Djúpivogur
A A

Kvenfélagið Vaka

Núverandi stjórn skipa:

Ingibjörg Stefánsdóttir formaður, Bergþóra Birgidóttir varaformaður
Gréta Jónsdóttir ritari, Stefanía Hannesdóttir vararitari
Steinunn Jónsdóttir gjaldkeri, Drífa Ragnarsdóttir varagjaldkeri

Kvenfélagið Vaka var stofnað 9. desember 1928
Stofnfélagar voru 16


1. Marsilína Pálsdóttir Rjóðri
2. Kristbjörg Sveinsdóttir Kaupfélagi
3. Sigríður Hansdóttir Hrauni
4. Guðrún Aradóttir Framnesi
5. Anna Jónasdóttir Bjargi
6. Guðleif Bender Framtíð
7. Guðlaug Sigurðardóttir Sólvangi
8. Guðrún H. Stefánsdóttir Hvarfi
9. Rósa Eiríksdóttir Sunnuhvoli
10. Þórunn Ingvarsdóttir Hvammi
11. Jónína Hjörleifsdóttir Lögbergi
12. Dagmar Snjólfsdóttir Borgargerði
13. Karólína Auðunsdóttir Svalbarði
14. Berta Hjemgaard Triton
15. Guðný Kristjánsdóttir Ási
16. Helga Stefánsdóttir Hjalla

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu:

Marsilína Pálsdóttir formaður, Sigríður Hansdóttir varaformaður
Rósa Eiríksdóttir ritari, Þórunn Ingvarsdóttir vararitari
Kristbjörg Sveinsdóttir gjaldkeri, Berta Hjæmgaard varagjaldkeri.

Í annarri grein í lögum félagsins segir:
…. að líkna bágstöddum og hlynna eftir megni að framförum á félagssvæðinu Djúpavogi og Hálsþinghá. Má með sanni segja að eftir þessu hafi kvenfélagskonur starfað alla tíð. Á öðrum fundi félagsins sem haldinn var 23. janúar 1929 var ákveðið að halda hlutaveltu til fjáröflunar og skyldi ágóðinn notaður til að borga það sem eftir væri í kirkjuorgelinu og koma ofni í kirkjuna en þar var þá engin upphitun. Kvenfélagskonur hafa alla tíð unnið kirkjunni vel og gefið henni marga góða hluti.

Margir einstaklingar hafa verið styrktir sem hafa átt í erfiðleikum vegna veikinda

Í fyrstu grein í lögum félagsins segir:
…….. að efla samvinnu og þroska meðlimanna.

Frá byrjun hafa Vökukonur stuðlað að menningu hér á staðnum. Í mörg ár voru sett upp leikrit á þeirra vegum, góufagnaðir, dansleikir, bingó, basarar af ýmsu tagi o. fl. Allt það fé sem inn hefur komið fyrir þessa vinnu, hefur verið notað í þágu íbúanna.
Grunnskólanum hafa konurnar gefið margar stórgjafir,má þar nefna flesta hluti í heimilisfræðina.
Leikskólinn og tónskólinn hafa einnig fengið gjafir frá kvenfélaginu. Dvalarheimilinu Helgafelli var heldur ekki gleymt.

Margt fleira hefur félagið keypt sem hefur komið sér vel fyrir íbúa Djúpavogshrepps. Kvenfélagskonur áttu fósturdóttur í Indlandi sem þær styrktu frá því hún var sex ára til átján ára eða á árunum 1995 2007

Í gegnum tíðina hafa Vökukonur staðið fyrir kaffiveitingum. Á sjötta fundi félagsins kemur fram tillaga í fyrsta sinn, um að selja kaffi. Hefur það haldist í öll þessi ár að konurnar hafa séð um kaffisölur og margar stórveislur, má þar til dæmis nefna þegar nýja kirkjan var vígð, vígsla íþróttahússins, þegar Eysteinsstofa var opnuð o.m. fl.

Ýmis námskeið hafa verið haldin á vegum félagsins í gegnum árin. Má til gamans geta þess að á fyrsta fundi félagsins var komið bréf frá Sigrúnu Blöndal á Hallormsstað þar sem þeim bauðst að fá garðyrkju- konu með vorinu til að leiðbeina um garðrækt

Kvenfélagskonur hafa líka hugsað um að gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sig. Í mörg ár var alltaf lesið á fundum, sögur, ljóð eða greinar eftir virta höfunda, stundum var lagt útaf spakmæli og það rætt.

Ferðalög hafa verið farin, það fyrsta sumarið 1937 og var þá farið inn í Tobbugjót sem er á milli Háls og Strýtu. Seinna voru farnar lengri ferðir og nágrannbyggðir skoðaðar. Leikhúsferðir hafa verið farnar og ýmislegt skoðað. Einu sinni hefur verið farið til útlanda. Konurnar hafa alltaf sungið mikið og er nú nýlega búið að taka saman söngtexta í bók.

Var efnið hjálplegt?