Djúpavogshreppur
A A

Neisti

Áramótabrennan 2014

Kveikt verður í áramótabrennunni við Rakkaberg þann 31. desember kl. 17:00.

Björgunarsveitin Bára sér um stórbrotna flugeldasýningu og Umf. Neisti sér um að kveikja upp í brennunni og halda henni á lífi meðan við syngjum nokkur lög.

Þeir sem vilja æfa sig geta séð hér að neðan hvaða lög við ætlum að syngja undir undirspili Kristjáns Ingimarssonar.

Að venju vonumst við eftir fjölmenni við að kveðja gamla árið


Áramótalögin 2014

(texta má finna á veraldarvefnum en textablöðum verður einnig dreift á staðnum)


Máninn hátt á himni skín
Stóð ég út í tungsljósi
Álfadans
Kveikjum eld 
Hún var glæsileg brennan árið 2008 - ætli hún verði glæsilegri núna 6 árum síðar?

30.12.2014

Frá jólasveinunum

Umboðsmenn jólasveinanna munu taka á móti pökkum á Þorláksmessu milli kl 15 - 17 í Íþróttamiðstöðinni. Verð á heimili er 1000kr og ætla jólasveinarnir að gefa Ungmennafélaginu Neista ágóðan til styrktar íþróttaiðkunar barna á Djúpavogi, enda eru þeir miklir íþróttamenn sjálfir. 

Jólasveinarnir verða svo á ferðinni á aðfangadag og færa börnunum pakkana sína. 

Kveðja

Jólasveinaráð

21.12.2014

Sala á síld

Neisti er um þessar mundir að selja síld frá Ósnesi í fjáröflunarskyni.

Búið er að ganga í hús hér á Djúpavogi en þeir sem ekki voru heima og þeir sem búa í sveitinni og vilja síld mega endilega hafa samband á neisti@djupivogur.is eða við stjórnarmeðlimi Neista. Símanúmerið hjá Hönnu er 848-5552 og er velkomið að hringja og panta.

Síldin verður keyrð í hús í kvöld og á mánudag.

Í boði er 1,1kg marineruð síld á 2000kr
Marineruð síld 250gr á 700kr
Kryddsíld 250gr á 700kr
Karrýsíld 240gr 700kr
Sinnepssíld 240gr 700kr
Tómatsíld 240gr 700kr

Bestu kveðjur

Stjórn Neista

19.12.2014

Búningar á Jólabasar!

Neisti verður með borð á Jólabasarnum í Löngubúð frá kl 18-21 í kvöld!
Verðum með gamla búninga til sölu þar sem dyggum stuðningsmönnum Neista gefst tækifæri til að styðja sitt lið og næla jafnvel í sveittan búning af uppáhaldsleikmanni sínum.... Búningar frá hinum ýmsu tímabilum, '70's, '80's og '90's  p.s. börnin fylgja ekki.

04.12.2014

Þakkir frá Neista!

Neisti vill þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir að styrkja jólabingóið okkar með glæsilegum vinningum!
Við viljum líka þakka öllum þeim sem komu, bæði á barnabingóið og fullorðinsbingóið og styrktu Neista með kaupum á einu, jafnvel tveimur, bingóspjöldum ;)

Arfleið - Ásdís Hauksdóttir – Bakkabúð – Bragðavallakot – Brekkan - Efnalaug Dóru Eyfreyjunes - Fiskeldi Austfjarða - Fiskmarkaður Djúpavogs – Fossárdalur - Gulltoppur GK - Hársnyrtisstofa Ellýar - Hárstofa Sigríðar - Hildur Art&Design - Hlíf Bryndís Herbjörnsdóttir - Hótel Framtíð - Hótel Laki - Hótel Jökull – Húsasmiðjan - Húsgagnaval - Íþróttamiðstöð Djúpavogs - Jón Fr. Sigurðsson – Kaffihornið - Klassík Kvenfélagið Vaka - Landsbankinn - Langabúð - Lindarbrekka - Lionsklúbbur Djúpavogs Millibör - Músík og Sport - N1 -  Nettó - Ósnes - PVA / Villi og Gísli - Rafstöð Djúpavogs S.G.vélar - Samkaup Strax - Sérleyfisferðir Hauks Elíassonar - Sigurlaug Helgadóttir Skógræktarfélag Djúpavogs - Sparisjóðurinn - Staupasteinn – Stjörnuhár - Verslunin Lónið Við Voginn - Vísir hf - Þórunnborg Jónsdóttir - Örnin golfverslun

