Djúpivogur
A A

Ingþór í Bergen

Fyrir nokkrum vikum kom útsendari djupivogur.is á tal við mig og spurði mig hvort að ég væri til í að skrifa lítinn pistil á vefsíðu Djúpavogshrepps undir nafninu brottfluttur Djúpavogsbúi. Ég svaraði játandi og hef dregið það nokkuð á langinn að skrifa pistilinn en þar sem ég ligg á meltunni milli jóla og nýárs ákvað ég að skrifa nokkrar línur.

Ingþór Sigurðarson frá Vegamótum.

Snemma á árinu 2005 ákváðum ég og Olla að halda í nám erlendis, við skoðuðum nokkra skóla og möguleika og komumst að niðurstöðu að við færum til Danmerkur.  Við höfðum búið áður í Danmörku og vissum því hvað við værum að fara út í, ég ætlaði að fara í margmiðlunarnám en margir framhaldsskólar í Danmörk bjóða upp á það og þá var bara að finna skóla fyrir Ollu.  Hún hún hafði áhuga á að fara í teiknimyndahönnun og sendum við inn umsókn til Danmerkur og fékk ég inn en Olla ekki.  Til vara hafði Olla sent inn umsókn í arkitektaskóla í Bergen í Noregi. Eftir ekki svo langan tíma kom jákvætt svar frá skólanum í Bergen og Olla beðin um að koma í viðtal með mjög skömmum fyrirvara.  Flug fram og til baka var mjög dýrt og fékk hún því símaviðtal, og án þess að hafa talað norsku nokkru sinni á ævinni, tók hún símaviðtal og fékk inn í BAS (Bergen Arkitekt skole).

Ég tók það ekki í mál að sleppa þessu tækifæri og sagði að ég gæti alveg eins fundið mér skóla í Bergen eins og í Danmörku, raunin varð svo önnur og fór ég á vinnumarkaðinn og uni mér vel.

Að flytja milli landa krefsta undirbúning og skipulags.  Ganga þar frá lausum endum og ganga í gegnum ákveðna pappírsvinnu.  Þar sem námið hjá Ollu er 5 ár ákváðum við að selja íbúðina okkar í Reykjavík, einnig seldum við bílinn og hentum gríðarlega mikið af búslóðinni (sem mátti alveg gerast). Merkja þarf alla kassa og skrifa innihald fyrir tollayfirvöld í því landi sem flutt er til, ef það er ekki gert getur tollurinn opnað alla kassa og skoðað í þá og svo þarf maður sjálfur að ganga frá því.  Því er betra að gera þetta almennilega og sleppa svið óþarfa óþægindi.

Þann 23. ágúst komum við til Bergen eftir að hafa skoðað okkur um í Færeyjum og fengið tásveppi á gistiheimili í Þórshöfn. Ferðin með Norrænu var frekar óspennandi enda tókum við ódýrasta ferðamátann, vorum í 9 mannaklefa og sváfum með farangurinn til fóta.

Við höfðum leigt íbúð í gegnum netið en þekktum engan sem gat skoðað hana fyrir okkur þannig að við renndum blint í  sjóinn í þeim efnum.  Fólkið sem við leigðum af kom og sótti okkur á bryggjuna þar sem Norræna kom að, sýndi okkur íbúðina og skutlaði okkur í IKEA þar sem við keyptum okkur nýtt rúm. Búslóðin átti að koma nokkrum dögum seinna. Við keyptum málningu og máluðum íbúðina hátt og lágt enda ekki vanþörf á.  Íbúðin var í raðhúsi við hliðina á mótorveginum, stanslaus umferð og dekkjaniður allan sólahringinn. Með eina íbúð fyrir ofan og 2 fyrir neðan vorum við föst í það minnsta í eitt ár eftir að hafa skrifað undir leigusamning. Fólkið sem við leigðum af átti þessa íbúð á 4 hæðum og leigði hana út til stúdenta. Leigan var há og standardinn á íbúðinni var lágur. Eftir að hafa beðið eftir búslóðinni í 2-3 vikur koma hún fyrir rest en þó allt of seint og ekkert stóðst af því sem við vorum búin að semja um við flutningaaðilann. Búslóðin kom þó að lokum og náðum við að koma okkur vel fyrir í hávaðasamri íbúðinni.

