norðmönnunum að þetta sé mér að kenna og nú komast þeir ekki heim (þó svo að innst inni hafi hlakkað í þeim því að fyrir einn auka dag fá þeir allt að 200.000 kr).

Við áttum pantað flug til Íslands 18. apríl, ég komst af borpallinum 19. apríl og þurfti að mæta í vinnu daginn eftir til að skila af mér verkinu. Um kvöldið var allt flug eðlilegt og við höfðum engar áhyggjur. Við mættum á flugvöllinn eldsnemma morguninn 21. apríl. Við þurftum ekki að bíða lengi áður en við fengum að vita það að fluginu okkar var aflýst, það þýddi að við myndum ekki ná Íslandsfluginu. Við spurðum að því um leið og við bókuðum nýtt flug hvort að við ættum að koma okkur til Oslóar þennan sama dag til að vera örugg. Nei,þess ætti ekki að þurfa, var svarið. Flugsamgöngur eru að verða nokkuð eðlilegar aftur og tókum við því sem góðu og gildu svari.

22. apríl kl. 06:00 vorum við 500 metra frá flugvellinum þegar að við heyrðum í fréttunum að það væri búið að loka flugvellinum í Bergen, við fórum af sjálfsögðu inn í flugstöðina til að athuga málið og það var rétt sem kom fram í útvarpinu, búið að aflýsa fluginu til Osló og þar með var það úr sögunni að komast til Íslands þann daginn. Við brunum heim og sé ég það á Facebook að einn Djúpavogsbúi er strandaglópur á flugvellinum í Bergen. Ég býðst til að sækja hann svo að hann þurfi ekki að hanga úti á flugvelli allan daginn og það þáði hann með þökkum. Þar með var Óskar litli á Bragðavöllum kominn í hópinn.

Til að gera langa sögu stutta fórum við þrisvar út á flugvöll þennan dag til að reyna að koma okkur til Oslóar, skárra að vera þar en hér. Síðasta flugið átti að fara kl 19:15 og vorum við öll bókuð í það, en því var frestað eins og öllu öðru flugi sem við áttum að fara í þennan sama dag. Á meðan við horfðum á skiltin um að SAS væri búið að fresta fór hver flugvélin á eftir annarri frá Norwegian í loftið, greinilega ekki unnið eftir sömu starfsreglum hjá þessum félögum, spurning hvort er réttara.

Við vorum búin að ákveða að koma okkur til Oslóar hvað sem það kostaði, nú var flugið úr sögunni og þá voru tveir möguleikar eftir, lest eða keyra, en um það leyti sem við vorum að skoða þessa möguleika kom tilkynning um að Keflavík yrði mjög trúlega lokað á morgun. Því var ekkert vit í að vera fastur í Osló og ákváðum við að vera heima.
Aðfaranótt 23. apríl, milli kl 2 og 3, fékk ég svo sms frá SAS þar sem þeir sögðu að það væri búið að fresta fluginu til Íslands frá Osló, það var ósköp gott að við fórum ekki af stað til Oslóar því að þá  værum við strandaglópar þar.
Þess má einnig geta að þjónustan hjá SAS hefur verið mjög góð.

Föstudagsmorguninn 23. apríl vaknaði ég svo upp við þrumur og eldingar, kom mér fram úr bælinu og sá þá að allt var orðið hvítt. Það var því ekkert annað í stöðunni en að kveikja upp í arninum og leggjast upp í sófa, þar sem ég settist niður og hripaði þessa ferðasögu.

Hver veit nema að maður komi á næstu Hammondhátíð.

Bestur kveðjur;
Ingþór

Þess ber að geta að Ingþór Sigurðarson komst loks til Íslands föstudaginn 30. apríl, 12 dögum eftir upphaflegan brottfarardag. Síðast þegar undirritaður vissi af honum (þriðjudagskvöldið 11. maí) þá var Ingþór enn fastur á Íslandi og búinn að vera það síðan 9. maí. Þessi ferð hans Ingþórs stendur því sannarlega undir nafninu „ferðin langa“.

ÓB

Var efnið hjálplegt?