01.12.2014

Samstarfsfundur fyrir foreldra

Mánudagskvöldið 1.desember verður fundur fyrir foreldra barna í grunnskólanum sem hafa áhuga á að sameinast í ferðir á æfingar hjá Sindra hvort sem það er í fótbolta, körfubolta eða fimleika. Fundurinn verður kl 20:00 í Grunnskólanum. Hvetjum alla til að skoða tímatöflurnar hjá Sindra fyrir fundinn og svo skoðum við hana saman á mánudaginn 
www.umfsindri.is

Stjórn Neista

28.11.2014

Jólabingó UMF Neista

Hið árlega jólabingó UMF. Neista verður haldið sunnudaginn 30. nóvember á Hótel Framtíð.

Barnabingóið (13 ára og yngri) hefst kl 14:00, spjaldið á 400 kr.
Fullorðinsbingó (14 ára og eldri) hefst kl 20:00, spjaldið á 800 kr.

Glæsilegir vinningar í boði og hvetjum við alla til að koma og gera sér glaðan dag.

Stjórn Neista

 

 

 

 

27.11.2014

Jólabingó UMF Neista

Hið árlega jólabingó UMF.Neista verður haldið sunnudaginn 30. nóvember á Hótel Framtíð.

Barnabingóið (13 ára og yngri) hefst kl 14:00, spjaldið á 400 kr.
Fullorðinsbingó (14 ára og eldri) hefst kl 20:00, spjaldið á 800 kr.

Glæsilegir vinningar í boði og hvetjum við alla til að koma og gera sér glaðan dag.

Stjórn Neista

 

 

 

26.11.2014

Úthlutun úr Spretti, styrkur frá ÚÍA

Í byrjun Nóvember fengum við hjá Neista 50.000kr styrkúthlutun frá ÚíA og Alcoa fyrir farandsþjálfun.

Stefnt er að því að bjóða upp á fimleika og glímu/Tae kwon do fyrir krakkana okkar að prófa eftir áramótin. 

Í sömu athöfn fékk félagsmiðstöðin Zion 150.000kr styrk til tækjakaupa í félagsmiðstöðina.

Við þökkum Margréti Vilborgu Steinsdóttur kærlega fyrir að veita styrkjunum móttöku og þeir munu svo sannarlega koma að góðum notum.

24.11.2014

Dagar myrkurs

Nú eru dagar myrkurs að ljúka hér í leikskólanum en við höfum brallað ýmislegt í tilefni daga myrkurs.  Í ár var ákveðið að þemað yrði Greppikló og Greppibarnið.

Greppikló og Greppibarnið eru bækur eftir Axel Scheffler og Julia Donaldson og hafa notið mikilla vinsælda um allan heim undanfarin ár en Þórarinn Eldjárn sá um þýðingu á bókunum

Greppikló? Hvað er greppikló?
Hva, greppikló? Það veistu þó! 
Þetta segir litla músin við refinn, ugluna og slönguna sem hún mætir á göngu sinni um skóginn. Þau verða hrædd og þjóta burt þótt músin viti vel að það er ekki til nein greppikló. Og þó … 

"Engin greppikló má," sagði Greppikló, "gera sér ferð inn í Dimmaskóg..."
Greppiklóin er ekki búin að gleyma músinni ógurlegu sem gabbaði hana eitt sinn og því harðbannar hún Greppibarninu að fara inn í skóginn.
En Greppibarnið óttast ekki neitt og eina dimma vetrarnótt læðist það frá mömmu sinni.

 

Við ákváðum því að nýta þessar sögur á dögum myrkurs og unnum með þær þannig að sögurnar lifnuðu við á veggjum og gólfi leikskólans.