Olla byrjaði í skólanum og ég fór í atvinnuleit og eftir að hafa sent inn nokkrar umsóknir fékk ég jákvæð svör frá nokkrum fyrirtækjum. Það var eitt sem ég hafði sérstakan áhuga á og komst ég þar inneftir að hafa verið í Bergen í 2 mánuði. Það er fyrirtækið Möller sem er með umboð fyrir Volks Wagen. Með mína menntun (bifvélavirki) og reynslu af VW hentaði þessi vinna mér vel og ég kunni strax vel við mig.

Að flytja í nýtt land er ekki eins og flytja frá Djúpavogi til Reykjavíkur, aðrar hefðir, annar kultúr, öðruvísi matur, annað verðlag og öðruvísi umhverfi.  Noregur er kannski ekki mesta breytingin í þeim efnum en það er samt alltaf einhver breyting.

Fyrir það fyrsta þurftum við að skrá okkur inn í landið og fá norska kennitölu.  Eins og nútíma fólk þarf maður að vera í sambandi við umheiminn og fá síma og internet. Það gekk vel að skrá sig inn í landið og fá kennitölu, þó svo að það gerðist ekki samdægurs.  Hér ganga hlutirnir ekki eins hratt fyrir sig eins og á Íslandi.  Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér, hvers vegna gátu þeir bara ekki klárað þetta strax? En nei þetta þarf að fara sína leið og tekur sinn tíma. Ég hélt að það hefði tekið langan tíma að fá kennitöluna en það var bara byrjunin á biðinni, að fá síma gekk ekki vel, fyrst að ég hafði enga sögu í landinu og ekki skráður með neinar tekjur fékk ég ekki síma.  Þjónustan er í lágmarki og enginn veit hvað á að gera, það er eins gott að hafa æðruleysið í lagi.  Að sækja um internet var ein mesta þolraun sem við þurftum að ganga í gegnum.  Við ætluðum að sækja um hjá Telenor sem er ríkisrekið símafyrirtæki þeirra norðmanna en ég fékk að vita eftir margar vikur að ég fengi ekki tenginu því ég var ekki með neinar tekjur á síðasta ári.  Engu breytti þó ég kæmi með staðfestingu frá vinnunni um að ég væri með fastar tekjur.  Við skiptum um fyrirtæki og við tók margra mánaða vesen með tenginu og þjónustuver dauðans.  Norðmenn hafa það sko ekki ókeypis, að hringja í þjónustuverið sitt því það er rándýrt og fengum við himinháa reikninga meðan við vorum að standa í þessu.  Á endanum skrifuðum við þeim hótunarbréf og færðum okkur annað og höfum verið þar síðan, eins ánægð og hægt er að vera með norska internettengingu.

Eftir að hafa verið í Bergen í 6 mánuði ákváðum við að kaupa okkur íbúð, leigan hjá okkur var dýr og staðsetning ekki sem best.  Að kaupa íbúð í Bergen gekk mjög vel, mikið meiri fagmennska en á Íslandi og auðveldara. Við þurftum bara að sýna fram á að við áttum pening á reikningi og þá sá fasteignasalinn um allt, mælti með banka við okkur og greiðslumat gekk fljótt fyrir sig.  Það skiptir þó að sjálfsögðu máli að við áttum pening frá sölunni á íslensku íbúðinni.  Skoðun íbúða er þó talsvert meira stress.  Það er til dæmis ein sýning sem oft er vel mætt á og svo streyma tilboðin í íbúðina inn dagana eftir og verðið hækkar oft upp úr öllu valdi.  Manni er boðið að vera með í svona „boðhring“ sem er lokaður fjöldi einstaklinga sem hefur áhuga á íbúðinni og bjóða svo eins og þeir geta þangað til íbúðin er þeirra.  Við vorum heppin og ekki margir sem buðu enda var íbúðin illa máluð með ljótu baði.  Við keyptum íbúðina og gerðum upp baðið og máluðum hátt og lágt og í dag eigum við okkar eigin íbúð á rólegum og góðum stað, stutt í bæinn og stutt í vinnuna.

