Djúpavogshreppur
A A

Fuglar í Djúpavogshreppi

Fuglar í Djúpavogshreppi

Djúpavogshreppur hefur löngum þótt áhugaverður meðal áhugafólks um fugla og fuglaskoðun.

Einn af kostum þessa landsvæðis fyrir fuglaskoðara er gott aðgengi að óspilltri náttúru þar sem hægt er að sjá flestar íslenskar fuglategundir í sínu náttúrulega umhverfi, án þess að þurfa að leggja á sig mikla göngu eða langt ferðalag. 
Einnig er hægt að ganga að því nokkuð vísu að sjá spendýr eins og seli og hreindýr án mikillar fyrirhafnar.  Nokkur svæði í hreppnum hafa alþjóðlega þýðingu og því ber að vernda þau sérstaklega.  
Fuglalíf í Djúpavogshreppi er mjög fjölbreytt, ekki síður en landslagið.  Þrír, afar ólíkir firðir eru í sveitarfélaginu.  Nyrstur er Berufjörður, mjög vogskorinn og skerjóttur.  Milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar er Búlandsnes, sem þorpið Djúpivogur stendur á.  Á nesinu er mjög fjölbreytt votlendi, miklar mýrar og blár.  Næst taka við tveir firðir, Hamarsfjörður og Álftafjörður þeir eru báðir skilgreindir sem sjávarlón enda eru mikil sandrif og sker fyrir minni þessara fjarða.  Hamarsfjörður er dýpri og saltari.  Syðri fjörðurinn er Álftafjörður sem er grunnt og ísalt sjávarlón með miklum flæðilöndum (Starmýrateigar) og sjávarfitjum að sunnanverðu, þeim mestu á Austfjörðum.  Inn úr þessum fjörðum skerast nokkrir dalir milli hárra fjalla og ná þau hæstu í 1200 m hæð.  Í dölunum er sumstaðar lágvaxinn skógur og töluvert kjarrlendi.  Fjölbreytileiki  náttúrunnar er mjög mikill í Djúpavogshreppi  og á örugglega mjög stóran þátt í því hve fjölskrúðugt fugla- og dýralíf er á svæðinu.

Papey

 hefur verið á náttúruminjaskrá frá 1975 eða frá því skráin kom fyrst út.  Einnig er hún á lista Birdlife International (Alþjóðlegu fugla-samtakanna) yfir mikilvæg fuglasvæði í Evrópu.  Eyjan er um 2 ferkílómetrar að stærð og er landslagið hennar mjög fjölbreytt.  Hún er nokkuð votlend sem gerir hana frábrugðna flestum öðrum úteyjum hér við land.  Eins og í öðrum úteyjum setja sjófuglar mestan svip á fuglalífið og er t.d. talið að um 30.000 pör af lunda verpi í eynni. Fastar áætlunarsiglingar með leiðsögumanni eru út í eyjuna að sumrinu.
Svæðið undir Þvottárskriðum, syðst í Álftafirði, er mjög mikilvægur fellistaður æðarfugls og einnig safnast þar saman stór hluti hrafnsandarstofnsins, vor og haust.  Álftafjörður og Hamarsfjörður eru  hluti af stærra svæði sem hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1981 og einnig á fyrrnefndum lista Birdlife International.  Leirurnar og flæðimýrarnar syðst í Álftafirði að Geithellaá eru mjög mikilvægur viðkomustaður and- og vaðfugla, bæði hvað viðkemur tegundafjölda og fjölda einstaklinga.  Talið er  að allt að 20 % af jaðrakanastofni Evrópu hafi viðkomu þarna á svæðinu. Allt að 3.600 jaðrakanar hafa sést samtímis á leirunum í Álftafirði sem eru taldar einn mikilvægasti viðkomustaður þeirra hér á landi.  Fjallað er um fuglasvæðið í Álftafirði í Bernarviðauka 2, sem er listi yfir tegundir dýra, er ber að friða sökum þess hve stór hluti af heildarvarpstofninum  í Evrópu er hér.  Erlendir aðilar hafa fylgst með komu jaðrakana í Álftafirði og merkt þá í mörg ár. Leirurnar eru af þessum sökum taldar mjög mikilvægar.

Votlendi, tjarnir og fjörur á Búlandsnesi eru einnig mjög mikilvægt varpland votlendisfugla m. a. mjög fjölbreytt andavarp, um 10 tegundir, svo sem brandönd og skeiðönd. Einnig verpir þar flórgoði, lómur og aðrir athygliverðir fuglar.  Fossárvík, við minni Fossár og leirurnar í botni Berufjarðar eru einnig mjög athygliverðir staðir. Við árósa Fossár má oft á tíðum sjá straumendur.

Á svæðinu öllu má einnig finna margar tegundir af vetrar- og fargestum, t.d. tjaldi, tildru, fjöruspóa, sanderlu, rauðbrystingi, haftyrðli, æðarkóng, gráhegra, hvinönd, margæs o. fl. 

Á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa menn á Djúpavogi lengi talið fugla frá Berufjarðará að Hamarsá um hver áramót og má finna þær upplýsingar á vef stofnunarinnar.  http://www.ni.is/

Var efnið hjálplegt?