Hér er verið að teikna upp og hanna Greppikló, krakkarnir á Tjaldadeild sáu um það

Fótspor Greppiklóarinnar, Greppibarnsins og músarinar

Enduðum svo á því í morgun að horfa á myndirnar um Greppikló og Greppibarnið

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

 

 

Frítt í sund í dag!

Í tilefni af Hreyfivikunni verður frítt í sund í dag, fimmtudag 2. október, fyrir alla frá kl 15:00-20:00.
Hvetjum bæjarbúa til að nýta þetta tækifæri og skella sér í sund með fjölskylduna.

Á morgun, föstudag, verður leikjadagur fyrir alla fjölskylduna f´ra kl 17:00-18:00. Athugið að börn undir 14 ára eiga að mæta í fylgd með forráðamanni. Förum í hlaupískarðið, köttur og mús, stórfiskaleik og sprellum aðeins saman. Leikir fyrir alla!

Laugardaginn 3.október er svo kirkjupúl við gömlu kirkjuna þar sem við hjálpumst að við að rífa klæðninguna utan af kirkjunni. Mæta í viðeigandi fatnaði og með vinnuhanskana á lofti.

Sunnudaginn 4.okt lýkur svo Hreyfivikunni með ævintýragöngu í skógræktinni fyrir alla fjölskylduna.


02.10.2014

Landvörður

Halla Ólafsdóttir, landvörður, kom í heimsókn í Djúpavogsskóla í september. Hún hefur starfað sem landvörður við Herðubreiðarlindir en þar sem eldgos hófst í Holuhrauni var hún send þaðan burt. Hún kynnti Vatnajökulsþjóðgarð fyrir nemendum í 4. og 5. bekk. Þar var rætt um spendýr og fugla sem lifa í garðinum, einkenni þeirra og einnig um þjóðgarðinn sjálfann og einmitt um nafnið þjóð-garður, garður sem þjóðin á og við viljum að eigi um ókomna framtíð. Náttúruvernd og eldgos var nemendum ofarlega í huga í þessari heimsókn. Takk Halla fyrir að koma til okkar. Myndir fylgja þessari frétt.

LDB

Myndir frá 95 ára afmæli Neista

Það var mikið um dýrðir á 95 ára afmæli Neista sem haldið var upp á sunnudaginn 7. september síðastliðinn. Börn og fullorðnir kepptu í hinum ýmsu greinum, boðið var upp á pulsur og svala og svo var glæsileg afmælisterta í eftirrétt.

Myndir frá þessum skemmtilega degi má sjá með því að smella hér.

ÓB

10.09.2014

Tímatafla Neista

Ný tímatafla Neista leit dagsins ljós fyrir helgi og er hægt að skoða hana hér.

Öll börn frá elstu deild í leikskóla til 10.bekkjar eiga að vera komin með eintak af töflunni ásamt skráningarblaði sem skila þarf í grunnskólann mánudaginn 1.september milli kl 10:00 og 14:00. Jóhanna Reykjalín verður á staðnum ef þið hafið einhverjar spurningar.

Ef þið hafið ekki fengið skráningarblöð endilega sendið póst á neisti@djupivogur.is og við kippum því í liðinn.


30.08.2014

Nýr framkvæmdarstjóri og þjálfari

Nú á haustdögum tók við nýr framkvæmdarstjóri hjá Neista sem og þjálfari. Þjálfarinn ætti að vera öllum góðkunnugur en það er hann Rabbi (Rafn Heiðdal) djúpavogsbúi. Hann þjálfaði krakkana í sumar og hlökkum við til að starfa með honum áfram. 
Þjálfari heldur utan um íþróttastarf Neista og er í beinu samskiptum við foreldra. Hann sér einnig um opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Zion og skipuleggur starfsemi Neista í samstarfi við framkvæmdarstjóra og stjórn Neista.