Verðlag og kaupmáttur er ekki ósvipaður og á Íslandi, matvara er svipuð, föt eru ódýrari, rafmagnstæki eru ódýrari, bílar eru dýrari. Þannig á heildina litið kemur þetta svipað út, ísland er örlítið dýrara. Skatturinn er þrepaskiptur; hærri laun, hærri skattar. Þegar að skatturinn er gerður upp er hann opinn öllum og getur hver sem er farið á netið og séð hvað nágranninn eða forstjórinn hafa haft í laun og hvað þau eiga inni á bankabók, allt galopið.

 Eftir að hafa lent í þessum flutningsraunum sem ég lýsti hérna á undan er ég mjög ánægður í Bergen. Hér ótrúlega fallegt og borgin full af lífi. Á sumrin er allt fullt af ferðamönnum og á veturna iðar allt í skólafólki. Eftir að hafa pirrast á að hlutirnir gangi hægt fyrir sig hérna í byrjun er ég orðinn vanur þessu og eiginlega bara nokkuð ánægður, ekki þetta stress og kapphlaup sem Íslendingarnir eru alltaf í, lífsgæðakapphlaupinu.

Bergen er bær og sveitarfélag sem er í Hordaland fylki.  Næst stærsti bær Noregs með 247.123 íbúa (1. Október 2007) og er oft nefndur höfuðstaður vesturlands.

Bærinn er við ströndina og er umkringdur 7 fjöllum sem eru Sandviksfjellet, Fløyen, Ulriken, Løvstakken, Damsgårdsfjellet, Lyderhorn, og Askøyfjellet.

Gamla nafnið á Bergen er Bjørgvin, sem þýðir „engið milli fjallanna“

Í Bergen er starfrækt íslendingafélag, www.isbjorg.org sem hefur haldið uppi dagskrá fyrir 17. júní, þorrablót, messu og jólaball. Í félaginu eru milli 50 og 100 einstaklingar skráðir.

Bergen er fótboltabær. Brann, fótboltalið þeirra, vann í fyrsta skipti í 44 ár norsku deildina í ár. Ég hef ekki verið mikil fótboltabulla í gegnum tíðin en í ár fór ég á alla heimaleikina og í fyrra næstum alla. 3 Íslendingar eru í Brann, Kristján Örn Sigurðsson, Ármann Smári Björnsson og Ólafur Örn Bjarnason. Sjálfsagt er Ármann Smári einhverjum kunnugur því hann kemur frá Höfn og hefur spilað oft á móti Neista með misgóðum árangri.

Bergen er þekkt fyrir rigningu, rigningu, rigningu.  Þrátt fyrir mikla rigningu líkar mér veðráttan hérna mikið betur en veðráttan á Íslandi, hér kemur rigningin niður en ekki í andlitið og hnakkann samtímis eins og á íslandi. Út af fjöllunum 7 sem umlykja Bergen rignir mikið hérna, árið 2006 voru skráðir 236 rigningadagar og 2512 mm úrkoma, sjaldan fara rigningadagarnir niður fyrir 200 á ári. 21. Janúar 2007 var slegið nýtt met í fjölda rigningadaga  í röð, en þá voru skráðir 84 rigningadagar í röð, gamla metið var frá 1975 og voru 59 dagar.

Meðal hiti:

Jan

Feb

Mars

Apr

Mai

Juni

Juli

Aug

Sep

Okt

Nov

Des

Árið

Bergen

1,3

1,5

3,3

5,9

10,5

13,3

14,3

14,1

11,2

8,6

4,6

2,4

7,6

http://no.wikipedia.org/wiki/Bergen

Nú höfum við búið í Bergen í 2½ ár og annað eins eftir af náminu hjá Ollu, ég hef tekið ákvörðun um að fara ekki í nám eins og staðan er í dag.

Með nútíma tækni er mjög auðvelt að vera í samskiptum við vini og ættingja, netið á hverju heimili og símatæknin þannig að nú hringi ég frítt á milli landa. Ég hef haldið úti vefsíðu þar sem ég skrifa um daginn og veginn, þar sem fólk getur fylgst með hvað ég er brasa þá stundina. www.ingthor.com

 

Með Kveðju frá Bergen,
Ingþór Sigurðarson

 


Var efnið hjálplegt?