Djúpavogshreppur
A A

Neisti

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

Þjóðhátíðardagurinn fór vel fram á Djúpavogi og var bærinn fallega skreyttur að venju og hverfin virk í þátttöku í þeim efnum. Þátttaka í sjálfum hátíðarhöldunum var sömuleiðis með allra besta móti og var margt til gamans gert að venju.

Safnast var saman við grunnskólann, þar var boðið upp á andlitsmálun og fleira. Þá var flott skrúðganga frá skólanum inn á íþróttavöll þar sem fjallkonan sem var Elísabet Ósk Einarsdóttir sem flutti ljóð með stakri prýði.

Á íþróttavellinum var farið í ýmsa leiki milli hverfa og tekist á í reipitogi og fleira. Þá var vísir að húsdýragarði þar líka sem að kryddaði mjög upplifun barnanna, en kálfur og kanínur voru meðal dýra sem komu frá þeim Hvannabrekkubændum og þá var tófuyrðlingur einnig þarna til sýnis í boði Didda og Lilju. Vatnsrennibraut var mjög vinsæl og tóku margir ungir sem eldri bunu niður Neistabrekkuna, á flughálum plastdúk sem komið hafði verið fyrir í brekkunni.

Þegar kom að afhendingu verðlauna hlutu einstök hús í hverfunum sérstök verðlaun, í gula hverfinu fengu þau Stebbi og Kristborg Ásta sérstök verðlaun, Stebbi og Nína fengu verðlaun fyrir sinar skreytingar fyrir appelsínugula hverfið og svo fékk Ingibjörg Stefánsdóttir verðlaun fyrir best skreytta húsið í bleika hverfinu.  

Í heildarstigakeppninni vann svo bleika hverfið sem best skreytta hverfið. Hátíðarhöldin fóru fram í blíðskaparveðri og frábært hve góð þátttaka var í öllu og greinilega góð samstaða með allt.  Að þessu sögðu er rétt að þakka stjórn Neista og öðrum þeim sem komu að því að gera þennan dag svo skemmtilegan kærlega fyrir skemmtilegt skipulag og dagskrá.

Myndir má sjá með því að smella hér.

 

AS 

17.06.2014

Handboltalandsliðið á Austurlandi

Tætum hringinn!

Þáttakendur verða Guðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Páll Gústavsson og Aron Pálmarsson
Í sumar munu þessir máttastólpar íslenska landsliðsins í handbolta fara hringinn í kringum landið með viðkomu í nokkrum bæjarfélögum til að kynna og kenna handbolta. Þeir munu nota tækifærið og hjóla sig niður eftir langt keppnistímabil með liðum sínum og landsliðinu.
Í leiðinni munu landsliðsmennirnir safna peningum fyrir góðgerðarmálefni. Sá peningur sem safnast mun renna óskiptur til Barnaspítalans. Einnig verður tekið við áheitum frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Lagt verður af stað 18. júní og fyrsta stopp er á Egilsstöðum 19. júní.
Dagurinn byrjar á því að þeir munu leiðbeina ungu fólki frá 13-16 ára og skráning verður í gegnum facebook síðu ferðarinnar. Þeir munu nota tækifærið og hjóla hluta ferðarinnar. Eftir hádegi munu þeir leiðbeina og leika við yngstu iðkendurnar frá 6-12 ára.
Svo verður smá skemmtun í lokin þar sem landsliðsmennirnir taka þátt.
Þetta verður gert í samstarfi við bæjarfélögin, þjálfara og íþróttakennara á staðnum.
Strákarnir munu gefa sér tíma til að tala við krakkana og vera á myndum.
Dagskrá:
09.00-10.30 – Unglingar, (ca 30stk) Kennsla, stöðvar, fyrirlestur, næring og hugarfar.
10.30-11.30 – Matur og hvíld
11.30-13.00 – börn (eins mörg og húsrúm leyfir)
11.30-11.50 – Fylgst með æfingu(upphitun) strákanna. Því verður lýst á skemmtilegan hátt.
11.50-13.00 – Stöðvar með krökkum. Búnar til 4-5 stöðvar eftir fjölda. Landsliðsmenn taka þátt í þjálfunni með þjálfurum og íþróttakennurum. Leiðbeina og verða með sýnikennslu. (Skotið á Björgvin, uppstökk, fintur, drippl, ofl. )
13.00-13.15 – Smá skemmtun með söng og gleði.
13.00 -14.00 Myndataka og áritanir. Allir fá tækifæri til að láta taka mynd af sér með landsliðsmönnunum og fá áritanir.
14.00 – Landsliðsmenn hjóla af stað.
Hugmyndin er að vekja áhuga og athygli á handbolta á landsbyggðinni.
Öll innkoma mun fara óskipt til Barnaspítalans og hægt er að heita á strákana.
Gerður verður heimildarþáttur um ferðina og fjölmiðlum boðið að fylgjast með. Eins verða samskiptamiðlarnir notaðir til hins ýtrasta.

04.06.2014