Jóhanna Reykjalín er nýr framkvæmdarstjóri en hún starfar í góðu samstarfi við þjálfara og stjórn Neista sem og foreldra. 
Jóhanna sér um að halda utan um alla starfsemi Neista, sjá um skráningar á námskeið, er tengiliður við ÚÍA, KSÍ og Sundsamband Íslands. Fylgjast með starfsemi nefnda hjá Neista og sjá til þess að hver nefnd sinni sínu. Jóhanna sér einnig um að sækja um styrki ásamt því að skipuleggja starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Zion.

Við bjóðum þessa kraftmiklu einstaklinga velkomna til starfa og reiknum við með skemmtilegum vetri undir þeirra leiðsögn.

30.08.2014

Fótboltaæfing með Sindra

Í dag, 14. ágúst, kl. 16 - 17:30 verður fótboltaæfing á Neistavellinum. Allir krakkar sem hafa áhuga á að æfa og keppa í fótbolta eru hvattir til að mæta. Rabbi og Sævar, þjálfari hjá Sindra, sjá um æfinguna og drengir í 6. og 7. flokk Sindra æfa með okkar fólki. Við hvetjum stelpur og stráka í 8. - 4. flokk að mæta á skemmtilega æfingu. 

Stjórn Neista.

14.08.2014

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

Þjóðhátíðardagurinn fór vel fram á Djúpavogi og var bærinn fallega skreyttur að venju og hverfin virk í þátttöku í þeim efnum. Þátttaka í sjálfum hátíðarhöldunum var sömuleiðis með allra besta móti og var margt til gamans gert að venju.

Safnast var saman við grunnskólann, þar var boðið upp á andlitsmálun og fleira. Þá var flott skrúðganga frá skólanum inn á íþróttavöll þar sem fjallkonan sem var Elísabet Ósk Einarsdóttir sem flutti ljóð með stakri prýði.

Á íþróttavellinum var farið í ýmsa leiki milli hverfa og tekist á í reipitogi og fleira. Þá var vísir að húsdýragarði þar líka sem að kryddaði mjög upplifun barnanna, en kálfur og kanínur voru meðal dýra sem komu frá þeim Hvannabrekkubændum og þá var tófuyrðlingur einnig þarna til sýnis í boði Didda og Lilju. Vatnsrennibraut var mjög vinsæl og tóku margir ungir sem eldri bunu niður Neistabrekkuna, á flughálum plastdúk sem komið hafði verið fyrir í brekkunni.

Þegar kom að afhendingu verðlauna hlutu einstök hús í hverfunum sérstök verðlaun, í gula hverfinu fengu þau Stebbi og Kristborg Ásta sérstök verðlaun, Stebbi og Nína fengu verðlaun fyrir sinar skreytingar fyrir appelsínugula hverfið og svo fékk Ingibjörg Stefánsdóttir verðlaun fyrir best skreytta húsið í bleika hverfinu.  

Í heildarstigakeppninni vann svo bleika hverfið sem best skreytta hverfið. Hátíðarhöldin fóru fram í blíðskaparveðri og frábært hve góð þátttaka var í öllu og greinilega góð samstaða með allt.  Að þessu sögðu er rétt að þakka stjórn Neista og öðrum þeim sem komu að því að gera þennan dag svo skemmtilegan kærlega fyrir skemmtilegt skipulag og dagskrá.

Myndir má sjá með því að smella hér.

 

AS 

17.06.2014

Handboltalandsliðið á Austurlandi

Tætum hringinn!

Þáttakendur verða Guðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Páll Gústavsson og Aron Pálmarsson
Í sumar munu þessir máttastólpar íslenska landsliðsins í handbolta fara hringinn í kringum landið með viðkomu í nokkrum bæjarfélögum til að kynna og kenna handbolta. Þeir munu nota tækifærið og hjóla sig niður eftir langt keppnistímabil með liðum sínum og landsliðinu.
Í leiðinni munu landsliðsmennirnir safna peningum fyrir góðgerðarmálefni. Sá peningur sem safnast mun renna óskiptur til Barnaspítalans. Einnig verður tekið við áheitum frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Lagt verður af stað 18. júní og fyrsta stopp er á Egilsstöðum 19. júní.
Dagurinn byrjar á því að þeir munu leiðbeina ungu fólki frá 13-16 ára og skráning verður í gegnum facebook síðu ferðarinnar. Þeir munu nota tækifærið og hjóla hluta ferðarinnar. Eftir hádegi munu þeir leiðbeina og leika við yngstu iðkendurnar frá 6-12 ára.
Svo verður smá skemmtun í lokin þar sem landsliðsmennirnir taka þátt.
Þetta verður gert í samstarfi við bæjarfélögin, þjálfara og íþróttakennara á staðnum.
Strákarnir munu gefa sér tíma til að tala við krakkana og vera á myndum.
Dagskrá:
09.00-10.30 – Unglingar, (ca 30stk) Kennsla, stöðvar, fyrirlestur, næring og hugarfar.
10.30-11.30 – Matur og hvíld
11.30-13.00 – börn (eins mörg og húsrúm leyfir)
11.30-11.50 – Fylgst með æfingu(upphitun) strákanna. Því verður lýst á skemmtilegan hátt.
11.50-13.00 – Stöðvar með krökkum. Búnar til 4-5 stöðvar eftir fjölda. Landsliðsmenn taka þátt í þjálfunni með þjálfurum og íþróttakennurum. Leiðbeina og verða með sýnikennslu. (Skotið á Björgvin, uppstökk, fintur, drippl, ofl. )
13.00-13.15 – Smá skemmtun með söng og gleði.
13.00 -14.00 Myndataka og áritanir. Allir fá tækifæri til að láta taka mynd af sér með landsliðsmönnunum og fá áritanir.
14.00 – Landsliðsmenn hjóla af stað.
Hugmyndin er að vekja áhuga og athygli á handbolta á landsbyggðinni.
Öll innkoma mun fara óskipt til Barnaspítalans og hægt er að heita á strákana.
Gerður verður heimildarþáttur um ferðina og fjölmiðlum boðið að fylgjast með. Eins verða samskiptamiðlarnir notaðir til hins ýtrasta.

04.06.2014

Vinnudagur Neista vel heppnaður

Skorað var á bæði framboðin hér á Djúpavogi að mæta á vinnudag Neista niður í Blá og taka til hendinni. Allflestir frambjóðendur mættu ásamt tryggum vinnumönnum Neista á öllum aldri og áttum við góðan dag saman. Völlurinn var rakaður, skipt var um sand í langstökksgryfju, mörkin bætt, hreinsað rusl út úr kofanum, auglýsingaskylti hengd upp, grillað og leikið.

Frábær dagur í alla staði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Svo munum við að mæta á kjörstað á laugardaginn og kjósa.

LDB

29.05.2014

Fínn árangur á Meistaramóti ÚÍA í sundi

Síðastliðin laugardag fór fram Meistaramót ÚÍA í sundi á Eskifiriði.

Það voru 10 keppendur sem kepptu fyrir hönd Neista og stóðu þau sig með prýði.

Alls kræktu keppendur frá Neista í 18 verðlaun, 7 gull, 8 silfur og 3 brons.

Kamilla Marín Björgvinsdóttir var einnig verðlaunuð fyrir að vera stigahæsti keppandinn í sínum flokki.

SÞÞ

 

26.05.2014

Ráspallar við sundlaugina

Í haust tók stjórn Umf Neista að reyna bæta aðstöðu sundiðkenda félagsins og kaupa ráspalla við sundlaugina.

Farið var af stað og leitað til fyrirtækja til að aðstoða okkur að fjármagna þetta og gekk það rosalega vel.

Eftir miklar pælingar, vesen og bras var ákveðið að láta Launafl á Reyðarfirð smíða palla fyrir okkur sem við gátum svo loksins vígt á Vormóti Vísis og Neista sem fór fram 10. maí.

Viljum við hjá Umf Neista þakka eftirtöldum fyrirtækjum kærlega fyrir að gera okkur kleift að fá ráspalla.

Djúp ehf

Fiskmarkaður Djúpavogs

Hótel Framtíð

Við Voginn

Vísir hf

SÞÞ

 

 

23.05.2014

Æfingabúðir í frjálsum íþróttum

Frjálsíþróttadeild Hattar og Frjálsíþróttaráð UÍA standa fyrir æfingabúðum fyrir frjálsíþróttakrakka á Austurlandi helgina 16.-18.  maí. Þráinn Hafsteinsson yfirþjálfari ÍR heimsækir okkur og sér um æfingar auk þjálfara héðan af svæðinu. Þráinn er einn af fremstu frjálsíþróttaþjáflurum landsins og hefur átt sinn þátt í afrekum margra af þekktustu frjálsíþróttamanna og -kvenna landsins.

 Þátttakendur gista saman í Nýung og verður séð fyrir mat. Dagskrá æfingabúðanna er tvískipt annars vegar fyrir 14 ára og eldri sem mæta til leiks strax á föstudagsseinnipart og hinsvegar fyrir 11-13 ára en þeirra dagskrá hefst á laugardagsmorgunn.

Vert er að vekja sérstaka athygli á að kl 20:30 á föstudagskvöld verður Þráinn með áhugaverðan fyrirlestur um frjálsíþróttaþjálfun barna og unglinga og uppbyggingu frjálsíþróttastarfs innan félaga. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Þátttökugjald æfingabúðanna er 2500 kr. Skráning er hafin og skulu skráningar berast á skrifstofu UÍA á netfangið uia@uia.is eða í síma 4711353.

Dagskrá æfingabúða 14 ára og eldri:

Föstudagur

18:00-20:00Æfing   

Spretthlaupstækni, grindahlaupstækni, boðhlaupstækni,

tíðniæfingar, styrkjandi æfingar fyrir spretthlaup,

hoppæfingar.  Áfangaþjálfun fyrir millilengdahlaup.

 

20:30-22:30Fræðilegur fyrirlestur og umræður. Opinn fundur fyrir foreldra og alla sem hafa áhuga.

Frjálsíþróttaþjálfun barna og unglinga

Vöxtur og þroski

Grunnreglur þjálfunar

Að byggja upp og leiða frjálsíþróttastarf í félagi

Laugardagur

10:00-12:00Æfing

Kúluvarpstækni, kringlukaststækni, spjótkaststækni,

sleggjukaststækni.

Tækniæfing í spretthlaupum, grindahlaupum og boðhlaupi

 

13:00-16:00Fræðilegur fyrirlestur og umræður

Spretthlaupsþjálfun, grindahlaupsþjálfun, boðhlaup

Millilengda og langhlaupaþjálfun barna og unglinga

Þjálfun kastgreina

 

17:00-19:00Æfing

Hástökkstækni, langstökkstækni, þrístökkstækni,

stangarstökkstækni.

Áfangaþjálfun fyrir spretthlaup

Þrekæfing (allir saman)

20:00-22:00

Spjall með Úrvalshópnum frá 20 – 21. Um hugarþjálfun, hvað þau geta gert til að ná sem bestu árangri og annað sem þau hafa áhuga á að spyrja um.  Aðrir í Nýjun og svo bíó í Nýjung eftir 21.

 

 

Sunnudagur

10:00-12:00Æfing   

Tækniæfing allar greinar.  Farið yfir atriði sem æfð voru

á föstudag og laugardag

 

 

13:00-15:00Fræðilegur fyrirlestur og umræður

Þjálfun stökkgreina

Lyftingaþjálfun fyrir frjálsíþróttir

Sprengikraftsþjálfun

 

 

Dagskrá æfingabúða fyrir 11-13 ára.

Laugardagur

13-15 Æfing á velli – stökk.

15-16:30 Kaffi í nýjung og smá slökun.

16:30 – 18:30Æfing á velli – köst.

19 Nýjung með eldri hópnum

Sunnudagur

10 -12Æfing á velli –hlaup.

12-13 Hádegismatur.

13 – 15 Sund.

SÞÞ

13.05.2014

Skráning í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ 2014

Skráning í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ 2014

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður starfræktur í sjötta sinn á fimm stöðum um landið í sumar en skólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Skólinn verður á Egilsstöðum 10. – 14. júní, Laugum í Reykjadal 10. – 13. júní, Borgarnesi 23. – 27. júní, Selfossi 14. – 18. júlí og á Sauðárkróki 21. – 25. júlí. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum. Auk frjálsra íþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir og haldnar kvöldvökur. Ungmennin borga þáttökugjald 20.000 kr. en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting. Ungmennafélag Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd skólans og annast sameiginlega kynningu á starfseminni. Skólinn er í samvinnu við Frjálsíþróttasamband Íslands.Sambandsaðilar á því svæði sem skólinn er haldinn á hverju sinni sjá um að finna kennara og aðstoðarmenn til starfa við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Einnig er lagður fyrir þá stuttur spurningarlisti til að athuga hug þeirra til skólans almennt. Skólinn hefur fengið eindæmum góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku. Þátttaka ungmenna hefur aukist umtalsvert milli ára. Góð þátttaka undirstrikar að skólinn er ákjósanlegur vettvangur til að kynna og breiða út frjálsar íþróttir á Íslandi.

Þannig gegnir skólinn mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Hægt er að skrá sig hér.

Nánari upplýsingar gefur Sigurður Guðmundsson og hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið sigurdur@umfi.is

 

13.05.2014

Vormót Vísis og Neista

Á morgun, laugarda,g fer fram Vormót Vísis og Neista í sundi í sundlauginni á Djúpavogi.

Á mótinu keppa sveitir frá Austra, Þrótti, Hetti, Leikni, Sindra og Neista og ætti keppnin að verða hörð.

Keppendur sem eru 10 ára og yngri fá öll þátttökupening en veitt eru verðlaun fyrir 1., 2., og 3. hjá 11 ára og eldri.

Mótið hefst kl 10 og vill ég hvetja alla að koma að kíkja.

Ánægjulegt er að segja frá því að loksins eru komnir ráspallar við laugina hjá okkur og verða þeir vígðir á morgun.

SÞÞ

09.05.2014

Sundþjálfaranámskeið

Helgina 9.-11. maí kemur Brian Marshall frá Sundsambandi Íslands og heldur þjálfaranámskeið hérna á Djúpavogi.

Námskeiðið er frá kl 17:30 - 21:00 á föstudaginn,  14:00 - 17:00 á laugardaginn og 10:00 - 11:30 á sunnudeginum.

Farið yfir öll helstu atrið fyrir þá sem vilja fara að þjálfa ásamt því að það verður nægur tími til að ræða við Brian ef það er einhvað sérstakt.

Viljum hvetja alla til að nota þetta tækifæri og ná sér í grunn í þjálfun.

Ástæðan fyrir því að við bjóðum uppá þetta er sú að í gegnum tíðina höfum við hjá Neista verið oft á tíðum í miklum vandræðum að útvega sundþjálfara og viljum því reyna finna áhugasama aðila sem geta tekið að sér þjálfun í lengri eða skemmri tíma og verið afleysing fyrir starfandi sundþjálfara.

Hægt er að skrá sig í neisti@djupivogur.is eða hjá Sveini í síma 8671477

Stjórn Neista

02.05.2014

Ávaxtamót UÍA og Loðnuvinnslunnar

Ávaxtamót UÍA og Loðnuvinnslunnar hf  í frjálsum íþróttum verður haldið í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði Fimmtudaginn 1. maí. Húsið opnar kl.11:30 og keppni hefst kl:12:00.

Mótið er fyrir 10 ára og yngri og er kjörið tækifæri til að kynnast frjálsum íþróttum.

Keppt verður í langstökki án atrennu, boltakasti, spretti og þrautabraut.

Keppnisgjald er 500 kr. óháð greinafjölda.
Allir fá þátttökuverðlaun.

Skráning fer fram á skrifstofu UÍA í síma 471-1353,í tölvupósti á uia@uia.is eða á staðnum áður en keppni hefst.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga að taka þátt.


SÞÞ

 22.04.2014

Sundlaugin opnar á morgun miðvikudag

Vakin er athygli á að sundlaug Djúpavogs verður opnuð aftur á morgun miðvikudag 23. apríl eftir nokkuð umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir og endurbætur.

                                                                                                                   Sjáumst í sundi hress og kát

                                                                                                                       Starfsfólk ÍÞMD